Hver stjórnar þínu lífi?

Baráttan við að hafa val og vald á eigin lífi .. hugsað upphátt

free_will ...

Ekki veit ég hvenær forritunin byrjar, sumir segja að hún hefjist í móðurkviði.  Ef að móðirin hlustar á tónlist hafi það t.d. ákveðin áhrif og líðan móður hafi einnig áhrif á fóstur.   Samkvæmt því hefjast utanaðkomandi áhrif í móðurkviði.  En hvað um það – þau hefjast alveg örugglega þegar við erum fædd. Þá byrja lætin og bægslagangurinn. Hvernig er umhverfið? ..  Við erum klædd í föt og svo byrjar gúgúdada,  fólk að tala við okkur á barnamáli, í flestum tilfellum ofursætt – en sum börn  lenda því miður hjá vondu fólki. 

En reiknum með svona þokkalega normal aðstæðum þar sem við njótum ástar og umhyggju.  Ef við erum stelpur er farið að segja „oh hvað hún er dæt“ ..  og strákur  „oh hvað hann er mikill nagli“ eða eitthvað álíka.  Pinku svona kynja-eitthvað hefst mjög snemma.  Alveg óvart – og kemur fyrir okkur öll.  Við fáum fyrirmyndir og skilaboð hjá fjölskyldunni okkar, hvað má gera og hvað ekki.  Fyrst þykir öllum voða fyndið og krúttlegt þegar við prumpum án þess að roðna, svo fer einhver að segja okkur að það sé ekki pent að prumpa eða ropa fyrir framan aðra og þá skömmumst við okkar ef það kemur fyrir.  Sumir læra það að vísu aldrei, en það er önnur saga. 

Við förum svo í leikskóla og lærum þar, grunnskóla, framhaldsskóla flest, háskóla ... sum.  Alls staðar eru kennarar, leiðbeinendur, fyrirmyndir.  Líka í sjónvarpinu, tölvunni, bókum .. alls staðar í umhverfinu.

Við lærum rétt og rangt og við lærum að velja og hafna – eða hvað? ...  Stundum lærum við nefnilega ekki að velja og hafna.  Við látum velja okkur og hafna okkur.   Við ráðum ekki alltaf við það, en gætum í raun ráðið betur við það ef við fylgjum eigin sannfæringu – sem reyndar kemur oft úr röddum fortíðar og alls þess sem er í kringum okkur.  Þess vegna er svo mikilvægt að kafa djúpt í sjálfa/n sig og þekkja EiGIN vilja.   Jeminn!.. hvað það getur samt verið snúið, og hvað það er djúpt stundum í þennan frjálsa eigin vilja.   Frjálsan frá áreiti fortíðar og fyrirmynda.  Er hægt að komast að þessum vilja? ..  Er ekki mikilvægast að spyrja sig „hvað vil ég“  og stunda heiðarleika við sjálfa/n sig? ..

Ég hef ekki svörin, en ég held að ef við erum meðvitað að leita að þeim séum við líklegri til að finna þau.  Hvað vilt þú í raun og veru?   Vilt þú þetta eða hitt vegna þess að hinir vilja það eða finnst það flott, eða viltu það vegna þess að það er þinn einlægur vilji? 

„Vilt þú leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns“ er spurt í fermingunni.   Þarna er ekki spurt „vilt þú gera“  heldur „ vilt þú leitast við“?     Hvernig getur fjórtán ára barn svarað þessu –  úff.. Mikið á barnið lagt.  Og fullorðna fólkið kemur sér ekki einu sinni saman um hvað það er að vera kristin manneskja.

Það fyrsta sem kemur í hugann, þegar við erum spurð að einhverju,  er oftast rétt.  Um leið og við förum að ritskoða viljann þá truflast hann af alls konar áreiti.  Hugurinn fer að gúgla svör annarra við sömu spurningu.  Nei, þessi sagði þetta og hinn sagði hitt.  Hvað finnst mér í raun og veru? ..  

Er mín niðurstaða  asnaleg eða hallærisleg?  Það er ekki til neitt svoleiðis svar.   Hversu oft hefur þú ekki verið með svarið og breytt því við ritskoðun eigin hugsana?  Svo kom í ljós að þú hafðir rétt fyrir þér. 

Við höfum vilja og við höfum val.  Verum okkar eigin "puppet master"   .. hreyfum okkur til hægri ef við viljum fara til hægri og vinstri ef við viljum fara til vinstri.  Að sjálfsögðu verðum við að taka tillit til laga og reglna (nú eða taka afleiðingum þess að brjóta þær)  og þegar við förum til hægri og/eða vinstri að við rekumst ekki á næsta mann eða stígum á tær einhvers.

Leyfðu ÞÉR að ráða,  ekki gefa út leyfisbréf fyrir aðra að ráða þínum skoðunum,  hvort sem það er val í pólitík, trúarbrögðum,  smekk, ástar- eða vinarsambandi.  Spurðu þig og svaraðu hratt – ekki hika,  ...

þú veist best hvað þú vilt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær færsla hjá þér, innilega sammála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.3.2011 kl. 17:00

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þú þekkir þetta Ásthildur mín!

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.3.2011 kl. 18:22

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já svo sannarlega, og á fleiri en einn veg.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.3.2011 kl. 20:29

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð :)

Ásdís Sigurðardóttir, 18.3.2011 kl. 21:29

5 identicon

Flott hugleiðing Jóhanna. Við erum ótrúlega leiðitöm, margir fylgja sama stjórnmálaflokknum í gegnum lífið, sama þó stefna flokksins breytist þá breytist líka skoðanir fólks á sama veg. Eins hvet ég fólk til að fara yfir visa reikninginn sinn og til að átta sig á hvað margir eru orðnir áskrifendur að laununum okkar. Dagblöð tímarit sjónvarpsstöðvar líkamsrækt, síminn, netið og guð má vita hvað, svo notum við sumt af þessu lítið sem ekkert. Ég hreinsaði til hjá mér nýlega og launin mín hækkuðu um þrjátíu þúsund á mánuði við það, og það sem meira er ég sakna einskis af því sem ég henti út.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 22:53

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það er rétt Ómar, gott hjá þér að taka þetta svona í gegn.  Spurning hver og hvað stjórnar okkar lífi líka. Ég er t.d. í stanslausri baráttu við bílinn minn. Ég vil ganga - en þegar hann er til staðar þá nota ég hann. Þess vegna lána ég stundum dóttur minni bílinn og neyði sjálfa mig til að nota tvo jafnfljóta! ..  Tölvan notar mig líka oft meira en góðu hófi gegnir. Matur, áfengi, tóbak, vinna o.s.frv. tekur stunum af okkur völdin og við missum stjórn.  Við erum í raun í stanslausri valdabaráttu um okkur sjálf og erum þar að auki í hættu að týna okkur sjálfum.  Hætta að heyra í okkur vegna suðsins í röddum annarra.

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.3.2011 kl. 23:22

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásdís, góð sjálf.

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.3.2011 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband