Grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr Morgunblaðinu 4. september 2010, krufin:
Það sem er skáletrað eru orð Sigmundar, en annað eru mín orð.
Sótt að kirkjunni - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
En er eðlilegt að stjórnmálamenn og aðrir sem hafa horn í síðu kirkjunnar noti ógæfu fólks til að hafa áhrif þar á?
Hér þykir mér mikilvægt að það komi fram að "ógæfa fólks" í umræddum tilfellum er til komin vegna þess að vígður þjónn kirkjunnar reyndist sjúkur maður, misnotaði vald sitt gegn sóknarbörnum sínum og reyndar eigin dóttur. Það bættist síðan við "ógæfu fólks" þegar að vígðir þjónar kirkjunnar reyndust illa þessum sóknarbörnum, snéru við þeim baki og/eða þögguðu málið niður beint eða óbeint.
Einnig tel ég að gagnrýnin sé alls ekki öll ættuð frá þeim sem "hafa horn í síðu kirkjunnar" heldur alveg eins frá þeim sem þykir akkúrat vænt um kirkjuna sína.
"Þegar þetta er skrifað hefur fréttaflutningur um kirkjuna og kynferðismál staðið samfleytt í 22 daga. Fréttamenn þekkja það að yfirleitt reynist erfitt að halda fréttaflutningi af sama máli gangandi lengur en í þrjá daga, jafnvel þótt um stór mál sé að ræða. Það á ekki síður við um góð mál, mál sem fréttamennirnir sjálfir telja mikilvæg. Vissulega tengist fréttaflutningurinn nú mjög alvarlegu máli sem ekki var gert upp á sínum tíma. Upphaf umfjöllunarinnar var hins vegar frásögn af því að kirkjan hygðist loksins taka málið fyrir. Það voru góðar fréttir og hefðu átt að geta orðið tilefni uppbyggilegrar umræðu. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin."
Ég er sammála því að það er örugglega erfitt að halda boltanum á lofti í fréttaflutningi - og fréttamenn hafa "tendens" til að segja frekar slæmar fréttir en góðar, því að þær "selja" betur. En var upphaf umfjöllunarinnar hins vegar frásögn af því að kirkjan hygðist loksins taka málið fyrir? ... Er það rétt með farið hjá Sigmundi Davíð?
Var ekki upphaf umræðunnar umfjöllun DV um mál Guðrúnar Ebbu, dóttur biskups? Þann 11. ágúst kom frétt - "KIRKJAN LEYNIR BRÉFI BISKUPSDÓTTUR".. Er það rangt eftir tekið hjá mér? Var ekki málið að hún hafði sent Karli biskupi bréf vorið 2009 og beðið um fund, bréf sem var ósvarað ári síðar - sem hún síðan ítrekaði í maí 2010 en vegna forgangsröðunar mála hjá Kirkjuráði í júní en vannst ekki tími til að taka hennar bréf fyrir en ákveðið var að boða hana á fund í september. Það var þó ekki fyrr en eftir að DV birti þessa frétt og viðtal við Guðrúnu Ebbu að hún var boðuð skyndilega á fund með Kirkjuráði 17. ágúst sl. þar sem hún sagði frá misnotkun föður síns.
Upphaf umfjöllunarinnar, miðað við þetta, er EKKI að kirkjan hygðist taka málið fyrir - það finnst mér býsna langsótt túlkun.
"Eðli umræðunnar
"Það er mikilvægt að læra af mistökum fortíðar og kynferðisafbrot og forvarnir gegn þeim eru að sjálfsögðu mjög alvarleg mál og verðskulda ítarlega umræðu."
Algjörlega sammála Sigmundi Davíð þarna.
"Hins vegar virðast fréttirnar af kirkjunni ekki snúast fyrst og fremst um það. Í stað þess að fjalla um kynferðisbrot almennt og hvernig megi koma í veg fyrir þau virðist fréttaflutningurinn aðallega ganga út á að tengja saman umræðu um kirkjuna og kynferðisbrot á einn eða annan hátt."
Eftir það sem á undan er gengið - er þá hið rétta að fjalla "fyrst og fremst" um kynferðisbrot almennt? Hér er verið að fjalla um gjörðir þjóns og viðbrögð þjóna "HEILAGRAR ALMENNRAR KIRKJU" sem okkur er uppálagt í Postullegri trúarjátningu að trúa á. Hvers vegna á að taka hið almenna út úr þegar að hér er ekki um að ræða kynferðisbrot almennt? Kirkjan; samskipti þjóna hennar og skjólstæðinga er aðalatriði hér en ekki aukaatriði.
"Þetta varð ljóst fyrstu dagana á meðan menn voru að þreifa sig áfram í umræðunni. Eftir það fór umræðan hins vegar að snúast nánast eingöngu um mál fyrrverandi biskups sem upp kom fyrir 14 árum. Það er hræðilegt hvernig skilið var við það mál á sínum tíma en það eru mistök nú, rétt eins og þá, að láta umræðuna fyrst og fremst snúast um kirkjuna fremur en stöðu fórnarlamba. Sem betur fer hefur umræðan þó aðeins þróast í þá átt að undanförnu."
Það er hræðilegt hvernig komið var fram við Sigrúnu Pálínu, fjölskyldu hennar og þær konur sem komu fram með henni 1996. Og það er hræðilegt hvernig skilið var við það mál og það er hræðilegt að Ólafur Skúlason hafi verið kosinn biskup með þennan ljóta blett og með stuðningi svo margra.
Hefur umræðan í dag ekki snúist um stöðu fórnarlamba? Ég hef að minnsta kosti lesið frásagnir fórnarlambanna í DV - birst hafa viðtöl við a.m.k. fjórar konur, auk dóttur biskups. Ég hlustaði á Sigrúnu Pálínu í Kastljósi og vissulega las ég umræðu þar sem einhver kvartaði yfir því að of mikill tími Kastljóss hefði farið i viðtalið við hana!
Umræðan varðandi fórnarlömb hefur að mestu leyti verið á þann veg að þarna fari sannar hetjur, hugrakkar konur sem hafa stigið fram öðrum konum til eftirbreytni. Eðli málsins er að gagnrýnin hefur verið á kirkjuna, eða þá sem málið eiga að taka til sín innan hennar og tel ég það ekki óeðlilega gagnrýni og virkar kannski eins og hæst sé kallað.
"Viðbrögð kirkjunnar voru reyndar um margt klaufaleg þegar umræðan byrjaði."
Já - frekar og kannski var það toppað með mynd af Karli biskupi og Geir Waage með málverk af Ólafi Skúlasyni hangandi á milli sín. Vissulega var það óvart af þeirra hálfu, - en þarna hékk myndin enn uppi á áberandi stað á biskupsstofu þrátt fyrir frásögn Guðrúnar Ebbu um misnotkun föður hennar og annarra kvenna. Það lýsir ekki mikilli iðrun eða kannski bara mjög miklum klaufaskap.
"Að hluta til er það vegna þeirrar erfiðu stöðu sem forystumenn kirkjunnar eru í, eðli starfsins vegna. Þeir geta ekki varið sig eins og hvert annað fyrirtæki. Raunar er til þess ætlast af kirkjunni að þar bjóði menn hinn vangann fremur en að ráðast í ímyndarherferð. Þegar fólk er reitt yfir alvarlegu máli og vill sjá afgerandi viðbrögð kann hins vegar tal um iðrun og mikilvægi fyrirgefningar að virðast ósannfærandi. Þó myndum við ekki vilja að kirkjan yrði pólitísk í störfum sínum og svörum."
Það sem beðið er um af forystumönnum kirkjunnar er hugrekki til að játa að rangt hafi verið aðhafst. Fyrir hverjum átti kirkjan að "verja sig" ? .. Fyrir konunum sem komu fram? Fyrir ásökunum fjölmiðla? Hver sló kirkjunnar menn á vangann? Er til önnur vörn fyrir kirkjuna eða yfirmenn hennar í þessu tilfelli en að koma fram af auðmýkt?
"Undirtónninn
Núverandi biskup hefur gengið mjög langt til að koma til móts við þær kröfur sem til hans eru gerðar í málinu. Engin ástæða er til annars en að ætla að hann og prestar þjóðkirkjunnar taki það mjög alvarlega. Kirkjan hefu rraunar gert meira en flestir til að takast á við þessi mál. Hvers vegna er ekkert minnst á aðrar stofnanir sem hafa gert minna eða ekkert."
Miðað við áðurnefndan "klaufaskap" og ósamræmi í málflutningi núverandi biskups og Sigrúnar Pálínu sem kom m.a. fram í Kastljósviðtölum, þá er það að mínu mati og margra annarra, vegna hlutdeildar hans að rétt sé hjá biskupi að víkja á meðan málið er í rannsókn sannleiksnefndar.
Kirkjan er ekki sambærileg neinni annarri stofnun að mínu mati. Kirkjan á að vera skjól og fyrirmynd í kærleika. Hér er um að ræða skjólstæðinga kirkjunnar. Það er rétt að illa hefur verið haldið að mörgu leyti á kynferðisbrotamálum í samfélaginu, en það gerir ekki ábyrgð kirkjunnar minni. Ég tel rétt að biskup og prestar kirkjunnar taki þetta mál mjög alvarlega. Ég hef hlustað á marga presta og veit að þeim líður illa - eins og okkur mörgum sem þykir vænt um kirkju Jesú Krists á jörðu.
"Hvers vegna eru ekki rifjuð upp alvarleg kynferðisbrotamál annars staðar og rætt um þessi mál almennt. Mörg alvarleg afbrot eru óuppgerð .Aðalatriðið virðist vera að tengja kynferðisbrot við kirkjuna á einn eða annan hátt fremur en að ræða það alvarlega mál sem slík afbrot eru."
Ég var búin að gefa athugasemd á þetta í upphafi.
"Undirtónninn er sá að kynferðisafbrot séu sérstakt vandamál í kirkjunni og jafnvel látið í veðri vaka að kirkjan umberi kynferðisafbrot. Það er mjög mikilvægt að fréttaflutningur líti ekki út eins og herferð. Í hverju skrefi þessa máls hefur maður hins vegar getað sagt sér hvert umræðan yrði leidd næst, algjörlega óháð svörum kirkjunnar manna."
Undirtónninn er sá að kynferðisbrot eru alvarlegri innan kirkjunnar en annars staðar (ef hægt er að setja alvarleikastig á kynferðisbrot). Sérstaklega er það alvarlegt þegar um er að ræða æðsta mann kirkjunnar og enn og aftur; vígðir þjónar sem gegna heilögu prestsembætti taka þátt í þöggun.
Kynferðisbrot eru alltaf alvarleg - og sérstaklega alvarleg þar sem sálusorgarar nýta sér veikleika þeirra sem til þeirra leita í sárum sínum. Þetta á að sjálfsögðu líka við fólk í öðrum stéttum eins og lækna, sálfræðinga og kennara. En trúfræðilega er það þannig að það sem við gerum okkar minnsta bróður höfum við gert á hlut Jesú - og það hljómar illa; en það þýðir að æðsti maður kirkjunnar hefur misnotað Jesú þegar hann misnotaði dóttur sína og sóknarbörn sín.
Eigum við svo enn að miða kirkjuna við aðrar stofnanir og benda á aðra að þeir standi sig ekki?
"Rök fást ekki rædd
"Einn andans maður, en þó ekki tíðarandans, leyfði sér við upphaf umræðunnar að greina frá þeirri skoðun sinni að þagnarskylda presta mætti ekki vera neinum vafa undirorpin. Taldi hann lög sem vernda þagnarskylduna æðri öðrum lögum (en orðaði það reyndar óheppilega.) Þetta hentaði ágætlega til að fóðra málið í nokkra daga. Hins vegar var lítið rætt um rök prestsins heldur ráðist á hann persónulega af ótrúlegri óbilgirni og óhikað gefið í skyn að honum gengi það til að verja kynferðisbrotamenn. Rök prestsins sem ekki fengust rædd voru hins vegar þau að ef ekki væri til staðar þagnarskylda mundi ekki hvarfla að nokkrum manni, hvorki fórnarlambi né geranda að trúa presti fyrir því að brot hefðu átt sér stað. Prestur væri þá ekki í aðstöðu til að hvetja fórnarlömb til að kæra mál eða gerendur til að leita sér hjálpar. Þótt ég sé ekki endilega sammála mati prestsins eru rök hans þó þess verð að vera rædd. Þetta er reyndar ævagömul og áhugaverð lagaleg og heimspekileg umræða, efniviður ótal lærðra ritgerða, leikrita, kvikmynda og bóka. Hvers vegna var ekki farið í þá umræðu.
Afhverju datt engum í hug að spyrja um þagnarskyldu geðlækna, sálfræðinga eða lögmanna? Það var vegna þess að umræðan snerist í raun ekki umstóru spurningarnar og svör við þeim heldur um að halda áfram að berjaá kirkjunni. Hvaða mál sem dugði til að halda umræðunni gangandi varþví gripið og ef ekkert nýtt gerðist var sama fréttin sögð að morgni, íhádeginu og á kvöldin. Sú málsmeðferð er ósanngjörn gagnvart kirkjunni en hún er ekki síður ósanngjörn gagnvart þolendum kynferðisbrota."
"Geir er andans maður en ekki tíðarandans" það er rétt hjá Sigmundi Davíð að Geir er ekki maður tíðarandans og talar t.d. um skriftir sem ekki tíðkast í Lútherskri kirkju. Varðandi þessa umræðu þá fór hún mikið fram hjá mér þar sem ég var erlendis þegar þetta kom fram. Framsetningin var klaufaleg og svo virtist sem að Geir væri tvísaga. Það er það eina sem ég get sagt um þessa aðkomu Geirs Waage. Það er þó þannig að landslög verða að ráða úrslitum, sérstaklega þegar um er að ræða þjóðkirkju sem er einmitt tengd ríkinu. Ég tek undir það að það var rangt að vera að segja Geir styðja barnaníð ef slíkt hefur verið rætt.
Sigmundur spyr af hverjum engum datt í hug að spyrja um þagnarskyldu geðlækna, sálfræðinga eða lögmanna. Ég horfi nú ekki mikið á sjónvarp - en ég sá þó viðtal við einn lögmann um þagnarskyldu í framhaldi af þessari umræðu.
"Eftir allmörg viðtöl við fólk sem tjáði sig um það hversu óeðlilegt það væri að prestur ætlaði að fara á svig við lög til að verja níðinga og biskup hefði ekkert aðhafst í málinu var hringt ítrekað í þjóðskrá svona eins og til að athuga hvort umræðan væri ekki farin að hafa áhrif, nánast eins og söfnunarátak með öfugum formerkjum."
Þarna veit Sigmundur eitthvað sem ég veit ekki, en er óeðlilegt að blaðamenn séu forvitnir hvort að ummæli prests hafi neikvæð áhrif á veru fólks í þjóðkirkjunni ?
"Fólk getur viljað standa utan þjóðkirkjunnar af mörgum ástæðum. Augljósasta ástæðan er sú að vera annarrar trúar en ýmislegt fleira getur komið til. En er eðlilegt að stjórnmálamenn og aðrir sem hafa horn í síðukirkjunnar noti ógæfu fólks til að hafa áhrif þar á?"
Þetta kom fram áður og svaraði ég því.
"Lögreglustjórinn
Sér einhver fyrir sér að ef háttsettur starfsmaður annarrar stofnunar hefði verið sakaður um kynferðisafbrot hefði verið fjallað linnulaust um það með sömu nálgun og gert hefur verið gagnvart kirkjunni, jafnvel þótt um væri að ræða stofnun á sviði heilbrigðismála, menntamála eða réttarfars? Fyrir skömmu var fyrrverandi lögreglustjóri í Svíþjóð og skólastjóri lögregluskólans þar í landi sakfelldur fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot. Sá var einnig þekktur femínisti og baráttumaður gegn ofbeldi gegn konum. Dytti nokkrum manni í hug að halda því framað lögreglan væri ónýt af þessum sökum eða að tortryggja allaf emínista. Lausnin er ekki sú að einangra vandann við þá stofnun þarsem málið kemur upp í hvert sinn og telja hana ónýta. Þvert á móti.Þegar slík brot eiga sér stað í stofnunum sem hafa sérstöðu ísamfélaginu eins og kirkjunni, lögreglunni eða á heilbrigðisstofnunum sýnir það einmitt að slíkt geti gerst hvar sem er. Það að einangra málið við tiltekna stétt eða vinnustað er því til þess fallið að líta fram hjá hinu eiginlega vandamáli og hvernig megi bregðast við því."
Það vill nú þannig til að DV hefur fjallað í margar vikur, ef ekki mánuði, um meint efnahagsbrot (þar er ekki um að ræða kynferðisbrot) skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar Ólafs Hauks Johnson, það þurfti enga kirkju til.
Menntaskólinn Hraðbraut er ekki ónýtur og stofnunin kirkja er ekki ónýt og langt í frá. Aftur á móti þurfa menn innan hennar að skoða hvort þeir eru að vinna henni hag eða ekki. Leiðtoginn skiptir gríðarlega miklu máli. Ég tel að margir sem eru að segja sig úr kirkjunni sjái sér ekki aðra leið færa til að mótmæla yfirstjórninni en að skrá sig úr stofnun sem sem hefur forystu sem þeir eru ósáttir við. Fyrir suma var þetta ákv. dropi sem fyllti mælinn og fyrir enn aðra "wake up call" að skrá sig úr félagsskap þar sem þeir áttu ekki heima trúarlega séð.
"Að læra ekki af reynslunni
Þegar óhugnanlegir atburðir koma upp er rík tilhneiging til að einangra þá við tilteknar kringumstæður til að þurfa ekki að horfast í augu við hversu almennt vandamálið er (slíkt er of flókið). Afleiðingin er sú að menn læra sára sjaldan af reynslunni. Þegar svo bætist við að fólk sem vill nýta tækifærið fyrst og fremst til að koma höggi á umrædda stofnun fremur en að skoða hvernig megi vinna á vandanum er ekki von á góðu."
Ég held að fólk sem vill koma höggi á stofnunina horfi til undantekninga, eins og áður sagði. Ég get alveg séð fyrir mér meðlimi Vantrúar hoppandi af kæti og einhverja trúlausa þar fyrir utan varðandi stofnunina. Ég vil samt trúa því að allir sem eru heilbrigðir - trúaðir sem trúlausir - hljóti að læra af þessu og bið þess einlæglega að hugrekki kvennanna verði til þess að varða brautina fyrir fleiri fórnarlömb kynferðisafbrota, af hverra völdum sem það er. Ég held að yfirlýsingar kvennanna og viðtöl vð þær höfði til allra hvar sem fólk stendur og þar séu engin landamæri. Við getum þakkað þeim fyrir það. Megi svo allir líta í eigin barm, konur sem karlar hvort að við eigum í fórum okkar einhver leyndarmál sem við höfum þagað yfir eða höfum gerst meðsek í því að hylma yfir mál sem ekki átti að þaga yfir.
"Ráðist á grunnstoðirnar
Í því upplausnarástandi sem ríkt hefur á Íslandi er komin upp mikil tilhneiging til að höggva í grunnstoðir samfélagsins. Allt sem tengist stjórnmálum hefur verið afskrifað, ráðist er gegn lögreglunni og ráðherrar og þingmenn tala um dómstóla með hætti sem hefði ekki hvarflað að nokkrum manni fyrir fáeinum árum. Það er ekki vænlegt ástand þegar andrúmsloftið er orðið þannig að allt er tortryggt og þær stofnanir sem við þurfum til að byggja upp samfélagið eru rifnar niður. Staðreyndin er sú að þjóðkirkjan og aðrir söfnuðir og trúarhreyfingar á Íslandi hafa unnið mikið og fórnfúst starf fyrir þá sem eiga um sárt að binda hér á landi og erlendis. Í söfnuðum þjóðkirkjunnar starfar mikill fjöldi fólks sem hefur helgað sig því að hjálpa öðrum. Það er eins ósanngjarnt og hægt er að hugsa sér að það fólk og störf þess séu sett í samhengi við hræðileg afbrot."
Virðing er áunnin. Því miður hafa stjórnmálin verið á þá leið að þar hefur verið stunduð spilling. Andrúmsloftið sem ríkt hefur sprettur ekki upp af engu. Grunngildi þjóðfélagsins eru HEILINDI og HEIÐARLEIKI en því miður hafa þau gildi ekki verið virt og því hefur fólkið gert uppreisn og er reitt.
Sigrún Pálína óskaði þess í Kastljósviðtali að Kirkjan yrði heil. Grunnstoð kirkjunnar er samfélagið - kirkjurnar úti á landi, kvenfélögin, samveran, kórarnir, hið almenna sóknarbarn er grunnstoð kirkjunnar. Það er ekki verið að ráðast að grunnstoð kirkjunnar. Biskupsstofa eða yfirstjórn kirkjunnar er ekki grunnstoð hennar, en vissulega með mikla ábyrgð. Þeir eiga að taka gagnrýnina til sín sem eiga hana, hinir eiga að láta hana vera. Það er enginn að segja sig úr Þjóðkirkjunni vegna Gunnu í kvenfélagi kirkjunnar eða vegna Gunna sem syngur í kirkjukórnum.
"Meðferð valds
Kirkjan hefði á margan hátt getað staðið betur að málum en fólkið sem fyrir henni fer virðist vera einlægt í því að vilja læra af reynslunni. Takist það er þjóðkirkjan komin lengra en flestar eða allar stofnanir samfélagsins í forvörnum gegn kynferðisafbrotum. Þá hefur barátta þeirra kvenna sem málið snýst um gagnast kirkjunni og samfélaginu. Ef málið verður hins vegar til þess að festa í sessi ranga mynd af kirkjunni og starfi hennar er skaðinn mikill."
Ég ítreka að ég tel að barátta og hugrekki kvennanna sem stigið hafa fram hafi nú þegar gagnast samfélaginu og kirkjunni. Þær eru af flestum álitnar hetjur og þær hafa vakið upp umræðu sem er mikilvæg fyrir okkur öll sem látum okkur velferð náunga okkar varða. Málið verður ekki "til að festa í sessi ranga mynd af kirkjunni og starfi hennar" nema að rangt verði á haldið af kirkjunnar mönnum.
"Umræðan minnir á að valdfjölmiðla er mikið."
Já, varð ekki umræðan þess valdandi í upphafi að Guðrún Ebba var loksins kölluð á fund kirkjuráðs?
"Takist vel til hjá kirkjunni verður vonandi sagt frá því ekki síður en hinu."
Tek undir þetta, en vek þó athygli á þeirri staðreynd að því miður selja vondar fréttir betur en góðar. Nú verður að höfða til fréttamanna um heilindi þeirra. Það þýðir ekki að heimta bara heilindi úr einni átt.
"Eftir að búið er að flytja fréttir í þrjár vikur þar sem kirkjan er á einn eða annan hátt tengd umræðu um kynferðisafbrot eru eflaust flestir komnir með það á tilfinninguna að slíkt sé sérstakt vandamál í kirkjunni þótt ekkert bendi til þess að sú sé raunin."
Ég held að við mannfólkið séum ekki það einföld að við vitum ekki að kynferðisafbrot séu stunduð alls staðar. Óskin er þó sú, enn og aftur, að kirkjan sé öruggt skjól.
"Það er mikilvægt að þeir sem fara með mikil völd noti þau af sanngirni gagnvart þeim sem undir þau völd eru settir og hafi hugfasta þá reglu að allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skulið þér og þeim gjöra."
Þetta á við um ALLA konur og kalla, presta og blaðamenn. - Og munum eftir okkar minnsta bróður og systur...
Að lokum:
Sumum finnst umræðan um kynferðisbrot innan kirkjunnar (sem annars staðar) óþægileg og vilja þagga hana niður - en þjófavarnakerfi hljómar líka óþægilega í eyrum. Hér er ekki um "false alarm" að ræða. Hér er um raunverulega vá að ræða. Það er ekki lengur í boði að slökkva á þjófavarnarkerfinu. Við verðum að taka mark á viðvörunum.
Ég enda þessa greinargerð mína að lokum á hluta úr bréfi Guðrúnar Ebbu:
Það er mér mikið hjartans mál að kirkjan reyni að tryggja með öllum tiltækum ráðum að þetta komi ekki fyrir aftur, að kynferðisbrotamenn komist til æðstu metorða. Ég tel nauðsynlegt að íslenska þjóðkirkjan taki skýra afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi og lýsi því yfir að það sé synd. Kirkjan þarf að taka sér stöðu með þolendum og margir þolendur eiga ítrúarlegum erfiðleikum og finnst Guð hafa brugðist sér. Ég tel einnig mikilvægt að prestar og allir sem starfi á vegum kirkjunnar fái fræðslu um kynferðislegt ofbeldi.
Love all serve all
Jóhanna Magnúsdóttir, mamma, amma og guðfræðingur.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 5.9.2010 kl. 21:15 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill. Hann sýnir hvað þessi grein Sigmundar er grunn og léleg. Hvað varðar þagnarskylduna hefur a.m.k. einn siðfræðingur í öðru sambandi vísað algjörlega á bug þeim rökum sem Geir Waage notar um skilyrðislausa þagnarskyldu en þau eru ekki ný af nálinni. Vilhjálmur Árnason tekur þetta fyrir í Siðfræði heilbrigðisstétta.
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.9.2010 kl. 23:56
Takk fyrir frábæran pistil. Ég er sammála Sigurði Þór að grein Sigmundar er grunn, léleg og að mínu mati slæm pólitík. Hvaða kona treystir Sigmundi eftir þessa lesningu? Ekki ég allavega.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.9.2010 kl. 00:12
Takk Sigurður, eins og kannski kemur þarna fram þá er þetta mér, eins og Guðrúnu Ebbu, hjartans mál. Ég get ekki áttað mig á mikilli hrifningu manna af þessum skrifum Sigmundar, þóa að auðvitað megi finna þarna sannleikskorn og góðar ábendingar inn á milli.
Ég hefði viljað bæta einu við mínar athugasemdir og það er sá hugur sem ég ber til aðstandenda. Aðstandenda og vina þeirra sem þótti vænt um Ólaf Skúlason og aðstandenda þeirra sem lentu í misnotkun af hendi hans. Svona ofbeldisharmleikur virkar eins og domino og dominokubbarnir eru ótrúlega margir. Það er í mörg horn að líta.
Þessi "krufning" mín er gerð af einlægni og bestu vitund. Ef ég fer með rangt mál einhvers staðar vil ég gjarnan fá að vita það svo ég megi leiðrétta það.
Þakka fyrir þitt innlegg og viðbótina um þagnarskylduna.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 00:20
Þetta fjársvikaglæparusl náttúrlega stefnir fyrst og fremst að því hlaða undir sjálft sig. Það er náttúrlega auðvelt að gjamma þegar langsiðlaust pakk hefur fyrir löngu svikið sig í gegn.
Baldur Fjölnisson, 5.9.2010 kl. 00:26
Sæl Jóna - þetta mál er eiginlega búið að liggja á sálinni minn og ég búin að skrifa þrjú eða fjögur blogg sem ég hætti við að birta. Svo varð mér svo um þennan pistil Sigmundar að ég gat ekki þagað lengur.
Ég mætti á tvær málstofur í Háskólanum í vikunni og á annarri þeirra var Sigrún Pálína. Þar heyrði ég margt sem skiptir máli í umræðunni.
Einn prestur viðurkenndi, með grátstafina í kverkunum, að hann hefði hreinlega óttast yfirvaldið á sínum tíma. Óttast að standa með fórnarlambinu og hann baðst fyrirgefningar og sú iðrun var einlæg.
Ég leyfði mér á annarri málstofunni að koma fram með gagnrýni á yfirstjórn kirkjunnar, benti t.d. á að kirkjan færi ekki eftir eigin reglum. Í kirkjunni eiga að gilda þessi fínu jafnréttislög sem hafa verið brotin af yfirstjórn kirkjunnar við ráðningar í preststörf. Mér fannst ástæða til að draga það fram þó það væri ekki um að ræða kynferðisbrot. Vildi bara benda á að kirkjan þarf að fara eftir því sem hún prédikar. Siðareglur voru settar og vonandi verður farið betur eftir þeim en jafnréttislögunum. Ég lét líka vita þá skoðun mína að bylta þyrfti valdapíramída kirkjunnar - setja stjórnunina upp í meiri miðstjórn að hætti borðsamfélags Krists. Missti það meira að segja út úr mér að biskup ætti ekki að tróna sem toppurinn á kransakökunni! :-)
Eftir málstofuna kom ónefndur prestur til mín og hvíslaði að mér því að "ég hefði frelsi til að tjá mig og gerði það fyrir þau hin" ..
Sigmundur Davíð skrifar þessa grein sem formaður Framsóknarflokksins en ekki sem almennur borgari, og er því að skrifa hana á pólitískum forsendum, er það ekki?
Ég er ekki mjög pólitískt þenkjandi! ;-)
Ég veit nú ekki alveg með traustið á Sigmundi Davíð, þekki hann ekkert - held hann hafi einlæglega trúað því sem hann var að segja og margir hafa klappað honum lof í lófa fyrir greininguna, kannski ágætur gaur, en næ honum ekki alveg.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 00:41
Baldur - mig vantar eiginlega þýðingu á þínu innlegg. Þýðir þetta að þú sért "mjög róttækur" gegn stofnuninni kirkjunni almennt?
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 00:45
Aha! Svo að þú varst reiða konan fremst í stofunni á fimmtudeginum! :P
Hjalti Rúnar Ómarsson, 5.9.2010 kl. 00:58
Sæl Jóhanna.
Ég heiti Nils Gíslason og var að lesa skrif þín.
Í mörg ár hef ég lesið orðið "kirkjan" þar sem erfitt er fyrir mig að vera viss um hvað orðið "Kirkjan" á að tákna. Þegar það er ekki með greini (kirkja) þá má reikna með því að það tákni hús eða byggingu sem notuð er til að halda í þeim messu eða guðsþjónustu. Fyrir mér táknar orðið kirkja, samfélag trúaðara það er söfnuður "eklesía". Þegar það er með greini "kirkjan" þá virðist það tákna stofnunina Þjóðkirkja, eða hvað?.
Skoðum þetta í grein þinni: "þess að vígður þjónn kirkjunnar" Er biskupinn þjónn kirkjunnar (er hannað þjóna þjóðkirkjunni sem stofnun) eða var hann þjónn safnaðarbarnanna?? --Aftur hér: "þegar að vígðir þjónar kirkjunnar" Hver er að þjóna hverjum? Hér segir síðan: "hafa horn í síðu kirkjunnar" Er það þjóðkirkjan Kt xxxxxx xxxgötu í Reykjavík. eða er þetta hallgrímskirkja?? Hér segir: "þykir akkúrat vænt um kirkjuna sína. " Höfðar væntumþykjan hér til þjókirkjunnar í reykjavík, eða til heimakirkjunnar sem farið er í á jólunum? Tilvitnun: --fréttaflutningur um kirkjuna--- Er hér átt við þjókirkjustofnunina eða sóknarkirkjuna eða hvað? Áfram segir í greininnni:
--kirkjan hygðist loksins --- Nú á að taka til höndunum og gera eitthvað. hver er þessi kirkja sem hér er talað um að hygðist loksins, er það stofnunin þjóðkirkja er það prestastefnan eða er það kirkjuþing eða á að halda safnaðarfund í kirkjunni sem umtalaður biskup þjónað í?? ---"KIRKJAN LEYNIR BRÉFI BISKUPSDÓTTUR"--- Hver var þessi kirkja? Var það Hallgrímskirkja? Dómkirkjan? Þjóðkirkajn kt. xxx
Við nánari skoðun kemurí ljós að þjóðkirkan er ekki kirkja heldur kennitala.
Mér er því fyrirmunað að skilja hver þesssi "kirkja (n)" sem vitnað er til í grein þinni er. Þegar hugtakið "kirkjan" er notað í ræðu eða riti er nauðsynlegt að útskýra hvað við til þess að fávitar eins og ég geti skilið havð við er átt, nema mér komi það bara ekkert við.
Ég vona að þú skiljir hvað ég er að meina. þetta er ekki ádeila á skrif þín heldur á málnotkun allra þeira sem taka sér orðið kirkja í munn í ræðu eða riti.
Kannski væri eðlilegast að kenna þjóðinni grunnmerkingu orðsins, en það táknar söfnuður hinna trúuðu kristnu. Það hefur síðan færst yfir á húsið sem söfnuðurinn kemur saman í og síðan á stofnunina sem valdamenn komu sér upp.
Þetta er mjög svipað og þróunin er erðin með notkun á hugtaakinu að "skíra" einhvern. Nútíma meðal-jón skilur það sem nafngjöf en ekki trúarathöfn. Hér er talað um að skíra skip þegar því er gefið nafn. Á enskri tungu er þetta enn meira komið út í skurð. Þar er notað orða sambandið "to christin the ship" Þear talað er um að gefa því nafn. Kanski er ekki leiðum að líkjast. gaman væri þó og skýrara fyrir alla aðila ef þessi hugtök eru notuð með réttum og rökréttum hætti.
Með bestu kveðju
Nils Gíslason
Kt 0806432099
Nils Gíslason (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 01:32
Hjalti - já ég er víst sú reiða ;-) ... það þarf mikið til að reita mig til reiði sko!
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 01:47
Sæll Níls,
Skil þig svo sannarlega. Ég skrifaði reyndar blogg ca. tveimur á undan þessu akkúrat um mismunandi notkun á orðinu kirkja.
1) Kirkja sem hús
2) Kirkja sem stofnun (yfirstjórn)
3) Kirkja sem söfnuður
Að vísu geta 2 og 3 blandast þ.e.a.s. yfirstjórn er auðvitað hluti safnaðar.
Greinirinn skiptir engu máli.
Í engu í þessari grein er verið að vísa í kirkjuna sem hús.
Ég er með nýja tölvu svo ég get ekki sett hlekk á fyrra blogg mitt - en ég skal gera það á morgun, það skýrir vonandi ýmislegt fyrir þér.
Þegar talað er um þjóna kirkjunnar, þá er verið að tala um embættismenn kirkjunnar en orðið embætti er komið af orðinu ambátt. Kirkjan er þá í raun samheiti yfir stofnunina og söfnuðinn, þjónustan er fyrst og fremst við söfnuðinn.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 01:53
Það voru blaðaljósmyndararnir sem sóttust sérstaklega eftir því að fá að hafa Ólaf á milli þeirra Geir og Karls, heyrði ég hjá áreiðanlegri heimild af staðnum.
Jón Valur Jensson, 5.9.2010 kl. 07:35
Takk fyrir þitt innlegg Jón Valur. Nú er spurning hvort að Geir og Karl gerðu sér grein fyrir uppstillingunni, varla? .. Ljósmyndarinn er fréttamaður - og vissulega "seldi" þessi mynd margar fréttir. Spurningin er hverjum ljósmyndarinn hefur verið trúr.
Klaufaskapurinn stendur líka eftir sem áður og má þá spyrja sig um PR fólk biskups og aðstoðarfólk hvort að það hefði ekki átt að vera búið að "fatta" að færa myndina þar sem hún væri ekki eins áberandi, eða jafnvel koma henni alveg í geymslu?
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 09:55
Framsóknarflokkur er með ríkiskirkju á stefnuskrá sinni AKA Framsóknarflokkur er með misrétti á stefnuskrá sinni, ætlar hreinlega að dissa stóran hluta þjóðarinnar... Já já, ég veit að það hefur alltaf verið á stefnuskrá framsóknar.
Það er ekki hægt að bjarga kirkjunni í núverandi mynd; Kirkjan verður að fara 100% frá ríki, þá verður hún svona smákirkja. Ef hún fer ekki af spenanum þá mun hún deyja.... Því þá snýst þetta ekki lengur um kristna trú, þetta snýst þá um laun og kjör presta.
Þeir verða að velja; Launaumslag frá ríki vs. Jesú
DoctorE (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 10:43
Ég hef hugsað þetta samband ríkis og kirkju mikið. Það eru plúsar og minusar. Reyndar hef ég komist að því að líklegast er best að fyrirtæki séu bara annað hvort alveg ríkis eða alveg einka. Einkaaðilar hafa tendens til að fara illa með peninga sem þeir fá frá ríkinu, nota þá frekar í einkaþágu en að nota þá í ætlaða starfsemi - því miður. Þarna er ég alls ekki að tala neitt sérstaklega um kirkjuna.
Ég er að íhuga hvort það sé rétt að kirkjan verði fyrst "HEIL" eða stofnunin kirkja þegar henni tilheyra bara þeir sem eru þar af heilum huga. Ekki þeir sem eru átómatískt skráðir inn eða eru þar bar vegna þess að þeir nenna ekki að skrá sig úr kirkjunni.
Kannski er þetta spurning um hvort að verið sé að setja nýtt vín á gamla belgi .. svo notaðar séu líkingar Biblíunnar.
Ég get ekki tekið þetta flokkpólitískt - og finnst að umræðan eigi að vera þverpólitísk.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 12:03
Hafðu stórt TAKK, Jóhanna fyrir þennan pistil
Marta B Helgadóttir, 5.9.2010 kl. 13:02
Þessi stofnun verður aldrei "heil" fyrr en hún lætur af skýlausum mannréttindabrotum sínum. Kirkja sem ætlar sér að reyna að vera einhvernskonar forystusauður í góðu siðferði verður, einfaldlega verður að skilja að innan slíkrar stofnunnar er ekki rúm fyrir gróf mannréttindabrot (á íslenskan skala auðvitað). Þetta er ekki flókið. Kirkjan á að sjá sóma sinn í að taka sjálf af skarið og aftengja sig ríkinu, ef þeir ætla að viðhalda svo lítið sem örlitla örðu af heilindum, og eiga frumkvæðið af því að láta afnema lögin um sjálfkrafa félagaskráningu hvítvoðunga í sértrúarsöfnuði, annað sem er ekki bara mannréttindabrot, heldur brot á stjórnarkránni líka. Hvernig fólk, venjulegt fólk, sem annars er gott og vænt við náungann, fer að því að sjá ekki hversu ömurleg framkoma þetta er við annað fólk, er langt fyrir ofan minn skilning. Þessi nauðgunarmál biskupsins fyrrum, eru skelfileg og viðbrögð kirkjunnar lítið skárri, en ég áfellist ekkert alla kirkjuna fyrir hans mál, enda það ósanngjarnt. Úrskráningin er ekki bara útaf hans máli, heldur var það bara kornið sem fyllti mælinn.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 5.9.2010 kl. 13:43
ÞAKKA þér Marta - álit þitt skiptir miklu máli. (ég myndi setja hjarta hér, en ég er með eitthvað blokk á tölvunni sem ég kann ekki á! ;-) )
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 15:40
Takk fyrir þitt álit Siggi, - Ég veit ekki hvort það er hefð fyrir því að kalla kirkjuna "sértrúarsöfnuð" en mér dettur ekki í hug að fara að tína það út sem aðalatriði.
Mér finnst umhugsunarvert það sem þú og margir eruð að tala um, varðandi sjálfkrafa skráningu í trúfélag. Einnig má segja að jafnréttislega sé það undarlegt að barn skráist átómatískt í trúfélag móður. Það myndi eflaust heyrast eitthvað í konum og femínistafélaginu ef það væri á hinn háttinn - eða hvað?
Lög og reglur þurfa sífelldrar endurskoðunar við, það sem okkur þótti einu sinni eðlilegt þykir okkur stundum alveg fáránlegt í dag.
Líklegast er þessi nýjasta uppákoma innan kirkjunnar bara sparkið sem sumir þurftu í rassinn til að framkvæma þá ákvörðun sína að segja sig úr þjóðkirkjunni, kornið sem fyllti mælinn eins og þú segir.
Ég tel ekki að það sé hægt að kenna blaðamönnum um úrsagnir úr kirkjunni, það hefur kannski bætt örlitlu lóði á vogarskálarnar en það sem hefur vegið langþyngst og skipt mestu máli er hegðun ákveðinna aðila innan kirkjunnar og hvernig hefur verið á málum haldið. En við erum sammála þar að þarna er ekki um að ræða hegðun hins almenna sóknarbarns.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.9.2010 kl. 16:04
Mér finnst gaman að kalla kirkjuna sértrúarsöfnuð, bara svona til að stuða aðeins viðmælandann, enda hægt að bera ýmis rök fyrir því að ríkiskirkjan er bara stór sértrúarsöfnuður, en meðlimir þar trúa bara eina útgáfu kristninnar, sem er jafn vitlaus og allar hinar túlkanirnar, það þarf bara einhver að vera stærstur. Ég sé engin góð rök fyrir því að gefa þeim stærstu sérstakann status umfram aðra.
En ég get heldur ekki séð hvað álit kvenna og feminista skiptir máli þegar kemur að almennum mannréttindum og félagafrelsi annara, hvort sem um er rétt feminísta eða rétt barna þessara kvenna að ræða. Konur og menn "eiga" ekki börnin sín í þeim skilningi að þau megi gera það sem þau vilja við þau, af því að þau "eiga" þau. Börn fæðast inn í þennan heim með réttindi alveg eins og fullnuma maður, og þar með talinn þann rétt að skrá sig í, eða standa utan hvaða félags sem er, veri það Sjálfstæðisflokkurinn eða þjóðkirkjan. Eigum við þá ekki alveg eins að hafa það þannig að börn Sjálfstæðismanna séu skráð í Sjálfstæðisflokkinn við fæðingu. Mæður og feður eru umsjónaraðilar barna sinna, ekki eigendur. Eignarétturinn nær ekki yfir fólk lengur, það gerði það áður og þá kölluðum við það þrældóm.
Staðreyndin er bara sú, alveg sama hvernig er litið á þetta, að sjálfkrafa skráning hvítvoðunga í sértrúarsöfnuð móður sinnar er viðbjóðslegt framferði gagnvart grundvallarmannréttindum barnsins um félagafrelsi sem tryggt er ÖLLUM íslendingum í stjórnarskránni og mannréttindalögum bæði Sameinuðu Þjóðanna og Evrópusambandsins.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 5.9.2010 kl. 16:48
Flottur pistill. Ég held að skrípið sem formaður framsóknar er hafi skotið það litla sem hann atti eftir af virðingu landsmanna í andlitið með þessum fáránlegu skrifum sínum.
Omnivore, 5.9.2010 kl. 18:27
Sæl Jóhanna.
Það er ekki kirkjan sem slík, sem fremur kynferðisglæpi, heldur menn sem starfa innan hennar og finnst mér að þarna verði að breyta orðalaginu. Það er ekki sanngjarnt að hengja bakara fyrir smið, eins og máltækið segir.
Ég er mjög dómhörð gagnvart kynferðisafbrotamönnum og myndi aldrei reyna að verja neinn slíkan, innan hvaða stéttar sem hann væri. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að ég gleypi allt hrátt sem sagt er. Ég reyni að sjá bak við andlits-grímuna sem fólk setur upp, til að komast að hinu sanna.
En rétt er það að margir hafa tapað virðingu sinni og áliti eftir að hafa látið ógætileg orð falla í fjölmiðlum.
TARA, 5.9.2010 kl. 19:38
Sæl Jóhanna - Virkilega góður og vel unninn pistillinn þinn.
Varðandi greinina hans Sigmundar Davíðs þá er hún svo ótrúlega grunnhyggin og út og suður um víðan völl sem hann fer - að það er með ólíkindum að maður í hans stöðu skuli láta slík skrif frá sér fara - eða kannski hefur hann ekki meiri mann að má ?
Þú tekur mjög málefnalega og skipulega á þessum skrifum hans Sigmundar Davíðs - ég vona að pistillinn þinn rati fyrir hans augu.
Benedikta E, 5.9.2010 kl. 22:54
Ps. Jóhanna - TAKK - fyrir pistilinn
Benedikta E, 5.9.2010 kl. 22:59
Ríkiskirkja er sértrúarsöfnuður sem kom sér vel fyrir vegna óeðlilegrar virðingar sem menn fyrr á tímum báru fyrir trúarbrögðum.
Það sem Sigmundur skrifaði var faktískt: Ég er eldgamall íhaldsseggur sem ber enga virðingu fyrir neinu mannlegu, hvað þá jafnrétti, mér finnst rétt að kirkjan mín fái að gnæfa yfir allar aðrar kirkjur; Ég heiti Sigmundur... ég er tímaskekkja... nema ef gamla ísland verður endurreist.. þá er ég ekki tímaskekkja.
doctore (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 09:21
Það er ekki ólíklegt að Sigmundur viti af þessari gagnrýni á grein sína og hafi lesið hana. Það er hins vegar athyglisvert að stjórnmálamenn standa eiginlega aldrei í rökræðum við almenning. Þeir vilja bara setja fram skoðanir sinar, helst á áberandi hátt, sem sem í opnu Moggans, en þeir rökræða ekki við fólk, kannski einna helst aðra stjórnmálamenn. Ég man ekki eftir því að stjórnmálamaður í fremstu röð hafi komið t.d. inn á bloggsíðu og blandað sér í málin þar sem verið er að gagnrýna hann sjálfan eða málfutning hans.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.9.2010 kl. 16:00
Hó, hó, .. hef ekki haft tíma til að svara hér - en hef þó lesið athugasemdir. Þetta er ágætt komment hjá þér Sigurður Þór. Kannski vantar meira samtal í umræðuna. Sama á við um ræður prestanna. Pétur í Óháða söfnuðinum gerir þetta þó skemmtilega en hann býður upp á umræður um prédikun í kaffi á eftir messu. Kannski fleiri prestar séu farnir að taka það upp, en ekki hef ég orðið vör við það. Það eru svo margir sem vegsama Sigmund Davíð fyrir þessa ræðu að ég er núna farin að reyna að sálgreina hvers vegna það er.
Ég held reyndar að þessi umræða hafi verið mörgum kirkjunnar manni svo erfið að þegar að athyglinni var beint frá kirkjunni og að fjölmiðlum sem nú var orðinn vondi kallinn sem lagði kirkjuna í einelti, hafi fólki létt.
Sigmundur Davíð beindi sviðsljósinu frá kirkjunni á tvennan hátt - beindi því til fjölmiðla annars vegar og svo svona bara á kynferðisbrot almennt.
Jóhanna Magnúsdóttir, 6.9.2010 kl. 23:31
Doctore - ég held að Sigmundur sé af gamla skólanum, hann er ekki að hjálpa kirkjunni með sínu innleggi, ef hún vill vera heil þá á hún að þola að vera upplýst.
Jóhanna Magnúsdóttir, 6.9.2010 kl. 23:32
Takk fyrir þitt innlegg Benedikta, og þakka þér fyrir þakkirnar ;-) en enn er ég að heyra lofið um Sigmund og finnst mér næstum eins og sumir vilja taka hann í dýrlinga tölu! :-/
Jóhanna Magnúsdóttir, 6.9.2010 kl. 23:34
TARA, ég geri mér grein fyrir vandræðunum þegar verið er að fjalla um kirkjuna - ég skrifaði um þetta vandamál fyrr:
http://naflaskodun.blog.is/blog/naflaskodun/entry/1088038/?fb=1
Kirkjan - húsið
Kirkjan - stofnun/starfsmenn
Kirkjan - samfélag
Þakka þitt innlegg.
Omnivore - sömuleiðis þakka fyrir, veit ekki hvort ég get tekið undir með það að kalla fólk skrípi, en við orðum hlutina á mismunandi máta.
Jóhanna Magnúsdóttir, 6.9.2010 kl. 23:41
Siggi - ég minntist á feminista, þegar verið var að ræða innskráningu í trúfélag móður. Ég er viss um að þær myndu mótmæla ef að barn væri ósjálfrátt skráð í trúfélag föður. Þarna má segja að fari jafnréttismál. En ég veit að þér finnst brotið ekki fjalla um jafnrétti - heldur mannréttindi. Þá mannréttindi barna.
Við þurfum að taka ýmsar ákvarðanir fyrir börnin okkar, ég tel ekki að skírn geti skaðað nokkurn lifandi mann. Ef hann trúir ekki á hana þá er þetta aðeins eins og venjulegur hárþvottur og á ekki að skipta máli. Mér finnst að eins og fólk hefur frelsi til að hafa börn sín utan trúfélaga eigi það að hafa frelsi til að hafa börn sín innan trúfélaga, en auðvitað þarf að fara varlega. Ég er á móti öllum öfgum í þessum málum.
Jóhanna Magnúsdóttir, 6.9.2010 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.