Guðfræðin mín - varúð ótrúlega langt blogg! ..

Ég skráði mig utan trúfélaga fyrir ca. ári síðan, ég upplifi mig samt sem hluta af kirkju Guðs á jörðu, greiði reyndar félagsgjöld ennþá til styrktar Kvennakirkjunni og sæki einstaka messur þar. Ég vil þó ekki tilheyra bara Kvennakirkju og ekki bara Karlakirkju, eða Karlskirkju? .. 

Skrifaði svolitla grein um afstöðu mína á Pressunni fyrir þau sem hafa áhuga. 

Jæja - ég var eiginlega búin að ákveða að skrá mig aftur í þjóðkirkjuna þegar hún væri búin að gera hreint fyrir sínum dyrum, farin að fara eftir jafnréttisáætlunum og starfa eftir kristilegu siðferði, en ég held ég segi bara pass, eftir að hafa heyrt af upphafi kirkjuþings. 

Æðruleysi er orð dagsins. 

Ég fór út úr bænum - ein ásamt hundinum Simba, og var í sólarhring í sveitinni. Ákvað þá að skrifa niður mínar hugsanir um Guð, - en ég er guðfræðingur auk þess að hafa lært gífurlega mikið um meðvirkni sl. ár, og í þeirri göngu hefur guðfræði mín dýpkað til muna og skilningur aukist. 

En hér fer það sem ég skrifaði: 

Hugtakið "Guð" er mjög umdeilt og vítt hugtak, séð á jafn marga mismunandi vegu og mennirnir eru margir. Fyrir suma er hugtakið stuðandi.   

Vissulega eiga margir næstum alveg sömu guðsmynd, en aldrei alveg 100% vegna þess að það eru engar tvær manneskjur 100% eins og við getum aldrei horft frá nákvæmlega sama sjónarhóli, - jú á stað en þá ekki á sama tíma.

Þegar við tölum um Guð þá erum við því alltaf að tala út frá okkar eigin forsendum um Guð eða þennan x-faktor sem margir kalla Guð. Sumir vilja frekar tala um "Being" eða Verund, æðri mátt, eða hvað sem er. Það sem er á bakvið er það sem skiptir máli, eins og í flestu. Ekki hugtakið eða nafnið.

Þegar við þroskumst hefur guðsmynd okkar tilhneygingu til að þroskast með okkur.

Guðsmynd mín hefur þroskast mikið með mínum þroska, námi og reynslu.

Bókin "Kristur í Oss", Davíðssálmur 23 í Biblíunni  og ljóð Steingríms Thorsteinssonar;  Trúðu á tvennt í heimi,  eru meðal áhrifaríkustu lesninga sem ég hef lesið hvað guðsmynd varðar. Nýjasta "aha momentið" var svo bók Geneen Roth; Women, Food and God auk efnis sem ég hef lesið um meðvirkni.

Allt hefur þetta það sameiginlegt að ég skil að það er aðeins einn Guð, - þó við trúum á "tvennt í heimi, Guð í alheimsgeimi og Guð í sjálfum þér" er það einn og sami guðinn.

Við erum sem dropar í hafi sem er myndað af okkur og hafið er þá Guð.

Við erum sköpuð í Guðs mynd, sköpuð sem dropar af Guði.

Guð er samferðaraðili foreldra okkar í uppeldinu, en þegar að foreldrar sleppa af okkur hendinni sleppur Guð henni ekki, og aldrei.  Því þar sem  Guð er í sjálfum okkur yfirgefur Guð okkur aldrei.   

Við getum aftur á móti forðast Guð með ýmsu móti, með fíknum og með því að vera upptekin af öllu öðru en að horfa inn á við og það sem raunverulega skiptir máli.  

Jesús kallaði Guð föður, því hann fann fyrir styrkri föðurhendi.  Það var hans sjónarhóll. Einhver upplifir Guð sem móður, og um það hefur verið skrifað og ljóð samin.  Guð er svo margt, hirðir, vinur, vinkona .. alltaf eitthvað eða einhver sem gefur þér mátt eða styður.

Guð er ..  það er nóg og við erum,  og það er líka nóg.

Barrtré í skógi er fullkomið barrtré og það bara ER.  Það er ekki fyrr en við förum að leita okkur að jólatré og við höfum staðlaðar hugmyndir um hvað fallegt jólatré er að barrtréið er ekki lengur fallegt svona eitt og sér.

En barrtréið er sem betur fer ekkert meðvitað og pælir ekkert í því hvað öðrum finnst um það.  Það nýtur þess að láta sólina skína á sig, sækja næringu úr moldinni og finna vindinn blása. Það er nóg.

En svo komum við og höggvum - veljum það skásta. Skreytum með kúlum og slaufum, og setjum stjörnu eða engil  á toppinn.  Pakka í kring.  Og "Voila" - það er komið fallegt jólatré.  Það ilmar ennþá því er haldið vakandi með vatni, en það er að fjara út.  Þrátt fyrir skrautið og pakkana.

p1010009_1091112.jpg

Hvaðan koma þessar væntingar um að við skreytum okkur, séum með rétta "jólatrés" lúkkið og hlaðin pökkum og pinklum?  - Við getum litið á pakkana og pinklana sem launaseðla og efnahagsleg gæði.

Tréð þarf á mold, vatni og lofti að halda - og birtu.  

Við þurfum á næringu að halda og elsku. Við þurfum líka á því að halda að tilheyra.  Tilheyra einingu, samfélagi, hópi.  

Kannski er það þess vegna sem við breytum okkur til að þóknast. Til að vera talin gild í hópnum okkar og til að vera elskuð?

En kannski erum við bara alveg nógu dásamleg, sígræn og lifandi sem barrtré án pakkanna, án skrautsins og án engilsins á toppnum.

Þið vitið að hann er bara gerfi? ..

Þó að við trúum á Guð í sjálfum okkur, þá erum við ekki Guð heldur af Guði og sama eðlis.
Guð er hafið og við erum dropinn.

Þegar við deyjum þá erum við eins og dropinn, gufum upp og verðum að skýi. Skýin og hafið eru eitt.  Allt er eitt, við og Guð.

Að vera hólpinn fyrir trú er að vera hólpinn fyrir trú á sjálfan sig/Guð í sjálfum þér.  

Þegar við vinnum vond verk erum við orðin fjarlæg okkur og um leið fjarlæg Guði.  Sá sem titlar sig trúlausan en hefur óskert sjálfstraust hefur hvorki týnt sjálfum sér né Guði, þó að það sjálfstraust kalli hann ekki Guð.  Það skiptir engu máli.

Það skiptir engu máli.

Merkimiðinn er bara eins og skrautið á jólatrénu.

Á meðan að manneskjan þekkir sjálfa sig, þekkir hún Guð.  Guð bara ER og Guð er nafnlaus.

Hið ytra getur hjálpað okkur í sjálfsþekkingunni.  

Sjálfsþekking gæti bætt ástandið í heiminum til muna.  

Því sá sem þekkir sjálfan sig veit að hann vill frið, veit að hann vill ekki meiða náunga sinn, veit að hann vill vera góður - en kann það ekki því hann er fjarri sér, því fjarri vilja sínum. Því fjarri sem hann er þess meira gerir hann eitthvað sem er ekki hann sjálfur.

Því fjarri sem hann er sjálfum sér og þar með Guði.

Guð er því líka sameiningarafl - sameiningarafl hugar og líkama, eins og í Yogafræðunum og hugurinn mætir líkamanum í andardrættinum.

Við leiðarlok í þessari jarðvist þá tökum við einn lokaandardrátt til að kveðja líkamann, farartækið sem hefur flutt okkur um í tilverunni og þjónað frá vöggu til grafar.  

Við svífum í sálarlíkama okkar upp til skýjanna til að sameinast Guði og þeim sem á undan eru farin.

Svo kemur rigning.

Nú gætu margir farið að hugsa;  hún er ekki kristin, þetta er grautartrú, hún er .....

Er það ekki dásamlegt - að vilja fara að hengja á mig merkimiða, eða skrautið og setja plastengilinn á toppinn! ...

Við erum sköpuð í Guðs mynd og því erum við svo heppin að þurfa ekkert annað en að vera.  Að vera vera.

Guð ER, þú ERT og ég ER .. punktur.

Ég ætla ekkert að skilja ykkur eftir í tómarúmi eftir að lýsa útsýninu frá mínum sjónarhóli - en segja frá minni leið til sjálfsþekkingar, til þekkingar á Guði:

Við erum af jörðinni, (jörðin er jafn góð líking og ský og haf - "af jörðu ertu komin/n að jörðu muntu aftur verða") -  virðum jörðina og umhverfið allt og upplifum  með að snerta hana, ganga berfætt og anda djúpt að okkur loftinu og baða okkur í vatni og drekka vatnið.  Nýtum elementin eins og barrtréð gerir.

Æfum okkur með að hugleiða inn á við - alveg inn að hjartarótum. Hlustum á andardrátt okkar.

Tölum fallega til okkar og annarra. Bæði upphátt og í huganum.

Óttumst ekki álit annarra, eða byggjum á því - því þá flýjum við okkur sjálf

Samþykkjum ekki neikvætt tal í okkar garð og stundum sjálfsskoðun

 "verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum" - friður, elska og jafnrétti

Íhugum það sem skrifað var í minningarbækurnar okkar sem börn;

"Lifðu í lukku en ekki í krukku - lifðu lengi en ekki í fatahengi" ..

 

----

Setningar úr "Kristur í Oss" 

Ég er   


Ein af bókunum sem ég hef lesið (og þær eru margar)   heitir "Kristur í oss" sem er skrifuð 1907 af ókunnum höfundi og þýdd af ókunnum þýðanda - dularfullt?  


Ég held að mér hafi þótt þessi bók svo góð vegna þess að ég kannaðist við svo margt í henni og var svo sammála mörgu.


Eftirfarandi eru nokkrar tilvitnanir sem ég skrifaði niður:
Að vera heilagur er að vera heill
Þar sem Guð er, þar eru engar takmarkanir
Heimurinn er hugsun Guðs
Biblían er stigi hinna dauðu kennisetninga, hinna dánu einstaklinga
Mannlegt mál er algjörlega ófullnægjandi til að túlka andleg sannindi (höf. tekur það fram í upphafi að bókin sé skrifuð með það í huga, að gera sitt besta en þessi takmörk séu fyrir hendi)
Sköpunaröfl eru ósýnileg - myndin á striga listamannsins er aldrei sú sama og kemur á strigann
Himnaríki er vitund um Guð, ekki staður
Kirkjur og kapellur eru aðgreiningarmúrar
Hlýddu andanum innra með þér
Láttu hjarta þitt vera fullt af Guði
Það er í hjartanu sem skilningurinn býr
Smámunasemi má ekki ná valdi á lífi okkar og taka stjórn
Hver einstaklingur skapar framtíð sína með hugsun sinni
Heilinn nærist af andanum
Leitaðu ekki elskunnar,  gefðu hana - það er næring
Bænin er andardráttur lífsandans
Það er röng afstaða að bíða eftir sælu í fjarlægri framtíð
Þegar þú biður fyrir veiku fólki sjáðu það þá heilt fyrir þér en ekki veikt  
Þú ert alltaf - og munt verða
Hið eina sem hefur hjálpað þér til æðri þekkingar á Guði hefur komið innan að
Hugsun er útöndun orðsins - Orðið er innra með þér
Þú ert, vegna þess að Guð er
Það er óttatilfinning sem skapar aðgreinandi múra
Sjáðu og viðurkenndu aðeins það góða í þínum nánustu - traust þitt á þeim skapar í þeim nýja von
Elskaðu af öllu hjarta, sál og huga og þér mun enginn hlutur ómögulegur
Kristur er uppspretta sem aldrei þrýtur
Við erum öll þríein og lifum á þremur tilverustigum, sviði andans, sálar og líkama
Leyndardómur við lestur Biblíunnar er innblástur (þinn eigin innblástur ekki þeirra sem skrifuðu)
Bækur skal nota sem farvegi
Eilífðin er núna
Kastaðu á djúpið,  djúpið er Guð
Hangið ekki við hlekkina, sleppið þeim
 
Ég er mikill inklúsívisti í hjarta mínu, þ.e.a.s. ég vil ekki útiloka nokkra manneskju - enda inklúsívismi andstæða exklúsívisma.  Með því að setja merkimiða á fólk, þá er hætta á að útiloka. Reynum því að komast hjá því eins og mögulegt er. 
 
Mín einlæg skoðun er sú að við eigum, hverju sem við trúum, eða trúum ekki,  að geta setið við sama borð og neytt saman matar þó við þurfum ekki á bragða á því sem hentar okkur ekki eða okkur þykir vont.  Borðið er gnægtarborð,  hlaðið mat úr öllum fæðuflokkum og eldað á alla mögulega vegu (eða hrátt) ..
 
Hver og ein/n þarf að velja það sem hentar honum/henni og við þurfum ekki að amast við jurtaætunni eða jurtaætan að amast við okkur.  
 
"Hvað með þá sem borða af hömluleysi eða borða ekkert eins og t.d. anorexíusjúklingar?" gæti einhver spurt.  
 
Á því þarf að taka eins og hverjum öðrum sjúkleika eða fíkn.
 
Líkingar hafa alltaf sín takmörk, en þessi líking fannst mér ná einna skást til að lýsa því hvernig mismunandi trúaðir/trúlausir einstaklingar eiga að geta lifað sem ein heild án þess að þurfa að byggja veggi sín á milli.
 
Ég er ekki á móti kirkjum eða samkomum yfirhöfuð - reyndar alveg öfugt.  Flest fólk er félagsverur og finnst oft gott einmitt að vera saman til að biðja, syngja eða hlusta á hugvekjur eða prédikanir.  Sumu fólki finnst styrkurinn aukast með því að deila saman rými, bænum og hugsunum sínum.  
 
Þegar talað er um að kirkur eða kapellur skapi múra, þá hlýtur það að vera í þeim tilfellum þegar að þeir sem innan "múranna" eru telja sig betri en þeir sem eru fyrir utan.  
 
Þetta snýst í raun um hugsanamúra.  
 
 "Þú ert vegna þess að Guð er" .. þetta er það sem höfundur segir og ég er sammála þessu, þ.e.a.s. "Guð er" .. en hvað segir þá sá eða sú sem ekki trúir á Guð?  "Ég er vegna þess að ég er"  .. það kemur á sama stað niður:   "Ego eimi" sagði Guð   "Ég er"..
 
Guð er í oss, en við erum ekki guðir - heldur dropar af Guði sama eðlis, enda sköpuð í Guðs mynd.

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér.

Steingrímur Thorsteinsson  

---

Sl. hvítasunnudag fórum við nokkrar konur saman í göngu í Nauthólsvíkinni, gengum í góða veðrinu meðfram ströndinni, sumar gengu lengra en aðrar, allt eftir getu. Önduðum að okkur sól og sjávarilm.  Við settumst svo niður í grænt grasið og ég leiddi þær í stutta hugleiðslu þar sem við köstuðum af okkur klyfjunum og hentum þeim alla leið í sjóinn.  (Lærði þetta hjá Maríu Ellingsen, taka svartan þungan stein úr hjartanu og setja þar sólina í staðinn).  Þegar við höfðum notið þess að sitja og spjalla smá stund, þá fórum við og fengum okkur kaffibolla og smá snæðing sumar. 

Fylltum lungu okkar af lofti, fengum sól á vanga og í hjarta. 

Þannig er kirkjan fyrir mér, í raun þarf ég ekki meira. - Hvernig og hvar ég ætla að láta jarða mig verður bara að koma í ljós síðar, "den tid den sorg" .. 

WizardHalo 


mbl.is Þjóðkirkjan glataði trausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Á meðan að manneskjan þekkir sjálfa sig, þekkir hún Guð. Guð bara ER og Guð er nafnlaus. :: mikið rétt, ég held að trú okkar sé svipuð og tilvitnun þín í ljóð S.TH. minnir mig svo á mömmu og hvernig hún kenndi mér fyrst og fremst að trúa á sjálfa mig. Ég hef aldrei íhugað í fullri alvöru að segja mig úr þjóðkirkjunni, fyrr en núna síðustu daga, kirkjan og prestar eru hættulegt bákn sem mætti sníða niður á við. sjáum hvað gerist

Ásdís Sigurðardóttir, 14.6.2011 kl. 13:31

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Góður pistill hjá þér Jóhanna, ekki síst vegna einlægni þinnar og hugrekkis til að tjá hug þinn. Á það skortir illilega hjá hinum "vígðu" prestum; Það er eins og þeir margir hverjir hafi vígst þögn og bókstaf órjúfanlegum böndum. Telji sig fremur þurfa að kenna fólki að "líða en að lifa" og í anda þjáningarsálma Hallgríms Péturssonar (eins og Vestur-Íslendingurinn sr. Friðrik Bergmann orðaði upplifun sína af trúarlífi Íslendinga árið 1900 er hann var hér í heimsókn).

Kristinn Snævar Jónsson, 14.6.2011 kl. 17:27

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Já, Ásdís, - ég verð að viðurkenna að ég var að vona eftir almennilegri hreinsun á þessu kirkjuþingi, en kirkjan virðist við sama heygarðshornið og aðrar stofnanir.

Ég hef skrifað mörg bréfin innan hennar og oft bara fengið kaldar kveðjur eða gert lítið úr mér, þó að við og við fái ég samþykki einhverra presta, um að bæta megi hlutina. Mér finnst nú bara toppurinn á ísjakanum upp úr, það er margt þarna sem þarf að athuga sem ekkert hefur verið í fjölmiðlum.  En ég ætla bara að gera eins og öndin núna, blaka vængjunum og fljúga burt. Ég er ekki skuldbundin að vera í Þjóðkirkjunni.  Ég held að margir hafi ekkert ósvipaðar hugmyndir um Guð og ég, - ég er reyndar búin að hugsa þetta svo svakalega djúpt og mikið og þetta er niðurstaðan í dag, hver sem hún verður á morgun. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.6.2011 kl. 17:49

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Kristinn Snær, ég skrifaði þetta í tveimur hollum og það kannski sést. En oft hef ég verið spurð út í mína guðsmynd og mína guðfræði og ákvað bara að láta vaða. Jesús er alveg partur af henni, en guðfræðin er bara mín guðfræði, - og eflaust eins og einhverra annarra.

Ykkur að segja þá upplifa prestar að þeir séu heftir, þeir hafi ekki frelsi til að tjá sig blessaðir.  Það er merkilegt samt, því að einlægur trúmaður sýnir ekki ótta, heldur hugrekki.  Ef þetta er spurning um afkomu þá er þetta bara byggt á sandi, en auðvitað verður fólk að lifa og sjá börnum sínum farborða.  

Það er talað um að prédika fagnaðarerindið, en einu sinni fór föðurbróðir minn heitinn, sem var prófessor í guðfræðideildinni með erlendan mann í messu og hann spurði "I this is preaching the Good News, how are your funerals"? .. 

Frekar heavy - a.m.k. í þeirri messu sem þeir fóru. Það er nú að færast smá gleði í þetta allt, en eflaust ekki nóg. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.6.2011 kl. 17:54

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ég er líka í miklum pælingum eins og þú kannski sérð hjá mér

Ásdís Sigurðardóttir, 14.6.2011 kl. 19:14

6 Smámynd: Skúmaskot tilverunnar

Það er gott að tileinka sér æðri mátt. Líka að læra og lesa um meðvirkni. Það sem mér finnst þó alltaf vanta hjá svo mörgum er reynslan - og reynslan er svo misjöfn að engin getur sett eitt dæmi yfir alla. Það er eitt sem ég veit. Enginn getur skilið nema hafa upplifað.

Skúmaskot tilverunnar, 14.6.2011 kl. 20:53

7 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Sæl Jóhanna - góð hugleiðing hjá þér og skemtileg lesning - ég gæti trúað að margir séu sama sinnis.........

Ég hef ekki sett samasem merki milli trúar og kirkju, að vísu er ég ennþá skráður í þjóðkirkjuna en hef vissulega íhugað alvarlega að skrá mig úr henni - þó er ekki víst að það skipti neinu máli, hún fær hvort eð er sína tíund af sköttum okkar..........

Eyþór Örn Óskarsson, 15.6.2011 kl. 18:22

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Eyþór, ég var að skrá mig í Fríkirkjuna í Reykjavík, upplifi það sem frelsi.

Sammála þér, Skúmaskot - Reynslan er besti kennarinn og enginn getur sett sig í spor annarra nema með reynslu. Ég er meistari í meðvirkni - svo ég get miðlað mikilli reynslu og er þakklát fyrir hana í dag, þó hún hafi gert líf mitt óþarflega flókið kannski, en ég skil tilganginn í dag. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.6.2011 kl. 19:21

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kíki á þig Ásdís!

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.6.2011 kl. 19:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband