16.6.2011 | 08:11
"Your business is my business" ..
Eftirfarandi pisti birti ég á Pressunni, en hér er hann í örlítið styttri útgáfu:
Á fleiri en einum fyrirlestri í gegnum tíðina, hef ég hlustað á fólk tjá sig um mikilvægi þess að hafa stefnu í lífinu, - að hafa framtíðarsýn.
"Ef við höfum enga stefnu, stefnum við ekkert." (sagði leiðbeinandinn á Dale Carnegie námskeiðinu).
Við höfum nú mörg lært þann bitra lærdóm að leyndarmál og lygar hafa einkennt líf margs fólks, sum okkar eru búin að uppgötva það, önnur ekki. Það má líka kalla það að lifa í blekkingu.
Ég ætlaði að láta pistilinn heita leyndarmál og lygar, en mundi eftir þessu gullvæga:
"Það sem þú veitir athygli vex" svo ég ákvað að hafa jákvæða fyrirsögn.
En hvernig er upplýstur heimur? Til að öðlast upplýstan heim þurfum við að leita þekkingar.
En hvað þarf ég, borgin, landið, heimsálfan, heimurinn allur, að gera til að breytast og verða að nýjum og upplýstum heimi, heimi sem lifir með vitund, heimi sem lifir í þekkingu?
Við hér á Íslandi erum búin að vera býsna dugleg við að funda, meira að segja þjóðfunda, og finna okkur vörður og gildi, og þar koma upp orð eins og heiðarleiki, jafnrétti og gagnsæi, hófsemd gægðist þar líka fram, en kannski af full mikilli hófsemi.
Framtíðarsýnin er því byrjuð að mótast, og auðvitað byrjum við, hvert og eitt að byrja á okkur, því að við ætlum sjálf að vera breytingin, og ýta svo við öðrum með fyrirmynd okkar og þannig fellur domino blekkingarinnar.
Við þurfum að hætta að hugsa "mind your own business" en í staðinn hugsa "your business is my business" - Við þurfum að þora að skipta okkur af, því að afskiptaleysi getur verið lífshættulegt.
Hér er ég ekki að tala um neikvæða afskiptasemi, heldur að láta okkur náungann varða, svipað og við gerum í eineltismálum.
Þetta er ekki einungis siðferðileg skylda okkar. Það er líka lagaleg skylda að láta vita ef okkur grunar að illa sé farið með barn og það er lagaleg skylda yfirvalda að sinna því. Hrikalega grátlegt dæmi var að koma upp í nágrannalandi okkar, Danmörku, þar sem börnum var misþyrmt af sjúkum foreldrum, og það viðgekkst í mörg ár.
Við þurfum svo sem ekkert að leita út fyrir landsteinana því að í nýútkominni skýrslu Unicef þá kemur í ljós að íslensk börn verða fyrir miklu ofbeldi.
Þegar við skiptum okkur af, eða látum vita af misgjörðum þá eru oft þeir til sem fara að benda á þann sem bendir og vinna gegn honum og jafnvel ásaka hann um slæman eða eigingjarnan ásetning.
Þess vegna þorir fólk stundum ekki að standa upp og láta vita. Nýlegt dæmi eru málin innan kirkjunnar. Sumt fólk sem þar hefur staðið upp til að styðja fórnarlömb embættismanna stofnunarinnar og gagnrýnt "mistökin" sem þar hafa átt sér stað, hefur fengið orð í eyra og verið ásakað um valdabaráttu, að vera með vesen eða eitthvað álíka.
Þetta hef ég svo sannarlega reynt á eigin skinni. Eb þegar ég hef verið með vindinn í fangið, þá hefur mér reynst vel að biðja Guð um leiðsögn, og ekki hefur veitt af. "Leið mig Guð, eftir þínu réttlæti" - er ágæt "mantra" til að þylja fyrir sér, auk orðanna úr 23. Davíðssálmi - "Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér"..
Það þarf nefnilega hugrekki og óttaleysi til.
Hin neikvæða gagnrýni á þá sem vilja vinna með réttlætinu er þó sem betur fer undantekning, og kemur yfirleitt frá þeim sem hafa eitthvað að fela, eða vilja setja þetta upp sem lið. Raunin er að ég er ekki í neinu "liði" og set fram gagnrýni út frá því - og ég tel okkur jarðarbúa vera eitt lið!
Pólitíkin er sér kapituli - hér verður ekki farið út í hana og hún getur reynst víðsjárverður forarpyttur. Menn nýta sér hana bæði til góðs og ills. Pólitík getur orðið til ofsókna og menn kalla stundum réttlátar ábendingar pólitískar ofsóknir.
Að krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum, að krefjast réttlætis og benda á það sem betur má fara og að valdhafar axli ábyrgð, er ekki það sama að vilja hengja einhvern eða skjóta.
Það eru oft rök hinna röklausu.
Auðvitað þurfa þau sem berjast gegn óréttlæti alltaf að byrja heima, stöðva, íhuga og koma svo fram af heilu hjarta. Þau sem fara af stað til að rífa niður blekkingarvef, vita að ef það er ekki gert af heilindum munu þau sjálf festast í vefnum.
Hvað gerist þegar við tökum blekkingarvefinn niður? Hvað sjáum við betur?
Það þarf að hætta að vera með leynd hvað atvinnu varðar, launaleynd á að vera hluti af nýjum og betri heimi, skýrslur fyrirtækja um hagnað eiga að liggja fyrir og annað slíkt á að vera opinbert. Nýr heimur er sýnilegur heimur, hann er ekki "undir borðið" heimur með sínum leyndarmálum, óheiðarleika og lygum.
Hættum að lifa bak við grímur, komum til dyranna eins og við erum klædd, verum óhrædd við að vera við sjálf.
Leyndarmál ala á skömm, stundum erum við að skammast okkar fyrir eitthvað sem er alls ekki okkar skömm, en hvort sem það er okkar skömm eða annarra þá er betra að leggja hana í ljósið og fá þannig fyrirgefninguna.
Framtíðarsýnin er því grímulaus heimur, heimur án blekkingar og yfirborðsmennsku. Án hindrana, fáfræði og fordóma. Upplýstur heimur. Það getur stungið í augun til að byrja með og verið óþægilegt, en yfirleitt er hægt að venjast birtunni og tröllin verða að steini.
Ljósið er ekki eingöngu við enda gangnanna.
Þú ert ljósið.
Með því að vera ljósið, og stefna á ljósið - göngum við í trú á betri heim.
Athugasemdir
Flott grein hjá þér, Jóka...
Steingrímur Helgason, 16.6.2011 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.