17.5.2011 | 07:51
Hænur hafa ekki val ...
Ég hef verið að íhuga hvers vegna við; manneskjan í vestrænu nútíma þjóðfélagi, værum svona miklir neytendur. Já neytendur og þá þiggjendur í leiðinni. Jafnframt hef ég íhugað hvers konar neysla er í gangi og hver sé orsök hennar. Tímarnir hafa breyst og við þurfum að fylla í tóm-stundirnar okkar.
Ég tel að ákveðið tómarúm hafi myndast í "velmeguninni" og um leið í vanlíðaninni. Í vanlíðan höfum mið mikla þörf fyrir að "gleðja" okkur með ýmsum hlutum eða með að drekka eða borða of mikið. Þá erum við ekki að eignast hluti eða borða vegna þess að við erum í raun svöng, eða að okkur vanti eitthvað nauðsynlega. Við erum að seðja hinn vanlíðandi einstaklng. Að seðja þann sem þjáist.
Vandamálið er að við verðum ekki södd af þessu, hvorki andlega né líkamlega. Þetta er í raun eins og að missa piss í skóna, stundarfriður og ekkert meira og meira að segja er stundarfriðurinn oft blendinn því að þegar við erum að næra þessa vanlíðan (og undir niðri vitum við að við erum að gera það) þá erum við full af skömm eða samviskubiti.
"Æ, ég veit ég á ekki að borða yfir mig"
"Ferlegt vesen - ég ætlaði ekki að borða allt þetta súkkulaði - snakk - brauð ..." eða hvað það er sem þú VEIST að er þér óhollt til langs tíma litið.
"Úff, mér líður nú bara illa eftir þessar fréttir" ..
"Ojbara - hvað þetta var viðbjóðslegur karakter í þessari mynd" ..
"Ég ætla að fela þessa skó, segi engum frá því að ég hafi eytt öllum þessum peningum og ég hafði ekki efni á því" .. eða "á þúsund pör fyrir heima" ...
Allt er þetta dæmi um manneskju sem er að myndast við að næra eitthvað. Í raun er hún að næra vanlíðan sína. Það skiptir ekki máli hvort hún er rík eða fátæk.
Til þess að átta sig á því hvernig okkur líður í raun, skiptir máli að vera viðstödd sjálfa/n sig. Vera með andlega nærveru við sjálfan sig. Leita inn á við og leita sátta við þessa í raun dásamlegu veru sem þú ert.
Sættast við sig, bera virðingu fyrir sér, bera virðingu fyrir náunganum. Slúður og baktal er eitt form slæmrar neyslu, sú næring er ekki uppbyggileg fyrir neinn.
Uppbyggileg er mikilvægt orð í þessu sambandi. Við erum að vaxa, þroskast, dafna ..
Í dag er mikið talað um lífrænt ræktaðan mat. Dýr sem alast upp við gott fóður og góð skilyrði gefur mun hollara kjöt af sér - og mun hollara fyrir okkur að snæða.
Ef við hegðum okkur eins og hænur í búri sem fá tilbúið fóður, erum heft í búrunum (af okkur sjálfum) þá endum við sem slæmar og óhollar hænur.
Hænur sem fá að vappa úti í sólarljósinu - nú eða í rigningunni, gefa af sér "hamingjuegg" og stundum kallaðar hamingjuhænur.
Munurinn á mönnum og hænum, er m.a. sá að við höfum val, við getum útbúið okkur nokkurs konar "Rimla hugans" eins og Einar Már rithöfundur kallaði það í bókartitli sínum. Við getum boðið okkur upp á myrk og aðþrengd búr og vont fóður sem fitar okkur hratt og vel. En við getum líka valið að sleppa rimlunum, frelsa hugann og næra okkur með góðu fóðri.
Við erum heppin að vera ekki hænur!
Hófsemd er orð sem Íslendingum er ekki sérlega tamt, ekki mér heldur, en hefur verið mér hugleikið undanfarið.
Allt sem er "of" eitthvað er yfirleitt vont. Ofát, ofneysla. "Öfga" eitthvað er líka vont, og talað um að fólk sveilist öfganna á milli.
Dæmi um slíkt eru blessaðir megrunarkúrarnir. Þess vegna eru þeir slæmir, því að þeir stuðla að öfgum á milli. Jójó þyngd.
Meðvitund er annað lykilorð, að gera sér grein fyrir hvenær maður er raunverulega saddur, hvenær maður þarf á nýjum skóm að halda. Hvenær maður hefur fengið sér nóg í glas o.s.frv.
Til þess að átta sig, þarf maður að þekkja sjálfa/n sig, átta sig á sjálfri/sjálfum sér. Sjálfsþekking fæst með því að spyrja sig spurninga, skoða hvað er ysta lagið og hvað er í innsta kjarna.
Það er talað um að við flysjum laukinn og komumst þannig að kjarnanum. Það fara nú margir að gráta við það og það er bara eðlilegt og allt í lagi. Það er líka gott að ræða við einhverja nána, vini og vandamenn og biðja þá um að vera heiðarlega í okkar garð.
Þegar við áttum okkur á sjálfum okkur, rótinni fyrir því að við sækjum í hina og þessa neysluna, þráhyggjuna eða hvað það nú er sem er ekki að virka uppbyggilegt, getum við farið að vinna í uppbyggingunni.
Það er stundum kallað að viðurkenna vanmátt sinn. Vanmátt gegn hinu og þessu.
Að viðurkenna vanmátt sinn er um leið hugrekki og styrkleikamerki, þó það virki þversagnarkennt. Það er sterkara að lifa í sannleika en í blekkingu.
Það þýðir heldur ekki að við séum ekki verðugar og góðar manneskjur. Það þýðir að við erum tilbúin að takast á við að eiga gott líf. Veita okkur lífsfyllingu sem nærir, en ekki fylla tómið inni í okkur með rusli.
Dæmi um nærandi lífsfyllingu:
- samvera með maka (sem er æskilegt að sé á sömu línu og maður sjálfur)
- samvera yfirleitt, með börnum, fjölskyldu, vinum. - með sjálfum sér og Guði.
- alls konar list, bæði að þiggja og skapa - uppbyggileg sköpun
- hrós
- hlátur
- lestur
- matur með góðri næringu sem borðaður er við góðar aðstæður (ekki fyrir framan ísskápinn)
- göngur, fjallgöngur, ferðalög,
- spila spil
- dansa
- syngja
- leika
- skrifa
- teikna
- hugleiða
- að hanna fallegt heimili
- að vera í náttúrunni
- að þakka hið hversdagslega - það sem við venjulega lítum á sem sjálfsagðan hlut
- o.fl. o. fl....
Við verðum að hafa í huga að fara ekki út í öfgar, hvorki of né van. Finna hvenær er komið nóg, finna hvenær vantar. Skalinn er 1-10, hvar erum við stödd á hungurskalanum, bæði hvað mat og aðra neyslu varðar.
Það er mikilvægt að átta sig á því hvað er það sem veitir manni í raun lífsfyllingu, sátt, hamingju og gleði.
Á listanum hér fyrir ofan er mikið talað um samveru, margir eru einmana, einangraðir og finnst það bara ekkert gott. Það er afleiðing þess þjóðfélags sem við lifum í, þó að við vildum eflaust ekkert okkar skipta við þá sem lifðu hér á Íslandi á tímum baðstofulofta þá var fólkið a.m.k. saman. Fjölskyldur þurfa að huga að því að tengjast betur, vinir að huga að vinum sínum. Sjálf er ég oft einmana og hef hugsað til allra hinna sem eru einmana - að mynda vinabönd við annað einmana fólk, og vonandi finn ég aðferðafræðina við það. Það skal tekið fram að við getum svo sannarlega líka verið einmana með fullt af fólki og í hjónabandi jafnvel, ef fólk nær ekki góðu sambandi við hvert annað.
En auðvitað er þar meðalhófsreglan sem gildir líka, okkur þykir stundum gott að vera ein, í friði - það má bara ekki vera "of" .. Fólk þarf að koma út úr einmana skápnum, eða einangraða skápnum, kannski verður til félagsskapur EA og þá verður fólk "einmana i bata" ? .. Hvað veit ég? ..
Gott er að spyrja sig hvar við erum stödd, hvers konar neytendur erum við og hvers konar neitendur líka kannski? Erum við að afneita sjálfum okkur? Það er pæling. Æfum okkur í að segja:
Ég er verðug/ur, ég er elsku verð/ur.
Byrjunin er að taka sjálfan sig í sátt, elska og virða ... svo kemur hitt allt í kjölfarið.
Athugasemdir
Já ég er heppin að vera ekki hæna
Þú ert snillingur
Jónína Dúadóttir, 17.5.2011 kl. 08:04
Hahaha, ég líka - þó ég detti stundum í þann gírinn að vera bara í búrinu!
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 08:18
Guð, í hjarta mér og alls staðar
Þú ert frábær
gerðu heiminn góðan
eins og þú vilt, fyrir líkama minn og sál
Gefðu mér athygli og næringu á hverjum degi
Fyrirgefðu mér þegar ég geri rangt
og kenndu mér að þiggja gjöfina að geta fyrirgefið öðrum
Vektu mig til umhugsunar um hið góða og haltu mér frá því vonda.
Því að þú ert alheimurinn, elskan og gleðin, alltaf,
Amen.
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 09:52
En ... bíddu ... hvað gerir hæna í veröld sem er full af minkum? Er þá ekki betra að vera í búri?
Óli minn, 17.5.2011 kl. 23:41
Frábærar pælingar Jóhanna, gaman að lesa bloggið þitt, takk fyrir mig, kv. Sigga
Sigríður Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2011 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.