Biðjum komandi kynslóð afsökunar

Við, fullveðja Íslendingar sem fyrirmynd fyrir komandi kynslóð er ekki góð. Skotgrafahernaður hefur verið aðferðafræðin sem hefur verið stunduð eftir að dómur Hæstaréttar féll varðandi framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings.  Ég viðurkenni alveg að ég hef frekar tilheyrt annarri skotgröfinni og hef illa skilið gleði sumra Sjálfstæðismanna yfir því að framkvæmdin við kosningu stjórnlagaþings var dæmd ólögleg.  Ég gat ekki glaðst yfir þessu, þvi að ég sá þetta sem meiri kostnað fyrir þjóðina, sem var búið að puða út í loftið og í bætti, þar sem nú þyrfti að kjósa á ný.  Að ógleymdu því fólki sem fékk ógildingu á ráðningu sinni til Stjórnlagaþings. 

Ingibjörg Sólrún var gagnrýnd á sínum tíma fyrir að segja að liðlega þúsund manns í Háskólabíói væri ekki þjóðin.  Nú hrópa sumir að þau 37% sem kusu til stjórnlagaþings hafi ekki verið  þjóðin.  Auðvitað er þjóðin við öll, en ekki hægt að segja að þessi þúsund í Háskóabíó eða þessi 37% séu EKKI þjóðin. 

Þjóðin hafði möguleika á að koma að þessum kosningum - allir kosningabærir menn og mér finnst reyndar hálfgerður dónaskapur að nýta ekki kosningarétt,  þegar búið er að berjast fyrir honum.  Aftur á móti vissi ég að sumir fóru ekki að kjósa vegna þess að þeir hreinlega gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir þurftu ekki að kjósa 25, einn hefði dugað.  Nú eða skila auðu til að mótmæla.  Það var partur af mistökunum, að mínu mati, að kynna þetta ekki betur. 

Í undirbúningi fyrir stjórnlagaþing var lagt í þúsund manna fund,  þversnið af þjóðinni,  fyrir utan börn, en auðvitað berum við,  sem lögráða teljumst, ábyrgð á börnunum.  Það er fyrir þau sem við þurfum að vinna að lýðræði, jafnrétti, heiðarleika og öllum þeim góðu gildum sem voru niðurstaða Þjóðfundar, þverskurðar þjóðarinnar,  fyrir vinnu hinna 25 kjörnu til stjórnlagaþings. 

Þar er hvergi minnst á hroka, einræði og óheiðarleika sem gildi fyrir kjörna fulltrúa til að vinna eftir.

Stjórnarskrá þarf að bæta, mér skilst að þar séu ágallar og þar vanti ákvæði um jafnrétti, um auðlindir Íslands o.fl.  Auðlindir Íslands eru auðlindir komandi kynslóða, barna þessarar þjóðar um ókomin ár.  

Jóhanna Sigurðardóttir varð pirruð, ég skil það vel, en hún fór í vörn og eins og svo margir aðrir, þá má hún tileinka sér meiri auðmýkt en ekki fara í vörn - Róbert Marshall hefur riðið á vaðið og biður afsökunar á mistökum í framkvæmd kosninganna.  Auðvitað eiga yfirmenn að líta í eigin barm þegar að mistök eiga sér stað,  hvort sem þau eru beint eða óbeint þeirra. Þannig eru góðir leiðtogar.  Það er erfitt að bera ábyrgð,  en þetta fólk hefur valist til að bera ábyrgð og því þýðir ekki bara að fara í vörn og reiðast - jafnvel þó að hinir gleðjist yfir mistökum þeirra.  

Um leið og ég skrifa þetta sé ég hvað þetta eru óþroskuð  samskipti.  Menn eru að leggja sig fram til að gera sitt besta,  klikka á því - og þá hlakkar í andstæðingunum.  Það æsir mennina upp og í staðinn fyrir að allir fari að vinna að því að laga mistökin þá fer öll orkan í það að hía á hvert annað, ergjast út í hvað hinn aðilinn er vitlaus og ómögulegur. 

Reynum að vinna að lausnum en ekki að meiri vandræðum, það endar í borgarastyrjöld.  Hver vill það?  

Höfum góð gildi í heiðri - í viðbót við þau sem hafa verið nefnd má nefna vináttu, virðingu og kærleika. 

Við hljótum öll að hafa það að markmiði að Ísland verði vænt land til að lifa í - ekki bara fyrir mig eða þig - heldur fyrir alla.  Við megum að sjálfsögðu ekki ala á hinu neikvæða,  ekki reisa múra á mili okkar, hvorki trúarlega né pólitíska -  heldur að vinna saman á þann hátt að úr verði "win/win situation" .. 

Hvað ef að viðbrögð okkar,  viðbrögð okkar sem þjóðar yrðu sett undir dóm?  Hver höndin upp á móti annarri. Erum við ekki bara að viðhalda mistökunum og bæta í ef eitthvað er?  Ætli hæstiréttur myndi dæma þetta sem rétta framkvæmd? 

Ég tel að við þurfum öll að biðjast afsökunar,  biðja afsökunar börn þessarar þjóðar sem við eigum að vera fyrirmynd fyrir.  

Lifi fagmennskan, lifi gagnkvæm virðing og lifi LÝÐRÆÐIР


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. og látum af dónaskap!

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.1.2011 kl. 16:57

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Verulega flott færsla hjá þér og ég tek undir hvert orð. Takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2011 kl. 19:44

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þjóðin kaus til stjórnlagaþingsins undanbragðalaust. Þeir sem ekki mættu á kjörstað höfðu ákveðið að fella sig við útkomu kosninganna.

Árni Gunnarsson, 27.1.2011 kl. 20:19

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk sömuleiðis Ásthildur fyrir að nenna að lesa.

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.1.2011 kl. 22:13

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það er rétt, Árni - það er ekki hægt að kenna öðrum um ef maður nýtir ekki atkvæðisrétt sinn.

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.1.2011 kl. 22:14

6 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Af hverju er fólk á móti Stjórnlagaþinginu og vill ekki að það fari fram?

Það skil ég ekki fyrir mitt litla líf.

Hörður Sigurðsson Diego, 28.1.2011 kl. 01:00

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég skil það vel að ýmsir hafi lítið álit á stjórnlagaþinginu, og áhuga Jóhönnu á því.  Það þarf stjórnarskrárbreytingar til þess að hægt sé að ganga í ESB... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.1.2011 kl. 01:41

8 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Það er nú bara dæmigerð samsæriskenning, Jóna. Tillögur stjórnlagaþings verða ekki sjálfkrafa að lögum. Það þarf þjóðaratkvæði.

Hörður Sigurðsson Diego, 28.1.2011 kl. 02:01

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Í skoðanakönnunum kemur í ljós, að mjög fáir vilja þetta þing eða hafa á því áhuga. Órækasti vitnisburður er samt, að aðeins um 30% landsmanna tóku þátt í kosningunum til þess. Á bak við þann frambjóðanda, sem fékk flest atkvæði, var því aðeins brot landsmanna. Á bak við þá 25 menn, sem náðu kjöri, er vitanlega aðeins nokkur hluti þeirra 30%, sem þátt tóku í kosningunum. Þetta fólk var umboðslítið, áður en Hæstiréttur ógilti kosningu þess. Nú er það umboðslaust.

Morgunblaðið gerði fyrir röskri hálfri öld iðulega gys að „Þjóðinni á Þórsgötu eitt“, þar sem skrifstofa Sósíalistaflokksins var, en hann talaði jafnan í nafni þjóðarinnar og gaf raunar út blað, sem hét Þjóðviljinn. Naut flokkurinn samt ekki nema stuðnings fimmtungs landsmanna, þegar best lét. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á það í Háskólabíói í upphafi bankahruns, að þeir, sem þar væru staddir, væru ekki þjóðin, en fyrir þá réttmætu ábendingu voru gerð hróp að henni.

Þjóðin er vitanlega ekki einhver minni hluti, hvort sem hann er hinn örsmái minni hluti, sem kaus 25-menningana á stjórnlagaþing, eða þau 30%, sem tóku þátt í kosningunni til þingsins. Raunar er þjóðin ekki heldur meiri hluti þeirra Íslendinga, sem hafa kosningarrétt hér og nú. Þjóðin er ekki aðeins einhver minni hluti og meiri hluti hér og nú, heldur hlýtur þetta að vera samheiti yfir Íslendinga fyrr og síðar, liðnar, lifandi og komandi kynslóðir. Þetta er sú heild, sem Egill Skallagrímsson, Halldór Kiljan Laxness. við, sem nú erum uppi, og komandi kynslóðir geta talið sig til.

Þjóðarhugtakið hlýtur því að vísa til almennra og varanlegra hagsmuna Íslendinga á framfarabraut þeirra. Það felur í sér virðingu fyrir fortíðinni og von um framtíð. Þjóðarhugtakið skírskotar til almennrar sáttar um þau lögmál, sem best hafa reynt til að ryðja framfarabraut okkar og gera hana að öðru leyti greiðfærari. Þessi lögmál eru aðallega tvö, og hafa vestrænar þjóðir lært þær á langri og erfiðri göngu sinni.

  1. Takmarka verður valdið, svo að það verði ekki misnotað.
  2.  Veita verður einstaklingum svigrúm til að leita hamingjunnar og þroskast hverjum eftir sínu eðli.

Ég geri þessi orð að mínum. Tekið héðan

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2011 kl. 02:11

10 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Jóhanna. Það voru minna en 5% þjóðarinnar sem eiga að biðja okkur hin afsökunar. Við hin höfum ekkert gert neinum nema lifað friðsamlegu lífi og ég veit að þú ert meðal okkar og hefir ekkert að afsaka. Við ættum ekki að blanda næstu kynslóð í dæmið því hún getur gert okkur grikk áður en við erum öll eins og sú yngsta starfandi gerði okkur núna með því að ryðja okkur eldri frá völdum. ( var ekki við nein völd og engin biturleiki.) 

Valdimar Samúelsson, 28.1.2011 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband