Að elska sig niður eða upp í kjörþyngd ... að borða með meðvitund.

Að elska sig upp og niður .. þetta hljómaði fyrst eins og kynlífslýsing Smile ..... þess vegna bætti ég við - "að borða með meðvitund! .. 

Hvað þýðir orðið kjör-þyngd?  Það er læknisfræðilegt hugtak (held ég) fyrir þá vigt sem okkur er heilbrigðast að vera.  Það eru ekki aðeins lífslíkur okkar sem aukast heldur líka lífsgæði, ef við erum í kjörþyngd.

Manneskja í kjörþyngd getur þó bæði verið í góðu og slæmu formi, svo að kílóin skipta ekki öllu máli þó þau skipti máli. 

Það sem við þurfum öll að byrja á að gera er að elska okkur NÚNA eins og við erum, elska okkar innri mann - hvort sem við erum of feit eða grönn (og það gildir að sjálfsögðu líka um þá sem eru nú þegar í kjörþyngd). 

Það er síðan með elskunni til okkar sjálfra, og við erum líkami, hugur og sál, sem við förum að fara vel með okkur og misbjóða okkur ekki með slæmu mataræði og því sem gerir okkur illt. 

Með elsku og með vitund getum við tekið skref fyrir skref í átt að þessari blessuðu kjörþyng og í átt að betra dagsformi. 

Þegar okkur líður betur í kroppnum líður okkur betur í sálinni - og öfugt. 

Munum bara að við erum ekki sykurfíkn okkar eða önnur fíkn. Við erum heilagar manneskjur, sál, líkami og hugur og höfum allan rétt á að lifa hamingjusömu lífi, gefa kærleika og þiggja kærleika, líka okkar eigin. 

Nokkrar góðar ráðleggingar varðandi hvað kærleikurinn myndi segja við þig ef þú ætlaðir að borða með meðvitund: 

1. Njóttu þess að borða 

2. Borðaðu þar til þú ert södd/saddur (hættu þá) 

3. Borðaðu þegar þú ert svöng/svangur  (ekki svelta þig) 

4. Borðaðu með virðingu, helst við matarborð - ekki fyrir framan sjónvarpið (nema kannski á kósýkvöldum á föstudögum eða við aðrar svonleiðis undantekningar).  Ekki heldur narta í afganga við uppvaskið, eða stinga upp í þig bita þegar þú ert að útbúa mat fyrir börn.  Ekki koma sjö sinnum við hjá súkkulaðikökunni og skera þér flís í hvert skipt (það er dæmi um pjúra meðvitundarleysi). 

5. Borðaðu það sem þú veist að er líkamanum gott og hollt, og þú veist að þú færð ekki vindverki eða þyngsli af. 

6. Þú skalt eiga fullt af góðum mat heima, hnetum, fræum, grænmeti, ávöxtum, korni, grófu brauði, fisk, kjöti, eggjum .. allt svona "beint frá bónda" og sem minnst unnið.  Það er þumalfingursregla að því minna unnið því betra. (Sleppa kjötfarsi og pylsum).  Frekar að borða smjör en gervismjör og sem er "líki" ..  

Muna svo að hreyfing þarf ekki að eiga sér stað í líkamsræktarsal.  Hún getur falist í að elta börnin, fara í sund, á fjöll, í göngutúr (þó það sé ekki nema 10 mínútur á dag) kynlífi, dansi, húla, sippó ... 

Muna bara að grunnurinn að þessu öllu er að elska sig núna (right this moment), svo kemur hitt allt á eftir!  Kærleikurinn til okkar sjálfra á ekki að miðast út frá tölu á vigt, "aha" núna má ég fara að elska mig og þykja vænt um mig.... 

Útivera er góð, - við erum heppin á Íslandi að eiga ferskt loft og nóg af vatni -  tengingin við náttúruna og aðrar manneskjur er okkur nauðsynleg, við erum efnafræðilega tengd jörðinni og líffræðilega tengd öllum öðrum manneskjum ... 

p.s. Þeir/þær sem vilja fá fyrirlestur um þetta og eftirfylgni, þá verð ég með námskeið í haust sem verður auglýst fljótlega á heimasíðu Lausnarinnar - smellið hér. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er reglulega góður pistill hjá þér og ég er viss um að ef fólk færi eftir honum mundi því líða betur og léttast um leið.  Mér leið illa þegar ég var feit, hjartað starfaði ver, ég var bólgin að ég hélt á öllum liðum, kom svo í ljós að var bara fita, þyngdin gerði það að verkum að ég var alltaf þreytt, þá kom síþreyta og svo koll af kolli, kjörþyngd er sú þyngd sem þú finnur þig heilbrigða í og getur labbað án vandkvæða, sumir geta þó aldrei labbað uppí móti, eins og ég, það gerir bilað hjarta en á jafnsléttu er ég fín, mér finnst áberandi hvað fólk hefur gefist upp fyrir aukakílóunum og þykist sátt við offitu sína, það er að mínu mati ljótt að vera akfeitur og lítilsvirðing við eigin líkama, ef fólk mögulega getur á það að grenna sig.  Mín skoðun  ég losnaði við alls kyns lyf þegar ég létti mig og læknisheimsóknum hefur minnkað um 70%

Ásdís Sigurðardóttir, 2.8.2011 kl. 15:29

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ætlaði að segja "fækkað" þoli ekki málfræðivllur hjá mér.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.8.2011 kl. 15:30

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þetta er vissulega svona "the sensible" leiðin að því að komast í kjörþyng, það er vissulega oft sem þarf að kafa djúpt inn á við til að átta sig hvers vegna við eigum það til mannfólkið að kunna okkur ekki hóf, eða þá að fara að vera með ofstjórn við líkamann og svelta.  Allt er þetta líklega sprottið af sömu rótinni, þ.e.a.s. að lífið er eitthvað ekki alveg að leika okkur nógu vel, eða við ekki nógu lífsleikin.  En þú ert frábærlega dugleg að hafa tekið svona vel á þínum málum, og augljóslega sátt í þínu skinni, sem skiptir öllu máli.

Jóhanna Magnúsdóttir, 2.8.2011 kl. 16:09

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk fyrir góðan og virkilega umhugsunarverðan pistil.

Eg stend á þeim tímamótum að vera nýhætt að reykja og verð því að gæta að mataræðinu, svo þetta verði ekki ein hringavitleysa með sígarettur eða fitu til skiptis. Svo held ég ekki að skapið sé endilega upp á það besta þegar ég hef ekki tóbakspúkann til að hugga mig við

Það verður gaman að snúa sér að því að finna það sem ég get elskað sjálfa mig fyrir, ég held aða ég sé ekkert endilega fátæk þar. En líklega verður þrautin þyngri að losa sig við það sem er ekkert sérlega ákvætt í fari mínu og horfast í augu við það. Ekki held ég að ég verði neitt sérlega hamingjusöm með alla gamla drauga gapandi út úr skápunum.

Því er bara að bretta upp ermarnar, skoða sjálfa mig rækilega, og sortera. Elska ég þetta, elska ég það ekki, elska ég þetta, elska ég það ekki?.....

Þetta er vel þess virði að reyna, ég tala nú ekki um ef mér tekst að grennast, hætta að reykja, elska sjálfa mig af auðmýkt og hreyfa mig, allt í senn. Vá!

Takk aftur, vona að ég renni ekki á rassinn með þetta.

Bergljót Gunnarsdóttir, 2.8.2011 kl. 22:24

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þínar hugleiðingar Bergljót,  og til hamingju með reykleysið.  Það er sérstök þessi þörf okkar fyrir að vera að setja eitthvað í munninn, hvort sem það er snuð, sígaretta eða matur/snakk/sælgæti (í óhófi) . Ég held að þetta sé allt af sama meiði, þ.e.a.s. þessi þörf fyrir að fylla eitthvað rúm sem við í raun þyrftum að loka með því að þykja vænt um okkur - "fylla það með kærleika" ...

Þú segist vera að skoða það sem þú getur elskað þig sjálfa fyrir. Það er mergurinn málsins að þú getur elskað þig án skoðunar, - nú þegar - án allrar skoðanir.  Fagnaðarerindið (ef má kalla það svo) er að þú ert bara mjög elsku verð og verðmæt manneskja án greiningar.  Þannig ertu fædd og kjarni þinn hefur ekki breyst. 

Ég hef notað líkinguna við barrtré í skógi, - sem við skerum síðan niður til að skreyta og breytum í jólatré. 

Barrtré, hvernig sem það er "vaxið" hefur alltaf sitt gildi og er hluti af náttúrunni eins og við.  Það er í sjálfs sér nóg.  Þegar við höfum hoggið tréð, skreytt það og sett stjörnu eða engil á toppinn, verður barrtréð alveg sama tréð þó að búið sé að skreyta það með ýmsu góssi.  

Sama á við með okkur og það sem kemur að utan, okkar "skraut" er það sem við störfum við, börnin okkar .. og hvað sem okkur dettur í hug sem er "að utan" ..  

En ef við strippum okkur alveg niður, tökum EKKERT af okkar "afrekum"  inn í myndina, nú eða útlit, fíknir eða hvað sem er,  þá stöndum við alltaf eftir sem naktar og helgar manneskjur,  sem eru okkar eigin elsku verð.  Þá horfum við ekki í fortíð og ekki í framtíð, heldur bara akkúra á okkur núna og byrjum (ef við höfum ekki gert það áður) að tala fallega til okkar, og láta okkur vita að við höfum tekið þá ákvörðun að elska þessa veru - ÞRÁTT fyrir ágalla eða hvað sem nú kemur.  Þannig er leiðin upp á við! ;-) 

Vonandi er þetta ekki of mikil langloka og skilst. Þú átt eftir að standa þig vel, sérstaklega ef þú samþykkir þig og sýnir sjálfri þér væntumþykju.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.8.2011 kl. 07:49

6 identicon

Ég hugsa oft til atriðis í myndinni The Shawshank Redemption þegar aðalpersónan segir að nú séu aðeins tveir kostir í stöðunni: "Get busy dying or get busy living".

Málið er að á hverjum degi höfum við nákvæmlega þetta val. Við getum verið að gera hluti sem hjálpa okkur að deyja eða við getum gert hluti sem hjálpa okkur að lifa heilbrigðu lífi, andlegu sem líkamlegu.

Og á hverjum degi tökum við a.m.k. 20 ákvarðanir sem leiða okkur í aðra hvora áttina, þ.e. til lífs eða í dauðann.

Og staðreyndin er að við vitum í raun flest hvaða ákvarðanir það eru annars vegar sem hjálpa okkur að deyja og hvaða ákvarðanir það eru sem hjálpa okkur að lifa.

Það skrítna er hversu oft mörg okkar taka ranga ákvörðun, þvert á skynsemi okkar og þekkingu.

Flestir sem eru allt of feitir eru það vegna þess að þeir hafa tekið of margar rangar ákvarðanir varðandi mataræði og hreyfingu of oft.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 3.8.2011 kl. 07:56

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Get busy dying or get busy living".   Algjörlega sammála þarna! Takk fyrir þetta Bergur.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.8.2011 kl. 09:44

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Begga, það fyrsta sem þú þarft að gera er að eyða þeirri hugsun úr huga þínum að það sé samband á milli þess að hætta að reykja og að fitna, það er ekkert endilega þannig, ekki var það svo í mínu tilfelli, einstaklingsbundið eins og allt annað.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.8.2011 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband