11.5.2011 | 07:52
Elsku 16 ára ég ...
Þegar ég var barn starfaði mamma í Sundhöll Reykjavíkur og ég varði þar löngum stundum, ýmist ofan í lauginni eða uppúr. Finn eiginlega klórlykt þegar ég skrifa þetta.
Ég á margar minningar úr Sundhöllinni, man eftir konunum sem unnu með mömmu, ein tók mig í kleinu (sem mér fannst ekki leiðinlgt) og önnur heklaði föt á dúkkuna mína. Þær voru allar góðar við mig. Ég man minna eftir körlunum sem unnu þarna, nema kannski þeim sem fylgdist með mér, þegar ég sex ára synti 200 metrana í djúpu lauginni og fékk 200 metra merkið. Ég stökk á litla brettinu og ég meira að segja (held samt bara einu sinni) stökk á því stóra. Það var eitt af mestu afrekum lífs míns og skrifaði ég heila prédikun um það á fullorðinsárum.
Hún var um það að "Geta, ætla og þora" - en úff hvað mér fannst það hryllilegt. Ég hef á fullorðinsárum reynt þetta, en bakkað. Að stökkva af háum palli eða bretti í vatn er eitthvað sem fær mig til að kitla í magann án þess að gera það! Læt það duga. Nóg að hafa farið eins og brjálæðingur í brattar og snúnar túburennibrautir í Flórídavatsngörðum. Það verður að duga.
En í sundhöllinni var siður að reka upp úr. Einn af vörðunum flautaði í flautuna sína og þá þurftu allir að fara uppúr. Raða sér meðfram veggjum. Ég settist venjulega á syllu við einhvern ofninn og skalf. Svo var rekið upp úr, því að tímaklukkurnar í afgreiðslunni gáfu til kynna að ákveðinn hópur var runninn út á sínum tíma. Verð að játa, hér og nú, að ég fiktaði stundum í þessum klukkum þegar ég var að "aðstoða" mömmu í vinnunni- og hef eflaust ruglað tímanum fyrir einhverjum! En svona almennt var kerfið réttlátt, þó sumir mölduðu í móinn að þurfa að fara upp úr. það varð að hleypa fleirum ofan í, ekki réttlátt að sama fólkið fengi að leika allan daginn og aðrir fengju ekkert að fara ofan í og spreyta sig í sundi, á bretti eða fara upp á svalirnar og viðra sig. Það var enginn heitur pottur þá.
Mér datt þessi upp úr rekstur í hug um daginn þegar ég var að hugsa um lífið og dauðann. Þegar okkar "tími" er kominn þá erum við rekinn upp úr. En það er þetta órétlæti þegar einhver fær ekki að vera fullan tíma sem við eigum erfitt með að gúddera. Einhver bara nýkominn ofan í og þá flautaður upp úr. Ætli einhver sé að fikta óvart í tímaklukkunni þeirra?
Ég er nú ekkert að hugsa um dauðann svona dags daglega, nema nýlega horfði ég á þetta myndband, "Dear 16 year old me" þar sem verið var að tala um hættuna af melanoma, sem er illkynja krabbamein og kallað sortuæxli á íslensku. Það þyrmdi svolítið yfir mig, þar sem ég fékk "smá" svoleiðis fyrir rúmum tveimur árum, en var ekki "rekin upp úr" .. slapp fyrir horn, eða "rosalega heppin" eins og læknirinn orðaði það. Aftur á móti á ég vini, vinkonur og frændfólk - og svo er bara fólk út um allt, sem hefur ekki veið heppið. Rekið upp úr allt of snemma. Ég fór líka að hugsa um þá sem ég hafði misst.
"Elsku 16 ára ég, þú ert með viðkvæma húð, farðu varlega í að láta sólina steikja þig þú gætir brunnið illa og það haft slæmar afleiðingar. Notaðu sólarvörn og þegar ljósalamparnir koma, slepptu því þá. Elskaðu þig eins og þú ert, skinnið þitt eins og það er. Þú ert nefnilega dásamleg. Allur húðlitur er fallegur, og freknurnar sætar og eru hluti af þínum karakter (í bland við útstæðu eyrun, sem ég hef reyndar aldrei verið ósátt við)".. Þetta hefði ég getað sagt við elsku 16 ára mig, og þar að auki hefði ég sagt: "Gildi sálar þinnar er ekki metið eftir húðlit eða þyngd líkama þíns, stærð læra eða brjósta. Þú ert verðug manneskja, og eins og allar manneskjur fæddar í þennan heim áttu allt gott skilið."
Það sem ég fékk út úr þessu:
Þakklæti fyrir líf mitt, tækifærið fyrir að lifa áfram og hvatningu til að lífinu til fulls (en ekki hálfs). Hvatningu til að lifa lífinu ekki einungis fyrir mig, heldur einnig fyrir þau hin sem eru farin. Það er eiginlega óvirðing við þau að gera það ekki.
Ég í fangi pabba (Magnúsar) og er þarna yngri en svo að ég sé byrjuð að stunda "afrekssund" Hulda Kristín systir og Bjössi (Björn) bróðir, mamma svo falleg. Tvö yngri systkini komu síðar, Binni og Lotta. (Brynjólfur og Charlotta Ragnheiður). Mamma (Valgerður - alltaf kölluð Vala) og pabbi eignuðust fimm börn á 12 árum, og pabbi lést síðan frá barnahópnum þegar sú yngsta var 8 mánaða.
Minningin um hann hefur samt verið ótrúlega mikill styrkur í gegnum lífið. Við systkinin höfum alltaf þjappað okkur þétt saman og má segja að við elskum hvert annað skilyrðislaust, sem er mikil gæfa.Mamma náttúrulega hálfgerð ofurhetja að koma okkur "til manns" eftir hennar hremmingar.
Ég má leika mér í lauginni, stökkva af brettunum og á að gera það. Ég á ekki að sitja á bakkanum og skjállfa og bíða þess að vera rekin upp úr. Auðvitað kemur að því einn daginn að flautan gellur, en "den tid den sorg"...
En umfram allt virðum það líf sem okkur er gefið, líkama og sál með því að fara vel með okkur, njótum og leikum - verum saman.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:55 | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill að vanda Jóhanna mín. Og sannur, ég held að við höfum sjálf valið þann tíma sem við ætlum að dvelja í lauginni, því það er svo skrýtið hvernig sumir komast af við ótrúlegar aðstæður, og aðrir sem virðast bara fara út af svo ótrúlega litlu, einnig er eins og sumum sé haldið frá slysum, og aðrir eru óvart á staðnum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.5.2011 kl. 09:18
Sæl Jóhanna - ég tek undir með henni Ásthildi, mér hefur alltaf liðið vel með þá hugsun að við komum hingað til að læra að verða betri og þroskaðri sálir - ég held að Buddisminn fjalli að einhverju leyti um þetta, án þess að ég viti..........
Sú kenning að við veljum foreldra og aðstæður fyrirfram í því skyni að læra eitthvað sérstakt á leið okkar, fellur vel að mínum hugsunarhætti (það má kanski kalla það forlagatrú) og þegar við höfum lært það sem við ákváðum að þessu sinni, förum við til baka og hugleiðum árangurinn - semsagt dauði er ekki til að mínu mati - eingöngu formbreyting ( við skiptum um líkama - endurfæðing )
Sálin sem að mínu mati er neisti af almættinu og þar af leiðandi alfíngerðasta orkutegundin þarf að búa sér til þéttari og þéttari orkulíkama ( áru ) til að geta upplifað (lært ) hvað hin hin ýmsu orkusvið eru og hvernig hverig þau vinna og þar er tilfinningasviðið líka innanborðs.........
Ég hef fengið að heyra það að þegar þessi mál ber á góma sé ég kaldlyndur, ég missi mig ekki í tilfinningaflæði eða söknuði yfir þeim sem farnir eru, sem skýrist kanski af þessari afstöðu minni - ég "missti" foreldra mína ungur en missti ekki sambandið við þau, það má alveg kalla það ímyndun mína, en má þá ekki segja að ímyndunin sé annar veruleiki ?
Ræðum aðeins um söknuð, er það ekki annað orð yfir eigingirni - ég er fullviss um að huglægur og tifinningalegur kraftur okkar sé svo mikill að við getum fjötrað sál sem vill yfirgefa sinn jarðneska líkama og er ein leiðin til þess máttur bænarinnar.
Eigingirni og vanmáttakennd - okkur finnst viðkomandi vera að yfirgefa okkur og þá þurfum við sjálf að þroskast án aðstoðar þeirra - þetta finnst mér vera rangt af okkur og þarna finnst mér við vera að seinka okkar þroska sem og að koma í veg frammhald þeirra sem hafa nú þegar lært það sem þeir komu til að læra að þessu sinni - við getum alveg ef við viljum haft huglægt samband...........
Enn og aftur vil ég þakka þér fyrir áhugaverða pistla
Eyþór Örn Óskarsson, 11.5.2011 kl. 12:17
Ég var daglegur gestur í Sundhöllinni þegar ég var ung, ég stökk fram af háa brettinu allann tímann sem ég hafði þar, mér fannst alltaf ósanngjarnt þegar ég var rekin uppúr... Svo flutti ég úr Þingholtunum og fór að sækja Laugardalslaugina og var ég þar oft frá morgni til kvölds...
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.5.2011 kl. 01:49
Skemmtilegt blogg. Það er gaman að vera í lauginni en að góðri stund liðinni er gott að fara upp úr, þvo sér og þurka og fá sér síðan eitthvað gott að borða. Að vera fastur í lauginni væri ekki gaman.
&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&&
Eyþór, þú aðhyllist greinilega kenningar Búdda.
"Ég hef fengið að heyra það að þegar þessi mál ber á góma sé ég kaldlyndur, ég missi mig ekki í tilfinningaflæði eða söknuði yfir þeim sem farnir eru, sem skýrist kanski af þessari afstöðu minni - ég "missti" foreldra mína ungur en missti ekki sambandið við þau, það má alveg kalla það ímyndun mína, en má þá ekki segja að ímyndunin sé annar veruleiki ?"
Það sem við köllum veruleika er varla meiri eða minni ímyndun en þessi tilfinning sem þú hefur, að vera í sambandi við foreldra þína.
Búdda kenndi að upphaf þjáninga er að vilja halda fast í eitthvað, "attachment". Þjáningin endar þegar við sleppum takinu. Þú hefur greinilega skilið þetta.
"Ræðum aðeins um söknuð, er það ekki annað orð yfir eigingirni - ég er fullviss um að huglægur og tifinningalegur kraftur okkar sé svo mikill að við getum fjötrað sál sem vill yfirgefa sinn jarðneska líkama og er ein leiðin til þess máttur bænarinnar."
Það getur verið að þetta sé rétt. Aftur er upphaf þjáninga að vilja halda í eitthvað.
"Eigingirni og vanmáttakennd - okkur finnst viðkomandi vera að yfirgefa okkur og þá þurfum við sjálf að þroskast án aðstoðar þeirra"
Ekkert er varanlegt. Trú á varanleika leiðir til þjáninga.
Kíkið endilga á þetta:
http://www.thebigview.com/buddhism/fourtruths.html
Hörður Þórðarson, 12.5.2011 kl. 05:07
Ágæta fólk, Ásthildur, Jóna, Eyþór og Hörður, þakka ykkur fyrir tímann ykkar - þakka ykkur fyrir að lesa og skrifa ummæli ykkar. Þau eru ekki minna virði en það sem ég hef sjálf skrifað.
Ásthildur ég tek undir þetta með þér, við segjum stundum (eins og þið eflust vitið) "Hann er ekki feigur" .. en svo eru aðrir sem virðast bráðfeigir. Tími okkar allra er ekki sá sami. Kannski okkar val - kannski er það okkar verkefni að takast á við það að missa ung foreldri, eða missa barn, þó það virki mjög svo grimmur skóli. Gerist ekki verri. Það sem égá erfiðast með að skilja eru þjáningar sem börn þurfa að ganga í gegnum, langveik börn og fleira.
Mamma sem er að verða 85 ára sagði um daginn, að hún væri tilbúin í næsta "geim" og meinti þá partý. Ég skil hana ofurvel, því að lífið fyrir hana er orðin hálfgerð biðstofa og lítið um tibreytingar, þó við systkinin tökum hana reglulega út og heimsækjum. Ég mun fagna hennar brottför - hennar vegna - vegna þess að ég veit að hún er tilbúin að fara áfram.
Eyþór ég er á svipaðri linu og þú, hef sjálf upplifað of margt til að vera það ekki. Ég veit ekki hversu mikið maður á að skrifa svona á bloggi, en ég er sannfærð um að lífið endar ekki við hinn svokallaða dauða. Dauði er bara umbreyting Hef séð það.
Dauðinn er erfiðastur fyrir þá sem verða eftir. Því að auðvitað hafa myndast tengingar - og þær oft sterkar. Tengingar mínar við mín börn eru t.d. þannig að oft yrði ég hugsanir þeirra á undan þeim. Þau sögðu oft í gamni að ekkert væri nú hægt að fela fyrir mér.
Ég hef þá sömu upplifun og þú varðandi foreldra þína. Mér hefur oft fundist pabbi með mér og þó að hann hafi látist fyrir meira en 40 árum er mynd hans býsna skýr.
Í jarðarförum berjast í mér tilfinningar söknuðar og gleði, sérstaklega ef að manneskjan hefur verið orðin mjög veik - því að ég veit að hún er frjáls úr veikum líkama. Einu sinni gekk það svo langt, í kistulagningu að ég sá hina látnu dansa við hliðina á kistunni og sprella og hún reyndi að láta mig hlægja. Það var ekki þægilegt innan um alla hina syrgjandi og ég þurfti auðvitað að hemja mig, en brosti í kampinn. Fólk er frekar feimið við að segja frá svona því að það þykir bera merki þess að það sé ekki í lagi í hausnum eða eitthvað. En veröldin okkar - hin sýnilega er aðeins sem toppurinn af ísjakanum.
Jóna Kolla, þú hefur verið meiri hetja en ég. Ég glímdi við lofthræðslu sem barn, hef unnið mikið á henni - og hugsaði mér meira að segja um daginn að ég ætti nú að ögra sjálfri mér og fara í sundhöllina og láta vaða! Ég held að flestum hafi þótt þeir vera of stutt ofan í, held það hafi verið stillt á klukkutíma eða svo. En sem betur fer er nú komið nóg af laugum og allir geta verið í sundi eins og þeirra tími býður þeim!
Hörður, þú ert á sömu línu og Eyþór og ég hef verið að kynna mér hina ýmsu "attachment" sem má líka flokka sem það að vera háður einhverjum eða jafnvel fara út í það að vera háður einhverju sem verður að fíkn. Fólk upplifir "mícró" sorg ef það þarf t.d. að hætta að borða einhvern mat vegna heilsunnar. Það "syrgir" það sem var og það sem það hafði. Sumir upplifa reykingar sem félagsskap vinar og upplifa hreinlega tómarúm í lífi sínu þegar að það hættir að reykja. Æ nú er ég komin kannski svolítið út á spássíuna.
En ekkert er varanlegt, nema kannski Guð út frá ákveðnum forsendum um Guð. Spurning um þjáninguna, jógakennari sagði nýlega að samanburður væri þjáning, en eitt útilokar ekki annað í þessu tilfelli. Annars staðar las ég að það að óska sér að vera annars staðar en maður er væri helvíti eða þjáning. Að óska sér annars en maður hefur - óska sér fortíðar eða framtíðar, sætta sig ekki við núið eða vera þakklát fyrir það. Einhvern tíma í fortíð óskaði ég mér margs af því sem ég hef í dag, því hafa margar óskir ræst og ég er þakklát fyrir það. Þakklát fyrir það sem þykir svo svakalega sjálfsagt eins og einfaldir hlutir að geta gengið að krana og fengið sér ferskt vatn.
Sérstaklega er ég þakklát fyrir friðinn sem hér ríkir, því að ég held það sé fátt verra en að lifa í stríðshrjáðu landi.
Þakka líka öllum öðrum sem hafa lesið, og vonandi hefur þetta vakið einhvern til meðvitundar um þakklæti fyrir hversdaginn.
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.5.2011 kl. 07:10
Sagan um jarðarförina er frábær, takk Jóhanna.
"Spurning um þjáninguna, jógakennari sagði nýlega að samanburður væri þjáning, en eitt útilokar ekki annað í þessu tilfelli."
Samanburður felur yfirleitt (líklega alltaf) í sér blekkingu og þess vegna getur hann leitt til þjáningar.
"Annars staðar las ég að það að óska sér að vera annars staðar en maður er væri helvíti eða þjáning."
Að vera ekki ánægð(ur) þar sem maður er, er þjáning.
"Að óska sér annars en maður hefur - óska sér fortíðar eða framtíðar, sætta sig ekki við núið eða vera þakklát fyrir það."
Sumir eru aldrei ánægðir þar sem þeir eru og stöðugt að streitast eftir einhverju. Síðan eru þeir reknir upp úr sundlauginni, stundum án fyrirvara og hafa kannski aldrei gefið sér tíma til að njóta þess að vera þar sem þeir voru. Það er sorglegt. Það er allt í lagi að óska sér einhvers og vinna að einhverju, meðan það verður ekki til þess að við gleymum að njóta þess hvar við erum núna.
Það sem svo mörgum gengur illa að skilja er að gleðin kemur innan frá en ekki að utan. Þeir sem eru alltaf að leita að einhverju sem á að gera þá ánægða þjást af andlegri fátækt vegna þess að þeir skilja ekki að þeir hafa nú þegar allt sem þeir þurfa.
Chogyam Trungpa Rinpoche, sem kenndi Búddisma í Bandaríkjunum ræddi um andlega efnishyggju, "spiritual materialism". Það er vel þess virði að kynna sér ævi þessa ágæta manns og hanns kenningar.
"In Trungpa's presentation, spiritual materialism can fall into three categories — what he calls the three "Lords of Materialism" (Tibetan: lalo literally "barbarian") — in which a form of materialism is mistaken to bring long term happiness but instead only brings short term entertainment, followed by longer term suffering:
http://en.wikipedia.org/wiki/Spiritual_materialism
Hörður Þórðarson, 12.5.2011 kl. 08:13
Jónína Dúadóttir, 12.5.2011 kl. 09:29
Þú ert frábær :)
Ásdís Sigurðardóttir, 13.5.2011 kl. 13:24
Frábær pistill og takk fyrir hann.
Mínar endurminningar úr sundhöllinni eru ekki af eins góðum toga og þínar. Einn sundlaugavarðanna, sem þá var, henti mér sjö ára gamalli út í djúpu laugina og kallaði þú ert greinilega efni í góða afrekskonu svona löng og mjó.
Því miður var ég ekki synd, svo þessi afrekskonuþjálfun hans endaði með að hann varð að stinga sér í laugina til bjarga mér, þar sem ég var á fullu að drukkna. Þetta gerði það að verkum að ég varð ofsahrædd við vatn og varð ekki synd fyrr en tólf eða þrettán ára, þrátt fyrir skólasund þar sem ég hékk alltaf upp við bakkann með kút. Hafði eiginlega horn í síðu þessa manns fram eftir öllum aldri.
Það að þvinga einhvern á þennan hátt til að gera það sem þú vilt, án þess einu sinni að orða það við viðkomandi áður, er ekkert til að vera stoltur af, því ég vissi fátt skemmtilegra en að hoppa í grunnu lauginni.
Mín gæfa er þó sú að verða seinna mjög vel synd og bera gæfu til að bjarga barni frá drukknuní tvígang með þeirri kunnáttu minni.
Ég er löngu búin að fyrirgefa manninum, sem kom aftur til mín, munandi ekki eftir atvikinu, til að spyrja hvort hann ætti ekki að þjálfa mig, eftir að ég komst yfir þessa ofsahræðslu við vatn. Ég sagði nei.
Hefði ég kunnað að fyrirgefa í þá daga hefði ég mögulega orðið afrekskona í sundi, hver veit, en ekki er ég að sýta það og ekki veit ég Jóhanna mín hvers vegna ég er að þvæla um þetta hér..
Bergljót Gunnarsdóttir, 13.5.2011 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.