Færsluflokkur: Kvikmyndir

Mamma Gó Gó og Mamma Vala

Ég var á leiðinni að sjá nýjustu kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar; Mamma Gó Gó alla vikuna.

Við drifum okkur svo þrjár systur í gær. Myndin náði að hreyfa við tilfinningum okkar, kannski ekki undarlegt þar sem hún móðir okkar er með heilabilun og sumar senurnar sem minntu á hana hittu því beint í auman hjartastað.  

Ég hafði miklar væntingar varðandi þessa mynd og eflaust of miklar. Fannst eitthvað tómahljóð í henni og á köflum slitnaði ég alveg úr sambandi við myndina. Tek það fram að þessi greining á kvikmynd er ekki fagmannlega sett fram, aðeins hvernig myndin skilaði mér út úr bíó. 

Kristbjörg Kjeld náði sínu hlutverki mjög vel, fannst hún stundum full "létt" á sér miðað við 80 ára konu, en þær eru víst misjafnar eins og þær eru margar. Tómleikinn í augunum og göngulagið er eitthvað sem er svo einkennandi fyrir sjúklinga á ákveðnu stigi og Kristbjörg náði að túlka það einstaklega vel.

Þegar mamma Gógó spyr son sinn "Í hvaða leikriti erum við" þá hefði ég getað orgað upphátt, ekki af hlátri - heldur væri það 100% sorgarorg.  Það minnti mig á mömmu, sem á tímabili upplifði að hún væri í hlutverki.

Umbúnaður myndarinnar, leikmynd, klæðnaður, náttúrusenur er allt fyrsta flokks.  Leikurinn fannst mér mistækur og samleikur á köflum  svolítið stirður og einhvern veginn ekki nógu sannfærandi.  

Það truflaði mann svolítið við áhorf (og það er að sjálfsögðu vandamál áhorfanda ekki framleiðenda eða leikara) að vera að hugsa: hvað er satt þessu og hvað er búið til?   Auðvitað er þetta einhvers konar sósa af raunveruleika og tilbúningi.

Það var mikill húmor í myndinni og oft hægt að hlæja upphátt, en auðvitað tragikómískur undirtónn. Persónur sem dregnar voru fram voru líka góðar, eins og bankastjórinn og forsætisráðherrann. 

Gömlu myndirnar voru eiginlega tromp þessarar myndar.  Klippur úr 79 af Stöðinni og lokalagið í henni stálu svolítið senunni, þær voru eitthvað svo "pro"..  Tengingin á milli var vel gerð og gáfu þessar klippur myndinni rómantískan blæ. 

Svona allt í allt og að þessu sögðu þá vantar samt eitthvað, þó ég geti ekki alveg fest fingur á það.

Það þurfti ekki þessa mynd til að vekja mig til umhugsunar um stöðu gamla fólksins, enda búin að vera að sinna mömmu og við systkinin undanfarin ár og fylgjast með hennar sporum í kerfinu. 

Við höfum þurft að vera býsna ákveðin og höfum stundum tekið andköf yfir rænuleysi ummönnunaraðila og/eða þeirra stofnana eða spítala sem hún hefur þurft að sækja.  Ég hugsa með hryllingi til þeirra aðila sem hafa ekki svona stuðning eins og ákveðnir ættingjar geta veitt. 

Sjálf hef ég starfað á öldrunarheimili og veit hvað þarf mikla þjónustu og hversu krefjandi starf það er að sinna gamla fólkinu, en að vísu fannst mér það stórkostlega gefandi að sama skapi. 

Mamma Vala fær heimsókn á hverjum degi, og kemur heim til eins af okkar einu sinni um helgi.  Í augnablikinu erum við að lesa framhaldssögu, Vigdís og nýtur hún og reyndar ég ekki síður.  

Í gær myndaðist hálfgerð baðstofustemmning á herberginu hennar,  þar sem Hulda systir sat og saumaði út, en hún er að hjálpa mömmu með útsauminn og ég sat og las fyrir okkur upp úr Vigdísi.

Við hlógum mikið þegar ég las um prestfrúna og formóður Vigdísar,  sem var svo siðprúð að hún bannaði að nærföt af karlmönnum  og kvenfólki væru hengd út saman á snúrur! 

Mamma átti góðan dag í gær og er nokkurn veginn með á nótunum þessa daga, þó ekki viti hún endilega hvaða dagur sé.  Það eru ekki margir mánuðir síðan hún var í lægð,  þekkti ekki börnin sín og horfði full af grunsemdum í augu mér og spurði 

"Fengu þeir þig til að segjast vera dóttir mín"?  

Það er erfitt að halda andliti gráta- hlæja eða eða nei, eiginlega bara gráta,  þegar þú færð svona spurningu og veist ekki hvort þú nærð nokkurn tímann sambandi við móður þína aftur og Hilmir Snær náði algjörlega að túlka þá upplifun.  

Við viljum öll fá að lifa með reisn og deyja með reisn og upplifa reisn okkar nánustu. Það sem við sem eru heil getum gert, og er okkar skylda við þau sem veikjast, á hvaða aldri sem er,  er að hjálpa þeim að halda reisn. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband