Þakkir á fimmtudagsmorgni ..

Það er margt í pípunum hjá konunni, á mörgum vígstöðvum - það eru samt engar "víg" stöðvar!

Eitt af þakkarefnum gærdagsins var þegar að stelpan sem stal pelsi dóttur minnar sl. laugardagskvöld gekk í gærkvöldi inn á veitingastaðinn sem dóttirin starfar á! .. Hversu óheppin er sá þjófur?  - Þetta er eiginlega eins og farsi. En þetta var saga sem endaði vel. Það sem af þessu má m.a. læra  var að dóttir mín var alltaf ákveðin í þvi að finna þennan pels aftur og missti ekki sjónar af því. Gott mál hjá henni.

Ég ákvað í gær að skella upp einu hugleiðslunámskeiði, þrjú kvöld - þar sem ég fer í "andlegt ferðalag" og leyfi fólki að prófa að uppgötva leyndardóma þess sem það á innra með sér.  Skráning á www.lausnin.is 

Í dag er "mömmudagur" þ.e.a.s. ég heimsæki mömmu á Droplaugarstaði, - en á morgun fer fram útför systur hennar og frænku minnar, Helgu Kristjánsdóttur og skrifaði ég smá minningarbrot um hana fyrr í vikunni. Birti það hér á morgun - og væntanlega kemur það í Mogganum líka. Mér fannst notalegt í gær þegar að presturinn sagði að nú væri hún orðin engill.  Við svífum út úr líkama okkar við dauðann, eins og risastór gegnsær hvítleitur fugl - það er mín sýn, þó aðrir sjái þetta öðruvísi. 

Í gær samdi ég vísu sem svar við ljóði Magnúsar Geirs Guðmundssonar, sem hann setti inn á Facebook - status: 

Saurgist mín samviska hrein
og sálar glati ég styrk
þá bíður mín þögnin ein,
þrúgandi döpur og myrk.

(MGG)

Upp rís sálar styrkur

syngja englaraddir

sólin sigrar myrkur

sorgartónar kvaddir. 

(JM) 

Það er svona "Upp, upp, mitt geð og öll mín sál" .. tónn í þessu, enda alin upp við að heyra þessar línur sálmaskáldsins á morgnana þegar mamma var að vekja okkur systkinin. Oft hefur það komið mér á fætur og styrkt mig. 

Ég sá að Ragnheiður Gröndal er að fara að syngja á Græna Hattinum, - verst að vera ekki fyrir norðan! - hún er ein af mínum uppáhaldssöngkonum, röddin einstök og ljóðin ekki af verri endanum sem hún hefur valið að flytja! ..

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Heppin var hún stelpan þín.
Myndbandið og röddin hennar Ragnheiðar er yndislegt

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.3.2011 kl. 12:17

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þvílík heppni hjá henni.  Hún hefur auðvitað dregið pelsinn að sér ómeðvitað.   Knús á þig elskuleg mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2011 kl. 12:24

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk þið þarna sætu, með hjörtun ykkar

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.3.2011 kl. 21:38

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Sæl Jóhanna mín,ég eins og þú dái Ragnheiði Gröndal. Ég hefði trúað að dóttir þín yrði söngkona. Svo minnisstæð er hún mér syngjandi fyrir okkur á ættarmótinu í Hvammi,Dýrafirði. Undurfögur röddin hennar eins og lævirkjasöngur í kvöldblíðunni forðum. Eftirminnilegt mót,góð minning um þá sem farnir eru síðan.

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2011 kl. 23:41

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl Helga, Eva mín lærði reyndar söng og syngur eins og engill. Hún söng m.a. lagið ást, í brúðkaupi frænku sinnar, en hefur því miður haldið sig að mestu til hlés sem söngkona. Hún er með þannig rödd að tárin renna fram (ekki bara hjá mömmu hennar).  Hún söng reyndar við útskrift sína sem stúdent og þar sá ég kennarana þurrka tár af hvarmi, .. þegar hún söng með sinni einlægni og gleði "I could have danced tonight" ... ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.3.2011 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband