Foreldrar, fyrirmyndir, fjölbreytileikinn, skólinn og eineltið ..

Einelti er staðreynd í skólum.  Nýlega skrifaði ég pistil um það að það læri börnin sem fyrir þeim er haft. 

Enginn má vera öðru vísi á neinn hátt, ef þú passar ekki nokkurn veginn inn í normið áttu á hættu að lenda í einelti. Eiginlega eiga allir á hættu að lenda í einelti, því öll erum við pinku öðru vísi en sérstaklega ertu í hættu ef: þú ert of klár, of "vitlaus", of feit/ur, of mjó/r, of lítil/l, of stór, of dökk/ur, of ljós, of útlensk/ur, of íslensk/ur (sveitó), of falleg/ur, of ófríð/ur ...o.s.frv...

Þú ferð í pirrurnar á einhverjum  vegna þess að þú ert of öðru vísi Sideways ..  að sjálfsögðu er það þeirra vandamál en þau gera það að sínu og/eða upphefja sjálf sig á þinn kostnað. 

Í viðtali við ástralskan strák nýlega sagði hann, og átti að vera hughreysting fyrir ung fórnarlömb eineltis.  "School aint gona last forever" eða skólinn mun ekki endast ekki að eilífu. 

Elsku bestu foreldrar og allir fullorðnir, lítum nú í eigin barm og hugsum hvort að við séum að senda börnunum einhver skilaboð um að það að vera öðru vísi sé ástæða til að fara að áreita viðkomandi þannig að hann eða hún upplifi skólavist sem helvítisvist (það er ekki orðum aukið). 

Um leið,  þarf skólinn (vildi ég óska) að hafa lífsleikni sem skyldufag frá fyrsta bekk í grunnskóla og upp úr, þar sem farið er í atriði eins og heiðarleika, virðingu, vináttu, sjálfstyrkingu o.s.frv. þar sem börnin æfa sig daglega í því undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda. Alls konar siðfræðiæfingar,  æfingar í að standa með sjálfum sér og svo framvegis. (Við fullorðna fólkið erum að uppgötva þetta á miðjum aldri, oft - að við höfum í raun aldrei lært þetta, enda erum við ennþá að stunda einelti inn á vinnustöðum).

Aðeins með því, getum við átt möguleika á að vinna gegn þessu æxli í samfélaginu.  Að skólinn, foreldrar og samfélagið í heild taki sig á.  

Þetta myndi þar að auki spara samfélaginu gríðarlegar fjárhæðir, svo út í það sé farið, sem fara annars í sálfræðinga og velferðarþjónustu ýmsa.  Þar að auki flýja iðulega eineltisþolendur inn í heim fíknar og það þarf ekki að spyrja neinn hvað það kostar, bæði fyrir þolandann og samfélagið.  

Það sem upp úr stæði væri betra, vel menntaðra og sjálfsöruggara samfélag, því að börn sem fá góðan aðbúnað í lífsleikni fá einnig meira sjálfstraust í grunnfögum eins og stærðfræði og íslensku.

Verum meðvituð um: 

  • að við erum fyrirmyndir (og börnin hlusta á "allt" sem við segjum)
  • skoðanir okkar á því og þeim sem eru "öðruvísi"
  • þá andlegu fæðu sem við neytum og þá sem við bjóðum börnunum
  • þau tæki sem við beitum við uppeldi, hrós, að taka eftir því sem vel er gert o.s.frv. 
  • að veita börnunum okkar athygli og hlusta á það sem þau langar að tala um
  • og margt margt fleira auðvitað ... 

Sólin skín jafnt á okkur öll  ...

 

shutterstock_9102127.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Eins og venjulega er þetta alveg frábært hjá þér, Jóhanna. Mikið væri það yndislegt að börnum væri kennt eitthvað sem raunverulega skiptir máli og kemur þeim að gagni í lífinu. Því miður vaða svo margir fullorðnir ennþá í villu og svíma að ég er ekki bjartsýnn á að þessu verði komið á í nánustu framtíð.

Dropinn holar þó steininn og á meðan gott fólk eins og þú talar fyrir þessu er von um bjartari framtíð.

Hörður Þórðarson, 16.4.2011 kl. 00:21

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk fyrir þennan pistil Jóhanna, eins og svo marga aðra.

Ég er búin að standa í því tuði í mörg ár, að þar sem við höfum kristna þjóðkirkju ættum við að kenna kristna siðfræði Nýja testamenntisins í skólum, alveg frá grunni, að minnsta kosti eina kennslustund í viku. Það krefst auðvitað þess að hafa upplýsta kennara, sem geta útskýrt fyrir börnunum um hvað málið snýst.

Ég sakna ekkert gömlu Bíblíusagna aðferðarinnar sem byggðist á stuttum frásögnum héðan og þaðan úr Biblíunni og skilaði að mínu áliti ákaflega litlu til ungra barna, sem höfðu jafnvel trúlausa kennara, sem fannst þetta hundleiðinlegt, en neyddust þó til að hlýða þeim yfir í einhverjum utanbókarlærdóms romsum, til að halda vinnunni.

En mér finnst að boðskapur Krists, umburðarlyndi, og það sem við gætum kallað  fordómaleysi gagnvart náunganum, sem og öllu, eitthvað það besta sem ég hef lært á nokkuð langri lífsleið.

Þarna er að mínu mati einhver sú einfaldasta, fallegasta og besta fræðsla í lífsleikni sem hugsast getur.

Bergljót Gunnarsdóttir, 16.4.2011 kl. 02:47

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Hörður,  þetta er svo sannarlega mitt hjartans mál. Mig svíður það inn að beini þegar ég hlusta á frásagnir unglinga um skólagöngu og hvernig þeir forðast skólann og hverfa jafnvel frá honum algjörlega vegna upplifana í skólaumhverfinu.

Þegar börn segja mjög ljóta hluti við önnur börn, verulega grimma, þá hugsa ég oft hvaðan þau fá þessa löngun til að særa svona djúpt.  Því ef að orðin væru borin saman við líkamlega áverka, eru þau eins og að skera, brenna eða höggva. Sumt af því sem ég hef heyrt að notað hafi verið í "stríðni" hafði ég ekki hugmyndaflug til að átta mig á að væri hægt að finna upp - og ekki vantar mig ríkt hugmyndaflug. 

Ég er að starfa í verkefni gegn brottfalli nemenda úr skóla í samstarfi við annan og við munum pottþétt skrifa skýrslu þar sem fram koma tillögur. Mig langar svo að kynna þessar tillögur og gera það að fyrirlestri fyrir skóla og stofnanir.  Vonandi reynast það góðir og sterkir dropar í steininn.  Það gleðilega er að margir eru orðnir meðvitaðir um að svona þarf þetta að vera.  Bara spurning um vilja menntamálayfirvalda í borg og ríki. 

Takk fyrir athugasemdina Hörður, það ýtir alltaf undir að fá meðbyr frá góðu fólki. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.4.2011 kl. 07:57

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl Bergljót,

Segi það sama um þig, gott að fá meðbyr frá góðu fólki! 

Ég er sammála þér að kristin siðfræði er góð, enda byggist hún á því fallega boðorði að elska náungann eins og sjálfan sig. Svo einföld er hún í mínum huga. 

Ég kenndi þetta í sunnudagaskóla í tvö ár,  með ýmsum útfærslum. Og svo auðvitað að gera það fyrir aðra sem þú vilt að þeir geri fyrir þig, sem er í raun og veru sami hluturinn. 

Þetta er nú komið í alls konar nýjan búning, enda ekkert nýtt undir sólinni. Flest af því sem ég les í dag get ég fundið í einhverri útgáfu í Biblíunni.  Meira að segja fjölgreindarkenningu Gardners.  Páll Postuli talar um að við höfum öll mismunandi náðargáfur,  höfum anda til að gera mismunandi hluti. 

En það eru ekki allir undir hatti hinnar kristnu kirkju og ég tel að við getum kennt þetta alveg án þess að kalla þetta kristna siðfræði,  þetta er siðfræði sem gengur þvert í trúarbrögðum og einnig hjá þeim sem kalla sig guðlausa. 

Kristinfræði má kenna í kirkjum (barna og unglingastarfi)  og í fermingarfræðslu.  Mér finnst persónulega við skapa meiri ófrið en frið með því að ætlast til að allir sitji í kennslustund sem er kölluð kristin siðfræðikennsla,  því að það hentar ekki öllum.

Þeir sem trúa á Guð kristninnar, eða bara Guð yfirhöfuð (ég tel Guð bara vera eitt og ekki tengdan einum flokki eða hópi) vita að Guð er með í verki og það er nóg. 

Sjálf starfa ég þannig að ég bið Guð um handleiðslu, en er ekki að "ota" honum/henni/því upp á skjólstæðinga mína.  Ég trúi á Guð í mér og Guð í þeim - Guð með okkur.  

Ég færi létt með að kenna kristilega siðfræði í skólum án þess að nefna Krist eða Guð á nafn og örugglega margir aðrir.  

Það er kristileg siðfræði að gera það ekki.  

"Allt sem að þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra" .. 

Við sem teljum okkur hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, erum beðin um að hlífa börnum ákveðins hóps við beinni kennslu um hann,  því að hópnum finnst á sér brotið. (bæði guðlausum og annarrar trúar)  Þá gerum við það.  Öll börnin fá kennsluna,  foreldrar geta uppfrætt um Jesú Krist og kirkjan eins og áður sagði,  og svo sannarlega fá börnin að læra um hann og aðra leiðtoga í trúarbrögðum í trúarbragðafræði.  

Margar setningar í Búddisma eru mjög líkar þeim sem eru í Biblíunni og gegnum sneitt í trúarbrögðum.  

Skemmtileg kennsla í trúarbragðafræðum væri t.d. að leyfa börnunum að finna samnefnara í trúarbrögðunum og þá í siðfræðinni.  

Þegar upp er staðið tel ég að það sé ekki spurning hvað það verður: 

Kærleikur - og það er það sem lífið snýst um. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.4.2011 kl. 08:16

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Úff, nennir einhver að lesa svona langa athugasemd!

Vildi taka það fram, að kennarar eru að sjálfsögðu flestir að flétta þessi uppeldislegu atriði inn í kennsluna hjá sér, en þeim er ætlað að koma svo mörgu frá sér á stuttum tíma að það er ekki hægt að vera að stunda það markvisst,  en auðvitað ganga þessi atriði þvert yfir allar kennslugreinar.  Þ.e.a.s. að byggja upp sjálfstraust nemenda. 

Þar er þó pottur brotinn, eins og annars staðar, og til eru kennarar sem virka akkúrat öfugt.  En þar eru það skólayfirvöld sem bregðast og koma kennaranum ekki til hjálpar, oft kann hann ekki betur og er sjálfur í basli með sjálfsöryggi og sjálfsmynd. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.4.2011 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband