4.9.2011 | 18:00
"Hver þykist ég eiginlega vera" .. ?
Sum okkar þurfa ekki að kafa djúpt til að átta okkur á hver okkar stærsta hindrun er í lífinu.
Í flestum tilfellum er stærsta hindrunin við sjálf!
Við getum líka gengið svo langt að í sumum tilfellum erum við okkar verstu óvinir!
Það er oft vantrúin á okkur sjálf og á hæfileika okkar sem stöðvar eða hindrar okkur í því að gera það sem okkur langar til, vantrú og ótti. Ótti við að mistakast og í framhaldi af því oft að gera okkur að fífli.
Við hugsum "hvað ætli þessi segi" eða "hvað ætli hinn hugsi" þannig að öll tilvera okkar er farin að snúast um hvað HINIR hugsa, en ekki um hvað við viljum í raun og veru gera.
Í námskeiðinu sem ég kenndi í framhaldsskóla "Tjáning 103" setti ég m.a. tvö markmið.
1. Að vera maður sjálfur. 2. Að reyna að gera sig að fífli.
Svona markmið létta oft á þrýstingnum að reyna að setja sig í hlutverk, "þykjast vera eitthvað" o.s.frv. Um leið og markmiðið er að reyna að gera sig að fífli, hverfur óttinn og um leið og óttinn hverfur þá verður allt léttara. Það er því í raun óttinn sem stöðvar okkur.
Sumir eiga þó erfitt með að komast út úr hugsuninni: "Hvað eru þau að hugsa um mig."
Ég hugsaði þessa hugsun af ákveðnu tilefni nýlega.
Tilefnið er að kunningjakona mín er búin að setja upp Facebook - like síðu þar sem mælt er með mér sem næsta forseta lýðveldisins. Sú sem ábyrgð ber á síðunni heitir Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir, eðlisfræðingur og kennari, - gift Brynju Brynleifsdóttur og eiga þær tvö krúttleg börn. Röggu kynntist ég þegar við vorum í kennsluréttindanámi í KHÍ 2006-2007. Síðan er það kosningastýra númer eitt sem stýrir síðunni líka, og það er hún Róslín Alma Valdemarsdóttir, 18 ára Hornafjarðarmær, sem á kærastan Rabba, - en henni kynntist ég á netinu og höfum við hist nokkrum sinnum síðan, hún heimsótti mig t.d. á skrifstofuna í Hraðbraut, og einu sinni bauð ég henni í bíó þegar hún var í bæjarferð. Það er enginn samur eftir að hann hefur hitt Róslín! ;-) .. Hennar framtíð er að vera leikkona.
En .. já, já, þið lásuð rétt, ég er að skoða framboð til forseta á næsta kjörtímabili og í framhaldi af því hafa 99 hakað við "Like" og er ég þakklát fyrir hvert og eitt.
Það þyrfti eflaust kraftaverk til að ég komist alla leið, en það heppilega er að ég trúi á kraftaverk! Hvort þetta tekst í þessarri lotu eða annarri kemur svo bara í ljós!
Ég er ekki fræg - hef ekki verið í pólitík - og hvað vil ég þá upp á dekk? Það er ekki laust við að skjótist upp í kollinn á mér þetta þreytta ráma egó sem spyr mig "hvað þykist þú nú vera Jóhanna mín" .. og ég gæti hlaupið í felur, orðið agnarsmá.
Ég verð ekki lítil, því ég er búin að semja við barnið í mér að vera ekki að skipta sér af og bregðast við því sem kemur til mín í dag sem. Ég bregst við sem fullorðin og þroskuð manneskja. Ég bregst við á réttum forsendum, segi já þegar ég meina já og nei þegar ég meina nei. Segi ekki bara já til að þóknast eða geðjast, heldur þegar ég meina það af einlægni.
Mér er ekki alveg sama hvað fólki finnst, fólk segir o.s.frv. Ég er of mannleg til að þykjast alveg köld fyrir því. En vegna þess að ég veit hvað ég stend fyrir, mín gildi og ósk mína að bæta meiri elsku í vogarskálar þessa heims, auka sameiningu manna, vinna gegn sundrungu og fyrst og fremst vonast til þess að fólk þori að vera það sjálft, geng ég óttalaus til verks. Ég þori að rugga bátnum, ef það er það sem þarf til að vekja skipverjana af blundi meðvitundarleysis.
Ég er ekki að leika, ég er ekki í hlutverki og ég þykist ekki vera neitt.
Ég er bara ég.
Ég þarf að vera á sífelldri vakt við að þagga niður í neikvæðu röddinni. Ýmis reynsla úr mínu lífi hefur kennt mér mikilvægi þess að lifa lífinu af heilindum, lifa því til fulls á meðan tækifæri er til. Ég missti pabba í slysi þegar ég var sjö ára, ég horfði á eftir bestu vinkonu minni falla fyrir krabbameini í blóma lífsins, og ég horfi nú á mömmu á hjúkrunarheimilinu og hversu ósjálfbjarga hún er. Í stað þess að falla í þá eymdarhugsun yfir þessu að lífið sé óréttlátt og tilgangslaust, hef ég frekar valið að lifa mínu lífi enn betur, fyrir vinkonu mína, fyrir pabba og fyrir mömmu, fyrir fjölskylduna, vini, nemendur mína, fyrir börnin mín og barnabörn...og svona gæti ég lengi talið, en síðast en ekki síst, fyrir sjálfa mig!
(Nú kom "röddin" með athugasemd um að ég væri orðin fullvæmin!)
Hvað um það - ég skrúfaði bara niður í henni, hún verður að sætta sig við mig. Mæli með að þú skrúfir niður í þinni neikvæðu rödd, og veljir að lifa til fulls sem þú. Við eigum öll eða flest svona rödd innra með okkur sem talar úr okkur kjarkinn, gerir lítið úr okkur og stöðvar okkur í að lifa heil og af ástríðu.
Ég þori, get og vil vera ég sjálf og ég er verðmæt manneskja, og ég veit líka að þú þorir, getur og vilt - og ert - verðmæt manneskja.
Takk fyrir mig
og -
Takk fyrir þig!
Hér er hægt að skoða facebook síðu!
Eitt af mínum lífsgildum er að taka sjálfa mig ekki hátíðlega, en að sjálfsögðu taka störf mín hátíðlega og vinna af samviskusemi. Við Piggy erum kannski ekkert mjög ólíkar ;-)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:04 | Facebook
Athugasemdir
Jóhanna mín ég get víst ekki likað á síðuna þína því við eru sennilega ekki facebook vinir. En það er ekki nokkur vafi í mínum huga að ég mun kjósa þig ef þú býður þig fram.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.9.2011 kl. 20:59
Þakka mín kæra, - ég deildi tenglinum á síðuna. Það er eflaust ekki hægt að fara inn á hana hér beint, og jú,jú, við erum vinkonur á facebook!
Jóhanna Magnúsdóttir, 4.9.2011 kl. 23:51
Létt, góð og fróm,þá vantar lítið annað en þorirðu,ég meina 26. greinin,vísar málum til þjóðarinnar. Flestir viðurkenna að lýðræði sé réttlátasta stjórnskipunin. Það á ekki að vera svo erfitt og umdeilt í dag að vísa málum,þangað. Kveðja.
Helga Kristjánsdóttir, 5.9.2011 kl. 01:11
Þori, get og vil. Óttinn er ekki í boði Helga og andstæða óttans er kærleikurinn, - þannig að það þarf bara að gæta að uppskriftinni!
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2011 kl. 09:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.