4.10.2011 | 08:35
Hamingjustuðullinn ...
Ég hef undanfarið verið að mæta fólki í viðtali, yfirleitt vegna þess að það vill bæta líf sitt. Það er að sjálfsögðu jákvætt skref að taka, að gera sér grein fyrir að eitthvað vantar upp á og viljinn til að bæta lífsgæði sín er jafnframt viljinn til að elska sig og virða.
Það kemur á óvart, og þó ekki, hversu margir eru að þrauka lífið en ekki lifa því. Það kemur ekki á óvart að því leyti að ég hef sjálf verið stödd nákvæmlega þar. Þá skoraði ég ekki hátt á hamingjuskalanum eða hamingjustuðlinum. Ég fór þá að vinna í MÉR, afla mér þekkingar, lærdóms og gera æfingar, hugleiða, stunda útiveru og hreyfing og fara með jákvæðar staðhæfingar sem eru mér orðnar jafn eðlilegar og að anda:
"Ég samþykki mig, ég virði mig, ég fyrirgef mér, ég elska mig" .... fyrst var þetta stirt, en svo kemur þetta eðlilega og árangurinn birtist í því að hamingju"hitamælirinn" hækkar og mér líður alltaf betur og betur. Við erum alltof mörg sem höfum ekki haft nógu gott sjálfstraust þrátt fyrir að hafa ÖLL hafsjó af hæfileikum, möguleikum og getu til að gera það sem hugur okkar og HJARTA vill. Við erum kannski ekki nógu dugleg að spyrja hjartað. Ekki nógu dugleg við að stoppa og spyrja okkur hvað það er sem við raunverulega viljum, og síðan að framkvæma það.
Framkvæmdin byrjar alltaf í smáum skrefum, en aðal málið er að byrja að hreyfast en ekki standa í stað.
Eins og fram kemur í blogginu sem ég skrifaði á undan, þá eru það lögmál árangurs að okkur verður að líka við okkur sjálf. Það er það sem kemur okkur á hreyfingu. "It moves us" .. sem getur þýtt að það hrærir við okkur, eða hreyfir okkur.
Ég er endalaust þakklát fyrir það sem ég hef lært að uppgötva; þ.e.a.s. mitt innra verðmæti. Innra verðmæti kemur þegar við förum að samþykkja okkur algjörlega án utanaðkomandi hluta, starfs, menntunar, þjóðfélagsstöðu, útlits o.s.frv. Það gerist ekki á einum degi, en það kemur stig fyrir stig.
Það gerist ekki bara með því að sitja kyrr og hugsa góðar hugsanir, en góðar hugsanir skaða ekki, en þeim verður að fylgja framkvæmd.
Framkvæmd sem felst í því að virða sig, líkama sinn og sál, því við erum ekki síður líkami en sál.
Þegar okkur líður vel í líkamanum þá fylgir sálin og öfugt.
Að öfunda aðra, tala illa um, baktala fólk - og neikvætt sjálfstal og neikvæðni almennt, hefur allt sömu áhrif, það brýtur okkur SJÁLF niður.
Góð samvera - útivist - náttúran - hreyfing og samtal eru hlutir sem skipta líka máli hvað varðar lífsgæðin.
Það er gott að vera ein/n við og við í fullvissunni um það að þú átt einhverja að sem þykir vænt um þig og þér þykir vænt um.
Við sem trúum á æðri mátt/Guð/innri mátt eða hvað sem þú vilt kalla það finnum það að við erum aldrei ein og það er notalegt að vita af því, en svo sannarlega þarf fólk á fólki að halda líka.
En hvað um það, það er hægt að losna úr gömlum farvegi - en það er aðeins ein manneskja sem getur tekið ákvörðun um það. Ef þú skorar lágt á hamingjuskalanum, þá þarftu að spyrja þig hverju þú getur breytt og hverju ekki og þá fara að taka skref að því að breyta, - og sætta þig við það sem er óbreytanlegt - og jafnvel bara umvefja það með ást og umhyggju.
Við höfum val um líkamlega fæðu og við höfum val um andlega fæðu.
Á sama hátt og við þekkjum hvað gerir okkur illt og er okkur vont líkamlega, þá ættum við að vanda okkur við hina andlegu fæðu. Eckhart Tolle furðar sig á því að fólk skuli borga peninga til að horfa á ofbeldismyndir, en vera samt andstæðingar ofbeldis. Það er "food for thought"
Við erum ekki ómissandi við að fylgjast með sorgar-og hryllingsfréttum sem gerast hér heima og útí heimi. Ef að það hefur vond áhrif okkur, við erum viðkvæm fyrir þeim, þá bætum við ekki heiminn - við að leggja okkur sjálf á vogarskál þeirra sem líður illa.
Það besta sem þú getur gert fyrir heiminn er að gæta að þér, huga að þér og líðan þinni.
Eftir því fleiri sem eru hamingjusamir og líður vel þá hækkar hamingjuskali heimsbyggðarinnar.
Ég setti hér til hliðar hamingjuskalapróf, taktu endilega þátt - 10 þýðir að þú ert hoppandi kát/ur og glöð/glaður nú eða bara 100% sátt/ur við þína stöðu, en 1 þá ertu virkilega ofan í "holunni" sem margir þekkja. það sér enginn hver þú ert, - en ef þú vilt skrifaðu þá gjarnan athugasemd og segðu frá þér, - og gjarnan ef þú kannt "hamingjuráð" til að deila með öðrum.
Hvar staðsetur þú þig í þessari mynd? -
Athugasemdir
Þetta líkist því ferli sem ég hef verið að ganga í gegnum - gaman að fleiri upplifi svona jákvæða þróun á persónuleika og þarmeð lífi sínu.
Sigurlín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 08:47
Líklega önnur frá hægri rétt núna
Marta B Helgadóttir, 4.10.2011 kl. 09:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.