19.3.2011 | 09:09
Þakklæti fyrir laugardagsmorgun ...
Ég tilkynnti sjálfri mér það hátíðlega í gærkvöldi að nú yrði sofið frameftir í fyrramálið. Vaknaði þó fyrir allar aldir, líka fyrir Nýöld og öld kvenorkunnar, sem sagt er að sé að skella á með tilheyrandi braki og brestum, landreki, eldgosum, stríði, sólgösum og blindfullum tunglum.
Hugleiddi orðið dis-ease, sem þýðir að ef að fólk slakar ekki á getur það, og verður að öllum líkindum, veikt. Take it easy.
Er þakklát fyrir ljósbleiku kertin í kertastjökunum á hundrað ára gamla borðinu hennar ömmu Kristínar. Líka fyrir túlípanana sem ég gaf mér í gær og standa svo vel í hvíta postulínsvasanum, brúðargjöf sem stendur enn þó hjónabandið sé búið. Það er svo yndislegt að hafa eitthað fallegt að horfa á þegar við vöknum. Sængin mín er brakandi góð. Úti snjóar eins og í Disney mynd.
Í gær gekk ég heim úr vinnunni, verslaði kindarlegar lundir í Melabúðinni og kartöflur sem einhver dugleg "móðir" gaf af sér í moldinni þannig að hún endaði sem úr sér gengin, eldaði svo fyrir soninn og tengdadóttur og meðlætið var meðal annars brokkolí sem Eva sonardóttir og sautjándajúníbarn, naut þess að maka í sig og á. Hún fékk sér brokkolí-andlitsbað. Túlípanarnir voru reyndar líka keyptir í Melabúðinni.
Þegar ég horfi í morguninn, hugsa til Evu litlu og brokkolíssins, og veit að á eftir mér bíður fyrsti kaffibolli laugardagsmorgunsins og diskurinn af múslíinu með ísköldu mjólkinni úr ísskápnum sem ég fékk á svo góðum kjörum á barnalandi, get ég ekki annað en verið þakklát fyrir tilveru mína - og ekki má gleyma heitu sturtunni sem bíður mín spennt og tilbúin til að hlýja mér á hverjum morgni.
Athugasemdir
Ég er nú löngu hætt að tilkynna mér að ég ætli að sofa út, ætíð er ég vöknuð fyrir allar aldir og mikið svakalega er ég glöð að eiga þig fyrir vinkonu því nú er ég búin að skellihlæja við lestur pistils þíns hér að ofan.
Er einnig afar þakklát fyrir heimilið mitt, eins gott því maður kemst nú ekki svo glatt út, hér snjóar og blæs eins og veðurguðinn fái ofurlaun fyrir vikið.
Hér logar á kertum allan daginn fyrir þá sem eiga um sárt að binda núna, en ég er búin að lofa sjálfri mér því að vera stillt yfir tunglfyllingunni, sem er að sjálfsögðu æðisleg orka.
Knús í helgina þína Jóhanna mín
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.3.2011 kl. 12:21
Æ, takk Milla mín og knús til baka.
Jóhanna Magnúsdóttir, 20.3.2011 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.