4.11.2011 | 21:10
"Mér finnst þú leggja Björn Bjarnason í einelti" - sagði Sigurjón M. Egilsson við Reyni Traustason í Ísland í bítið.
Einelti er ofbeldi. Í skilgreiningu vinnuhóps á vegum Velferðar- og menntamálaráðuneytis var einelti skilgreint sem endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.
Ég hlustaði á "Ísland í bítið" (ef þið hlustið þá er þetta ca. á 11. mínútu) í bílnum í morgun - og varð þá vitni að áhugaverðu samtali Reynis Traustasonar og Sigurjóns M. Egilssonar, auk þáttastjórnenda.
Ég bið fólk að taka niður flokkspólitísk gleraugu þegar þetta er skoðað og vera algjörlega heiðarlegt. En þetta kom m.a. fram:
Reynir Traustason gagnrýndi gamla þöggun sem við höfum glímt við og sagði hana í fullu gildi miðað við viðbrögð skólastjórafélagsins og félag grunnskólakennara, o.fl. Hann vill taka umræðuna "ALLA LEIÐ OG KRYFJA TIL MERGJAR." - Þetta eru ekki mál sem eigi að þegja yfir, og þegar börn séu farin að deyja, þá verðum við að segja stop! - (Ég gæti ekki verið meira sammála því).
jafnframt sagði hann:
"ALGERLEGA LJÓST AÐ VIÐBRÖGÐ ERU EKKI Í LAGI" .. "þarna ættu menn að vera opnir -og íhuga HVERNIG GET ÉG GERT BETUR" ... ég botna ekkert í þessu!" ..
Sigurjón M. Egilsson sagði þá: "Mér finnst þú leggja Björn Bjarnason i einelti. - Þetta er ekki til siðs, - þú gerir þetta ekki við aðra fyrrverandi ráðherra" -
Reynir Traustason: "Nú skil ég ekki - eftirlaunamaður?" -
Það varð hálf vandræðaleg moment þarna og Heimir spyr þá út í hvort að orðið einelti sé ofnotað - en Reynir fer í vörn, og spyr hvort að ef að Björn Bjarnason skrifar oftar um hann en flesta aðra hvort að það teljist einelti.
(Auðvitað skiptir máli hvernig er skrifað um fólk og hvaða orð notuð - er það ekki? )
Ég fór í smá rannsóknarvinnu þar sem ég tók undir orð Reynis um að KRYFJA TIL MERGJAR.
Björn Bjarnason vekur athygli á umfjöllun um hann í bloggi 7.okt. :
Hér er hægt að smella á greinina.
Þar segir Björn m.a.
"Frá því að ég gaf út bók mína Rosabaugur yfir íslandi hefur verið hnýtt í mig á dv.is í sama dúr og gert var þegar allir vissu um eignarhald Baugs group á blaðinu. Eitt af því sem DV leggur á sig til að setja mig á bás er að kalla mig eftirlaunaþega" eða eftirlaunamann". Öruggt er að þetta gerir blaðið ekki til heiðurs eftirlaunaþegum. Þvert á móti verður þessi aðferð blaðsins ekki skilin á annan hátt en þann að ritstjóranum þyki á einhvern hátt unnt að særa menn með því að vekja máls á aldri þeirra. Hefði mátt ætla að blaðamennska af þessu tagi hefði fyrir löngu runnið sitt skeið. Hún er í ætt við að víkja til háðungar að útliti manns, klæðaburði, háralit eða þyngd - svo að dæmi séu tekin af handahófi."
Hér eru nokkur dæmi úr DV sem komu upp við einfalt "gúgl" ..
23. desember 2009
12. janúar 2011
22. júlí 2011
26. september 2011
Fyrrverandi ráðherra og EFTIRLAUNAÞEGI
3. október 2011
BJÖRN BJARNASON EFTIRLAUNAÞEGI
24. október 2011
Björn Bjarnason upplifir þetta sem háðung - en tekur fram að þetta sé ekki gert til heiðurs eftirlaunaþegum.
Það er að sjálfsögðu engin skömm að vera eftirlaunaþegi ekki frekar en að vera rauðhærður, en af hverju er þessi áhersla DV á þennan titil. Er ekki ástæða til að kryfja það til mergjar?
Nýlega skrifaði ég pistil um orsök eineltis og skrifaði m.a.:
"Einelti er ein birtingarmynd sjúks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar. Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima. Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum? "
Það er ekki bara hægt að benda á hina og segjast vilja kryfja til mergjar, en ekki taka til heima hjá sér. Jafnvel þó ekki sé um einelti að ræða að hefðbundnum skilningi, þá er nokkuð ljóst að verið er að hæðast að aldri Björns.
Hvað er það og hvaða skilaboð gefur það? - Ef enginn vill kannast við að hafa gert neitt, bendir bara á aðra - þá lögum við ekki neitt.
Ég vil að lokum taka fram að ég er sammála því að umræðan þarf að vera opin, fólk þarf að tala en auðvitað þarf að stýra umræðunni í heilbrigðan farveg en ekki múgæsing. Ekki ein einasta manneskja á skilið að vera lögð í einelti.
Við þurfum öll að sýna samfélagslega ábyrgð.
Athugasemdir
Þessi tugga Reynis um "eftirlaunaþega" er honum til skammar, eftir að hafa fylgst með skrifum hans og viðtölum við hann í gegnum árin, hef ég lítið álit á þessum manni, finnst hann lítill kall sem breiðir úr sér með subbulegu og leiðinlegu orðfæri, minnir mig á Jónínu Ben oft á tíðum. Við skulum samt varast að rugla "einelti" saman við "einelti" það getur verið hættulegt, t.d. umræðan um "einelti" á þingi, það má ekki gjaldfella hið eiginlega einelti sem á sér stað gagnvart óvörðum ungum einstaklingum sem hvorki kunna né geta borið hönd yfir höfuð sér.
Ásdís Sigurðardóttir, 5.11.2011 kl. 10:59
Já, það er þessi skilgreining - hversu þröng hún á að vera. Eins og ég tek fram í upphafi þá er í skilgreiningu vinnuhóps á vegum Velferðar- og menntamálaráðuneytis einelti skilgreint sem endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.
Björn upplifir að DV sé að nota þessar aðferðir, - og er a.m.k. orðinn pirraður á þeim, kannski særður.
En ef við förum þrengra, þá er ekki hægt að kalla Björn mann sem er óvarður né ungur, - og getur ekki varið sig.
Það eru í raun frækornin sem ég er að vekja athygli á með þessu bloggi, - og viðbrögð þeirra sem sá þeim. - Eða sem ég telja að sái þeim. Ég er eflaust ekki saklaus heldur, og því hvet ég okkur öll til að líta í eigin barm til að bæta okkur sem fyrirmyndir.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.11.2011 kl. 12:30
Við fullorðna fólkið erum sterkustu fyrirmyndirnar og börn sem búa við að foreldrar nýði aðra verða sjálf gerendur, allaveg of oft, bera enga virðingu fyrir neinu og kunna hreinlega ekki betri mannasiði, þetta byrjar, eins og allt, heima.
Ásdís Sigurðardóttir, 5.11.2011 kl. 12:49
Mér finnst það út úr öllu korti að bera saman einelti á barni/börnum og að BB sé kallaður eftirlaunaþegi. Hvaða umbúðir eigum við að nota? Er það dagurinn í dag,gær,eða það sem hljómar best. Ég vann í fiski alla mína æsku nota ég það þegar ég kemst á eftirlaun? Tel ég upp allt það sem ég hef starfað við? BB er menntaður lögfræðingur og kannski með sín réttindi enn,það má þá kalla hann lögfræðing,Við þurfum ekki þessar umbúðir um starfsheiti við orðið þekkjum það að virðing er ekki sköpuð með starfsheiti. Ég ætla rétt að vona að eftirlaunaþegum verði ekki mismunað í framtíðinni með titlatogi nóg er að þeim er mismunað rækilega fjárhagslega það ætti BB að kannast við, móðir mín er ekki með 1/4 af hans eftirlaunum og hefur hún ekki unni ómerkilegri störf um æfina heldur en BB.
Rannveig H, 7.11.2011 kl. 13:40
Rannveig - ég held að Sigurjón hafi nú ekki verið að bera þetta saman, heldur einmitt að benda á hvar fræjunum er sáð. - Að huga að upprunanum og hvernig fjölmiðlar tala um aðra. BB upplifir þetta sem að verið sé ítrekað að hæðast að honum, það er víst - og má ekki virða hans tilfinningar?
Virðing er hvorki sköpuð í útliti né starfsheiti, en kannski óþarfi að t.d. segja í hverri frétt "Hin rauðhærða Ólina Þorvarðardóttir" .. - bara vegna þess að hún er rauðhærð, eða hvað?
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.11.2011 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.