Hvar ertu Guð?

Hvar ertu Guð?

Hin vestræna veröld hefur nýlega fengið spark undir beltisstað og upplifir það, í sumum tilfellum, eins og að heimilismaður á eigin heimili hafi sparkað, en ekki einhver ókunnur.

Að sjálfsögðu búa margir upprunnir annars staðar frá í Skandinavíu, og eru því heimilismenn - en eru e.t.v. ekki samþykktir, eða hafðir út á jaðrinu út af trú, kynþætti o.s.frv.

Hvar er Guð í þessu öllu saman?  

Eina leiðin fyrir mig til að trúa á Guð, er að Guð sé nákvæmlega sama og hið góða, Guð sé kærleikur, Guð sé elskan.  Illskan sé því ástandið þegar við erum fjarri Guði.

Algóður Guð þýðir því að Guð er allt sem gott er, en fjarri öllu illu. Það er ekki Guð sem lætur vont gerast, hvorki náttúruhamfarir eða það illa sem er af manna völdum.

Við spyrjum hvar Guð sé þegar við sjáum börn vannærð og sveltandi í Afríku, - en hvar erum við sjálf?

Á líkamsræktarstöðum að hamast við að ná af okkur offitu?  Að sýta að við eigum ekki nógu flottar íbúðir, eða að við komumst ekki í nógu margar sólarlandaferðir?  Viðmiðin okkar eru svo há. Forfeður okkar teldu okkur auðug bara vegna þess að við búum í upphituðu húsi, með glerrúðum og höfum nóg að bíta og brenna.

Af hverju látum við mennirnir þetta gerast? Af hverju er svona mikið ójafnvægi í heiminum?
Getur verið að við elskum ekki nógu mikið?  Erum við týnd og dofin?  Pökkuð inn í einangrunarplast þannig að við heyrum ekki neyðarkall annarra jarðarbúa?

Hvar ertu Guð?  Hvar ertu manneskja?

Hér verðum við að láta til hliðar allar bækur, Biblíu, Kóran og önnur kver, þó að vissulega séu til frásagnir í þessum ritum þar sem Guð er ekkert nema kærleikur,  þá eru þær einnig ruglandi og villandi.

Kannski er Guð orðið ónýtt hugtak, vegna þess hversu breitt það er og hver getur túlkað það út frá sjálfum sér og menn fela sig á bak við bókstafinn til að beita náunga sinn órétti.

Menn skýla sér og fela ódæðisverk sín og óréttlæti bak við bókstafinn, það er vitað mál - og þeir segja að það sé þeirra trúarsannfæring.  Á grundvelli trúarsannfæringar eigi þeir síðan rétt á ákveðinni hegðun.  Meira að segja hér á Íslandi grassera enn slíkar sannfæringar sem segja t.d. að konur séu lægri körlum,  samkynhneigðir með síðri réttindi en gagnkynhneigðir o.fl.

Ef það er ekki elska, er það ekki Guð.

Öll börn fæðast heil og góð, þau mótast síðan af foreldrum, samfélagi, skóla, jafnöldrum, fjölmiðlum o.s.frv.  Öll höldum við kjarna okkar, og í innsta eðli og vilja erum við öll góð.  Því trúi ég.  Allt sem hleðst utan á okkur, umhverfið utan um kjarnann skiptir máli,  hvort það er elska eða illska.

Til að þekkja sjálfan sig þarf að þekkja vilja sinn, kjarna sinn og þannig þekkjum við líka Guð, þannig þekkjum við elskuna til Guðs og til okkar sjálfra.

Er okkur sagt við séum vond sem börn, eða er okkur sagt að vera góð í staðinn?  Orð hafa áhrif, eða eins og fröken Klingenberg orðar það;  "Orð eru álög"  - þess vegna er mikilvægt að nota falleg orð og uppbyggileg við börnin en ekki ljót.

Nú reynir á okkur að elska en ekki hata, nú reynir á að næra og rækta elskuna og svelta og kæfa illskuna.

Tökum elskuna í hægri hönd og viskuna í vinstri og göngum þannig til góðs með Guði, Guði sem er hreinn kærleikur.  Það er hinn eini sanni Guð.  

Hvar ertu svo Guð?
 
Þegar við höfum hreinsað burt hið illa og hið eigingjarna og allar hindranir sem eru múraðar utan á kjarna okkar eins og tannsteinn á tönn,  og komist að innsta eðli, innsta vilja sem er elska finnum við Guð, og við finnum Guð í hjörtum náungans og í snertingu við heim sem leitar Guðs.

Guð er í þér og Guð er í heiminum, en það er eitt og hið sama, það er kærleikur. 

Biðjum og finnum. heart_earth.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa einlægu og fallegu hugvekju. Les oft pistlana þína og er er merkilega oft sammála þér ( kannski þess vegna sem ég kíki alltaf á bloggið þitt ;) Ég er innilega sammála þér með Guð. Guð er kærleikur og það sem gert er í hans nafni á að vera gott.....annað er bara ljótur misskilningur. Norðmenn hafa sýnt með eftirtektarverðum hætti hvernig hægt er að takast á við áfall af styrk, kærleika og virðingu - vonandi öðrum þjóðum til eftirbreytni.

Anna Þóra (IP-tala skráð) 25.7.2011 kl. 14:02

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

þegar stórt er spurt............

Ásdís Sigurðardóttir, 25.7.2011 kl. 14:45

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæl Jóhanna! Sú ,,eina leið,, sem þú nefnir að sé þín, til trúar á guð,sé einmitt að skilgreina hann sem  kærleik,  hið góða,því er ég hjartanlega sammála. Það eru alltof margar spurningar,sem leita á hugann við lestur biblíunnar.Dæmi um boðorðin,ég gæti aldrei haldið þau öll.t.d. elska óvini mína,það hlýtur að vera áréttað þarna,vegna þess að það er ekki venjulega eðlilegt.      Í barnaskóla var fjallræðan mér einkar hugleikin. Gamlatestamenntið get ég bara ekki lesið samfleitt,bara flett þegar sækja á mig áleitnar spurningar,t.d. þegar ehv, veikindi steðja að ástvinum mínum. Þú sérð hvað ég er eigingjörn í trúnni,bið innilega fyrir börnum mínum og afkomendum. Ég vil segja að þar hafi ég verið bænheyrð. Lengra kemst ég ekki .þess vegna gæti ég ekki legið á bæn kl.x ? Jóhanna,þakka þér fyrir pistilinn,m.b.kv.

Helga Kristjánsdóttir, 25.7.2011 kl. 18:10

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er ekki Guð sem lætur vont gerast, hvorki náttúruhamfarir eða það illa sem er af manna völdum.

Merkilegt. Jóhanna, trúir þú því að guðinn þinn hafi skapað heiminn? Trúir þú því að guðinn þinn sé algjörlega máttlaus?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.7.2011 kl. 18:27

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Anna Þóra, - og þakka þér fyrir að lesa.

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.7.2011 kl. 19:50

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

..er fátt um svör Ásdís. ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.7.2011 kl. 19:51

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þínar pælingar, Helga.

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.7.2011 kl. 19:51

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti, ég trúi því að Guð sé hluti sköpunarinnar og við hluti af Guði. 

Nei, Guð er ekki máttlaus, ekki frekar en kærleikur er ekki máttlaus eða ljósið. Það er Guð sem veitir styrk. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.7.2011 kl. 23:51

9 identicon

Hjalti.Ef þú setur samansemmerki milli hugtaksins guðog hið góða sérðu náttúrulega að þú hefur rétt fyrir þér.Illu verkin eru ekki frá því góða.Ég lít á mig sem trúleysingi eins og þú en reyni samt að fylgja því góða og virða sambræður mína.Eins og eflaust þú líka.Þannig að ég held að Jóhanna hafi ansi rétt fyrir sér.

josef asmundsson (IP-tala skráð) 26.7.2011 kl. 05:57

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Guð veitir styrk? Þannig að guð getur ekki beinlínis hlutast til i heiminum (t.d. fært atóm), heldur er hann svona klappstýra sem reynir að fá fólk til að hegða sér á ákveðinn hátt?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 26.7.2011 kl. 07:38

11 identicon

Æi, Hjalti ... af hverju heldur þú þig ekki bara á þinni eigin óþverrasíðu með þessi endalausu leiðindi þín í garð trúar og trúaðra? Það eru allir búnir að fá nóg af þínum "boðskap" utan þessara örfáu skoðanabræðra þinna í Vantrú.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 26.7.2011 kl. 11:44

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Bergur, ekki vera svona rosalega fúll út í mig. Það er ekki eins og það sé mér að kenna að síðunni þinni var lokað (sem hlýtur þá að vera meiri óþverrasíða en síðan mín! ;)).

Hjalti Rúnar Ómarsson, 26.7.2011 kl. 14:36

13 identicon

Ég er ekkert fúll út í þig Hjalti litli heldur endalaus leiðindi þín í garð trúar og trúaðra svo og eineltisóþverrann sem birtist stöðugt á síðunni þinni. Svo er hún orðin dálítið þreytt þessi klisja ykkar Vantrúarmanna um að síðunni minni hafi verið lokað vegna efnisins sem á henni var. Það var allt önnur ástæða fyrir lokuninni eins og þú veist mætavel en kýst stöðugt að líta framhjá eins og sumir félagar þínir í Vantrú. Sýnir vel innræti ykkar að hampa þannig stöðugt frekar lyginni en sannleikanum. En þið um það.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 26.7.2011 kl. 15:13

14 identicon

Annars vil ég þakka Jóhönnu fyrir þetta innlegg sitt, svo og flest það sem hún hefur skrifað. Ég vildi óska þess að hinir strang-trúlausu áttuðu sig á sannleikanum í máli hennar og þeirri yfirburðayfirsýn sem hún hefur á trú og trúmál.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 26.7.2011 kl. 15:19

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hmmm...þú segist ekki vera fúll út í mig, en uppnefnir mig strax ("Hjalti litli"). Ég veit nú ekki betur en að síðunni þinni hafi verið lokað vegna "eineltisóþverra" á henni í garð ónefnds moggabloggara.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 26.7.2011 kl. 15:35

16 identicon

Hafðu þetta eins og þú vilt Hjalti minn. Vonandi líður þér vel í lyginni. En mikið vildi ég að hægt væri að njóta þess að lesa heilbrigða og mannbætandi pistla eins og þá sem Jóhanna skrifar án þess að eiga það stöðugt á hættu að þið niðurrifsfólkið í Vantrú þyrftuð endilega að skemma lesturinn með ykkar daunillu vantrúarskoðunum. Af hverju getið þið ekki látið ykkur nægja að dreifa trúleysismykjunni á ykkar eigin síðum og leyft sómakæru fólki sem vill lesa og móttaka góðan boðskap að vera í friði?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 26.7.2011 kl. 17:05

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Josef Asmundsson, þakka þér fyrir skilning og opinn huga.

Jóhanna Magnúsdóttir, 26.7.2011 kl. 17:56

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

He, he, Hjalti - ég sé ekki alveg Guð sem klappstýru, en eflaust gæti einhver upplifað hann í því hlutverki ef að klappstýra er það sem hvetur hann áfram á göngu sinni.

Það er ágæt lýsing á nærveru Guðs í 23. Sálmi, "þó ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér" .. Það þýðir að sá sem trúir að hið góða/kærleikurinn/Guð sé með sér óttist ekki.  Þarna er eflaust verið að tala um hugrekki.  Þannig veitir Guð styrk. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 26.7.2011 kl. 18:00

19 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Bergur, þakka þér fyrir falleg orð í minn garð.;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 26.7.2011 kl. 18:01

20 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

1 kabli Jakobsbréf     5 vers til og með áttunda vers...

Vilhjálmur Stefánsson, 26.7.2011 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband