Ertu fylgjandi einum hjúskaparlögum? - skoðanakönnun

Ætli Karl biskup sé fylgjandi einum hjúskaparlögum? Það hef ég ekki hugmynd um en skora á fjölmiðla að fá hreint svar út úr honum!  Ætli hann myndi neita að framkvæma giftingarathöfn samkynhneigðra eins og hún sr. María Ágústsdóttir sem lagði á sig ferðalag til dómsmálaráðherra til að fá það á hreint að hún þyrfti ekki að framkvæma þann "gjörning" að þurfa að fara að nýjum landslögum og vígja par af sama kyni í hjónaband.  Það má sjá nánar í blogginu á undan

Hún má þó eiga það að hún fer eftir sinni sannfæringu,  en bara spurning hvort að prestar sem ætli sér að starfa undir hatti ÞJÓÐkirkju ættu að söðla um og tilheyra söfnuði sem lýsir yfir andstöðu við lögin?  Samkynhneigðir eru líka þjóðin.

En ég hef sett inn skoðanakönnun fyrir þig hér til vinstri,  þar sem spurt er hvort að þú sért fylgjandi einum hjúskaparlögum? Svörin eru já, nei, hlutlaus, annað.  Ef þú merkir við annað væri gaman að fá skýringar og að sjálfsögðu mega sem flestir rökstyðja sitt atkvæði. 

Ég vil koma því að að Prestafélag Íslands sagði í álitsgerð sinni til Alþingis að ein hjúskaparlög væru réttarbót og því skýtur það skökku við að í fréttum sé sagt að víðtæk andstaða sé hjá prestum.  Það er mikil andstaða hjá fáum prestum,  en mjög margir, ef ekki flestir, þjóðkirkjuprestar fagna einum hjúskaparlögum! 

Til hamingju Ísland.  Wizard


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Já, ég er fylgjandi einum hjúskaparlögum - finnst bara ekkert ætti að vera sjálfsagðara.

Marta B Helgadóttir, 20.6.2010 kl. 14:39

2 Smámynd: Ragnheiður

Ég segi JÁ og mun alltaf segja já við jöfnum réttindum !

Ragnheiður , 20.6.2010 kl. 14:48

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ef allt væri með felldu ætti spurningin að vera:

Ertu fylgjandi hjúskaparlögum? -

Kristján Sigurður Kristjánsson, 20.6.2010 kl. 15:17

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Nú hafa 41 svarað  53,7 % er fylgjandi,  41,5 er á móti, 2,4 % hlutlaus og 2,4 % annað.  Takk fyrir að taka þátt.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2010 kl. 17:22

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Læt þetta malla eitthvað áfram!

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2010 kl. 17:23

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kl. 19:51  58 hafa svarað 53.4 % já, Nei 41,4 %,  Hlutlaus 3,4 %, Annað 1,7 %

Þetta virðist ekki breytast mikið.  Mig undrar reyndar hversu margir eru andvígir. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2010 kl. 19:53

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Auðvitað svara ég .

Ágúst H Bjarnason, 20.6.2010 kl. 21:16

8 Smámynd: Jens Guð

  Ég kaus já.  Ég er algjörlega ósammála Kalla biskupi að hjónabandinu sé hent á sorphaug ef hommar og lesbíur fá að giftast.

Jens Guð, 20.6.2010 kl. 22:41

9 identicon

Presturinn okkar hefur fyrir mörgum árum tekið orðin "karl og kona" eða hvernig það nú er- úr brúðkaups"ræðunni", hann notar orðin tveir einstaklingar, óháð því hvort parið sem er gefið saman (eða blessað eins og áður aðeins mátti) sé gagnkynhneigt eða samkynhneigt. Þe. hann hefur fyrir löngu aðlagað orðalag að nútímanum. Það fannst mér virkilega skemmtilegt, og fagna 4 ára brúðkaupsafmæli í vikunni.

 Finnst fáránlegt að ÞJÓÐkirkjuprestar haldi öðrum prestum í gíslingu með því að lýsa andstöðu sinni og reyna að koma í veg fyrir þessa löggjöf. Betra er að þetta sé leyft og þeir sem ekki vilji framkvæma neiti... en að þetta sé banna og þeir sem vilja gefa saman ÖLL pör óháð kynhneigð fái ekki að gera það.

 Mér finnst gagnkynhneigðu hjónabandi mínu ekki vera sýnd lítilsvirðing með því að gera samkynhneigðum jafnrétthátt undir höfði- þvert á móti finnst mér það upphafgning fyrir alla aðila.

Þórdís (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 23:45

10 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Með leyfi. Hvar er talað um samkynhneigð í Biblíuni. Því miður hef ég ekki fundið neinn ritningastað um samkynhneigð.

Hugtakið samkynhneigð var fundið upp í Þýskalandi seint á nítjándu öld og er grautur frá Darvín, Marx og öðrum Þýskum átjándu og nítjándualdar kennismiðum sem Nazisminn og Kommunisminn voru soðnir uppúr.

Já já, ég veit að Darvin var ekki Þýskur.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 20.6.2010 kl. 23:50

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi spurning þín, Jóhanna, er allóskýr og hætt við því, að hún rugli fólk.

En þetta löggjafarvafstur gekk út á að sameina venjulega hjónabandslöggjöf og lög um staðfesta samvist samkynhneigðra – að "hafa þetta ekki lengur aðskilið, heldur láta eitt gilda um alla", þ.e.a.s. að hjá samkynhneigðum verði ekki lengur talað um staðfesta samvist, heldur hjónaband og hjónavígslu og að þetta megi – og eigi jafnvel – líka að fara fram í kirkjum.

Þess vegna er þetta gróflega sakleysisleg og villandi spurning fyrir þá, sem voru ekki komnir inn í þessa sérstöku málnotkun, og mörgum finnst spurningin hljóma einhvern veginn jákvæð, en hún merkir einfaldlega þetta: að samkynhneigðir fái að GIFTA sig og kallast HJÓN og að prestar fái grænt ljós á það – ef ekki skipun um það – að annast "hjónavígslu" viðkomandi frammi fyrir altarinu.

Þess vegna svaraði ég hikstalaust NEI !

Heilög Ritning er fullkomlega skýr í því efni, að hjónabandið er fyrir mann og konu. Það kemur ekki aðeins fram í sköpunarsögunni, heldur og í berum orðum Jesú (Mt. 19, Mark. 10). "Jesús svaraði: „Hafið þið eigi lesið að skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður [frumtexti: eitt hold]. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.""

Ritningin bannar einnig kynferðismök tveggja karlmanna ítrekað, bæði í Gamla testamentinu og ekki síður í því Nýja. Í Róm. 1.26 kemur fram, að þetta tekur einnig til kvenna. Svo geta menn valið að fylgja þessu eður ei, en það er ekki með blessun Biblíunnar né Jesú Krists, og prestar sem taka sér blessunarorð í munn varðandi ástamáls-samlífi samkynhneigðra eru að brjóta gegn biblíulegum boðum og sjálfu umboði sínu sem prestar.

Þetta er nú bara svona, Jóhanna mín, hvort sem þér líkar það betur eða verr!

Jón Valur Jensson, 21.6.2010 kl. 02:05

12 Smámynd: Dingli

JÁ..og ÞÓ.

Samkynhneigð er hluti mannlegrar tilveru. Tæknilega er hún líffræðilega og/eða andlegur galli, (nú verð ég illilega skammaður af sumum)  en breytir engu um hvort sam, tví eða al-kynruglaðir séu betra eða verra fólk en annað, enda er slík firra ekki til umræðu hér. Áður en lengra er haldið er best ég lýsi yfir fullum stuðningi við réttindabaráttu samkynhneigðra sem og annarra sem átt hafa undir högg að sækja.

Það er bara þetta með kirkjulega brúðkaupið. Hversvegna vilja samkynhneigðir endilega neyða trúarklíku, sem telur að ritning sín banni hjónaband fólks af sama kyni, til að gifta sig? Af hverju láta samkynhneigðir þessa Biblíublesa ekki bara eiga sig og gifta sig annarsstaðar? Hvað um þá sem eru Múhameðstrúar, á að skylda söfnuð Múhameðs til að gifta samkynhneigða? Þá held ég nú að fyrst færist fjör í fjósið.

Ef kirkju Lúters verður gerð sú lagaskylda að gifta samkynhneigða, hlýtur það að gilda fyrir öll önnur trúarbrögð. Þegar kaþólikkar gifta fyrsta samkynhneigða parið með Jón Val sem meðhjálpara, lofa ég mæta í bikini. Ég tel það ekki réttindabaráttu, að vilja endilega troða sér í söfnuð sem telur mörg þúsund ára gamlar siðfræðihugleiðingar frá austurlöndum, vera komnar frá Guði sjálfum. Er ekki verið að brjóta réttindi þeirra sem trúa á orð Guðs ,Biblíuna, að þvinga þá frá sannfæringu sinni?

Dingli, 21.6.2010 kl. 06:05

13 Smámynd: Einar K. Árnason

Auðvitað eiga hommar ekki að fá að gifta sig. Það brýtur gegn lögmáli Guðs. Guð skapaði ekki Adam og Kára hann skapaði Adam og EVU!!

Einar K. Árnason, 21.6.2010 kl. 09:45

14 Smámynd: Arnar

Já, en ekki hvað.

Dingli, veit ekki til þess að samkynhneigðir vilji neyða presta til eins eða neins.  En það er hinsvegar fáránlegt að bókstafstrúarmenn geti komið í veg fyrir hjónaband samkynhneigðra utan sinnar bókstafstrúarstofnunar.

JVJ ætti að einbeita sér að því að opinbera sína hommafóbíu meðal kaþólikka og hætta að skipta sér af því hvað aðrir en kaþólikkar gera, ef einu rök hans eru út frá hans eigin kaþólsku bókstafstrú.

Arnar, 21.6.2010 kl. 09:52

15 Smámynd: Dingli

Arnar, bókstafstrúarstofnunin er ekki að reyna að banna hjónaband samkynhneigðra utan sinna vébanda.(þó sumir þar vildu það sjálfsagt) Ég var bara að velta því fyrir mér hvort félagar trúfélags sem telur samkynhneigð syndsamlega, hafi ekki rétt til að hafa þá skoðun í friði. Lög sem banna að mismunun fólki vegna kynhneigðar eru fyrir þér og mér kannski jafn sjálfsögð og sólin, en við getum ekki bannað öðrum að hafa aðra sýn til hlutana.

Af hverju samkynhneigðir telja það til réttindabaráttu að gifta sig í kirkjum eða moskum trúfélaga sem ekkert vilja með þá hafa, þegar þeir geta gift sig alstaðar annarstaðar er......jú ég get skilið það, en ekki hversvegna það er svona MÖST!

Dingli, 21.6.2010 kl. 11:12

16 Smámynd: Arnar

Dingli, með því að beita sér gegn lögum um hjónabönd samkynhneiðgra almennt eru bókstafstrúarmenn að reyna að hafa áhrif á aðra en eigin safnaðarmeðlimi.  Biskup íslands hefur td. verið þar framarlega í flokki.

Eftir því sem ég best veit neyða lögin ekki trúfélög til þess að gefa samkynhneigða saman, en leyfir þeim það.   Og samkynhneigðir gátu ekki gift sig áður.

Arnar, 21.6.2010 kl. 11:59

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það að guðfræðimenntað fólk, vígt sem óvígt og trúfólk almennt taki sér stöðu með samkynhneigðum systrum og bræðrum, taki sér stöðu með hjónavígslu para af sama kyni  og þá jafngildri hjónavígslu karls og konu, er mjög mikilvægur þáttur í að styðja við fólk sem vegna kynhneigðar húkir í  félagslegri einangrun m.a. af hræðslu við viðbrögð hinnar "kristnu stórfjölskyldu." 

Sumir hafa verið aldir upp í trúarsamfélagi þar sem litið er á lífsstíl samkynhneigðra sem synd og að það sé val að vera samkynhneigður. Þeim uppálagt að þau séu að „velja syndina“ og samviskubiti plantað í þeirra huga. Kærleikur?

Þetta ER úreltur hugsunarháttur og vissulega gamaldags, svo ég taki undir orð Sigríðar Guðmarsdóttur i kvöldfréttum Stöðvar 2, 18. júní sl. 

Biskup þjóðkirkjunnar  hélt síðan þann 20. júní,  ræðu sem hægt er að lesa á tru.is  og stillti upp  gamaldags sem góðu og hinu nýja sem vondu.  Tilviljun? 

Nútíminn er ekkert ógurlegur,   nútíminn færði okkur t.d. læknavísindin sem gera læknum og hjúkrunarfólki kleift að bjarga nýfæddum börnum sem annars hefðu dáið.  Nútíminn færði okkur þá visku að virða og samþykkja kynhneigð fólks,  sem annars hefði endað í félagslegri einangrun og í sumum tilfellum látið lífið vegna vanlíðunar. Við eigum að vera komin út úr moldarkofunum og inn í nútímann.  Við hljótum að hafa lært eitthvað.    

Rödd Guðs er ekki þrumuveður dómhörku, rödd  Guðs er fyrst og fremst kærleikur  og kærleikurinn er trompið.  Allt annað  (ritingargreinar um boð og bönn varðandi samliggjandi karlmenn) eru lágspil í spilabunkanum sem gilda ekki þegar kærleikurinn er annars vegar.  Gamlir dagar geyma bæði gott og vont,  svo okkar er að velja hið góða úr gamla tímanum (af því við höfum lært)  og skilja eftir hið vonda.  

Kærleikurinn er mælistikan.

Eitt er víst að við lifum ekki á Biblíulegum tímum, við lifum ekki í gamla daga, við  lifum NÚNA og kirkjan þarf að uppfæra sig til núsins. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.6.2010 kl. 12:54

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, kirkjan og lærisveinar Jesú eiga að vera salt jarðar – það eru þeir, sem eiga með trú sinni og vitnisburði í orðum og verkum að krydda lífið og umbreyta heiminum, sem er mengaður af synd, og gera þetta fúslega þrátt fyrir mótlæti og háðsyrði hinna vantrúuðu, svo að mannfólkið færist nær Guði og hans heilaga vilja.

Jón Valur Jensson, 21.6.2010 kl. 13:21

19 Smámynd: Arnar

Þannig að "kirkjan og lærisveinar Jesú" eiga sífellt að vera að skipta sér að því hvað aðrir gera en aðrir eiga ekkert að skipta sér af kirkjunni?

Arnar, 21.6.2010 kl. 13:29

20 Smámynd: Dingli

Þið verðið bara að fyrirgefa mér eins og guðirnir. Ég var haldin þeirri meinloku að samkynhneigðir gætu gift sig hjá fógeta og öðrum þeim sem hafa rétt til slíkra athafna. Í heimsku minni taldi ég nýu lögin snúast um að SKH fengu rétt til kirkjulegrar samsplæsingar hvort sem biskup eða prestum líkaði betur eða verr.

En það er leikur í gangi, svo ekki meir að sinni.

Dingli, 21.6.2010 kl. 14:35

21 Smámynd: Arnar

Samkynhneigðir gátu fengið eitthvað sem kallaðist 'staðfest samvist', veit ekki hvort það jafnaðist fullkomnlega við hjónaband, td. laga lega séð.  En það getur td. skipt miklu máli td. varðandi erfðir og annað.

En já, SKH geta nú gift sig hvort sem biskup eða prestum líkar það betur eða verr.. en það er engin að fara að neyða biskup og þá sem hugnast það ekki til þess að framkvæma athöfnina.

Arnar, 21.6.2010 kl. 14:44

22 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

JVJ hefur fyrir löngu sagt skilið við almenna umræðu, hafi hann einhverntíma verið það. Hann er einn örfárra trúfífala sem lýsir samkynhneigð sem sjúkdómi. Og að auki er hann algerlega úti á þekju í guðfræði. Eða réttara sagt út úr hól.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.6.2010 kl. 14:55

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, ég lýsi ekki samkynhneigð sem sjúkdómi; það hafa aðrir gert, og hættu að skrökva, Kristján.

Jón Valur Jensson, 21.6.2010 kl. 15:45

24 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Við hverju er "lækning" Jón Valur? Frá hvaða ástandi er "bati" Jón Valur? Frá hvaða ástandi eru "batahorfur" Jón Valur?

Hvað er samkynhneigð er hægt er að "læknast" af henni? (var reyndar breytt hjá JVJ eftir nokkrar þrætur okkar á milli sem JVJ gafst upp á og henti mér út)

Hvað er samkynhneigð ef hægt er að "batna" af henni?

Ég er ekkert að skrökva.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.6.2010 kl. 16:53

25 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Afsakið,  ég get ómögulega svarað öllu sem hér kemur inn en er þakklát fyrir umræðurnar og ykkar athugasemdir.

Ég ætla ekki að leggja orð í munn Jóns Vals, en það sem ég tel almennt að bókstafstrúarfólk beri fyrir sig og noti: 

Samkynhneigðir eru samþykktir á meðan þeir stunda ekki kynlíf, því að það er kynlíf þeirra sem telst syndin.  Þeim er s.s. ætlað að lifa skírlífi.   Margir álíta að samkynhneigð sé áunnin eða val.  Ekki meðfædd og þeir eigi að geta (með Guðs hjálp að sjálfsögðu og bæn) vanið sig af samkynhneigðinni og með því frelsast frá syndinni. 

Ekki vænti ég þess að allir  (gagnkynhneigðir) bókstafstrúarmenn væru sjálfir til í að lifa lífinu án kynlífs, en kannski skiljanlegt um þá sem eru "dauðir úr öllum æðum"  ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.6.2010 kl. 18:02

26 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur segir:

Ritningin bannar einnig kynferðismök tveggja karlmanna ítrekað, bæði í Gamla testamentinu og ekki síður í því Nýja. Í Róm. 1.26 kemur fram, að þetta tekur einnig til kvenna.

Af hverju er þetta bannað? Það er bannað að svara 'af því bara'.

Óli Jón, 22.6.2010 kl. 00:17

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, af því að Guð veit hvað mönnunum, sköpunarverum hans, er fyrir beztu.

Og Kristján Sigurður á að hætta að skrökva.

Jón Valur Jensson, 22.6.2010 kl. 01:22

28 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Síðan textar Biblíunnar voru skrifaðir hafa verið gerðar endalausar uppgötvanir,  menn hafa til dæmis áttað sig á því að rödd Guðs er ekki þrumuveður,  heldur er þrumuveður náttúrulegt fyrirbrigði. 

Við (mannkyn) höfum gengið langan veg og á þessum vegi lært einhver ósköp. Sköpunarverum Guðs; samkynhneigðu fólki er EKKI fyrir bestu að vera félagslega einangrað.  Líða fyrir kynhneigð sína eða fá ekki eðlilega útrás fyrir ást, félagsskap og kynhvöt sína. 

Það vitum við í dag og höfum lært, þó menn vissu þetta ekki þá.

Kennsluefni í líffræði verður úrelt svo að segja á milli ára,  svo miklar eru uppgötvanir.  Þjóðfélagið breytist og þróast og þess vegna þarf líka að uppfæra félagsfræðibækur. 

Félagsfræði og líffræði verður ekki kennd upp úr Biblíunni og að sama skapi er ekki hægt að nota hana sem dómsbók um samlíf para af sama kyni,  því þau "fræði" eru úrelt. 

Að sjálfsögðu er í Biblíunni algildur sannleikur og tímalaus,  dæmisögur sem hægt er að skilja og heimfæra upp á daginn í dag.  Og að sjálfsögðu er kærleikurinn tímalaus.  

Það eru alls konar boð og bönn í Biblíunni sem enginn fer eftir í dag, vegna þess að þau eiga sér ekki grundvöll lengur þar sem við vitum betur.  Guð er ekkert hættur að blása okkur anda í brjóst. Guð er að sjálfsögðu þátttakandi í þessum þroska okkar og er ekkert lokaður inni í bók, Guð veitir leiðsögn á hverjum degi - það er okkar að nema, skynja,  heyra og sjá. 

"Open up Johnny"

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.6.2010 kl. 07:53

29 Smámynd: Dingli

Svör þín eru hrein snilld Jóhanna.

Dingli, 22.6.2010 kl. 08:17

30 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Svarið er s.s. "af því bara"?

Gratúlera með það að nýta hæfileikann til gagnrýnnar hugsunar til fullnustu!

Óli Jón, 22.6.2010 kl. 09:37

31 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Óli Jón, ástæðan er ekki "af því bara". Það er mannkyni fyrir beztu, að börn fæðist (raunar lífsnauðsynlegt, líka hinum samkynhneigðu – ella væru þeir ekki til!) og að þau fái sem bezta aðhlynningu í skjóli bæði föður og móður. Góð heilsa er líka mikilvæg, en heilsulíkur þeirra, sem stunda samkynja mök, eru mun minni en þeirra, sem eru gagnkynhneigð. Þetta er staðreynd. Fleiri ástæður liggja hér líka að baki því, að leiðsögn Biblíunnar u þessi mál er bæði sönn eða skynsamleg og nytsamleg mannlegu samfélagi.

Jón Valur Jensson, 22.6.2010 kl. 15:04

32 identicon

Nú vil ég spyrja Jón Val einnar spurningar:

Hvað er það við kynmök tveggja karlmanna sem gerir þau svona algerlega andstæð biblíunni? Er það verknaðurinn sjálfur eða bara af því að það eru tveir karlmenn að verki? Þú talar aðeins um tvær konur en virðist leggja aðal áherslu á að banna kynmök karlmanna.

Nú vil ég leggja áherslu á að það er talsverður fjöldi giftra hjóna sem hefur mjög gaman að stunda kynmök sem eru nákvæmlega eins og tveir karlmenn stunda. Á þá að fordæma þessi hjón eða reyna að koma í veg fyrir slíkt?? Hvernig mundi slíkt vera framkvæmt? Þá má maður alveg eins spyrja af hverju geta þá hjón stundað slík kynmök en ekki karlmenn???

Ég er alveg ruglaður í þessum hugsanahætti ykkar öfgatrúarmanna.

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 15:05

33 identicon

Jón Valur getur þú vísað mér á vefsíðu þar sem niðurstöður vísindarannsóknar sem sannar að heilsulíkur þeirra sem stunda samkynja mök séu mun minni en þeirra sem eru gagnkynhneigðir?? Á þetta við um bæði kynin eða bara um kk(eins og mig grunar að þú sért að halda fram).

Er það mankyninu fyrir bestu að sem flest börn fæðist??? Ég veit ekki betur en að helsta ógn nútímamannsins í dag sé offjölgun??? Er það sem sagt í anda biblíunar að stuðla að sem mestri fjölgun mannsins. Gaman væri að vita þegar allt springur. Kemur þá Guð okkur til hjálpar bara svona allt í einu eða hvað???

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 15:17

34 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, ég get það, Þorvaldur (svar við spurningu í 1. setningu kl. 15.17), en geri það ekki nú.


Óeðlilegt kynlíf (eins og það sem þú nefnir milli karls og konu) hefur í för með sér meiri heilsufarsáhættu en venjulegt kynlíf.


Já, það er mannkyni fyrir beztu að haldast við með fæðingum. Og það er engin offjölgun mannkyns í gangi, jörðin ber þetta og miklu meira til.

Jón Valur Jensson, 22.6.2010 kl. 15:40

35 identicon

Sorry Jón Valur þú verður að gera betur en þetta. Ertu hræddur við að svara þessari spurningu eða hefur þú ekki svar??? Hvar hefur þú fengið gögn yfir það að þetta svokallaða óeðlilega kynlíf milli karls og konu hafi í för með sér meiri heilsufarsáhættu en venjulegt kynlíf. Er þetta bara óskhyggja eða út í loftið til að hræða fólk frá svona kynlífi.

Ef þú heldur að offjölgun mannkyns sé ekki vandamál í dag þá ert þú haldin þvílíkri sjálfsblekkingu að það er algert einsdæmi. Allir fræðimenn(ég meina raunverulegir fræðimenn á sviðum vísinda) eru sammála um að helsta ógn mankynsins í dag er í raun offjölgun mankynsins. Ef jörðin á að bera allt þetta fólk og meira til hvað þarf til. Fórna öllu landsvæði sem er undir ósnortinni náttúru og klára allar náttúruauðlindir jarðarinnar. Hvað þegar allar auðlindir eru búnar ætlar Guð þá að koma að hjálpa okkur??? Getum við treyst því???

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 16:30

36 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Svarið er 'af því bara' sökum þess að þessi rök sem þú klórar saman koma hvergi fram í Biblíunni. Þau eru veik hálmstrá sem þú og skoðanasystkini þín hafa fundið upp til þess að verja óverjandi málstað.

En fyrst samlífi samkynhneigðra er svo slæmt, hvað segirðu þá um tímamótaniðurstöður í rannsókn sem tímaritið Time kynnti á dögunum þar sem fram kemur að börn sem alin eru upp af lesbíum hafa betri sjálfsmynd, gengur betur í skóla og hegða sér betur. Allt þetta þrátt fyrir að mæta linnulausum fordómum og mótlæti frá fólki af þínu sauðahúsi. Hvernig væru þessi börn ef þau og foreldrar þeirra væru laus undan þessum fordómum og endalausa hatursgalli sem á þeim dynur linnulaust?

Er þessi niðurstaða ekki órækasta merki þess að okkur beri að samþykkja og ýta undir sambönd lesbía, þó ekki sé nema til þess að fá betur upp alin börn? Lesbíurnar trompa m.a.s. heimili sannkristinna gagnkynhneigðra foreldra skv. þessu! :)

Óli Jón, 22.6.2010 kl. 23:37

37 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Niðurstöður þegar 183 hafa svarað: 
Ertu fylgjandi einum hjúskaparlögum?
65,6%
Nei 31,1%
Hlutlaus 2,2%
Annað 1,1%
 
Eftir því  fleiri sem svara hækkar hlutfall þeirra sem eru fylgjandi. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.6.2010 kl. 07:32

38 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka öllum sem hafa svarað, og enn frekar þeim sem hafa lagt inn innlegg í umræðuna. "Keep up the good work"

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.6.2010 kl. 07:33

39 identicon

Ég fullyrði það að eftir 20 ár verða menn furðu lostnir yfir því að hér á landi hafi verið hjúskaparlög eingöngu fyrir fólk af gagnstæðu kyni. Þetta er svona svipað eins og þegar fólk minnist þess að einu sinni var bannað að selja bjór á Íslandi. Mönnum finnst slíkt alveg fáránlegt í dag. Þegar þessi kynslóð, afturhaldssamra presta og manna eins og Jón Valur, er farin frá þá munu menn almennt sjá ljósið og virða menn og konur fyrir það sem þau eru í stað þess að vera að hugsa endalaust um það hvað þau gera í svefnherberginu. Nú vil ég taka það fram sjálfur að ég er gagnkynhneigður og giftur en mikill réttlætissinni.

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 08:57

40 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Courage is having the fear and acting anyway" ... Hér er myndband, já smelltu HÉR um ungan mann sem var að koma út úr skápnum,  þar sem hann horfist í augu við sinn stærsta ótta, það er að segja föður sínum, bróður og síðan bræðrafélagi (eins og þau tíðkast í Ameríku) frá því að hann sé "Gay" eða hommi. 

Það er sorglegt að einn stærsti ótti hins samkynhneigða séu viðbrögð eigin fjölskyldu. Til að minnka þennan ótta þarf fjölskyldan að gefa út skilaboð,  heimurinn þarf að gefa út skilaboð: Það að vera "Gay" er ekki til að skammast sín fyrir,  það er hluti af góðri sköpun Guðs.  

Kristin fjölskylda hins stóra heims þarf að taka höndum saman og gefa út rétt skilaboð.   Það er ekki val  að vera samkynhneigður eða gagnkynhneigður ekki frekar en að vera örvhentur eða rétthentur,  svartur eða hvítur.  Það er hins vegar val að vera í félagslegri einangrun þ.e.a.s. inni í skápnum eins og það er kallað eða að koma út úr honum.  Hið síðarnefnda krefst hugrekkis! 

Engin móðir vill að barninu sínu líði illa og geti ekki notið sín, ÞESS vegna ef við líkjum Guði við góða móður,  er það guðfæðilega rétt að styðja samkynhneigða í lífi og starfi,  samböndum og við hjónaband samkynhneigðra. 

Við höfum lært. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.6.2010 kl. 09:41

41 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þín innlegg Þorvaldur Þórsson.  Já, mannréttindi eru svo sannarlega ekki einkamál þeirra sem á er brotið.  Ég er líka gagnkynhneigð sjálf, en umgengst  m.a. starfa minna vegna, ungt samkynhneigt fólk og þekki sögur þeirra og hugarvíl.  Það er þetta unga fólk sem veitir mér innblástur til að halda uppi réttindabaráttu samkynhneigðra.  

Þessi "spádómur" þinn reynist vonandi réttur.  Ég vona að Jón Valur og fleiri komi til með að líta upp,  horfast í augu við manneskjur og sjá ljósið. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.6.2010 kl. 09:47

42 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Jón Valur getur þú vísað mér á vefsíðu þar sem niðurstöður vísindarannsóknar sem sannar að heilsulíkur þeirra sem stunda samkynja mök séu mun minni en þeirra sem eru gagnkynhneigðir??

Já, ég get það, Þorvaldur (svar við spurningu í 1. setningu kl. 15.17), en geri það ekki nú.

En það á hann aldrei eftir að gera. Sjá hér og hér

 
 

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 23.6.2010 kl. 11:45

43 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jú, þetta eiga margir eftir að gera og það margsinnis, Tinna, en ekki þegar þér hentar.

Óli Jón, lesendur Biblíunnar fá þar ekkert loforð um að sjá þar svart á hvítu raunvísindalegar (t.d. læknisfræðilegar) sannanir fyrir því, að það sem Drottinn Guð boðar okkur og býður að gera, í hlýðni við heilagan vilja hans, sé á einn eða annan hátt affarasælast fyrir okkur, heilsu okkar eða hag að öðru leyti, þ..m.t. frambúðar-velferð og jafnvel eilífa velferð okkar. Við verðum að TRÚA, þetta er kristin og biblíuleg TRÚ, ekki raunvísindaformúlur. En sá, sem trúir, fer ekki á mis við ávextina, og síðar mun hann skilja allt.

Þetta er svipað og góð móðir: Hún gerir það, sem er barni sínu fyrir beztu, og leiðbeinir því rétta vegu með það sama að leiðarljósi, en getur kannski ekki tilreitt á staðnum fyrir vantrúaða efasemdarmenn strangvísindalega sönnun fyrir því, hvernig (nákvæmlega) góð breytni hafi sínar margvíslegu afleiðingar til góðs.

Munur Guðs og móðurinnar er vitaskuld margvíslegur og óendanlegur í raun, og um eitt eru þau t.d. gerólík: Guð getur útskýrt allt, þó að móðirin geti það ekki. En hann kýs að gera það ekki, því að við erum kölluð til trúar, okkur er ekki ætlað að fá sannanir fyrir öllu og alls ekki með þeim augljóslega opinberandi hætti, sem gerir eiginlega trú í reynd ómögulega.

Annars er yfirleitt gersamlega vonlaust að ræða guðfræði við Óla Jón.

Jóhanna má til með að hugleiða betur sannindin í 23. kafla Jeremíaritsins, til dæmis 16. versi og áfram:

"16 Svo segir Drottinn allsherjar: Hlýðið ekki á orð [fals]spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni."

17 Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: Yður mun heill hlotnast! Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: Engin ógæfa mun yfir yður koma!

18 Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau?

19 Sjá, stormur Drottins brýst fram reiði og hvirfilbylur hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

20 Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega. [Óli Jón taki eftir þessari seinni setningu!]

21 Ég hefi ekki sent spámennina [hann á við falsspámennina, aths. jvj], og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir.

22 Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum.

23 Er ég þá aðeins Guð í nánd, segir Drottinn, og ekki Guð í fjarlægð? [Guð er svo sannarlega ekki bara innra með sjálfum manni, Jóhanna!]

24 Getur nokkur falið sig í fylgsnum, svo að ég sjái hann ekki? segir Drottinn. Uppfylli ég ekki himin og jörð? segir Drottinn.

25 Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: Mig dreymdi, mig dreymdi! [Takið vel eftir þessu! – þetta getur líka vísað til ýmislegs tilfinningahjals, sem menn telja eða lýsa þó af guðlegum rótum.]

26 Hversu lengi á þetta svo að ganga? Ætla spámennirnir, þeir er boða lygar og flytja tál, er þeir sjálfir hafa upp spunnið, 27 hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals? ..."

– Engar eigin "vitranir" eða "sýnir", draumar eða tilfinningalegar ímyndanir presta eða guðfræðinga eiga að koma í stað Guðs orðs. Og þeim ber ekki að boða heill þar sem Guð hefur boðað andstæðuna.

Og samkynhneigðu fólki er EKKI fyrir beztu að vera hjálpað til að velja aðrar brautir en skapari okkar hefur boðið okkur að ganga.

Ennfremur eru samkynhneigðir ekki félagslega einangraðri en ýmsir aðrir hópar (hvernig væri nú að fara að hugsa um aðra?).

Þeir njóta allra borgararéttinda á við aðra. Þeir höfðu líka fengið staðfesta samvist samþykkta, og hún var farin að fela í sér öll þau lagalegu réttindi (erfðir, búskipti, barnauppeldi, forræði barna, ættleiðingu, tæknifrjóvgun o.m.fl.) sem venjulegt hjónaband hefur – og þannig voru þeir t.d. með mun meiri réttindi en pör (karl og kona) í staðfestri sambúð.

Þeir leita ennfremur í ótrúlega litlum mæli eftir kirkjulegum vígslum og blessunum.

Merkilegt að snúa öllu á haus til að Þjóðkirkjan verði lögð kylliflöt fyrir þeim sem leita svo í nánast engum mæli eftir þessari meintu helgiþjónustu.

En ekki fara villuprestar með umboð Guðs né veita af gjöfum hans, þegar þeir brjóta þar þvert gegn vilja hans.

Jón Valur Jensson, 23.6.2010 kl. 15:31

44 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jer. 23.31b: Þetta er, Óli Jón, einn af mörgum ritningartextum sem sýna, að jafnvel þótt Guð leggi ekki sannanir á borðið í Ritnigunni, munu menn síðar fá fullan skilning á sannindum orða hans og réttlæti borðorða hans og réttlætis.

Jón Valur Jensson, 23.6.2010 kl. 15:35

45 Smámynd: Jón Valur Jensson

Réttlæti tvítekið! Svona eru ásláttarvllurnar!

Jón Valur Jensson, 23.6.2010 kl. 15:37

46 identicon

Einhverntíman hnipptir þú í mig Jón Valur fyrir að vera ekki nógu málefnalegur og færa rök fyrir mínu máli. Hvernig væri nú að þú færir að gera slíkt og hið sama og færir að svara þessum spurningum eins og sá röksnillingur sem þú segist vera. Hætta svo að koma með einhverja endalausar tilvitnanir úr gamalli bók. Tilvitnanir út gamalli bók geta ekki talist vísindaleg rök en það er samt merkilega algengt hvað þið ofsatrúamenn notið oft þessa ótrúverðugu aðferð. Hún gengur í suma sérstaklega þá sem eru illa lesnir en hún gengur ekki þegar vel lesinn einstaklingur á í hlut. Við vitum einfaldlega betur.

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 16:19

47 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Það eru lélegar tvíbökur að segja "trúðu mér, ég hef rétt fyrir mér, ég sanna það þó bara síðar". Hljómar eins og illa undirbúið töfratrix.

En þú lætur þér þetta nægja. Piff.

Óli Jón, 23.6.2010 kl. 18:14

48 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Auðvitað er ég fylgjandi hjónabandi fólks af sama kyni!  Ég  sé  mér til mikillar undrunnar að venjulegt fólk er enn að kommentera á bullið og vitleysuna í Jóni Val Jenssyni. Ekki þess virði.  Og þessi setning varðandi samlíf karls og konu "Óeðlilegt kynlíf (eins og það sem þú nefnir milli karls og konu) hefur í för með sér meiri heilsufarsáhættu en venjulegt kynlíf." er hreint stórfengleg. Núna er honum ekki nóg að skipta sér af kynlífi karls/karls/ - konu/konu - hann er móraliserar núna yfir kynlífi karls/konu.  Nú bíð ég eftir handbók frá honum um stellingar.  Og þessi einkennilega sýn að hjónaband tveggja einstaklinga snúist um hvernig þeir gera það. Pervertískt.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 24.6.2010 kl. 08:39

49 Smámynd: Óli Jón

Kristín: Jón Valur er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar þegar kemur að kynlífi, enda eru fáir sem standa honum á sporði þegar flokka skal hin ýmsu afbrigði þess sem eðlileg eða óeðlileg, góð eða slæm. Við megum því vera þakklát fyrir að njóta vizku hans í þessum efnum, enda afar illt að fara í gegnum lífið án þess að vita nokkur deili á þessum hlutum :)

Óli Jón, 24.6.2010 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband