Erum við fyrirmyndir eða ómyndir? ... aldrei of seint að laga til hjá sér ;-)

Sextán ára fékk ég vinnu við Verkamannabústaðina í Reykjavík.   Það er skemmst frá því að segja að vinnuflokknum mínum  féll næstum aldrei verk úr hendi.  Það var ekki vegna þess að verkstjórinn okkar, roskinn fyrrverandi bóndi, væri svona duglegur við að reka á eftir okkur.  Heldur vegna þess að hann var svo góð fyrirmynd.  Hann mætti alltaf stundvíslega, byrjaði fyrstur að vinna bæði á morgnana og eftir matar og kaffipásur og við höfðum aldrei geð í neitt annað en að fylgja honum eftir.  Létum hann s.s. ekki standa einan og vinna.  

---

Eftir því sem ég hef meiri samskipti við börn og unglinga verður þetta orðatiltæki: "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft" sterkara í mínum huga.  Við getum reynt að kenna þeim og segja þeim endalaust til, en ef við erum ekki sjálf fyrirmynd þá er það sem við segjum orðin tóm og hafa lítið sem ekkert innihald. 

Mæður sem eru sífellt að tala um megrun, óánægðar með sjálfsmyndina og stunda niðurbrjótandi sjálfstal þurfa ekki að vera hissa þegar dóttir þeirra fetar sama veginn.  Faðir sem reykir er ekki sérlega trúverðugur forvarnarfulltrúi barna sinna.  Þetta eru bara tvö dæmi af handahófi,  það má líka íhuga hvernig foreldrar leysa úr deilumálum.  Sama hvað þau eru lærð í fræðunum, það er framkvæmdin sem skiptir máli.  Það er fyrirmyndin sem þau gefa sem skiptir máli.

Ef við lítum á skítkast sem einhverjir hafa tamið sér í já-og nei umræðunni undanfarið mega margir hugsa sinn gang.  Eru börnin og unglingarnir að hlusta og/eða lesa? 

Börnin læra af því sem fyrir þeim er haft. 

Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm og spyrja okkur: "Hvers konar fyrirmynd er ég?" .. því að við erum svo sannarlega öll kennarar og getum haft varanleg áhrif á óharðnað ungviðið,  til ills - en sem betur fer líka til góðs. Að sjálfsögðu getum við líka verið fyrirmyndir hvers annars, auk þess að leita utanaðkomandi fyrirmynda. 

Enn á ný: "Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" ..  höfum framboðið af því góða meira en af hinu illa,  því svo sannarlega hljótum við öll að óska þess að börnin læri hið góða. 

Ég tek hér úr eigin reynslubanka (banka sem er ekkert að fara á hausinn), ég hef ekki alltaf verið góð fyrirmynd, stundum bara alveg hræðileg.  En við lærum svo lengi sem lifum, og nýjasta fyrirmyndaæfingin mín, sem verður vonandi að lífsstíl er að hætta slæmu umtali um aðra, og svo líka um sjálfa mig!   Það er áskorun!  

  • Veitum hinu góða í fari náungans athygli og verum óspör á hrósin þegar vel er gert
  • Berum gagnkvæma virðingu fyrir hvert öðru ung og gömul, jafnvel þó að við höfum ólíkar skoðanir og berum virðingu fyrir okkur sjálfum
  • Tölum ekki illa um náungann - það kemur engum að gagni, ekki sjálfum okkur, þeim sem hlustar eða náunganum
  • Hlustum af athygli á það sem aðrir (börn sem fullorðnir) hafa að segja (ekki vera að undirbúa svar á meðan hinn talar - þá ertu með athygli á sjálfum þér en ekki náunganum) 
  • Verum ekki dómhörð
  • Fyrirgefum
  • Reynum að setja okkur í spor annarra
  • Sýnum þakklæti
  • Brosum
  • Verum heiðarleg
  • Verum góðar fyrirmyndir 
  • þú mátt gjarnan bæta við þínum ráðum í athugasemdum ;-) 

6a00d8345161a069e20120a4ce7b04970b-320wi.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þetta er allt gott og jákvætt Jóhanna mín. En ansi er ég hrædd um að mörgum yrði hált á svellinu að gleypa þetta allt í einum bita.

Besta leiðn að ég held, er eins og þeir segja í AA að taka þetta í sporum. En að siðvæða okkur þessa siðlausu þjóð er ekkert einfalt mál.

Tillaga: Sýnum vel unnum verkum annarra virðingu, eins og ég sýni þér í þessu tilliti.

Bergljót Gunnarsdóttir, 13.4.2011 kl. 21:03

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sammála þér Bergljót, við tökum ekkert í einum munnbita. Ég man þegar ég kvartaði sem mest yfir grískunni í guðfræðideildinni, fannst hún óyfirstíganleg. Þá spurði kennarinn minn hvernig ég myndi fara að því að borða fíl, og auðvitað var svarið "einn bita í einu" (ekki það ég hefði lyst á fíl - en látum það liggja á milli hluta).

Það eru mörg atriði sem gott er að hafa í huga, skrifa niður hjá sér, endurtaka o.s.frv.  Lífsgildin lærum við með því að endurtaka og æfa og æfingin skapar meistarann.  Síðan verðum við að halda þeim við eins og líkamsræktinni, það er ekki nóg að fara í átak og hætta svo.  Takk fyrir athugasemdina. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.4.2011 kl. 21:38

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Tók svona skyndipróf hjá þér, hérna á síðunni og niðurstaðan var 75% + sem ég er bara nokkuð ánægð með, enda komin á áttræðisaldurinn og varla seinna vænna. Hef margoft rekið mig á sum af þessum atriðum. En svo lengi lærir sem lifir. E.t.v. kemst ég eitthvað hærra næst.

Endurtek að þetta er góður og þarfur pistill.

Bergljót Gunnarsdóttir, 13.4.2011 kl. 22:17

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hehe.. góð!  Ég er að vonast til að fá sæmilega einkunn sjálf. Stefni á það að hafa þessi atriði í huga og minna sjálfa mig á reglulega. 

Ég vildi að  margt af því sem ég hef lært á seinni árum hefði ég lært fyrr, en það þýðir ekki að pæla í fortíð - og við erum svo heppin að fáum nýtt blað á hverjum degi til að skrifa á. 

Takk fyrir hrósið Bergljót mín. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.4.2011 kl. 07:10

5 identicon

verum jákvæð

Hanna (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 07:54

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég virkilega reyni að gera þetta allt sem þú telur upp þarna... gengur misvel

Jónína Dúadóttir, 14.4.2011 kl. 17:37

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég segi sama, reyni.  Hef reyndar unnið með unglingum yfir 20 ár núna í sumarvinnu og reyni að vera þeím góð fyrirmynd, til dæmis með því að mæta alltaf fyrst, ræða við þau um mikilvægi þess að standa sig vel í vinnu, og hvað það er í lífinu sem skiptir máli.  Þau hlusta og vilja læra og taka vel á móti öllu sem þeim er sagt, ef það er sett í þann farvega að þau geti treyst því að verið sé að segja þeim satt.  Og annað ég set mig aldrei á háan hest yfir börnum.  Við erum öll jöfn, ég hef bara meiri reynslu, og get miðlað af því sem ég hef.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2011 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband