Þakkir á þriðjudagsmorgni ... þó ekki þrautalausar

Konan borðaði kínamat í gær, og þess vegna er hún vakandi klukkan fjögur að nóttu.  Gleymdi að spyrja líkamann hvort að hún þyldi t.d. djúpsteiktar rækjur. Hann hefði svarað "Nei" ..  

Ég er reyndar búin að vera vakandi frá tvö, en hef verið að hika við að taka mígrenitöflu sem ég veit að slær á verkina - en það er auðvitað eina vitið þegar maður/kona er komin með hausverk í alla vinstri hlið líkamans ..eða þannig! .. þetta batnar allt áður en ég gifti mig!

Í gær sótti ég málþing um kynþáttafordóma í Neskirkju, ekki að það séu miklir fordómar þar - heldur var málþingið haldið þar! 

Áhugaverðir pólar voru ræddir, og þá sérstaklega það sem kom fram hjá Toshiki Toma um hina duldu fordóma. Sem kannski liggja í okkur öllum.  Það er mjög stutt í raun síðan að Ísland gerðist eins fjölmenningarlegt eins og það er i dag.  Börnin mín, 25 ára, voru ekkert sérlega vön fólki sem var dökkt á hörund þegar þau voru börn.  Þegar við komum í fyrsta skipti til Bandaríkjanna og vorum á flugvellinum sá sonur minn (4 ára)  svartan mann og sagði upphátt  "Þarna er hlauparakall"  ..eftir útskýringar kom í ljós að þetta var svona maður sem hann hefði séð  á hlaupabrautinni í íþróttatíma í sjónvarpinu! 

Það vakti athygli að skv. skýrslum sem tveir flutningsmenn sögðu frá höfðu 8 prósent nemenda þar sem báðir foreldrar voru Íslendingar lent í einelti, 12 prósent þar sem annað foreldri var erlent og 16 prósent báðir.  Það segir sína sögu. Það er einnig niðurstaða úr eineltiskönnun í Hagaskóla, en þar var algengasta orsök eineltis vegna uppruna. 

Ég lagði orð í belg á málþinginu, því mig langaði svo að benda á fyrirmyndirnar í þjóðfélaginu og hvernig þær tengdust stéttaskiptingu.  Það er mjög algengt að t.d. við ræstingar starfi fólk af erlendu bergi brotið og í lægst launuðu störfunum.  Ég held að það myndi hjálpa til ef að fleiri væru í hærri stöðum, sem fyrirmyndir fyrir þá sem á eftir koma.  Þetta er í raun svipað og með kvennabaráttuna. Það þarf kannski að íhuga "jákvæða mismunun" til að fá fleiri úr minnihlutahópum í stjórnendastöður? 

Batnandi fólki er best að lifa, og ef við erum meðvituð um okkar eigin fordóma eða þeirra sem eru í kringum okkur hljótum við að batna.  

Þakklæti mitt í dag snýst að því að fá að vera þátttakandi í því að reyna að vekja til umhugsunar. Þakklæti mitt er líka fyrir alla dagana sem ég er EKKI með hausverk!  

En nú er best að reyna að hvíla sig á ný! .. 

Hér er svo hlekkur á smá myndasýningu frá málþinginu í Neskirkju. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vonandi batnar þér sem fyrst höfuðverkurinn Jóhanna mín og takk fyrir góðan pistil.  Ég held að þessa sé mikið rétt með afstöðu til annara þjóðarbrota að þau eru oftast í lægst launuðu stöðunum, það er mest því að kenna að þau kunna ekki málið nógu vel eða eru ekki tekin gild með prófin sín hér,  þó þau séu jafnvel vel menntuð.  Sem er alveg ótrúlegt sveitamennska. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2011 kl. 10:29

2 Smámynd: Jens Guð

  Rækjur geta verið varasamar.  Mér skilst að hægt sé að verjast vandræðum vegna þeirra með því að kreista sítrónusafa yfir þær.  Eða sötra edikblöndu eða cider meðmáltíðinni. 

Jens Guð, 23.3.2011 kl. 00:25

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásthildur, þú ert staðfastur gestur - takk fyrir það! Reyndar eru það margir .. en skrifa ekki athugasemdir, enda fer ég ekkert fram á það þó það sé gaman að fá svona eina til tvær - eins og ég fæ akkúrat núna! 

Ég held að ástæðurnar sem þú nefnir, hvers vegna ekki eru fleiri útlendingar, eða fólk af erlendum uppruna í fleiri ábyrgðarstöðum, séu réttar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.3.2011 kl. 04:17

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Jens - ég held að vísu að það að þær voru djúpsteiktar sé vandamálið í mínu tilfelli. Þoli afskaplega illa djúpsteiktan mat. En trixið er örugglega gott sem þú nefnir, varðandi rækjur almennt.

Takk fyrir þitt innlit og athugasemd. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.3.2011 kl. 04:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband