Danmörk sumarið 1968 - gömul ljósmynd

vinkona_allra_980073.jpg

  Bjössi bróðir sendi okkur systkinunum þessa mynd, en hún var tekin þegar við fjölskyldan fórum í leyfi til Danmerkur og bjuggum í raðhúsi Ingu frænku í um mánaðartíma. 

Þetta var einn besti tími bernsku minnar,  síðasta sumarið með pabba, en hann lést ári síðar. 

Hann er þó ekki á þessari mynd, enda ljósmyndarinn,  heldur er það Ingi bróðir hans, þessi hávaxni maður með sólgleraugun.  Jóna kona hans í hvítu kápunni, mamma þarna á bakvið hægra megin.  Bjössi bróðir léttklæddur svo ekki sé meira sagt, en myndin er tekin að kvöldi dags og það var hitabylgja í Kaupmannahöfn á þessum tíma og því mjög heitt þó að himininn hellti aðeins úr sér. 

 

Þarna eru Lotta frænka, sú með tíkarspenana og varin í appelsínugula regnkápu. Hulda systir ábyrgðafull og alvarleg í grænum kjól sem mamma saumaði, og saumaði reyndar eins á Karenu dúkkuna hennar! .. Binni bróðir fremstur, þarna fjögurra ára grallaraspói,  Sæunn frænka og Snorri frændi sitthvoru megin við mig, en þarna er ég sex ára að verða sjö, en er þarna (eins og Hulda systir segir)  í klassísku hlutverki mínu í lífinu að halda utan um fólk og óska þess að allir séu vinir. 

Snemma beygist krókurinn.

Það er skrítið að horfa á svona gamlar myndir og hugsa til baka, hugsa um bernskuna og það sem er liðið og hvað það er í raun langt um liðið - en samt svo stutt.  Ég að nálgast fimmtugsaldur eins og óð fluga,  búin að ala upp þrjú börn og á von á þriðja barnabarninu í sumar, einmitt í kringum afmælisdag pabba í júní.   1968 varð pabbi minn fertugur, hann varð aðeins fjörutíu og eins árs og lengi, lengi hugsaði ég hvernig lífið hefði verið hefði hann lifað.  

Dreymdi að hann hefði ekki dáið, ég hefði verið plötuð og ímyndunin var svo sterk að ég hugsaði að hann hefði verið fenginn í eitthvað verkefni  þar sem enginn mætti vita af honum, svo kæmi hann til baka "surprise" einn daginn.  Mamma yrði glöð aftur og við aftur alvöru fjölskylda,  þar sem púslið hann pabbi væri kominn aftur og þessi gapandi hola sem hann skildi eftir hætti að stara á mig. 

Ég gleymi aldrei þegar við vorum að fara í fjölskylduferð með vinnunni hennar mömmu og Lotta systir sem aldrei náði að þekkja pabba, þar sem hún var átta mánaða þegar hann dó,  horfði í kringu sig og sagði svo  við mig "Ég vildi að við ættum pabba eins og hinir" ..  eitthvað inni í mér brást, enda var ég eflaust bara um tíu tólf ára þegar þetta var, en ég hélt aftur af tárunum og stíflan hélt þarna eins og oft áður, og "hélt kúlinu" eins og ég hef oft gert síðar í lífinu. 

Þetta átti bara að vera smá skemmtileg grein um mynd, en svo langaði mig að fá að segja svolítið frá pabba,  ég ætla að leyfa þessu að standa.  Því það eru margir sem kannski hafa upplifað svipað eða eiga sína sem þeir sakna, þó þeir lifi ekki og hrærist í því á hverjum degi.  

Það er eitthvað við uppbrot á fjölskyldum, hvort sem það er dauði eða skilnaður sem er svo óendanlega sárt fyrir börnin.  Við viljum að þau hugsi eins og við - og sætti sig við nýjar þjóðfélagsaðstæður,  en börn eru hrein og bein og tilfinningaverur. 

Þau þarfnast beggja foreldra sinna,  þess vegna þarf að hugsa sig vel um áður en skilið er, hvort að það sé örugglega rétta leiðin,  ef það er rétta leiðin - foreldrar plís, plís, plís vera vinir, vinir barnanna ykkar vegna. 

Þau eiga það skilið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Yndisleg færsla og svo sönn, börnin verða oft bitbeinið á milli foreldrana.

Knús í daginn

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.4.2010 kl. 09:35

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Milla mín

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.4.2010 kl. 10:07

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Myndirn er skemmtileg og það merkilega við hana er hvað klæðaburðurinn er misjafn og skrítinn. Greinilegt að hver hefur lagt sitt mat á veðrið. Ein er í regnkápu svo er einhver í dralonpeysu og enn annar ber að ofan, en strákurinn í kjólnum er augljóslega frjálslegastur af þeim öllum.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2010 kl. 10:20

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þú hefur augljóslega ekki haft þolinmæði til að lesa textann, Jón Steinar en þarna er  enginn strákur í kjól, þó vissulega sé hún systir mín með stuttklippt hár,  en það var m.a. tíska þessa tíma - svona Twiggy eitthvað,  en mig grunar að þetta hafi átt að vera grín hjá þér. 

það er rétt athugað hjá þér, en við höfum einmitt tekið eftir hvað myndin er skemmtileg vegna misjafns klæðaburðar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.4.2010 kl. 10:29

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 11.4.2010 kl. 11:00

6 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Það er svo merkilegt við ljósmyndir, a.m.k. séð frá mínum bæjardyrum sem áhugamaður um ljósmyndun, að myndir sem ekki þykja sérlega merkilegar þegar þær eru nýteknar, verða svo skemmtilegar þegar á líður.  Þá skiptir litlu máli þó að þær séu dálítið misheppnaðar, ekki í fókus, rispaðar eða eitthvað slíkt.  Þá skiptir bara máli hvað maður sér á þeim.

Ég var t.d. fyrir nokkru að skanna inn í tölvu gamlar myndir af filmum sem afi minn og amma tóku í Ameríku í kring um 1920, en þau bjuggu í Washington fylki um tíma á þessum árum.  Þessar myndir eru einmitt misjafnar að gæðum og filmurnar þvældar og rispaðar, en það sem sést á myndunum er alveg stórkostlegt.

Já, það er magnað hvað foreldrar eru mikilvægt fólk.  Ég velti sem unglingur dálítið fyrir mér boðorðinu "heiðra skalt þú föður þinn og móður þína" og fannst þá að þetta boðorð ætti kanske ekki alltaf rétt á sér, en svo skildi ég það síðar.  Þetta er eina fólkið sem alltaf ber hag þinn fyrir brjósti og elskar þig skilyrðislaust.  Ég skil vel að föðurmissirinn hafi verið sár og að það hafi leitað á hugann hvað hefði orðið ef þannig hefði ekki farið.

Theódór Gunnarsson, 11.4.2010 kl. 11:37

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég las textann Jóhanna mín.  Kaus bara að ræða myndina, því hitt er ekki fyrir harðjaxla eins og mig. Fannst það raunar heldur prívat til að kommentera á.

Misskildi kannski upptalninguna svolítið og taldi þetta vera Snorra frænda þinn.  Ekki óeðlilegt að taka feil þarna annars. Snótin er ansi strákaleg. Fyrir utan drengjakollinn eru þessi stóru útstæðu eyru svolítið einkaleyfismál  hjá okkur strákum sko.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2010 kl. 16:13

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Thank you boys and girls, ..takk fyrir þín orð Theódór og einlægnina. 

Heyrðu JS - veit þú ert nú bara harðjaxl á yfirborðinu og yfirborðið er ekki þykkt - þetta með eyrun, ég er með svona eintak af eyrum líka, algjörlega genetískt,  þó það sjáist ekki á myndinni, hef alltaf talið þau bæta á kynþokkann, og er vart á hann bætandi!

Nei, nei .. bara grín, ... maður/kona er svo góður hlustandi - allt eyrunum að þakka! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 12.4.2010 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband