31.10.2011 | 08:13
SAMVERA, svefnleysi og hugleiðsla
FJARVERA er að vera fjarverandi
NÆRVERA er að vera nálægt
SAMVERA er að vera saman
--
FJARVERA og NÆRVERA getur verið tvennt
a) andlega fjarverandi og líkamlega nærverandi (t.d. einhver stadddur hjá þér en hefur ekki áhuga á þér eða því sem þú hefur fram að færa - t.d. nemandi í kennslustund ;-))
b) líkamlega fjarverandi og andlega nærverandi (t.d. einhver með hugann hjá þér, en líkamlega staddur annars staðar, t.d. einhver sem hugsar mikið um þig eða langar að vera hjá þér)
Þetta getur gilt um annað fólk, - en miklvægast er að þetta gildir um okkur sjálf.
SAMVERA með sjálfum sér er mikilvæg.
"Að komast til sjálfs sín" "Að vera með sjálfum sér"
Að vera andlega fjarri sér, þýðir jafnframt að eiga erfitt með að vita eigin vilja, vera "utan við sig" o.fl.
Þegar við erum að hugsa fer hugurinn oft langt í burtu, hugsunin getur verið svo truflandi að við getum ekki einu sinni sofið, því líkaminn liggur bara og bíður eftir að hugurinn komi heim, hann er úti svo lengi! ;-)
Ástæðan fyrir svefnleysi er oft kvíði, áhyggjur, óróleiki, margt sem hvílir á hugandum og hugurinn truflar því líkamann og gefur honum ekki svefnfrið.
Til að koma heim til líkamans, (hafa áhuga á sjalfri/sjálfum þér) er einfaldasta leiðin að hugsa inn á við í staðinn fyrir að hugsa út á við. Þannig beinum við huganum heim.
Hugsa til líkamans, hugsa til tánna, iljanna, ökklanna, kálfanna, hnjánna, læranna, rassins, magans, baksins, axlanna, handleggja, handa, háls, hnakka, hársvarðar, ennis, andlits ... að hlusta á andardrátt sinn er einfaldasta form hugleiðslu.
Þannig beinum við athygli inn á við, svo getum við farið dýpra - farið inn í líkamann, inn í líffærin, og inn í það sem kallað er orkustöðvar.
Svefnleysi er því skortur á SAMVERU - hugurinn fer í burtu.
Hugleiðsla þýðir því að þú leiðir hugann eða einhver fyrir þig, en hugurinn leiðir ekki þig.
Næst þegar þú verður andvaka, - prófaðu þá að leiða hugann inn á við, kalla á hann heim.
Þegar við erum komin (heim) til okkar - erum með okkur losnum við líka við þráhyggju því að þegar við erum með okkur, erum við með meðvitund og meðvitund og þráhyggja geta ekki þrifist saman.
Ýkt form af andlegri fjarveru er "að vera viti sínu fjær" - vitið er farið eitthvað langt í burtu.
Þegar vitið er langt í burtu - líður okkur ekki vel. Þá erum við yfirleitt í huganum á öðrum, erum e.t.v. að hugsa hvað aðrir eru að hugsa. Erum að hugsa að við vildum vera einhvers staðar annars staðar en við erum.
Sönn hamingja þrífst aðeins þegar við erum í samveru ástandi, samveru með sjálfum okkur. Með viti og í sjálfsþekkingu. Sá/sú sem er fjarri sér þekkir ekki sjálfa/n sig - eða þekkir sig illa.
Þegar við þekkjum okkur sjálf illa, vitum við líka ekki hvað við viljum. Þá verðum við oft pirruð eða ergileg, því það er vont að vita ekki eigin vilja og vita ekki hvert við erum að fara.
Óvissa vekur ótta.
Ágætis regla er því að gefa sér stuttan tíma og hreinlega ögra sér þannig að skrifa niður á blað á 3 mínútum lýsingu á góðum degi sem á að gerast eftir ár. Eins konar dagbók fram í tímann.
Dæmi:
31. október 2012
"Kæra dagbók"
Ég vaknaði í morgun í góðu skapi, því ég hafði sofið svo vel - fór með fallega morgunversið sem ég tek alltaf inn sem andlega næringu á morgnana, læddist svo fram til að fara að útbúa hafragrautinn því ég vildi koma X á óvart, - vakti hann svo með kossi og hann brosti fallega við mér ...bla, bla, bla.. ...........................
(skrifa svona í 3 mínútur (hafa eggjasuðuglasið við hendina) og enda á kvöldinu og að fara að sofa ...... )
Þið búið að sjálfsögðu til ykkar uppáhaldsdag, hafa hann sem bestan!
Ég hef reynslu af því að gera þetta með fólki og það hefur bæði skrifað inn í líf sitt fólk sem það vill hafa nálægt sér og fólk sem það vill hafa fjarri - þetta er liður í því að vita hvað við raunverulega viljum. Stundum þarf í raun að stilla okkur upp við vegg - hætta að gefa okkur tíma til að hugsa, til að við förum að hugsa með hjartanu ;-)
Þetta er ekki gert til að komast með hugann í burtu - heldur til að hleypa hjartanu að, - til að vita hvað og hvernig þið viljið hafa ykkar góðu daga, - það er sniðugt að gera það fram í tímann, því að strax á því augnabliki sem búið er að forma daginn í huganum, - erum við farin að lifa hann. Upplifa góðar tilfinningar honum tengdum, og setja fram markmið honum tengdum. Tilfinningarnar eru það sem við upplifum því í núvitundinni.
Til gamans:
Þetta eru börnin mín; Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst (sem eru orðin 25 ára)
Einu sinni vorum við þrjú líkamlega nærverandi í tæpar 42 vikur ;-) ..
Ekkert vil ég börnunum mínum, og börnum þessa heims öllum, frekar en að þau læri að vera með sjálfum sér, standa með sjálfum sér, þykja vænt um sig, virða og samþykkja sig og upplifa verðmæti sitt - því að ég hef lært það (á reynslumikilli ævi) að það er það sem gerir okkur sterkust og öflugust.
Þannig getum við líka orðið styrkur öðrum, - þar gildir lögmálið um að taka inn súrefnið fyrst til að aðstoða aðra.
Fremst á myndinni er hún Hneta, hundurinn okkar sem varð 11 ára, - en við tengdumst henni mjög miklum tilfinningaböndum og svo sannarlega leitar hugurinn oft til hennar, þó hún sé löngu farin.
Góðan dag veröld, - nú fer ég í vinnuna mína ;-)
Athugasemdir
Góðan daginn flottust, ég sagði já takk við allri þeirri gleði sem ég fann fyrir í morgun, var vel tengd
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 31.10.2011 kl. 08:53
Góðan dag og gott kvöld - það er ekki að spyrja að þér Milla mín
Jóhanna Magnúsdóttir, 1.11.2011 kl. 00:14
Verð að koma inn aftur og tala um yndislegu tvíburana þína, það sést á þessari mynd hvað þeim þykir vænt um hvort annað og hneta hefur verið góður hundur.
Gleði í daginn
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.11.2011 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.