23.3.2011 | 20:08
Stöðvum einelti - mín reynsla ...
Varnarsigur ástralska skólastráksins Casey Haynes hefur varla farið fram hjá neinum, nú ef einhverjum set ég hér tengil á myndbrotið þar sem hann springur loksins eftir margra ára einelti og tekur á þeim leggja hann í einelti.
Mér finnst svo sorgleg lokaorðin í ráðinu sem hann gefur, ... að skólinn muni ekki endast að eilífu. "School aint gonna last for ever" .. hann sér ljósið í því. Þessi orð segja mikla sögu. Í hans huga hefur skólagangan augljóslega verið helvíti á jörðu. Hann sér fyrir sér og fyrir aðra að eineltið tengist skólanum og það hætti þegar skóla lýkur. Það er mikil ádeila, a.m.k. á það skólaumhverfi sem hann hefur verið í.
Einelti Casey virðist koma föður hans verulega á óvart, en það var skv. honum, stóra systir hans sem hjálpaði honum í gegnum svörtustu hugsanirnar sem voru komnar út í það að hugleiða sjálfsvíg. Það er gífurlega mikilvægt að börn fái styrkingu heiman frá, eigi trúanaðaraðila, fái hlustun og athygli. En jafnvel "fullkomnasta" fjölskylda getur aldrei verið örugg um að barnið þeirra segi frá.
Ég á svona reynslusögu frá minni bernsku, þar sem systir mín byggði mig upp og ég gat leitað til hennar. Þannig var að ég skipti um skóla þegar ég var 12 ára. Ég varð einangruð og lokuð við það, mjó (sem var ekki í tísku þá), með gleraugu og útstæð eyru. Mér gekk mjög vel í skólanum - en tilfinningin sem ég fékk þegar að kennarinn tilkynnti upphátt hver væri hæst var mjög blendin. Mér fannst athyglin óþægileg því ég var hrædd við óvinsældir í framhaldi af því og orð sem voru látin falla í minn garð sem voru yfirleitt ákveðin uppnefni, en auðvitað var ég ánægð innst inni að mér gekk vel. Þarna lærði ég það þó að mín velgengni virtist skyggja á aðra og ég gat ekki glaðst yfir henni.
Þessi neikvæða athygli og útlit mitt varð til þess að mér var strítt, og svo bætti í að mamma saumaði á mig föt svo ég var enn meira öðru vísi. Var að vísu á undan tískunni, en það var erfitt á þessum tíma. Var komin í buxur sem voru beinar niður hálfu ári áður en sú tíska kom á Íslandi, því mamma notaði hugmyndir erlendis frá, og svo kannski hefur systir mín haft áhrif en hún var ákveðin í að verða fatahönnuður, sem hún seinna varð.
Jæja, einu sinni var ég á leið á skólaball og hef verið ca. 13 ára. Mig kveið fyrir viðbrögðum stelpnanna, því ég vissi fyrirfram að ég fengi einhver skot. Sérstaklega var það ein stelpa sem var alltaf með leiðinda athugasemdir. Ég bar þessar raunir upp við Huldu systur og þá gaf hún mér hreinlega upp "uppskrift" hvernig ég skyldi svara þessari stelpu! ..
Allt fór eins og ég átti von á, stelpan horfði á mig rannsakandi augum þegar ég kom, upp og niður eftir fötunum mínum, setti upp ákv. svip og sagði svo "af hverju ertu í svona skrítnum buxum?" .. Þá svaraði ég eftir forskrift systur minnar "káfar það upp á þig hvernig ég er klædd?" .. þá svaraði hún (eins og systir mín hafði spáð) "já" og þá svaraði litla ég - enn eftir forskrift "klóraðu þér þá" .. gekk svo stolt í burtu og ég hugsa að brosið hafi sést á hnakkanum á mér! .. Hún setti aldrei út á mig aftur þessi stelpa.
Annað dæmi laut að strák sem var alltaf að sparka í mig í fatahenginu í skólanum, og lét mig hreinlega aldrei í friði. Ég bar þessar raunir upp við Huldu systur sem gaf mér forskriftina að segja næst þegar hann byrjaði "Af hverju ertu alltaf að sækjast eftir mér?" .. Ég var ekki viss um að ég þyrði að segja þetta við hann, en ég treysti Huldu systur í blindni - og ekki þurfti ég að bíða lengi eftir að hann færi að bögga mig og það var fyrir framan fullt af öðrum strákum. Þá sagði ég hátt og skýrt, þessi spíra með útstæðu eyrun, freknur og gleraugu (svona eins og nördastelpan í amerísku bíómyndunum) "Af hverju ertu alltaf að sækjast eftir mér?" .. Strákurinn hörfaði í angist, varð eldrauður í framan og strákarnir í kringum hann lyppuðust niður af hlátri. Þeim fannst fyndið að þessi rengla skyldi segja þetta við hann - en mér tókst að hræða hann í burtu.
Þegar ég var 15 ára lenti ég enn í strákunum, þegar ég spurði í enskutíma hvað "desolate hill" þýddi, en ég var algjörlega flatbrjósta - sprungu strákarnir yfir þessari eyðihæð, sem orðin þýddu, og var ég kölluð "desolate hill".. man eftir stað og stund - og hverjir það voru. ... Ég deildi þessari sögu ekki, ég skammaðist mín svo fyrir brjóstaleysið - sagði engum frá, ekki einu sinni systur minni. Mér finnst sorglegt í dag að ungar konur þurfi að finna sér sjálfstraustið í brjóstunum, eins og fram hefur komið í óteljandi make-over þáttum. En kannski ekki skrítið miðað við viðbrögð umhverfisins eða hvað?
Krakkar þurfa að þora að standa með sjálfum sér. Foreldrar þurfa að uppfræða börn og vera góðar fyrirmyndir. Setja ekki út á fólk fyrir að vera öðruvísi, of feit eða of mjó. Gildi manneskjunnar er svo sannarlega ekki metið eftir því. Systir mín var sem engill í mínu lífi og er það reyndar enn, og reyndar í lífi mun fleirri. Litla systir getur heldur betur vitnað um þetta stórkostlega hlutverk stóru systur okkar, en hún t.d. þurfti að taka ábyrgð á henni heilu sumrin þegar mamma var að vinna úti, eftir að pabbi dó. Við erum að tala um tólf ára stelpu sem passaði tveggja ára allan daginn. Þegar ég var send á Silungapoll að sumri til, og leið illa - fékk ég að koma heim vegna þess að hún samþykkti að passa mig líka.
Ári síðar var ég send á Jaðar, þá níu ára - aftur á barnaheimili. Þar lagði ég yngri stelpu í einelti ásamt hópi af öðrum stelpum. Það er í raun það ljótasta sem ég hef gert á ævinni og er í raun stærra ör á sálinni en nokkurn tíma það að hafa verið lögð í einelti. Ég hef fengið uppreisn æru vegna míns eineltis, en ég hef aldrei beðið afsökunar á því einelti sem ég beitti.
Nú er Casey Haynes orðin hetja í augum heimsins, en hvað um strákinn sem réðst á hann? Hvað var að bögga hann - og hvernig ætli hann sé staddur í sálinni eftir að vera úthrópaður sem bully? Hvernig verður "bully" eða hrekkjusvínið til?
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:35 | Facebook
Athugasemdir
Það er nú málið, las í DV um daginn um stelpu sem varð fyrir einelti og fór sjálf að leggja aðra í einelti til að fría sjálfa sig. Það er nokkuð ljóst að krakkar sem leggja aðra í einelti líður illa á sálinni. Þess vegna er ekki nóg að taka á máli fórnarlambsins heldur verður líka að skoða þann sem stendur fyrir eineltinu og af hverju hann/hún gerir það.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.3.2011 kl. 20:49
Já, einelti leiðir stundum af sér einelti. Þetta verður svona goggun. Ég vissi hvað olli í mínu tilfelli, ég var með afskaplega mikla innbyggða reiði gegn umhverfinu. Hafði misst föður minn sjö ára, send í burtu átta ára á stað sem mér leið illa á og svo aftur níu ára og litli bróir sendur með mér sem ég átti að passa líka - og þurfti að passa. Þessi stelpa sem ég réðst á var stelpa sem mér var sagt að líta eftir, ég var pirruð út í fullorðna fólkið sem kom mér í þessa aðstöðu - en það bitnaði á þessari elsku litlu stelpu úfff... ég finn meira að segja til þegar ég skrifa þetta :-/
Jóhanna Magnúsdóttir, 23.3.2011 kl. 21:13
Langa videóið um Casey - hann er algjört krútt.
Jóhanna Magnúsdóttir, 23.3.2011 kl. 21:16
http://www.youtube.com/watch?v=0aPrjkdifJ0
Jóhanna Magnúsdóttir, 23.3.2011 kl. 21:17
Sæl, datt inn á þessa síðu þína út frá lausninni og þetta er alltaf erfið og viðkvæm umræða en mjög nauðsynleg.
Ég er mest hissa þegar ég hugsa til baka hvað kennarar í mínum skóla voru blindir á eineltið. En versta eineltið sem maður lenti í var af hendi kennaranna og það sama segja bræður mínir. Kennarar eins og annað fólk eru frá brotnum heimilum, með lítið sjálfsmat og oft á tíðum fullorðinn börn og upphefja sjálfa sig á kostnað nemenda. Þetta hefur örugglega lagast eftir að stuðningfulltrúar eru komnir inn í stofurnar og kennarinn verður að passa sig.
Lausnin er mjög einföld að mínu mati í grunnskólum, en vandamálið að mínu mati er svipað eðlis og í kirkjunni það eru einhver gömul öfl og hægfæra breytingar sem koma í veg fyrir breytingar. Grunnskóli er fyrir mjög marga ekkert annað en fangelsi. Þú verður að mæta í þessa stofnun alveg óháð því hvernig þér líður þar. Strákurinn í Hveragerði er bara hetja og foreldrarnir standa með honum í þessari ákvörðun sem er mikilvæg fyrir sjálfsmat stráksins þ.e að foreldrarnir standi með honum.
Ef stjórnvöld viðurkenna ekki vandmálið, þá getur þú ekkert lagað. Það er það sama og á við mann sjálfan, um leið og maður sér vandamálið og viðurkennir það þá fyrst getur maður tekist á við það og lagað. :-)
Þórólfur (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.