"Ferðalagið frá Guði" ..

Nú fer ég að verða þreytt á þessum líkamsáróðri og verðmætamati út frá áferð húðar, nagla, litarháttar o.s.frv. 

Appelsínuhúð eða ekki appelsínuhúð - Sarah Jessica Parker getur varla átt sjö dagana sæla ef hennar gildi eða verðmæti er metið út frá lærunum á henni? 

Vel getur verið að hún sé farin að vega og meta sig út frá því sjálf. 

Þar sem líkaminn er farartæki okkar, er mikilvægt að huga að honum, fara vel með hann svo að allt virki og við komumst sem flestar "mílur" á honum.  Í því felst að sjálfsögðu að þrífa og bóna, en mikilvægast af öllu er að þykja vænt um hann hvernig sem hann er,  því að hann gengur bæði fyrir andlegu og líkamlegu bensíni. 

Ef það að vera ekki með appelsínuhúð er til að byggja einhvers konar traust fyrir manneskjuna er það ekki sjálfstraust, heldur einhvers konar annað-traust.  Eða eins og Pia Mellody höfundur bókarinnar "FACING CODEPENDENCE" kallar það Other-esteem.

Fólk sem byggir á Other-esteem byggir á utanaðkomandi hlutum eins og; 

Hvernig það lítur út

Hversu hár launaseðill þeirra er

Hverja þeir þekkja 

Á bílnum þeirra

Hversu vel börnin standa sig 

Hversu áhrifaríkur, mikilvægur eða aðlaðandi maki þeirra er

Gráðurnar sem þeir hafa unnið sér inn  (Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður) 

Hversu vel þeim gengur í lífinu þar sem öðrum þykir þau framúrskarandi 

 

Að fá ánægju út úr þessu, eða fullnægju er í fínu lagi, en það er EKKI sjálfstraust. 

Þetta Other-esteem er byggt á gjörðum, skoðunum eða gjörðum annars fólks. 

Vandamálið er að uppruni þessa Other er utan sjálfsins og því viðkvæmt vegna þess að það er eitthvað sem við getum ekki stjórnað.  Það er hægt að missa þessa utanaðkomandi hluti hvenær sem er, og því án okkar stjórnar og óáreiðanlegt - ekki gott að byggja sjálfstraust á einhverju sem getur horfið eða eyðst. 

Útlit okkar gerir það óumflýjanlega. Kjarni okkar er sá sami hvort sem við erum ung eða gömul, með gervineglur, botox, silikon, diplomur úr háskóla o.s.frv.   Hann er alltaf sá sami og nærist á því að við sættumst við okkur,  þekkjum og elskum okkur. 

Sjálfstraust okkar á ekki að byggjast á hversu vel barni okkar gengur í skóla, eða hvort að því gengur illa í lífinu. Það er það sem flokkast undir Other. 

Ef við lærum að við erum verðmæt og góð sköpun, hvernig sem við lítum út, hvernig sem börnum okkar farnast, þá náum við að hlúa að sjálfstrausti okkar og þá hætta utanaðkomandi öfl að þeyta okkur fram og til baka eins og laufblöðum í vindi. 

Þá náum við stjórn á okkur. Þannig virkar sjálfstraustið. 

Ef við látum umhverfið hafa svona mikil áhrif erum við meðvirk, og við erum það flest. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og reyndar eigum við að skammast okkar sem minnst, heldur hleypa tilfinningunum i þann farveg að vera meðvituð.  

Ef við gerum okkur grein fyrir því að það sem Sigga systir sagði í gær hafði svona neikvæð áhrif á okkur, eða það sem Óli bróðir sagði hafði svona góð áhrif kom okkur upp í skýin erum við meðvirk. 

Við látum umhverfið stjórna því hvort við erum glöð eða sorgmædd. 

Ég fór út í meðvirknivinnu vegna þess að ég var eins og laufblað í vindi, lifði til að þóknast.  En þegar upp var staðið var það til að þóknast öllum öðrum en sjálfri mér. 

"Hvað skyldi þessi segja ef ég .... "  Ætli þessi verði ánægð ef ég ... "  "Ég get ekki verið hamingjusöm nema þessi og þessi séu það líka.... " 

Hvað græðir barn í Biafra á því að lítil stelpa á Íslandi klári matinn sinn?  

Já, við lærðum þetta í bernsku. 

Við þorum ekki að vera glöð vegna þess að einhverjum öðrum líður illa, - eða hefur það ekki eins gott, hvað hjálpar það þeim?  

Að vilja gera lífið betra og setja lóð á vogarskálar hamingjunnar, byrjar hjá okkur.  Við erum dropar í þessum hamingjusjó og ef við ætlum að gera gagn og bæta sjóinn þá skulum við huga að okkar sjálfstrausti, okkar innra manni sem er verðmæt manneskja - hvað sem á dynur.  

Verðmæti okkar rýrnar aldrei. 

Sem fyrirmyndir þá höfum þetta í huga, börn þessa heims vilja sjá þig með gott sjálfstraust - elsku mamma, elsku pabbi, elsku afi, elsku amma, elsku frænka, elsku frændi.

Sjálfstraust er það mikilvægasta sem fólk hefur í lífsgöngunni,  því með gott og heilbrigt sjálfstraust getur þú gengið án þess að láta kasta þér til fram og til baka,  án þess að láta einelti hafa áhrif á þig. Án þess að gleypa agn veiðimannsins sem vill veiða þig á beitu og láta þig engjast á önglinum. 

Dæmi um slíkt er þegar einhver þarna úti pirrar þig og þú færð hann eða hana á heilann og þá ert það ekki þú sem ert við stjórnvölinn í þínu lífi lengur,  heldur sá eða sú sem þú vilt síst að sé það. 

Upphaf færslu minnar er því meðvirkni, ég læt umræðuna stjórna líðan minni,  EN með því að skrifa þennan pistil gerði ég mér grein fyrir því. LoL ... 

Meðvitund er það sem þarf og það þarf.  Sjálfsskoðun, sjálfsþekkingu og sjálfsfrelsun. 

Frelsun frá því að finnast það sem öðrum finnst.  

Þegar þú veist hvað ÞÉR finnst,  já þér og engum öðrum,  um sjálfa/n þig, þegar þú ert farin/n að samþykkja þig og þínar skoðanir,  standa með sjálfri/sjálfum þér  þá ertu farinn að uppgötva sjálfstraustið þitt. 

Geneen Roth segir frá því sem Súfistarnir kalla "Ferðalagið frá Guði" .. 

"Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.      
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr - er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum."

Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.

(Steingrímur Thorsteinsson) 

 Bottom læn: mér koma lærin á Söruh Jessicu Parker (eða einhverjum öðrum)  andsk... ekkert við


mbl.is Sarah Jessica Parker er ekki með appelsínuhúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þetta er fínn pistill hjá þér og skýr og skilmerkilegur... og mér er líka andsk... sama um lærin á öðru fólki 

Jónína Dúadóttir, 9.6.2011 kl. 08:38

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk elskan - andinn á fullu

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.6.2011 kl. 09:49

3 Smámynd: Frænkan

Gott!

Frænkan, 9.6.2011 kl. 14:07

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk!

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.6.2011 kl. 14:09

5 identicon

Heyrðu mig nú mín góða kona.

Ég fæ ekki betru séð af þessu öllu en lærin á henni Söru séu málið hver svo sem hún nú er.

Alfreð Dan Þórarinsson (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 17:39

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Kæra vinkona, þú ert eins og ávallt frábær.

Takk fyrir mig og góða Hvítasunnuhelgi Jóhanna mín

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.6.2011 kl. 18:29

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Alfreð, það sem ég er að vekja athygli á er að skilaboð sem verið er að senda konum endalaust er að þær séu ekki verðmætar nema appelsínuhúðarlausar, eða eitthvað í þeim dúr.  Hin unggæðislega fegurð fölnar, öll fáum við hrukkur og flestar appelsínuhúð - en það rýrir ekki gildi okkar.

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.6.2011 kl. 20:06

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk sömuleiðis Milla!

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.6.2011 kl. 20:06

9 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Sæl Jóhanna - góður pistill eins og vanalega, en eigum við að skoða þetta líka frá hinni hliðinni líka ????

Umrædd kona er leikkona og sem slík þarf hún væntanlega að viðhalda ímynd sinni, ef einhver heldur því fram að þessi ímynd sé að fölna - er það meiriháttar skellur fyrir sjálfstraust hennar.........

Hún þarf ekki að vera verri manneskja fyrir það og við erum það ekki heldur þó við eldumst - engu að síður getur það hjálpað sjálfstrausti okkar að líta vel út, ekki satt.....

Eyþór Örn Óskarsson, 10.6.2011 kl. 01:45

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ástæðan fyrir minni gagnrýni er að ungar konur (og eldri)  vega gildi sitt, verðmæti sitt sem manneskju eftir t.d. hvort þær eru með appelsínuhúð eða ekki, hvort þær eru með stór eða lítil brjóst, hvort þær eru með ekta eða gerfineglur, og ungar konur ganga á 10 cm háum skóm með mjóum tám, sem þær kveljast í - til að hafa þessa ÍMYND. 

Það em Pia Mellody er að benda á er að það er ekki sjálfstraust, heldur eitthvað annað traust, - sumir myndu segja að það væri falskt sjálfstraust, vegna þess að það er byggt á hverfulum grunni. 

Þú hittir naglann á höfuðið þegar þú skrifar "hún er ekki verri manneskja fyrir það" BINGÓ - hún er nefnilega ekki heldur betri manneskja fyrir það.

Það sem gerir okkur betri eða verri kemur appelsínuhúð, útliti eða aldri ekkert við. 

Páll Óskar syngur - ég er eins og ég er hvernig á ég að vera eitthvað annað. Hann er ekki að syngja um glimmerfötin sín, þau eru bara auka.  

Við erum ekki fötin okkar, við erum ekki krumpurnar á húðinni okkar, við erum ekki bíllinn okkar, við erum ekki háskólagráðurnar okkar. 

Við erum verðug sem manneskjur "no matter what" .. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 10.6.2011 kl. 07:53

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég er ekki að gera lítið úr nauðsyn hins ytra,  bara að draga fram absúrdismann þegar að farið er að vega gildi manneskju, eftir utanaðkomandi hlutum.  

Heimurinn þrífst á því að hafa fjölbreytileika og að við höfum mismunandi hlutverkum að gegna en allir eru jafn gildar manneskjur. 

Ef við tökum fyrirtæki sem dæmi;  þar vinnur forstjóri, framkvæmdastjóri, almennt skrifstofufólk, gjaldkerar o.s.frv.  en þar vinnur líka fólk við að þrífa sem er yfirleitt litið sem ómerkilegra starf en forstjórastaða. 

Manneskjan sem þrífur er jafn verðmæt manneskja og forstjórinn, og út frá því á hún skilið jafn mikla virðing og forstjórinn. 

Sjálfstraustið á að koma fyrst og svo allt hitt í plús, okkur líður að sjálfsögðu betur þegar við höfum lokið við ákveðna gráður, sigrast á erfiðleikum, keypt okkur fallega peysu,  erum hrein pússuð og falleg,  en traustið sem þá kemur er þetta "Other esteem"  

Sjálfstraust byggjum við upp innan frá, með sjálfsþekkingu, vita hvað við viljum, vita hvernig okkur líður.  Að vera með sjálfum okkur og samþykkja okkur - ALLTAF. 

Menntun getur svo sannarlega stuðlað að því að við þekkjum okkur betur sjálf, en hún er langt í frá trygging fyrir því. 

Að elska sjálfan sig er grunnur fyrir sjálfstrausti, að finnast maður vera nóg. Það er grunnurinn. 

Mæli með hlustun á Eckhart Tolle í þessu sambandi. 

-You are loved- 

Jóhanna Magnúsdóttir, 10.6.2011 kl. 08:10

12 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Ég er algjörlega sammála þér varðandi manngildið, við erum öll miklvæg og skúringakonan og kolakarlinn skipta ekki minna máli í fyrirtækinu heldur en forstjórinn - hinsvegar er jú hefðin sú að forstjórinn hefur örlög þeirra í hendi sér en ekki öfugt og er það vegna þess að hann hefur og sýnir meira sjálfsöryggi.........

það sem ég er að reyna að segja að sá sem lítur betur út hefur í flestum tilfellum meira sjálfstraust og sjálfsálit heldur en hinn..........

þar með er ég ekki að halda því fram að skúringakonan og kolakarlinn séu neitt verri en forstjórinn og geta vissulega skilað sínu starfi jafnvel (og jafnvel starfi forstjórans)........

það að líta vel út eykur sjálfstraustið hjá flestum (sumum er alveg sama og hafa sitt sjálfstraust óháð ytri umgjörð, sem er vel) - hinsvegar er það lenska að meta fólk meira aftir ytra útliti heldur en hjartalagi - ég vil þakka þér fyrr að koma þessu máli í umræðuna - ég hef eins og þú hefur eflaust orðið vör, svolítið gaman af því að mögla og reyna að draga fleiri hliðar inn í myndina, það þýðir ekki það að ég haldi að ytra útlit skipti aðalmáli, en ég er viss um að það hjálpar mörgum að byggja upp raunverulegt sjálfstraust..........

Eyþór Örn Óskarsson, 10.6.2011 kl. 12:48

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Best af öllu er að líða vel í eigin skinni og vera sáttur, það toppar allt.

Ásdís Sigurðardóttir, 10.6.2011 kl. 12:49

14 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Þessi stutta setning sem þú setur inn "-You are loved- " er mjög gott innlegg í uppbyggingu sjálfstrausts..........

Eyþór Örn Óskarsson, 10.6.2011 kl. 15:56

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"You are loved" er lykilsetning - því að þegar við treystum því að við séum elskuð, og elsku verð, erum við farin að komast nær sannleikanum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.6.2011 kl. 07:13

16 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Flyt umræðuna yfir á næsta blogg; - blogg um You are loved -

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.6.2011 kl. 08:21

17 identicon

Frábær pistill, Jóhanna.  Ekki síst upptalningin: útlit...launaseðill...hvernig börnunum gengur.  Þessi listi inniheldur ýmislegt sem kemur á óvart.  T.d. þetta með börnin.  Þó flestir viti að útlit og laun séu ekki mælikvarði á sjálfstraust, er annað með börnin.  En þetta er svo rétt hjá þér.  Börnin veita manni mikla hamingju og gleði, en ef sjálfstraust foreldra byggir á því hvernig börnunum gengur, er undirstaðan ótrygg.  Börnin geta þá fundið kröfuna um að þeim verði að ganga vel.  Þetta hefur slæm áhrif á samskipti foreldra og barna.

Anna Ragna (IP-tala skráð) 11.6.2011 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband