14.5.2011 | 18:00
"Jesús er besti vinur banana" ..
Nei, það vantar ekki - r - í fyrirsögnina, litla fjögurra ára systurdóttir mín horfði "óvart" á sunnudagaskólaþátt heima hjá sér og hefur ekki stoppað að syngja um Jesú sem sé besti vinur banana. Hún náði þessu ekki alveg með "barnanna." En það er auðvitað bara sætt.
Þegar ég var barn (ekki banani - enda hef ég aldrei verið það) hélt ég að allir væru að synda í höfninni þegar ég endaði bænina kvöldbænina mína "allri synd ég hafni" ..
Þekktur er misskilingur um að setja ost í frysti sem er misheyrt: "Leið oss eigi í freistni" ..
Það er vor; - "Faðir vor"...
Einn pjakkur fór svo með allt Faðirvorið í kirkjunni ásamt söfnuði og presti, og þegar allir höfðu sagt Amen og þögn sló á kirkjugesti, heyrðist í stráksa "og farðu svo að sofa" .. en hann hélt það væri endirinn á bæninni.
Mörg börn hafa eflaust séð fyrir sér nautgripi, þegar var verið að tala um skuldunauta! Hvernig eru svona skuldunaut?
Það er ekki bara trúarlegur texti sem börnin mistúlka:
Ég held ég hafi áður sagt frá því á blogginu þegar sonur minn spurði mig hvernig það gætu verið tær á himninum. "Himininn heiður og tær" söng mamman.
Annar lítill pjakkur horfði upp í himininn á sínum tíma og spurði mig hvernig fólk færi að því að sjá Fílamanninn í regnboganum! ... en myndin Fílamaðurinn var einmitt sýnd i kvikmyndahúsinu Regnboganum.
Svona má lengi telja - en þetta er svona það sem ég man í fljótu bragði. Kannski kunnið þið sögur af álíka.
Flokkur: Spaugilegt | Facebook
Athugasemdir
Ung hnáta mér nákomin bunaði út úr sér heilaræðavísu Hallgríms: Ungum er það allra best að óttast guð sem hnerra. Þeim mun viskan veitast mest og verða aldrei verra. -- Sjálfur átti ég framan af árum í töluverðu basli með að fá skýringu á Himnaranum: tunglið má ekki takann Óla til sín upp í Himnarann.
Skemmtileg upprifjun, Jóhanna.
Sigurður Hreiðar, 14.5.2011 kl. 20:03
Eigi gleym þú ost í frysti.
Jens Guð, 14.5.2011 kl. 23:17
þegar að frændi minn sem er svolítið einhverfur fermdist, spurði presturinn krakkana hvað þau héldu að verið hefði á boðstólum á síðustu kvöldmáltíðinnin, einn var fljótur að svara:" Lærisneiðar", svaraði hann að bragði, en orðið lærisveinar hafði eitthvað skolast til hjá honum.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.5.2011 kl. 00:04
Dóttir mín var rosalega sár, eftir að hún fór að ganga til prestsins fyrir fermingu. Ég tímdi nefnilega aldrei að leiðrétta hennar daglega faðirvor sem innihélt, eigi leið þú asna í friestni.
Verð að viðurkenna að ég var einhversstaðar milli tvítugs og þrítugs þegar ég áttaði mig á því að Öxar við ána, var ekki maður að höggva við, með exi, við á.
Bergljót Gunnarsdóttir, 15.5.2011 kl. 03:27
"freistni" auðvitað
Bergljót Gunnarsdóttir, 15.5.2011 kl. 03:30
Góðan dag!
Þakka ykkur innilega fyrir skemmtileg dæmi - Sigurður, Jens, Rafn og Bergljót - ég kem örugglega til með að halda þessu til haga og nota ykkar dæmi líka. Bæði gaman að lesa um misskilninginn og hvað maður í raun sér fyrir sér, þegar texti er lesinn.
Jóhanna Magnúsdóttir, 15.5.2011 kl. 07:27
P.s. það vantar alveg svona "Like" takka á athugasemdir ;-) en þið fáið stóran læk!
Jóhanna Magnúsdóttir, 15.5.2011 kl. 07:33
Lítill frændi dottaði í messu en hrökk upp og spurði forviða "Pósturinn Páll???" þegar presturinn fór að tala um nafna hans postulann. Svo var það vinur minn sem heyrði bara " eldvarnar-hátíðin mest" í einhverjum jólalagatexta Helgu Möller. Sjálfur vildi ég sem barna gjarnan fara út í Kyrrsey þarsem allir voru jarðaðir.
lalli (IP-tala skráð) 15.5.2011 kl. 07:36
Takk Lalli!
Jóhanna Magnúsdóttir, 15.5.2011 kl. 08:05
Ég var eitthvað um 5 ára þegar Kristján Eldjárn var kosinn forseti og heyrði eitthvað útundan mér að einhver var að tala um þennan "nýbakaða" forseta.
Ég var lengi á eftir að velta því fyrir mér hvernig og hversvegna forsetar væru bakaðir og man að ég sá fyrir mér einhvern standa fyrir aftan forsetann og rúlla kökukefli eftir bakinu á honum.
Einar Steinsson, 15.5.2011 kl. 11:05
Takk Einar!
Ég var að fá eitt nýtt dæmi inn á Facebook, en það var barn sem sagði "að ólífu amen" ..
Jóhanna Magnúsdóttir, 15.5.2011 kl. 11:20
Pældi mikið í þessum skuldunautum sem barn. Langaði að bragða skuldunautahakk, en var viss um að það væri illfáanlegt þar sem maður átti að fyrirgefa þeim öllum svo rosalega mikið.
Það þarf annars ekki börn til að verða eins og spurningarmerki í framan yfir öllum þessum möntrum. Ég undrast t.d. enn yfir því af hverju við þúum guð en þérum okkur sjálf í faðirvorinu.
Annars finnst mér þessi með póstinn Pál vera krúttlegastur og sé hann alveg fyrir mér og er enn að flissa yfir þessu.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.5.2011 kl. 15:54
Þegar ég var lítil var dálkur í útvarpsauglýsingum sem hét "frá hinu opinbera".
Mér heyrðist þulurinn hins vegar alltaf segja "Þráinn opinberar". Ég var svo ljónheppin að eiga marga bræður og uppeldisbræður sem voru nokkru eldri en ég og voru sumir þeirra stundum að opinbera (trúlofanir). Ég velti því oft fyrir mér af hverju hann Þráinn væri alltaf að opinbera og hvort þetta væri alveg í lagi, hvort hann mætti alveg opinbera svona oft.
Í seinni tíð hef ég líka oft mislesið skilti dálítið skemmtilega, samanber S.K.-Verktakar sem urðu S.Kverktakar... Og er þó allvel læs...
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.5.2011 kl. 16:00
Þetta með eldvarnarhátíðina hjá Lalla er ekki nein tilviljun. Þaðð eru fleiri sem hafa heyrt þetta svona, það get ég vitnað um.
Þetta er svona eins og "Walking in a windproof underwear...." sem maður heyrir um hver Jól.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.5.2011 kl. 16:03
Þetta blogg og athugasemdirnar er bara orðin jákvæðasta og skemmtilegasta lesning sem maður hefur séð lengi..........
Eyþór Örn Óskarsson, 15.5.2011 kl. 16:12
Ég man eftir frétt í úvarpinu um ístru flanir í Þjórsá.
Bergljót Gunnarsdóttir, 15.5.2011 kl. 18:13
Og svo er það skrýmslið Meinvill sem lá í myrkrinu (og hræddi börnin) samkvæmt jólasálminum Heims um ból...."Meinvill í myrkrunum lá" -
þórhallur heimisson (IP-tala skráð) 15.5.2011 kl. 19:41
Jónína Dúadóttir, 15.5.2011 kl. 19:48
Spilaklúturinn hennar mömmu, þær spiluði Bridge vikulega, og svo að lokum hann Skúli fúli (skúripúlver). Það er margs að minnast, og allt sem hér hefur verið skrifað hefur vakið upp margar skemmtilegar endurminningar og fyllt þennan dag af gleði í mínum huga.
Bergljót Gunnarsdóttir, 15.5.2011 kl. 19:58
Þakka frábær viðbrögð! - Hláturinn lengi lifi. Börn og misskilnngur - og reyndar fullorðnir og misskilnigur getur verið mjög fyndið. Kannast einmitt við það sjálf að lesa rangt á skilti svona eins og Nanna.
Ég kannast við skrímsliði Meinvil - úff, lá þarna með glyrnurnar í myrkrinu!
Takk þið öll fyrir skemmtilegar viðbætur, .. ég á eftir að halda upp á þetta!
Jóhanna Magnúsdóttir, 16.5.2011 kl. 07:08
?""syfjuð mær, sofnuð sól" söng dóttir mín þegar hún söng Heims um ból ca. 4 ára fullum hálsi fyrir jólin .."
Fékk þennan á Facebook ;-)
Jóhanna Magnúsdóttir, 16.5.2011 kl. 08:43
Ég Rússa lem, söng mamma mín hástöfum í sunnudagaskólanum hjá séra Friðiki í KFUM þegar hún var barn ca. 1918 - ´19.
Bergljót Gunnarsdóttir, 16.5.2011 kl. 10:59
:) þú ert yndi
Ásdís Sigurðardóttir, 16.5.2011 kl. 11:06
Takk fyrir þetta, hafði mjög gaman af :)
Mofi, 16.5.2011 kl. 16:57
Þegar ég var þriggja ára bjó ég á Óðinsgötu 26. Ef ég var spurður hvar ég ætti heima sagðist ég eiga heima á skötu sess. Ég man eftir þessu og ég man að ég sá fyrir mér að seinnihluti orðsins Óðinsgata hefði eitthvað með fiskinn skötu að gera.
Svo er það auðvitað faðirvorið. Ég botnaði aldrei neitt í hvað þessi texti ætti eiginleg að þýða. Þessi skuldunaut og allt það. Það hefði þurft að snara þessu yfir á nútíma Íslensku.
Theódór Gunnarsson, 17.5.2011 kl. 08:26
Takk þið öll, ég Rússa lem - ég var smá tíma að ná tengingu við Jerúsalem!
Takk Mofi.
Já Theódór, - þetta er góð hugmynd með faðirvorið! ..
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 08:49
p.s. Takk sömuleiðis Ásdís ;-)
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 08:49
Mikið er ég annars glöð að sjá að húmorinn nær inn í "heitar umræður" á blogginu og sameinar okkur hvar sem við erum stödd í lífinu.
Húmorinn lengi lifi!
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 08:52
Guð, í hjarta mér og alls staðar
Amen.Þú ert frábær
gerðu heiminn góðan
eins og þú vilt, fyrir líkama minn og sál
Gefðu mér athygli og næringu á hverjum degi
Fyrirgefðu mér þegar ég geri rangt
og kenndu mér að þiggja gjöfina að geta fyrirgefið öðrum
Vektu mig til umhugsunar um hið góða og haltu mér frá því vonda.
Því að þú ert alheimurinn, elskan og gleðin, alltaf,
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 09:54
Bráðskemmtilegur þráður. Vona að hann lifi sem lengst og legg til málana söguna af litla stráknum sem söng alltaf með "Komdu Hilmar ... komdu Hilmar" ... þegar hann heyrði lagið "Konur ilma" með Nýdönsk).
Óli minn, 17.5.2011 kl. 11:53
...
Jóhanna Magnúsdóttir, 17.5.2011 kl. 13:52
Litli frændi vildi vita hvort kartöflumús væri nokkuð gerð úr alvöru músum. Stuttu síðar hafði hann þungar áhyggjur af að kartöfluflögur væru gerðar úr alvöru flugum.
Svo tók hann upp nashyrninguna til að skipta um stöðvar í sjónvarpinu.
Páll (IP-tala skráð) 18.5.2011 kl. 00:38
Hitti einu sinni lítinn strák á förnum vegi, á annan í jólum. Hann stóð upppuntaður fyrir utan húsið sitt og beið. Ég spurði hvaða ferðalag væri á honum og svarið var - "Við erum að fara í jólatilboð."
Bergljót Gunnarsdóttir, 18.5.2011 kl. 10:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.