Við upphaf nýs skólaárs - nokkrar góðar lífsreglur ;-)

Ágæta fólk, það sem hér kemur á eftir eru ráð frá mér sem móður, ömmu, fv. aðstoðarskólastjóra og eftirlitskonu með fimmtán ára nemendum í Hagaskóla sl. vetur. 

Hvað þurfa börnin? 

Að sjálfsögðu þurfa börnin/unglingarnir ást og kærleika, umhyggju, hlustun, skilning, nærveru - samveru o.s.frv. 

En hér eru svona "basic" ráð sem ég hef lært í gegnum unglingana sjálfa: 

1) Það þarf að hafa skýr mörk og reglur og jafnvel búa þær til með börnunum/unglingum og fara eftir þeim!  Í því felst t.d. að fara eftir útivistartíma sem lögreglan setur og annað slíkt.  Mörk með tölvunotkun, og foreldrar þurfa að vera samstíga, en ekki brjóta reglur hins. 

2) Það þarf reglusemi, þ.e.a.s. hafa kvöldmat þar sem allir sitja saman í fjölskyldunni við MATARBORÐ og helst að ræða daginn hjá hverjum og einum.  Gera kvöldmatarstundina að gæðastund, en ekki að allir sitji með sinn disk fyrir framan tölvu eða sjónvarp.  Undantekningu má að sjálfsögðu gera um helgar, þegar það er pizza kvöld eða hvað sem fjölskyldan tekur sér fyrir hendur. 

3) Þó það sé oft hávaðasamt þá bjóðið börnum/unglingum að taka vini sína heim. Ekki úthýsa þeim, því þá kynnist þið þeim sem þeir eru að umgangast.  Vitið hverjir eru vinir þeirra og hvernig þeir koma fram.  Kannski getið þið sest niður með þeim og heyrt þeirra áhugamál. Eftir 10 bekkjarpróf hjá börnunum mínum, fengu þau að bjóða vinum sínum heim í heitan pott og ég útbjó fyrir þau pizzabrauð og færði þeim kók í pottinn. Þeim þótti þetta æðislegt!  Þessir krakkar voru ekki að pæla í að "detta í það" því allt sem þau þurftu í raun, var aðstaða og félagsskapur hvers annars. 

4) Sinnið áhugamálum barna ykkar, mætið þar sem þau eru í íþróttum eða hverju sem er, líka í skólanum.  Því betur sem þið eruð tengd því meira vitið þið hvað þau eru að gera og þau vilja líka að þið vitið það (þó þau þykist ekki vilja það).  Þetta snýst um að hafa áhuga á því sem börnin eru að gera. 

5) Verið góðar fyrirmyndir, - farið í léttar fjallgöngur saman, sund, skíði, skauta, hjóla, út að ganga, kallið stórfjölskylduna saman í gönguferðir.  Drekkið ekki áfengi óhóflega fyrir framan börnin, og helst ekki að reykja.  Ekki vera alltaf að tala um megrun, illa um innflytjendur o.s.frv.  Börnin eru þerripappír á lífstíl foreldra og samræður og þau spegla það.  Það skiptir engu máli hvað við segjum ef það er ekki í takt við það sem við gerum. 

6) Hafið bara eitt sjónvarp, ekki láta börnin horfa á sjónvarp í sínu herbergi og forðist rafmagnstæki í svefniherbergjum.  Allt sem einangrar fjölskyldumeðlimi í sitt hvert hornið er slæmt.  Samvera fyrir framan sjónvarp er betri en engin samvera. Leyfið börnunum/unglingunum að velja mynd og horfið á með þeim og jafnvel ræðið myndina.  

... Það má eflaust bæta fleiru við hér - ég veit að enginn (eða fæstir) geta lifað fullkomlega eftir þessu, en vandamálið er að fleiri og fleiri unglingar eru að falla út úr skólakerfinu, þau tína sér í tölvuleikjum (og við fullorðna fólkið á Facebook eða annað) fara allt of seint að sofa, fá of litla hreyfingu og verða því oft þung í skólanum.  Þetta vindur upp á sig og endar oft með ósköpum.  

Ég man hvað mínum krökkum þótti gaman að spila, - fyrst einföld spil, en síðan manna, kana, o.fl. það eru til skemmtileg spil eins og Fimbulfamb, heilaspuni, Trivial Pursuit o.fl.  

Við erum ekki á góðri leið, þegar tölvurnar eru að taka yfir heimilislífið ... höfum það í huga, öll - foreldrar, ömmur, afar, frænkur, frændur.  Við deilum öll ábyrgð á unga fólkinu og við þurfum aðeins að fara að líta hvert við stefnum.  

Stefnum að sameiningu en ekki sundrungu. 

Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 16.8.2011 kl. 12:03

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jeminn hvað þetta er krúttlegt barn Ásdís!

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.8.2011 kl. 12:33

3 Smámynd: Sólveig H Sveinbjörnsdóttir

 Algjört krútt :)  og mikið il í þesum pistli !

Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 17.8.2011 kl. 01:36

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Góðir spekipunktar og gott hjá þér, Jóhanna.

Kristinn Snævar Jónsson, 20.8.2011 kl. 02:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband