19.2.2010 | 21:57
VVV - MANNRÆKT ... Virðing - Vinátta - Viska
Ágæta manneskja sem þetta lest,
Nú langar mig að segja þér frá draumnum mínum, og jafnframt að bjóða þér að vera þátttakandi.
Draumur minn er að stofna félag með því markmiði að rækta hið góða í okkur öllum. Félagsskap þar sem við öll, hvernig sem við erum, getum átt samanstað og fengið viðurkenningu.
Samfélag sem jafnrétti ríkir og fólk er metið fyrst og fremst eftir viðmóti en ekki eftir kyni, kynhneigð, trú, trúleysi, menntun o.s.frv. Ég er ekki svo bláeyg að ég geri ekki ráð fyrir að ýmis vandamál komi upp, en þá er ætlunin að leysa úr þeim.
Þetta félag/söfnuður/skóli eða hvað sem við viljum kalla þetta er til að byrja með aðeins til sem hópur sem var stofnaður af undirritaðri á Facebook, undir nafninu VVV - MANNRÆKT og þar standa þessi þrjú Vöff fyrir Virðingu - Vináttu og Visku.
Virðing er mikilvæg, til að við getum talað saman af virðingu þó við séum með ólíkar skoðanir. Það er þó eitt sem við getum ekki borið virðingu fyrir og það er ofbeldi eða valdníðsla. Auðvitað getum við eflaust tínt fleira til.
Viska er mikilvæg, held það þurfi varla að útskýra það nánar.
Vinátta er mikilvæg - enda manneskjan ekki eyland og þrífst í samfélagi við aðrar manneskju, og þó að við drögum okkur í hlé við og við þá hverfur ekki alvöru vinátta.
Nú er ég að byrja að sá fyrstu fræjunum í VVV - MANNRÆKT en trúi og treysti að þau eigi eftir að spíra og verða að fallegum jurtum.
Mér finnst mikilvægt að taka það fram að það þarf ekkert að flokka fólk eftir á hvað það trúir, eða hverju það trúir ekki og það á ekki að segja fólki hverju það á að trúa, slík trú er ekki einlæg.
Ef við lítum á það starf sem ég vonast til að hægt sé að vinna undir hatti Mannræktar í framtíðinni, þá hæfist það þegar börnin eru lítil - þar sem þau fengju að læra heimspeki og gagnrýna hugsun.
Það sem ég sé að vantar í þjóðfélaginu eru ráð og samverustaður fyrir hina mismunandi hópa, bæði eftir aldri og reynslu.
Sjálf fékk ég hjálp á sínum tíma í hópi kvenna sem voru að upplifa líf eftir skilnað og ræddum við þar einmanaleikann og þá sorg - nú og stundum frelsi - sem getur fylgt skilnaði.
Fyrir rúmu ári síðan fékk ég krabbamein - sem ég er nú laus við, en nýlega kom nemandi til mín sem hafði greinst með sams konar krabbamein og gátum við talað saman um þá upplifun að fá svona "dóm" og hvernig við brugðumst við honum. Það er eitthvað svo mikilvægt að geta talað við fólk sem hefur reynt það sama og maður sjálfur, og það er nú þannig að enginn veit fyrr en reynt hefur.
Það eru margir vanræktir hópar í samfélaginu sem myndu vilja hittast, og þessu fólki væri gott að búa vettvang til að ræða sín mál og gefa hvert öðru ráð.
Þarna væri líka hægt að kalla til fagfólk til að flytja fyrirlestra - og/eða koma af stað hópum.
Það sem ég sé fyrir mér í framtíðinni er líka samfélag svipað og í kirkjunni, þar sem væri hægt að gefa fólk saman í hjónaband og þar væri gagnkynhneigðarhyggjan ein ekki ríkjandi.
Ég er búin að gefa einum trúlausum vini mínum hér á blogginu "undir fótinn" með að hann myndi jafnvel taka þátt í að vera leiðandi í trúlausum athöfnum, þar sem ég hef tekið eftir að hann er tilbúinn að veita þessum þremur Vöffum athygli.
Hér er auðvitað ekki verið að kalla alla til, þetta er bara valkostur sem ég er að ræða hér, valkostur þeirra sem ekki eru endilega sammála öllu því sem boðað er í hefðbundinni kirkju en vilja sjálfir fá að velja sér sinn "matseðil" .. Auðvitað hollan og uppbyggilegan matseðil.
Það á eftir að skoða allt sem heitir fjármögnunarhlið, og ég er ekki að gera þetta til að græða - eða jú græða sár kannski ...
Þetta er minn tilgangur í lífinu, að reyna að gera heiminn betri, og ég veit að svo marga vantar tilgang, en hvað er fallegri tilgangur en að rækta okkur og aðstoða annað fólk við að blómstra, vaxa og dafna? Hvað ef að lífsreynsla þín getur verið til þess að hjálpa öðrum. Þú gætir t.d. deilt með öðrum hvernig þú komst yfir erfiðan hjalla í þínu lífi ?
Mikið er rætt um forvarnir, en ég tel að sterkir einstaklingar eigi auðveldara með að standast freistingar. Í Mannræktinni myndum við styrkja hvert annað, styrkja börnin og styrkja unglingana.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, þetta eru grunnhugmyndir - endilega skrifa hér í athugasemdir eða senda mér email á johanna.magnusdottir@gmail.com ef þið viljið deila einhverju eða taka þátt.
Kannski vill einhver skammast í mér, að ég sé ekki hlýðin og ég sé lélegur guðfræðingur, ef einhverjum líður betur við það þá er það mér að meinalausu.
MANNRÆKT mun standa fyrir líkams - og hugarrækt og ætla ég að bjóða þeim sem vilja að ganga með mér í kringum Tjörnina í Reykjavík á sunnudag kl. 13:00 - við leggjum af stað frá Iðnó.
Hægt að koma með brauð fyrir "bra bra" og taka með börnin - endilega.
Hlakka til að sjá ÞIG
Takk fyrir að lesa ..
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Hægt að ganga í hópinn á Facebook
Jóhanna Magnúsdóttir, 19.2.2010 kl. 22:01
Er hlynntur þessari hugmyndafræði og mæti í gönguna.
Pétur Emilsson (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 12:51
Þetta er dásamleg hugmynd og ég er búin að skrá mig, en ekki get ég tekið þátt í göngunni þó það hefði verið gott að koma á æskuslóðir, mun verða með ykkur í huganum.
Kærleik til þín Jóhanna mín
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.2.2010 kl. 14:06
Lýst vel á þesar hugmyndir, orðið mannrækt er samt í hugum sumra órjúfanlega tengt við gervivísindin Eugenics (sem enn lifa góðu lífi þó að margir haldi að sá sjúki hugsanagangur hafi horfið með falli Nazismans).
SeeingRed, 20.2.2010 kl. 15:00
Við stelum bara orðinu mannrækt og notum það til mun betri hluta en Hitler og félagar.
Kristinn Theódórsson, 20.2.2010 kl. 17:18
Þessi færsla er hrópandi andstæða við bloggið á þessum tímum. En einstök hugmynd.
Finnur Bárðarson, 20.2.2010 kl. 17:47
Góðan dag, takk fyrir að leggja orð í belg og segja ykkar skoðanir! Ég hlakka til að "viðra" heilann á eftir og ganga hringinn í kringum tjörnina. Tek undir með Kristni, með að stela hugmyndinni um mannræktina, en að sjálfsögðu er þarna ekki litið á neinar "plöntur" sem merkilegri en aðrar - og við skulum miklu fremur sjá þetta sem "Fields of Gold" frekar en skipulögð blómabeð, er það ekki bara?
En það er samt gott að fá ábendingar og ég er nú þegar farin að kalla þetta "ræktina" í huga mér, erum við ekki alltaf svo sátt við okkur þegar við erum búin að fara í ræktina!
Já, Finnur - erum við ekki sammála að það rignir yfir okkur "ekki jákvæðum" (ég er gagngert að forðast n- orðið) fréttum og fókusinn er orðinn býsna fastur hjá þjóðinni á þeim.
Ég sé að þarf að standa við stóru orðin og fara í göngutúr á eftir, á Facebook hafa nú sráð sig 67 aðilar, kannski af mismunandi mikilli alvöru, en það frábærasta er að fljótt á litið sé ég að þar er hópur - þverpólitískur og þvertrúarlegur, augljóslega allt fólk sem langar einmitt að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að gera heiminn betri.
Það er tekið sérstaklega fram að Virðing - Viska og Vinátta eru grunngildin og þar er sérstaklega tekið fram í lýsingu að við erum öll á jafnréttisgrundvelli, og ekki metin eftir kyni, kyn- eða trúhneigð eða öðru því sem gæti mögulega "flokkað" okkur í sundur eða sett okkur á mismunandi stalla.
Ekki ætla ég samt að efast um eðli mannsins og að upp komi kannski einhverjar erjur eða vandamál, en "den tid den sorg" eins og Danskurinn segir, og þá verður glímt við það vonandi með visku - virðingu og vináttu.
Í framhaldi af því var ég að hugsa um orðin sam-viska og sér-viska í morgun, og hvað þetta eru bæði falleg orð. Sam-viska = eitthvað sem við vitum saman og sér-viska, eitthvað sem einhver eða einhverjir hafa sér. Nú er um að gera að nýta okkur sam-viskuna okkar og ekki síður sér-visku þeirra sem henni vilja deila.
Auðvitað verður fókusinn á hið jákvæða í manneskjunni og við leggjum okkur ffram við að kalla það besta fram. Við megum ekkert vera feimin við að láta vita ef okkur finnst eitthvað taktlaust eða óviðeigandi í samskiptum og við verðum að vera það sterk að við þolum ábendingar og gagnrýni til að byggja okkur upp.
Jæja, nú er kominn tími á kaffi!
Sjáumst spræk.
Jóhanna Magnúsdóttir, 21.2.2010 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.