"Þar sem hefur verið notast við óhreinan tækjabúnað"

Ótrúlega er þetta nú ómaklegur málatilbúningur þar sem er látið að því liggja að Jónína hafi verið að nota óhreinan tækjabúnað.  Ég veit ekkert  um þessa starfsemi hjá Jónínu Ben. en veit að margt af því sem hún er að segja er algjörlega rétt, eins og hversu mikið af lyfjum er dælt í fólk þegar aðrar meðferðir myndu henta betur.  Þarf ekki að leita lengra en á hverja aðra íslenska læknavakt, þar sem skrifað er út pensillín á færibandi.

Jónína skrifar sjálf á Facebook síðu sinni að þau noti einungis einnota slöngur svo að ekki getur þetta amöbudæmi átt við hennar business. Að sjálfsögðu má skoða þessa hluti frá öllum hliðum, en nú er þetta farið að líta út sem þráhyggja hjá lækninum Svani að koma Jónínu á kné. 

Fólk fær örugglega alls konar sýkingar í læknismeðferðum þar sem illa er að verki staðið og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða hefðbundnar eða óhefðbundnar lækningar. 

En nú finnst mér komið nóg af rógi. 


mbl.is Ristilskolun og sníkjudýr í görnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Þetta er þekkt að tala um tvo óskilda atburði í sömu setningunni og þá tengjast þeir saman í huga fólks.    Þetta er þeim sem svona gera til lítilla sóma, nema síður sé.

Kristinn Sigurjónsson, 13.6.2010 kl. 14:22

2 Smámynd: ThoR-E

Sammála.

Þetta er farið að líkjast þráhyggju hjá Svani.

ThoR-E, 13.6.2010 kl. 14:23

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Og ekki batnar það þegar litið er á mynd með fréttinni og textanum undir henn:

"Amaba sem þessi kynni að leynast í viðskiptavinum Jónínu"

Þvílík smekkleysa.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.6.2010 kl. 15:08

4 Smámynd: halkatla

Svanur fær svona þráhyggjuköst öðru hvoru varðandi ýmsa hluti sem falla ekki að hans lífsskoðunum.

halkatla, 13.6.2010 kl. 15:36

5 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Af hverju eru ristilhreinsanir af þessu tagi bannaðar í Californiu?

Getur hugsanlega verið að þessi aðferð sé mjög varasöm fyrir sumt fólk?  Mér finnst persónulega allt í lagi að Jónína Benediktsdóttir geti bent á einhverjar rannsóknir sem staðfesta það sem hún segir, en mér vitanlega hefur hún ekki gert það og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Svanur er allt annað en maður sem er að stunda rógburð!   Hann er læknir sem er virkilega annt um fólk.  Hann hefur sjálfur bent á það að fólk þurfi að vinna að góðri heilsu, með því sem dæmi að gæta að matarræði og hreyfa sig meira.  Hann er ekki að mæla lyfjum bót.  Hann veit þó mjög vel hvað hann er að tala um hvað varðar lyf, þar sem hann er sérmenntaður í lyflækningum.  Hann telur varasamt að fólk hætti á lyfjum nema í samráði við lækna, og að það sé gert í áföngum, þegar betur horfir með heilsu fólks af einhverjum sökum.

Þið öll sem eruð að gagnrýna það sem hann er að tala um og skrifa um varðandi starfsemi JB, ættuð að taka ykkur tíma og virkilega lesa hans skrif.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.6.2010 kl. 19:37

6 identicon

Ég er sammála því að þessi frétt var mjög illa sett fram, en þrátt fyrir það þá finnst mér nauðsynlegt einhverjar rannsóknir fari fram á þessari detox meðferð og þangað til er um að gera að hvetja fólk til að efast... það er ekki bara að eyða STÓRpening í þessa meðferð heldur einnig að leggja heilsuna undir.

Vil skella hluta af skuldinni á fréttamenskuna í þessu stríði Jónínu og Svans :)

Brynjar Már Andrésson (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 20:33

7 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Jóhanna, ég verð nú að fá að gera athugasemd við þessi skrif.

Skoðum þetta nú aðeins í réttu samhengi.

Kvörtunin til Landlæknisembættis er send í nafni fjögurra aðila og umrætt amöbumál kemur úr þeirri kvörtun, sem var send í des. 2009.

Það að Pressan.is og MBL.is í framhaldi ákveði að slá þessu atriði einu og sér upp sem frétt er væntanlega þeirra val á umfjöllunarefni til að halda þessari Detox umræðu gangandi - a.m.k. kemur ekki fram að Svanur eða aðrir kvörtunaraðilar hafi verið að viðra þessa hluti sérstaklega núna.

Umrædd amöbusýking og garnarof eru nefnd í skýrslunni sem dæmi um áhyggjuefni, í löngum lista yfir slík atriði, en ekki sem sérstök ásökun á Jónínu. Garnaröf og tilflutningur saurs í kerfinu hefur síðan ekkert með skítugan búnað að gera og einnota dauðhreinsaðar slöngur eru því ekkert svar við þeim áhyggjum.

Þetta er sem sagt ekki gott dæmi um rógburð - nema ef vera skyldi hjá Pressunni - en þess utan er aðeins ein manneskja sannarlega sek um rógburð í þessu máli og það er Jónína sjálf, sem meðal annars má sjá hér og hér.

Þjónusta Jónínu er hinsvegar eflaust í langflestum tilfellum til fyrirmyndar og viðskiptavinir hennar ánægðir. Vonandi nær hún bara sem mestum árangri með þetta viðskiptamódel, það er bara spennandi og ánægjulegt að mínu mati. En fullyrðingar hennar um starfsemina og þekkingarbakland hennar eru Jónínu til skammar - og svör hennar við gagnrýni enn meira svo. Kvörtunaraðilar og aðstoðarlandlæknir hafa allir sem einn gætt þess að tjá sig af kurteisi og fjalla aðeins ummálið á faglegum nótum - en Jónína hefur bölsótast, skammast og hótað hefndum í hvívetna, í stað þess að taka málunum með ró og hnýta lausa enda og lagfæra vefsíðu sína að fullu.

Nú er þessi umræða orðin að kostulegri með eða á móti keppni einhverri, sem sjaldnast fjallar um málefnin og aldrei virðast gagnrýnendur Svans og félaga hafa gert svo lítið að lesa kvörtunina til Landlæknisembættisins.

Það kemur málinu nefnilega ekkert við að Jónína sé góð kona og að þetta sé huggulegt fyrirtæki með ánægða kúnna. Það sem skiptir máli er að verið að reyna að koma því til leiðar að óhefðbundni lækningargeirinn, Detox með talið, sjái sóma sinn í að fara rétt með heimildir, yfirlýsingar um staðfesta virkni þjónustu sinnar og fleira í þeim dúr.

Sé Svanur með þráhyggju er það einfaldlega mjög fín þráhyggja sem þjóðin nýtur vonandi góðs af til lengri tíma litið. Því svo lengi sem hann fjallar faglega og heiðarlega um hlutina er ekkert við það að athuga að hann gagnrýni fyrirtæki í heilsugeiranum fyrir falskar yfirlýsingar og mögulega hættulega þjónustu. Því slíka þjónustu þarf að auglýsa undir réttum formerkjum, það er nú allt og sumt.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 13.6.2010 kl. 20:41

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það er ekkert svart né hvítt í þessu máli og ég hef hvorki verið sérstakur aðdáandi Jónínu Ben og þá ekki Svans Sigurbjörnssonar. Fólk verður  að passa sig á því að vera ekki alltaf sammála þeim sem eru í sama trúfélagi, stjórnmálaflokki eða vantrúarfélagi.  

Kristinn þú skrifar: "Það að Pressan.is og MBL.is í framhaldi ákveði að slá þessu atriði einu og sér upp sem frétt er væntanlega þeirra val á umfjöllunarefni til að halda þessari Detox umræðu gangandi - a.m.k. kemur ekki fram að Svanur eða aðrir kvörtunaraðilar hafi verið að viðra þessa hluti sérstaklega núna."

Úr frétt mbl.is

"Svanur Sigurbjörnsson læknir er sá sem einna harðast hefur haft sig frammi gegn Detox meðferðum Jónínu Benediktsdóttur.  Hann segir að dæmi séu um amöbudsýkingar í görnum eftir ristilskolanir þar sem notast hefur verið við óhreinan tækjabúnað."

Eru það bara fréttamenn sem setja þetta upp svona villandi og þá til hvers?  Þarna lítur svo sannarlega út að Svanur hafi verið að viðra þessi mál núna.  

Ef eftirfarandi frétt hefði birst: 

"Jónína Benediktsdóttir er sú sem einna harðast hefur haft sig frammi gegn lyflækningum Svans Sigurbjörnsson.  Hún segir að dæmi sé um eitranir af völdum rangrar lyfjagjafar." 

Hvernig hefði fólk skilið það? 

Líklegast er fréttaflutningurinn gerður til að æsa upp lýðinn sem hefur svo sannarlega tekist!

Auðvitað þurfa einkaaðilar aðhald í starfssemi sinni, en mér finnst þetta vera niðurbrjótandi aðhald sem kemur fram hjá Svani en ekki uppbyggilegt.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.6.2010 kl. 21:32

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Það er ekkert svart né hvítt í þessu máli og ég hef hvorki verið sérstakur aðdáandi Jónínu Ben Svans Sigurbjörnssonar" ... átti að standa í fyrstu málsgrein, svona getur gerst þegar verið er að breyta eftir á.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.6.2010 kl. 21:34

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Brynjar,  ég er s.s. sammála.  Fréttamennskan virðist æsifréttamennska.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.6.2010 kl. 21:35

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Margrét,  ég vona að landlæknisembættið fylgist með starfi Jónínu og hún hlýtur að þurfa að fylgja einhverjum reglugerðum þarna um.  Að sama skapi þarf að fylgjast með starfi hefðbundinna lækna og lyfjagjafa þeirra. 

Vonandi stillir Svanur fókusinn jafnt á það sem miður fer í hefðbundna lækningageiranum eins og óhefðbundna.  

Ekki hef ég hugmynd hvers vegna svona ristilskolun er bönnuð í Kaliforníu eða af hverju hún er leyfð í fjölmörgum löndum.  

Ég hef persónulega ekki þörf né áhuga fyrir henni, gengur svo svaka vel í mínu eigin detoxi þar sem ég drekk heilsute og borða hollan mat,  og hreyfi mig eins og vindurinn.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.6.2010 kl. 21:44

12 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Jóhanna

Fréttin á MBL klukkan 12:29 er bara endursögn á frétt Pressunnar klukkan 10:00 í morgun, þar sem ekkert er talað um að Svanur hafi verið að tjá sig um þetta ákveðna atriði sem áhyggjuefni. Aðeins er vitnað í kæruna eins og þeir hafi verið að hnjóta um þetta atriði sjálfir og þótt það áhugavert.

Hvað er niðurbrjótandi aðhald?

Kærur vegna rangfærslna og ófaglegra vinnubragða eru aldrei skemmtilegar, en sem hluti af heildarmyndinni er slíkt að jafnaði til góðs. Til hvers eru annars lög og reglur?

Jónína er búinn að blása þetta mál upp með því að bregðast við með hótunum og rógburði um gagnrýnendur, þ.m.t. aðstoðarlandlækni sem gerði ekki annað en að sinna starfi sínu. Hún hefði getað klárað málin sín megin og líklega lokið þessu máli án teljandi vandræða en valdi að hafa þetta svona.

Ef þetta væri ekki svona feel-good iðnaður, væri enginn að vorkenna Jónínu fyrir að vera á gráu og svörtu svæði í kynningarefninu á starfsemi sinni og t.d. með taumlausar ýkjur (lygar?) um sparnað ríkisins af starfseminni.

Ef tekinn væri saman tæmandi listi yfir ruglið og lygarnar sem Jónína hefur látið út úr sér og skítkastið sem hún hefur látið eftir sér að vera með í garð gagnrýnenda sinna myndu kvörtunaraðilarnir fjórir og aðstoðarlandlæknir allir líta út fyrir að vera fannhvítir englar í samanburði - enda ekki gert annað en að fjalla um málið og vara meðferðinni á læknisfræðilegum forsendum - jú og Svanur hefur kallað þetta "kukl".

Ég vona að þú sért ekki að saka mig um að vera bara "alltaf sammála þeim sem eru í sama trúfélagi, stjórnmálaflokki eða vantrúarfélagi" og ég?! Það þykir mér afskaplega óþarft þar sem mín umfjöllun hefur öll verið hófstillt og ég hef vandlega vitnað í heimildir um allt sem ég segi - eða það vil ég meina.

Við getum öll verið sammála um að Jónína sé búin að koma þessari starfsemi á kortið með miklu harðfylgi og dugnaði og að hún á lof skilið og má mín vegna mjög gjarnan verða moldrík og hamingjusöm. En að henni sé vorkunn og menn bara með niðurrif gengur ekki upp að segja. Ekki nema kalla eigi allar svona kvartanir um rekstur af ýmsu tagi til ráðuneyta neikvætt niðurrif.

En eins og þú segir eru miðlarnir að hræra upp þessu moldviðri og það er ágætt, því umræða um faglegar auglýsingar á þjónustu er náttúrlega bara jákvæð, jafnvel þó einhverjir falli í þá gryfju að telja þá sem kvarta bara vera vonda og koma ekki auga á einlægar hugsjónir sem þar fylgja að máli.

Kristinn Theódórsson, 13.6.2010 kl. 22:09

13 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Í þessu máli þykir mér Svanur hafa rétt fyrir sér, og það er margrannsakað að megrunarkúrar þar sem að fólk lifir á 500 hitaeiningum eru beinlínis fitandi og því er einnig haldið fram að þessi detoxlífstíll geti stuðlað að átröskunarsjúkdómum.

Margir öryrkjar hafa orðið fyrir forómum í kjölfar yfirlýsinga Jóninu um að meðferðin hennar lækni allskyns mein, og sjúklingar hafa fengið það á sig að þeir séu bara "full of shit"

Guðrún Sæmundsdóttir, 13.6.2010 kl. 22:40

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Eins og ég hef tekið fram er ekkert svart eða hvítt í þessu máli.  Ég er orðin allt of sybbin til að skrifa meira í kvöld, en þakka ykkur öllum kærlega fyrir að leggja orð í belg. 

Vonandi verður fundinn flötur á þessu, þannig að Jónína fari eftir lögum og reglum og skynsemin ráði, í góðri samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.  Það væri sorglegt ef þetta riði starfseminni að fullu, ef að einhver sannleikur er í því að meðferðin verði til þess að fólki líður betur. 

Niðurbrjótandi aðhald átti að þýða sama og niðurbrjótandi gagnrýni, ekkert annað.  Það er hægt að gagnrýna á uppbyggilegan hátt. 

Segi ekki meira að sinni, sofum rótt og góða nótt, hef það svo kósý með voffa sofandi á fótunum á mér að það hálfa væri nóg.

p.s. ég var ekkert að beina þessu til þín sérstaklega Kristinn varðandi að mynda sér skoðun eftir trúfélagi, pólitík o.s.videre. Bara hafði tekið eftir því að fólk almennt skiptist  í einhvers konar með og á móti eftir því hvaða félagsskap það tilheyrði.  En það afsannast hér með þar sem þú og Guðrún Sæm. virðist nokkuð sammála.  Við skulum því gleyma þessu. 

Reyndar er ég líka sammála því að borða innan við 500 kaloríur á dag virkar skrítið, en ég er ekki sérfræðingur í þessum málum, frekar en svo mörgum öðrum. 

Ætlaði ekki að segja meira, svo set punkt í bili. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.6.2010 kl. 23:21

15 identicon

@Jóhanna kl.21:44: Það er dáltið vandamálið að landlæknisembættið hefur engin völd til að fylgjast með Detox centerinu og það þarf engum greinargerðum að skila þangað. Þetta, sem og annað new-age lækningar, hlýtur eingum reglum og heyrir undir engann og ekkert eftirlit er til staðar. hún þarf ekki að halda úti sjúkraskýrslum (reyndar er möguleiki að það sé bannað) og þarf ekkert að skrá annað en hvert annað hótel.

Eina sem landlæknir getur gert er að fylgjast með því að hún sé ekki að kalla sig lækni, sé ekki að stunda læknismeðferðir, og að hún sé ekki *beint* að lofa undraverðum bata á sjúkdómum. Hún má hinvegar gera allt þetta óbeint og það er enginn sem getur gert neitt.

Við þetta má bæta að hún hefur litla ábyrgð. Þú getur ekki kært hana fyrir læknamistök eins og lækni og óvíst er hvort hún sé tryggð fyrir slíku. Auðvitað ef hún veldur einhverjum fjörtjóni þá er eflaust hægt að kæra en ekki á sama hátt og lækni heldur er bara almenn lögsökn um að ræða.

Jón Grétar (IP-tala skráð) 14.6.2010 kl. 00:27

16 Smámynd: ThoR-E

ég er og hef verið skeptískur á allt kukl. Það hefur ekkert breyst.

En heilsuhótel. Hollt mataræði, hreyfing ... á mjög erfitt með að setja þetta á sama stall og miðla og spákonur.

Þessi frétt á mbl.is var sérstök, svo ekki sé meira sagt.

Það var mynd við fréttina af "amöbu" og stóð undir fréttinni, svona er, eða er svona í skjólstæðingum Jónínu." (man ekki nákvæmlega hvernig það var orðað.)

Þetta er ekki fréttamennska. Langt frá því.

ThoR-E, 14.6.2010 kl. 11:18

17 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ef JB vill að starfsemi hennar öðlist löggildingu. sem hún hlýtur að gera, þá verður hún að fara eftir lögum og reglum og ekki vera hafin yfir lög og reglur um heilbrigðismál. 

Engin starfsemi af þessu tagi má vera eftirlitslaus.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.6.2010 kl. 12:32

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Amaba sem þessi kynni að leynast í viðskiptavinum Jónínu"

stóð nákvæmlega, að vísu ekki þessi hneykslaði kall með! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.6.2010 kl. 12:36

19 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég er sammála því Margrét,  heilbrigðisstarfsemi, menntun, trúfélög o.s.frv.

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.6.2010 kl. 12:38

20 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Það er örugglega passað vel uppá hreinlætið þarna og ólíklegt að í Detoxinu  finnist þessi Amabada. 

Mér finnst mjög ómaklega vegið að þessum fjölda fólks sem tekur geðlyf, því að þessi vanlíðan sem að töflurnar eru að slá á er að einhverju leiti tengdur bankahruninu.  Um 30 þúsund manns eru í vanskilum og um 30 þúsund manns taka inn einhverskonar geðlyf.  Fólk sem er að missa ofan af sé húsnæði hlýtur að þjást af áhyggjum og kvíða, svefnleysi og slíku. Ég stórefa það að stólpípur virki á þetta. Ég tek það fram að ég er ekki að alhæfa um notkun geðlyfja enda hef ég ekkert vit á slíkum lyfjum, þetta er meira svona tilgáta yfir kaffibollanum.

Guðrún Sæmundsdóttir, 14.6.2010 kl. 13:05

21 identicon

Ég ætla nú bara að minna ykkur á að Jónína veit miklu betur en læknar hvernig líkaminn virkar og hver næringarþörf hans er!!!

Nei djók....

Svo held ég að það sem Jónína sé að bjóða fólki upp á sé ristilskolun, sem er eitthvað öðruvísi en stólpípa. Svona ristilskolun er víst mikið hættulegri en venjuleg stólpípa og er mælst til að slíkar aðgerðir séu aðeins gerðar af fagfólki á heilbrigðisstofnunum.

Svo á ég voðalega bágt með að sjá heilsusamlegu áhrifin af þessari detox meðferð, allaveganna hafa læknar talað um að innbirða aðeins 500 kaloríur á dag í tvær vikur eða meira geti verið stórskaðlegt líkamanum.

Bjöggi (IP-tala skráð) 14.6.2010 kl. 16:20

22 Smámynd: ThoR-E

Já Jóhanna, þessi fréttaflutningur er stórmerkilegur.

Talað er um þessar amöbur gætu komið ef notuð eru óhrein áhöld og þessi texti m.a settur við mynd af þessum amöbum.

En mjög einfalt er að komast að því að einnota búnaður er notaður í öllum tilvikum hjá Jónínu.

Samt er þessu skellt svona upp.

Ótrúlegt alveg.

ThoR-E, 14.6.2010 kl. 17:03

23 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Jóhanna

Ég skal varpa betra ljósi á þetta. Í skýrslu okkar fjórmenninganna sem skiluðum inn formlegri kvörtun til Landlæknis var heilmikil umfjöllun um ristilskolanir. Í henni er dregið fram það sem fram hefur komið um mögulega fylgikvilla ristilskolana og eru þessar amöbusýkingar þar á meðal. Í fræðilegri umfjöllun er farið vítt yfir efnið og er þarna ekki verið að taka dæmi frá starfsemi Jónínu Ben. Það er rétt að vita af öllu sem hefur verið rannsakað og tilkynnt um þessar ristilskolanir. Í frétt Pressunar kemur það fram að ekki er verið að tala um dæmi frá Jónínu en mögulega er hægt að misskilja uppsetningu þeirra og ég mæli því ekki bót að þeir taki þennan hlut sérstaklega út því að hann er ekki það líklegasta sem gæti gerst. Hins vegar er vissulega aukin sýkingarhætta af ristilskolunum, t.d. ef að verkfærið veldur sári, en það er sem betur fer fátítt. Annað sem ekki hefur komið fram er að fólk sem hefur lokið 500 kkal kúr í 2 vikur getur verið komið í vægt ójafnvægi á electrolytum (Na, K, Cl) og við ristilskolun getur slíkt ástand versnað. Þetta getur valdið efnaskiptakrísu, sérstaklega hjá fólki eldra en sjötugu.

Það ber að huga að mörgu í þessu og því á þetta eingöngu að vera í höndum lækna eigi fyllsta öryggis að vera gætt.

Bestu kveðjur

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 14.6.2010 kl. 17:21

24 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Svanur, 

Og þakka þér fyrir að svara fyrir þig.

Að alvöru málsins: Fréttin er vond, illa upp sett og gerð til að valda misskilningi og vissulega athygli.  Það hefur tekist, t.d. hef ég ekki frá upphafi fengið eins marga gesti inn á bloggið mitt, sem hefur nú stundum verið heitt þegar verið er að ræða trúmál. 

Varðandi 500 kkal kúr: Læknar og næringafræðingar vita örugglega meira um hvað er hollt og hvað er óhollt við mataræði en ég.  Ég las grein eftir næringafræðing í dag, minnir Ólaf Sæmundsson sem virtist vita hvað hann talaði um og hljómaði skynsamlega.

Flestir með almenna skynsemi vita reyndar (eða ættu að vita) hvað þeir þurfa til að komast í kjörþyngd, en virðast vera í einhverri afneitun og vilja "barbabrellu" það er stundum vandamálið.  

Jónína er að bjóða upp á valkost sem virðist ekki í boði á vegum ríkisins eða undir eftirliti landlæknisembættis.  Spurning hvar NLFÍ er statt miðað við Detox Jónínu?   Þar eru viðtöl, gönguferðir,  leirböð, hollt mataræði o.s.frv.  Það er að sjálfsögðu ekki "lúxushótel"

Persónulega held ég að athyglin sem fólk fær í meðferðinni skipti miklu máli. Það eru svo margir að hrópa á hjálp/athygli en fá hana ekki. Hugur og líkami starfa saman, það veit læknirinn auðvitað.  Stór hluti "lækningar" er því að trúa á að hún virki

Yfirlýsingagleði Jónínu og viðkvæmni gagnvart gagnrýni,  hvernig hún bregst við með æsingi, skemmir að mínu mati mest fyrir henni.  Stundum fær maður á tilfinninguna að þarna hafi verið farið af stað án nægilegs aðhalds (kapp er best með forsjá).  

Það besta fyrir hana hefði verið að fá íslenskan lækni til samstarfs til að setja á þetta faglegan stimpil og dularfullt að það skuli ekki hafa tekist hjá henni, því ég veit að hún ætlaði sér það,  án þess að ég geti farið nánar ut í þá sálma.

Heilsustöðina, eða hvað sem þetta er kallað þarf að slípa til, nýta það sem vel er gert en endurskoða e.t.v. það sem orkar tvímælis og/eða skapar hættu. 

Það þarf að skoða ástæðuna fyrir því að fólk leitar í detox  frekar en í aðrar lausnir. Fólk virðist þurfa hjálp við að koma sér af stað í betri lífstíl og því verðum við öll að taka höndum saman, hvort sem við erum hefðbundin eða óhefðbundin að hjálpa við það. Lýðheilsustöð hefur staðið sig vel, en persónuleg þjónusta við einstaklinga er það sem þarf. 

Það má ekki horfa fram hjá því fólki sem fullyrðir  "að Jónina /detox hafi bjargað lífi þeirra, komið því úr þunglyndi o.s.frv."  Hvers mörgum hefur Jónína "bjargað" og hversu margir liggja sárir eftir?  Það er verðugt rannsóknarefni.  Ef að fólk eldra en sjötugt er í áhættuhópi við ristilskolun, þarf það að sjálfsögðu að koma fram í meðferðarlýsingu, auk annarra viðvarana eða annarrar áhættu við meðferðir. 

Ítreka þakkir fyrir að skýra mál þitt og fyrir upplýsingarnar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.6.2010 kl. 21:50

25 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Jóhanna

Takk fyrir gott svar og málefnalega umræðu.

Það eru ýmsir góðir kostir í gangi á Íslandi varðandi endurhæfingu og heilsubótarprógrömm fyrir offeitt fólk eða fólk með langvinna sjúkdóma.  Reykjalundur, NLFÍ, Hreyfing, Þraut, Heilsuborg og fleiri þar sem hófsöm og fagleg sjónarmið ráða ríkjum.  Það mætti auka við þessa frekar fámennu flóru, en það er sama í hvaða umbúðum (t.d. lúxushótel) prógrömmin eru sett upp í, að þau eru á endanum niðurbrjótandi og skemmandi ef að þau byggja ekki algerlega á faglegum forsendum og kynnt af heilindum.  Það má gera margt til að gera þessi prógrömm aðlaðandi, en fagurgalar, stolnar skrautfjaðrir og blekkingar eru ekki þar á meðal.  Það er sama hversu sjarmerandi stjórnandi er - ef að sá sjarmi er snauður af heilindum, faglegum metnaði og vilja til að taka uppbyggjandi athugasemdum vel, er hann einskis virði.  Það kemur ekkert í staðinn fyrir heiðarleika og mannvirðingu.  Það kallast vitrænn heiðarleiki að svara flóknum spurningum með annað hvort "ég veit það ekki" eða "ég skal skýra það út faglega og vel rökstutt, en komist ég að því að ég hafi rangt fyrir mér mun ég fegin viðurkenna það."  Með því að svara með útúrsnúningum, reyna að sverta spyrjandann eða á annan hátt vanvirða umræðuna þrátt fyrir að vitneskjuna um að hafa rangt fyrir sér eða geta ekki sannað mál sitt, kallast það vitrænn óheiðarleiki.

Einstaka dæmi, hvort sem að þau eru jákvæð eða neikvæð fyrir tiltekna meðferð, þarf alltaf að skoða í samhengi við hvaðan þau eru fengin, hvernig þeirra var aflað og hvort að þau séu fræðilega sennileg eða ekki.  Þess utan geta þau ekki fært sönnur á neitt þó að gætt hafi verið hlutleysis við öflun þeirra.  Stakir vitnisburðir eru veikustu gögn sem hægt er að færa fram til stuðnings eða hrakningar á meðferð.  Ástæðurnar eru margar, en fyrst og fremst er það vegna valkvæmnar hugsunar mannsins og hás flækjustigs margra vandamála og meðferða við þeim.

Það leysir ekki málin fyrir detox stöð að fá "lækni til samstarfs til að setja á þetta faglegan stimpil.." vegna þess að grundvallarhugtakið og aðferðin er stórlega gallað fræðilega og í klínískri praxis.  Enginn stimpill leysir ónýta og ófaglega aðferð.  Hins vegar ef að Jónína Ben hefði byggt starfsemina á faglegum forsendum og í samstarfi við lækna og vandað heilbrigðisstarfsfólk, hefði atorka hennar getað komið miklu og góðu starfi áleiðis.  Því miður var það ekki raunin.

Bestu kveðjur -Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 15.6.2010 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband