Þakkir fyrir föstudag og konan á leið í velúrinn ....

Vaknaði timbruð í morgun, þrátt fyrir að hafa ekkert drukkið. Sideways  .. Frekar óréttlátt, en reyndar vissi ég orsökina, en hún var sú að ég vaknaði upp í nótt og gat ekki sofið. Það er hugurinn sem er svo upptekinn að hann vekur mig aftur og aftur, það flæðir út fyrir svefninn.  Það er ekki endilega slæmt, en ég held stundum að það sé offramboð af hugmyndum og hugsunum í höfðinu mínu. Nú er bara að koma eitthvað af þessum hugmyndum í framkvæmd.

Ég náði s.s. að sofna, en vakna timbruð eins og áður sagði. Fór í fína svarta Elm kjólinn minn, svartar sokkabuxur og svört stígvél .. alveg eins og ég væri að fara í jarðarför, sem var reyndar á stefnuskránni. Setti meira að segja hnút í hárið, svo ég var orðin ein virðulegasta kona Vesturbæjar. 

Rabbaði við systurnar á Facebook þar sem stóra systir fullyrti að engin minningargrein um Helgu frænku og móðursystur okkar hefði birst á mbl.is - en ég hafði nýlokið við að lesa einmitt æviágripið og minningargreinarnar og þar á meðal þá sem ég hafði sent. En, nei, nei .. einhver vitleysa í mér, fullyrti hún. (Sem var að sjáflsögðu ekki rétt).  Ekki var ég að lesa ímyndaðar greinar! "Standa á sínu Jóhanna"  (þetta var uppbyggilega röddin!) 

Fór svo til vinnu og sat ágætan starfsmannafund, síðan í skólann til að rabba við nemanda, sem kom í ljós að var ekki sama sinnis,  þ.e.a.s. hann ætlaði ekkert að rabba við mig því hann hafði tekið þá vafasömu ákvörðun að mæta bara alls ekki í skólann. Í starfi mínu skiptast á skin og skúrir,  þ.e.a.s. eftir hvernig gengur með nemendur - að virkja þau og vekja,  en stundum er þetta eins og að raða spilum upp í  spilaborg, það þarf svo lítið til að allt hrynji.  Þetta tekur á, en virkilega gaman þegar vel gengur, og þegar ég fer að sjá einhvern blómstra.  Hver og ein/n skiptir gríðarlega miklu máli. 

Fór svo að sækja mömmu á Droplaugarstaði, þar sem yndislegar starfskonur voru búnar að klæða hana upp í jarðarfarardressið og hún var nýbúin í hárgreiðslu. Gat ekki verið betra! 

Útförin var virkilega falleg og sr. Þór Hauksson stóð sig með sóma. Okkur systkinum tóks að villast í Gufuneskirkjugarði,  en "what else is new" ? ... 

Enn og aftur, ákváðum við systkinabörnin í erfidrykkjunni að hætta að hittast einungis í jarðarförum, en spurning hvort og þá hvenær við látum verða af því? .. 

Nú er ég s.s. komin heim - búin að rífa úr mér hnútinn, hárið eins og illgresi um allt (löngu kominn tíma á klippingu) og stefni í velúrbuxur, þægilegan bol og kósý kvöld í sófanum. 

Það verður nú eiginlega ekkert betra - svona miðað við efni og aðstæður! 

Þessar konur eru þó nokkuð meira aðlaðandi í velúrnum en sú sem hér ritar ... 

velur.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband