28.8.2010 | 09:35
Smá opin dagbók 28. ágúst 2010
Það er svo gaman hjá mér þessa dagana, að þrátt fyrir að pólitíkin sé í molum og kirkjubatteríið að hrynja þá nær það ekki til mín. Það á ekki við alla daga, en ég á mér líka von að ný tækifæri felist í vandræðunum. Kannski þarf að rústa til að endurbyggja? Sérstaklega ef að veggirnir voru orðnir rotnir.
Ég finn að sjálfsögðu til með konunum sem hafa verið að stíga fram og segja sögu sína, en um leið dáist ég að þeim og hugrekki þeirra, ég finn til með fólkinu sem er að upplifa afleiðingar kreppunnar og finn á eigin skinni að róðurinn verður þyngri. Ég er sjokkeruð yfir að það hafi verið að bjóða upp húsið hennar Ásthildar Cesil, svoleiðis ætti hreinlega ekki að líðast.
Það er voðalega margt RANGT að gerast þessa dagana. En eins og áður sagði líður mér vel í dag. Það á ekki við alla daga. Stundum fæ ég einmanaleikaköst, þau eru hræðileg - en vara sem betur fer stutt. Það er svolítið fúlt að vera makalaus, hafa engan til að kúra með, ræða daginn og veginn, "hvernig var þinn dagur elskan".. o.s.frv.. en þetta er "ástand" sem er mitt val. Ég á erfitt með skuldbingingar (commitment) af einhverjum ástæðum og verð alltaf svolítið aðþrengd þegar ég fer í samband. Það er algjörlega mitt vandamál. Ekki þessara dásamlegu manna sem ég hef kynnst, - en mér finnst karlkynið yfirleitt mun vandamálalausara en kvenkynið. Það er mín upplifun. Kannski miða ég allt út frá sjálfri mér.
En það er s.s. margt að gerast - var í stórskemmtilegu fimmtugasafmæli í gær hjá Maríu Ólafsdóttur sem reyndar átti afmæli 15. júlí en hélt upp á það í gær. Ég fór að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði í gær, en hún spurði hvort að Nonni færi með mér í afmælið. (Við erum búin að vera skilin síðan 2002, en reyndar var hann boðinn líka ásamt sinni ektakvinnu þar sem Maja er sameiginleg vinkona, þau höfðu afboðað sig). Mamma krútt er með heilabilun (Vascular dementia) og á sína góðu daga og sína slæmu daga hvað minnið varðar. Hún var annars flott í gær, nýbúin í hárgreiðslu og bara í sáttari kantinum.
Maja þekkir svo mikið af skemmtilegu fólki og er í söngsveitinni Vox Feminae sem tróð upp á skemmtilegan hátt með Möggu Pálma í fararbroddi. Þarna var engin önnur en gleðibjallan Edda Björgvins sem lá ekki á skemmilegheitum og svo á Maja systurina Hallfríði (Haffý) sem spilaði á þverflautu ásamt öðrum góðum vinum, en Hallfríður þessi er engin önnur en höfundur að Maxímús Músíkús. Þannig að ekki vantaði talentana í afmælisveisluna.
Mamma hennar Maju heitir Stefanía María og er virðuleg kona. Hún gekk upp að mér og spurði alvarleg: "Hvernig er það með þig" .. ég skildi ekkert hvað hún var að fara. Þá hélt hún áfram og sagðist alltaf vera að vonast eftir að heyra "prestur var séra Jóhanna Magnúsdóttir" .. hún er ekki alveg dús við að ég skuli ekki vera prestur, en þegar nokkrir viðstaddir heyrðu um hvað hún var að ræða, tóku þeir undir orð hennar og tilkynntu mér að ég yrði örugglega góður prestur. Tjamm, það er nú efni í heilt blogg í viðbót að ræða hvers vegna og hvers vegna ekki. En þrátt fyrir allt er ég þakklát fyrir traustið sem mamma hennar Maju ber til mín, því hún er svona kona með bein í nefinu!
Ég drakk pilsner í boðinu og var akandi. Dansaði samt diskó en gerði engan skandal ;-) Vígði beljukápuna mína í gærkvöldi og líka fallegan en skrautlegan kjól sem ég verslaði á útsölumarkaði í Boston. Mjög skrautlegur, "en alveg ég" ..sagði dóttir mín. Skrautlegt mynstur er "my thing" .. kannski af því ég er skrautleg sjálf?
Ég ætla ekkert að hafa þetta mikið lengra, gæti skrifað þúsund milljón hluti. En nú er ég að fara að leggja af stað fljótlega vestur, alla leið á Reykhóla til Elínu vinkonu minnar sem er þar einmitt prestur. Ætla að koma við í Huldukoti þar sem systur mínar liggja í bláberjalyngi og njóta. Oh.. ekki oft sem svona margt skemmtilegt býðst eina helgi. Í kvöld verður svo kvöldverður í íþróttahúsinu (does this sound like Kardimommubærinn or not?) og svo skemmtun og ball. Spurning hvað ég hangi lengi uppi á fótum.
Mig dreymdi svo mikla styrjöld í nótt, það er mjög óþægilegt og það voru svo miklar loftárásir. Mig hefur dreymt svona síðan ég var barn og er alveg óskaplega stríðshrædd þó ég hafi aldrei upplifað stríð. Ekki það að ég hafi ekki gengið í gegnum persónuleg stríð - en þau eru af öðrum toga.
Að lokum óska ég þeim sem las góðrar helgar og góðs veðurs. Sendi fallegar hugsanir út í heim og til vina og ættingja og þjóðarinnar allrar - ekki veitir af að við sendum hvert öðru fallegar hugsanir.
Eitt að því sem ég komst að í morgun þegar ég var að hugsa:
Ef að manneskja er heil þá er hún kærleikur, þess vegna er svo mikilvægt að við höldumst heil og látum hvorki utanaðkomandi né sjálf okkur brjóta okkur niður.
Þetta er mitt korn í dag.
Athugasemdir
takk fyrir skemmtilega lesningu.
Ásdís Sigurðardóttir, 30.8.2010 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.