27.7.2011 | 09:41
Stundum ofvökvum við börnin okkar ...
Ísak Máni, sjö ára dóttursonur minn sem flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni fyrir tveimur árum, fékk plöntu í kveðjugjöf frá leikskólanum sínum á Íslandi. Plantan hafði dafnað þokkalega þangað til í vor að hún fór að gefa eftir, hvert laufblaðið féll af öðru.
Mamma hans setti plöntuna út á stétt með þeim orðum að kannski þyrfti hún meiri sól og súrefni.
Ísak Máni horfði sorgmæddur á plöntuna sína og stökk síðan inn og náði í fulla könnu af vatni og fór að vökva. Plantan var nú fullvökvuð, en ekkert gerðist! .. Hann sótti því meira vatn og vökvaði enn meira og vatnið fór að leka upp úr pottinum. Hann var óþolinmóður og skildi ekkert í því að plantan brást ekki við öllu þessu vatni.
Börn eru stundum eins og plöntur, - þau þurfa birtu, næringu og súrefni - og auðvitað vatn. En eins og plantan þola þau ekki of mikið vatn, þá er hætta á að þeim sé drekkt í atlæti og þau nái sér ekki upp af sjálfsdáðum.
Við mömmur erum stundum sagðar "of góðar" og með því er meint að við gerum of mikið fyrir börnin okkar, setjum þeim ekki nógu skýr mörk og látum þau komast upp með hluti sem þau ættu ekki að komast upp með. Okkur þykir "of vænt" um þau, til að banna, aftra eða hemja þau í því sem þau oft vilja gera.
Að sjálfsögðu eru sumir pabbar svona líka, - og sumar mömmur ekki svona. Það er breytilegt. En foreldrar allir eiga það til að ofvökva börnin sín, og það er þeim ekki til góðs.
Þannig verðum við meðvirk í vondum siðum, ýtum undir galla í stað kosta.
Markalaus börn verða oft leiðinleg í umgengni út á við, gengur verr í skóla og eiga erfiðara með að taka reglum samfélagsins, því að þau hafa ekki lært þær heima.
Markalaus má kannski segja að sé svipað og agalaus, - það þarf að setja mörk, þarf að hafa reglur. Börn kunna ekki að setja sér þær sjálf, og við þurfum ekki að vera "vond" til að setja reglur eða beita aga, - það er aftur á móti akkúrat öfugt, þannig erum við góð og þannig erum við að gefa börnum okkar gott uppeldi sem hjálpar þeim að takast á við lífið.
Mátti til með að setja þessa mynd hér með, þar sem mörk varðandi tölvunotkun er að verða eitt stærsta málið milli foreldra og barna, eða unglinga aðallega. Auðvitað verðum við að vera fyrirmynd þar sem í öðru, þýðir lítið að segja eitt og gera annað. ..
p.s. það þarf varla að taka það fram - að það má heldur ekki gleyma að vökva og vera "of þurr á manninn" ...
Athugasemdir
Sæl Jóhanna - ég er ansi hræddur um að þú hafir alveg hitt naglann á höfuðið þarna og því miður hafi margir sem gegna "ráðandi" stöðum í þjóðfélaginu okkar, einmitt fengið svona uppeldi - þetta á ekki bara við stjónmálamenn eða stjórnendur fyrirtækja - það er sagt að sjaldan launi kálfurinn ofeldið og má með sömu rökum halda því fram að sá einstaklingur sem elst ekki upp við tillitssemi, reglur og aga, tekur það sem hann langar í án tillits til annara..........
Semsagt verum góð við börnin okkar, ofdekrum þau ekki........
Eyþór Örn Óskarsson, 27.7.2011 kl. 17:00
Góður pistill Jóhanna, ég er svo leið á svona ofvökvuðum börnum. Vildi að maður mætti hafa skoðun á þeim eins og góðu börnunum, en það er með þau eins og feita fólkið, maður á víst að þegja.
Ásdís Sigurðardóttir, 27.7.2011 kl. 19:31
Þú ert hugsandi kona Jóhanna,þannig amma verkar vel á börnin,staðhæfi ég.
Helga Kristjánsdóttir, 27.7.2011 kl. 20:59
Eyþór, í raun er ég að lýsa því sem ég hef verið að vinna með, eða meðvirkni.
Við foreldrar erum oft hrædd við að segja nei við börnin okkar, - við óttumst e.t.v. viðbrögðin, en í raun þrá öll börn ramma og reglur, væntumþykjan felst í því að þora að segja nei, jafnvel þó að viðrbögðin geti verið erfið. Þegar upp er staðið verða allir sigurvegarar. Að sjálfsögðu hrósum við börnunum, hvetjum þau og virkjum eins og við á, á uppbyggilegan hátt.
Það er stundum notað orðið "þroskaþjófur" um foreldra sem ofdekra börn eða gera of mikið fyrir þau. Börnin fá ekki að takast á við verkefni sem þau þurfa að takast á við til að þroskast og læra.
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.7.2011 kl. 21:50
Ásdís, ég horfði einu sinni á klippu úr mynd þar sem lítill strákur var látinn frussa framan í Hugh Grant (eða þann sem hann lék) og foreldrarnir dáðust að drengnum sínum, og fannst hann svo sniðugur. Það var alveg klassískt dæmi um svona ofdekrað barn, sem ekki var sett mörk og foreldrunum fannst hann meira að segja sniðugur að frussa framan í gestinn. (svolítið ýkt að vísu).
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.7.2011 kl. 21:52
Takk Helga, - barnabörnin vefja manni stundum um fingur sér, - en ég hef mikið lært undanfarin ár og veit nú að ég er ekki betri amma þó ég gefi þeim mikinn ís eða nammi, heldur tíma og athygli, og segi þeim hvað er rétt og rangt.
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.7.2011 kl. 21:53
Góður pistill hjá þér og ég tek undir hvert orð
Jónína Dúadóttir, 27.7.2011 kl. 22:28
Akkúrat Jóhanna, það er þessi lenska að hrósa börnum fyrir vitleysuna og hlægja að fíflagangi í stað þess að kenna þeim góða hluti og virðingu fyrir öðrum.Það er ekki við börnin að sakast heldur foreldrana.
Ásdís Sigurðardóttir, 28.7.2011 kl. 14:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.