27.3.2011 | 08:30
Lausnin er ..
Að mér sækja mörg mál og spurningar, bæði mín eigin og annarra. Ég fórna oft höndum upp í loft og spyr hvað á ég að gera???? og hef komist að því að það er bara góð leið - því að þegar ég fórna höndum er ég um leið að biðja almættið um aðstoð. "Come what may" ..
Eitt af því sem kom í fangið á mér við svona "fórnarhandaathöfn" var að breyta um fókus, setja hann af vandamálinu yfir á lausnina og finna svo leiðir að lausninni. Lausnin er s.s. markmiðið.
Hvar er ég stödd í dag svona hamingjulega séð á skalanum 1-10 og svo spyr ég mig, hvar vil ég vera stödd á skalanum 1-10? Vilja ekki allir vera staddir á 10?.. Ef ég er stödd á skalanum 6 í dag, hvað skortir upp á að ég t.d. kæmist upp á 7 eða 8? ..
(Það skal tekið fram að 10 er þegar við toppum, það er flott að vera á 7 - 8! .. Við verðum líka að fara aðeins niður á milli til að toppa aftur).
Það getur verið ýmislegt tengt:
- efnahag (get ekki greitt reikninga, get ekki leyft mér neitt)
- sambandslegt (ósætti við maka, makaleysi, ósætti við systkini, fjölskyldu, vini)
- vinnu eða námstengt (atvinnuleysi, óánægð í vinnu/skóla, gengur illa í vinnu/skóla)
- heilsufarslegt (veikindi, andleg eða líkamleg, hreyfingarleysi)
- tómstundir (vantar áhugamál, vantar tíma til að sinna áhugamálum)
...
Eflaust mætti tína fleira til, en þarna eru svona ýmis atriði sem koma í hugann að mætti skoða, stundum er aðeins eitt af þessum fimm sem er vandamál, stundum er tilveran bara öll einhvern veginn úr skorðum og þessi atriði skarast vissulega stundum. Heilsan er t.d. hluti af þessu öllu. Hreyfing gæti verið lykill að því að allt þetta færi að rúlla o.s.frv.
Maður gæti kannski gefið sér einkunn fyrir hvern stað. Hver er stærsti póllinn hjá þér? .. Hvar skorar þú lægst? Hvar skorar þú hæst?
Ok, ef við höfum fundið það út - þá er næst að spyrja sig, hvert er vandamálið og hvernig leysum við það. Hvernig komumst við á þann stað sem okkur langar að vera og hvaða úrræði eru í boði?
Oft er þetta spurning um vilja. Hver og ein/n verður að spyrja sig - hvað vil ég? Hvernig vil ég að samband mitt sé við aðra, hvernig vil ég standa efnahagslega, náms/atvinnulega, hvað vil ég hafa fyrir stafni í tómstundum o.s.frv.
Þá er næst að skrifa niður hjá sér framtíðarsýnina, hvernig hún er ef hún er upp á 10! ..
Dæmi eftir eitt ár (og nú fer ég út fyrir öll persónuleg mörk, vegna þess að ég er að gera þetta til að ÞÚ getir gert þetta fyrir þig).
Í dag er 27. mars árið 2012, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af peningamálum því að ég er farin að vinna við fyrirlestra og ráðgjöf, sem gefa mér nóg til framfærslu og ég hef efni á að gauka að börnunum mínum við og við, ég er í góðu sambandi við fjölskyldu mína og við hittumst reglulega og höfum gaman saman, börnunum mínum gengur vel og líður vel og þau eru miklir vinir, ég er ástfangin af manni sem er sálufélagi minn og samstarfsmaður í blíðu og stríðu og við styrkjum og virðum hvort annað. Við förum reglulega saman í göngutúra, og við stórfjölskyldan gerum það líka, þó ekki eins oft. Ég er að dunda mér við að mála myndir fyrir fólk, með skilaboðum um hvernig það á að taka á sínum málum. Ég nýt hvers dags og tek á málunum þegar þau koma í fang mér. Ég elska lífið.
Þetta gæti verið 10 hjá mér, hvernig er 10 hjá þér?
Eftir að þú hefur skrifað þetta niður, þá þarf að fara að forgangsraða og skoða, hvað get ÉG gert?
Ég hef það eftir Sigursteini Mássyni hjá Geðhjálp að fyrsti steinninn sem best sé að setja í krukkuna sé ávallt hreyfingin og ég er sammála honum. Hreyfa sig og anda að sér frísku lofti daglega er grundvöllur. (Auðvitað hafa ekki allir þennan möguleika, t.d. þeir sem eru á sjúkrabeði, en þá er t.d. gott að hlusta á hugleiðslu sem innifelur í sér hreyfingu og hægt sé að komast á einhvers konar flug) og fríska loftið er ókeypis fyrir hvern sem er.
Samskipti koma sterkt inn á eftir hreyfingunni, okkur líður varla vel í nokkru sem við gerum ef að hnökrar eru á samskiptum. En hvað getur þú gert ef að allir hinir eru leiðinlegir? .. Átt þú þá bara að vera í sama gír, eða getur þú lagað eitthvað hjá þér. Getur verið að þú sért sjálf/ur ekki að tækla fólk eins og þú gætir?
Samskipti okkar eru því miður oft forrituð inn í okkur frá bernsku, við dettum í sömu svörin og viðbrögðin sem við vitum að eru ekki rétt, sem við pirruðum okkur á varðandi foreldra okkar. Allt í einu erum við orðin dómhörð, leiðinleg, ófús til sátta o. s.frv. allt eins og við viljum akkúrat EKKI vera. Þá verðum við að fara í "endurforritun" því að það sem við höfum gert hingað til er ekki að virka fyrir okkur. (Þetta er að vísu efni í annan pistil en t.d hægt að lesa sér til um meðvirkni).
Áður en pistillinn verður allt of langur - sem hann eflaust er orðinn - ætla ég að endurtaka það sem málið snýst um. Lausnin er:
Að átta sig á að um vandamál sé að ræða
Sjá fyrir sér hvernig maður vill að lífið sé án þessa vandamáls
Stíga skref fyrir skref að lausn og þá helst með því að horfa inn á við, hvað get ÉG gert, það er miklu auðveldara að breyta sjálfum sér en öðrum (en þegar að aðrir sjá breytinguna á þér, gætu þeir farið að gera slíkt hið sama).
Einfalt dæmi: Ef þig langar í hrós, en færð aldrei hrós, .. farðu að hrósa! .. Þá ert þú orðin fyrirmynd.
Ekki sitja ein/n með vandamál, leitaðu hjálpar því það er viska að viðurkenna vanmátt sinn, deila með öðrum sem eiga kannski úrræði og vilja gjarnan hjálpa. Að biðja aðra um hjálp er ein stærsta gjöf sem þú getur gefið viðkomandi, því í því felst tilgangur okkar; að hjálpa hvert öðru.
Hér er ég ekki að tala um algjört hjálparleysi, að gera aldrei neitt sjálf/ur og biðja strax aðra um að gera fyrir sig, þannig er enginn sáttur. Ég er að tala um hjálp í vanda - nú og auðvitað má biðja um hjálp í gleði. Vinkona mín bað mig nýlega um hjálp varðandi veislustjórnun. Það gladdi mig, því að með því sýndi hún að hún trúði á að ég gæti hjálpað, hefði eitthvað til málanna að leggja.
Á sama hátt, þegar þið eruð beðin um hjálp í vandamáli - þá gleðjist, því að viðkomandi hefur það traust á ykkur að hann telur að þið hafið eitthvað til málanna að leggja. Trúir á vináttu og/eða fagmennsku, innsæi o.s.frv. þitt. Það er því verið að sýna þér virðingu með því.
Lausnin er að gera sér grein fyrir stöðu sinni, spyrja sig hvort að maður sé sáttur við hana, ef ekki að leita lausna. Þær eru alltaf til.
Stundum er djúpt á þeim, en þá þarf að kafa - stundum niðrá botn, en svo er hægt að spyrna frá botni.
Við verðum að flæða - en ef að rennslið stöðvast í eða úr þá verður til fúll pyttur. Það flæðir til okkar og það flæðir frá okkur. "Let the river run" ..
Athugasemdir
Þessi færsla þín fær 10 hjá mér
Jónína Dúadóttir, 27.3.2011 kl. 09:17
Takk Jónína mín, - og takk fyrir að lesa. Ég gleymdi líka að koma því að að það er margt jákvætt sem við getum hafa lært af foreldrum okkar, .. lítur út fyrir að við höfum aðeins lært neikvæða hegðun af þeim!! úps . .
Umhugsunarefni hvað við fengum gott í gjöf frá þeim - og það er örugglega margt!
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.3.2011 kl. 09:23
Góð líkingin með að setja stærsta steininn fyrst, svo minni steina, síðan möl og síðast sand, svo við komum öllu fyrir. Ef að sandurinn er settur fyrstur þá kemst kannski ekki allt fyrir, og það er eins og að einblína á litlu málin á undan því sem skiptir mestu máli.
Vera, 27.3.2011 kl. 09:53
Það er rétt og hvað skiptir í raun mestu máli, hvað er það sem nærir kjarnann í okkar tilveru? Það er það sem við þurfum að huga að og þá líka hvað er það sem tærir hann.
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.3.2011 kl. 10:06
Það má kannski taka það fram og eflaust þarft, að lífið getur aldrei verið í konstant 10, hjá okkur og við megum heldur ekki áfallast okkur ef það tekst ekki. Sorgin og gleðin eru samvaxnar systur og til að upplifa aðra verðum við að kynnast hinni.
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.3.2011 kl. 10:19
Alltaf gott að hlusta og lesa,gæti farið út að ganga,en nenni ekki til baka,það er vandamálið. Í hring? þá góna allir á og,,hún er búin að fara 8 sinnum fram hjá glugganum mínum,, Guðmundur,hringdu á Neyðarlínuna,æ, bara segi svona. Með góðri kveðju.
Helga Kristjánsdóttir, 27.3.2011 kl. 12:25
Jú, jú, ganga í hring - eða ganga 10 mínútur í eina átt og svo baka. Gott að hugsa - svo er sniðugt að fá einhverja vinkonu eða vin með sér og rabba um daginn og veginn. Ég er að fara að ganga með fjölskyldunni minni á eftir, og svo býð ég þeim í kaffi. fór eftir eigin prédikun í dag! ..
Svo er að vísu snilld að fá sér hund!
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.3.2011 kl. 12:34
Þú ert bara frábær Jóhanna mín, gott að hafa sýnina yfir á lausnina no. 10 vinna vel að no.1-9 svo lausnin verði varanleg, annars er ekkert varanlegt nema við pössum vel upp á að halda henni og vera verðug.
Hlustaði margoft á Brene Brown í gær, konan er talandi viska og svo skemmtileg.
Takk fyrir mig
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 27.3.2011 kl. 13:23
Takk fyrir góðan pistill.
Ragnhildur Gunnarsdóttir, 27.3.2011 kl. 17:30
Jóhanna þessa dagana liggur þyngst á mér þetta vantraust sem ég ber til svo margra mála og manna. Ég verð að geta treyst því að fólk sem við höfum valið til að gæta hagsmuna okkar, verji okkar hagsmuni, þegar ekki er hægt að treysta því þá fer sálartetrið ofan í kjallara, því þá verður maður ráðvilltur fer að vantreysta öllu og það er bara rosalega vont. Þess vegna vil ég fá gamla siðferðið aftur, þar sem hægt var að treysta orðum og handartaki, og að hægt væri að treysta þeim sem við erum háð til að taka ákvarðanir um hagsmuni lands og þjóðar. Í dag get ég það ekki. Og þess vegna líður mér illa, og það er erfitt að lifa með, nóg er nú samt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.3.2011 kl. 18:29
Já Milla, við megum víst ekki hætta á vaktinni .. til að skreppa ekki í gamla farið!
Við deilum aðdáun á Brene Brown, frábær fyrirlestur hjá henni.
Jóhanna Magnúsdóttir, 28.3.2011 kl. 00:52
Þakka þér fyrir Ragnhildur!
Jóhanna Magnúsdóttir, 28.3.2011 kl. 00:53
Það er þungt í þér hljóðið Ásthildur, við verðum að vona hið besta og kannski skrifa upp okkar óskalista þjóðinni til heilla og óska þess heitt að hann rætist.
Hver og ein manneskja þarf að huga að sér, til að hún geti tekist á við það sem að hendi kemur. Þá er það andlegi þátturinn sem skiptir svo miklu máli og þá megum við ekki hafa stoðmanneskjur í svörtu holunni!
Jóhanna Magnúsdóttir, 28.3.2011 kl. 00:55
Það er ótrúlega gefandi að eiga hund, sem er alltaf glaður að fá að fara út að ganga. Svo skemmir ekki fyrir að oft koma tvær kisur með okkur í göngutúra, en í kvöld voru kisurnar þrjár. Yngsti kötturinn minn gekk á eftir okkur í fyrsta skiptið, hann sneri samt við frekar fljótlega.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.3.2011 kl. 01:19
Set "Like" á þetta Jóna Kolbrún hjá þér!
Jóhanna Magnúsdóttir, 28.3.2011 kl. 06:41
Já ég veit Jóhanna mín, en það er ekki sama að vita eða geta. En ég lifi þetta af Er sem betur fer jákvæð að eðlisfari.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.3.2011 kl. 10:25
Veit þú gerir það Ásthildur, en ég veit þú hefur svo sannarlega fengið þinn skammt af mótlæti.
Jóhanna Magnúsdóttir, 28.3.2011 kl. 19:16
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.3.2011 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.