30.10.2010 | 20:34
Hlutverk ríkisins er m.a. að útdeila sameiginlegum gæðum, þannig að þjóðin njóti góðs af, er ríkið að gera það?
Ég mætti á málþing Reykjavíkur Akademíu í morgun, málþing með yfirskriftinni Réttlætiskennd og samfélagssýn. Ég mætti að vísu klukkutíma of seint svo ég missti af erindi gamla kennara míns úr guðfræðideildinni, Clarence Glad. Sá sem var í ræðupúlti var Sigurjón Árni Eyjólfsson, líka gamall kennari úr guðfræðideildinni. Hans uppáhald er Lúter - það fer ekkert á milli mála.
Hans erindi bar titilinn Viðurkenning og réttlæti(ng) - og að sjálfsögðu fór hann út í að ræða réttlætingu af trú. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það alltaf voða, voða flókið fyrirbæri. En svona að því slepptu sagði hann nokkra hluti sem mér fannst standa upp úr:
Grunnþörf mannsins er viðurkenning, jafnframt að elska og vera elskaður. Ég get alveg kinkað kolli yfir þessu.
Sigurjón talaði jafnframt um kjarnann í guðsþjónustunni, sem hann segir vera bænina - og að sjálfsskilningurinn birtist í bæninni. Ég þarf að íhuga þetta nánar.
Á eftir Sigurjóni talaði kona sem mér fannst afburðaklár - og hefði viljað gera hana að einræðis"herra" á Íslandi, enda er hún líka stjórnsýslufræðingur, menntuð frá The London School of Economics.
Þessi kona heitir Sigurbjörg Sigurðardóttir, og hún flutti mjög líflegt erindi og byrjaði á persónulegum nótum, og sagði frá bakgrunni sínum - sem mér finnst jákvætt, það gefur svona innsýn inn í manneskjuna. Ástæðuna fyrir að segja frá æsku sinni og uppeldi sagði hún vera að samferðafólki hennar í LSE (London School of Economics) fannst merkilegt að hún, dóttir einstæðrar sex barna móður sem hefði alist upp á bóndabæ úti á landi, væri komin í Þennan fína skóla, LSE. Hún hafði þá lýst fyrir Bretunum jafnræðinu sem ríkti á Íslandi og að allir hefðu jafna eða svipaða möguleika á menntun, heilbrigðisþjónustu og húsnæði. Þetta var 1998. Hún kom heim árið 2007 og varð fyrir hálfgerður áfalli, þegar hún uppgötvaði hvað stéttarmunurinn var orðinn mikill - og fór að pæla hvort að hún hefði í raun verið að ljúga að Bretunum. En nei - þetta var bara breytt samfélag. Hennar erindi nefndist Samfélagssýn og ábyrgð kjósenda.
Hún lék sér aðeins með yfirskrift málþings, sem var eins og áður sagði réttlætiskennd og samfélagssýn og snéri því yfir í réttlætissýn og samfélskennd.
Hún talaði um að allir hefðu tilfinningu fyrir réttlæti, og að krafan um réttlátt samfélag væri eilíf. Eilíf vegna þess að við komum aldrei að þeim punkti þegar við værum búin að gera allt réttlátt og gætum bara hætt.
Hún notaði orðin vakta - vernda - ástunda um réttlætið.
Sigurbjörg ræddi um útrásarvíkinga, bankamenn, pólitíkusa og aðra þá sem hefðu brotið af sér en tækju ekki ábyrgð, þrátt fyrir að það lægi í augum uppi að það væri réttlátt.
Hún spurði hvort að það ætti að vera ríkisábyrgð á réttlæti. Þ.e.a.s. ætti ríkið að bera ábyrgð á brotum þessara aðila? Hvað kenndi það okkur - og hvað lærðu þessir einstaklingar af því?
Hún talaði um hugtakið "Moral Hazard" .. en það fjallaði einmitt um það þegar að sá sem brýtur af sér tekur EKKI ábyrgð.
Sigurbjörg talaði um hlutverk ríkisins sem ætti að vera Þjónn almennings, en gleymdi stundum hlutverki sínu. Hlutverki við að verja, stuðla að velferð, réttvísi þjóðarinnar, viðhalda sannindum og tryggja aðgang að þekkingu.
Ríki sem lætur þjóðina borga fyrir skuldir óráðsíumanna er varla að verja þjóðina, stuðla að velferð eða réttvísi?
Það er líka hlutverk ríkisins að útdeila sameiginlegum gæðum. Þannig að þjóðin í heild njóti góðs af. (Distributed justice)..
Gæðin eru auðlindir okkar, orkan, vatnið, fiskurinn.
Það væri skrítið að það væru innbyrðis deilur meðal landsmanna um auðlindir, en í raun ættum við að vera að verja þær fyrir öðrum, sbr. þorskastríðið á sínum tíma.
VIÐ EIGUM AÐ VERNDA AUÐLINDIRNAR OG DREIFA ÞEIM JAFNT, NÚVERANDI KVÓTAKERFI ER ÓJÖFNUÐUR OG RÍKIÐ ER EKKI AÐ ÚTDEILA SAMEIGINLEGUM GÆÐUM JAFNT.
Varðandi miklar eigur og auð á höndum yfirstéttar sem nú hefur myndast á Íslandi, þá er næstum þörf á því að ríkið fari að hegða sér eins og Hrói höttur, taka frá hinum ríku til að færa hinum fátæku.
Hún sagði frá könnun sem var búin að standa yfir í 30 ár sem var gerð í Bretlandi, þar sem niðurstaðan var: "Equal Societies always do better" ..
Ójöfnuður hefur neikvæð áhrif á allt samfélagið til hins verra, líka á hina ríkustu!
-----
Þetta er orðinn ágætur skammtur í bili, ég ætla að segja meira frá erindum málþingsins síðar, .. en þarna er komið fram svo margt sem skiptir máli, og gott að pæla í.
Erindið fjallaði m.a. um ábyrgð kjósenda - við getum íhugað hver er okkar ábyrgð sem kjósanda, mín og þín. Eigum við ekki rétt á að þeir sem við kjósum standi við sína stefnu - sem við í raun kjósum? Hafa VG og Samfylking gert það? Hafa þessir flokkar kannski ekki haft möguleika til þess, vegna þess fargs sem það fékk í fangið og vegna alls konar utanaðkomandi afla?
Af hverju látum við óréttlátt kvótakerfi viðgangast - kerfi sem er byggt á ójöfnuði og er meira að segja búið er að dæma kerfið sem brot á mannréttindum, er það ekki? ..
Mín er alveg komin á blússandi pælingu í pólitík
p.s. Einar Már rithöfundur talaði í lokin og minntist hann á formenn Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks sem litu á sig sem prinsa bíðandi á hliðarlínunni, en í raun og veru væru þeir bara froskar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Facebook
Athugasemdir
Ríkisstjórnin fer einsog köttur kringum heitan graut, þar sem vandamál samfélagsins eru. Kjarklaus og huglaus! Hér ríkir stjórnarkreppa og þingið er í upplausnarástandi. Engin forysta er fyrir hendi, sem þing og þjóð gæti fellt sig við. Málin verður að leysa. Það getur ekki ríkisstjórnin og ekki þingið með núverandi stjórn! Valið stendur því milli neyðarstjórnar og kosninga. Síðari kosturinn er raunar ekki kostur í stöðunni miðað við ástand stjórnmálaflokkanna. http://utanthingsstjorn.is/
Auðun Gíslason, 30.10.2010 kl. 22:24
Ég er sammála þér Auðun, um að hér sé stjórnarkreppa. Ég er líka logandi hrædd við þessi utanaðkomandi fjármálaöfl eins og AGS sem vill stýra með peningavaldi.
Ríkisstjórnin tók við vandamálum sem fyrri ríkisstjórn var búin að koma landinu í og getur ekki leyst þau, því að alls staðar er "dead end" ..
Það kom einnig fram á þessu málþingi hversu mikilvægt væri að menn öxluðu ábyrgð - ekki bara ríkisstjórnin sem gekk í svefni - og áttu að stýra því að haft væri eftirlit með allri þeirri óráðssíu sem stunduð var í landinu, heldur t.d. auðmenn sem eru bara búnir að taka upp sama háttinn aftur, virðast hafa komist upp með græðgina, og læra þess vegna nákvæmlega ekki neitt.
Enginn tekur ábyrgð og enginn biðst afsökunar, en það á bara að vaða áfram - og þeir nota aðferðafræði þar sem þeir segja fólki að skoða ekki í baksýnisspegilinn sem sé eitthvað neikvætt í þessu tilfelli, sem það er ekki, vegna þess að án þess að taka fortíðina í gegn - játast henni og læra af mistökum - læra þeir nákvæmlega ekki neitt.
Kosningar eru svo sannarlega ekki kostur, nema að upp rísi nýr og heiðarlegur flokkur manna - sem er eflaust draumórar.
Ég skoða þennan Utanþingsstjórnarpakka. En getum við verið örugg með liðið sem velst í þessa Utanþingssjórn?
Jóhanna Magnúsdóttir, 31.10.2010 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.