Færsluflokkur: Heimspeki
21.6.2011 | 09:12
Fellini og frelsunin frá "Röddinni" ...
Giulietta degli spiriti er mynd sem ég horfði nýlega á með félögum mínum í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema.
Myndin er litrík, og mikið konfekt fyrir skilningarvitin. Þrátt fyrir mikinn súrealisma, er myndin býsna sterkur raunveruleiki margra. Raunveruleikinn er reyndar stundum súrealískur.
Efni myndarinnar kallast á við efni það sem ég hef verið að læra um meðvirkni. Þ.e.a.s. sá hluti sem lýtur að því að finna eigin rödd, en vera ekki bundinn í raddir eða bregðast við umhverfinu með lærðri hegðun frá æsku.
Það er staðreynd, að við sjálf erum oftast okkar stærsta hindrun, vantraust okkar á sjálfum okkur. Það er okkar eigin úrtölurödd, sem talar niður drauma okkar, skammar okkur, eða hindrar í að gera hluti sem við gætum gert ef við hefðum ekki þessa hindrun. Að sama skapi þurfum við að sjálfsögðu að hafa okkar takmarkanir svo við förum ekki að voða. En við viljum þagga niður í röddinni sem hindrar okkur í að vera við sjálf.
Einn kafli bókarinnar Women, Food and God, eftir Geneen Roth, fjallar um "The Voice" eða Röddina. Stundum nefnt Superego. Þarna er um að ræða okkar innri rödd, ekki þessi sem elskar okkur skilyrðislaust - heldur þá sem er dugleg við að kritisera okkur. Röddin sem gæti sagt "hvað þykist þú eiginlega vera" .. Röddin sem stelur frá okkur draumunum og skellir okkur niður flötum þegar við fáum áhuga á að framkvæma eitthvað sem er óvenjulegt eða erfitt. Þessi rödd gæti t.d. hljómað eins og mamma okkar þegar við vorum börn. Stundum segja mömmur og pabbar eitthvað óvarlegt og drepa þá líka óvart niður sjálfstraust og drauma. Það er ekki vegna þess að þau voru vond, heldur vegna þess að þau kunnu ekki betur, voru e.t.v. að tala eins og þeim var kennt, og kannski kom þessi rödd í raun einhvers staðar úr vanvirkri fjölskyldu í fortíð.
En aftur að myndinni.
Aðalpersónan Júlíetta, er óhamingjusöm og er í því að þóknast öllum í kringum sig, þ.m.t. eiginmanni sem heldur fram hjá henni, en hún hefur valið að láta eins og ekkert sé og halda "kúlinu". Í myndinni er ferðast aftur í tímann og hún sýnd sem barn þar sem hún er að leika í skólaleikriti og er bundin niður. Móðir hennar er stjórnsöm og pabbinn ævintýragjarn og fer í burtu með sirkuskonu. Ég man ekki fléttuna nákvæmlega, en það sem skiptir máli er hér hvernig Júlíetta vinnur úr sínum málum.
Í myndbrotinu sem fylgir er Júlíetta komin á þann stað að íhuga að fremja sjálfsmorð, þegar hún heyrir barnsgrát, - hún spyr hvaðan þetta komi og þá birtist andlit móður hennar sem segir að þetta sé aðeins vindurinn.
Hún neitar því og sér þá litla hurð, sem á að tákna undirmeðvitund hennar, og hún ákveður að opna dyrnar. Móðir hennar segir henni að stoppa, en þá svarar Júlíetta
"Ég er ekki hrædd við þig lengur" .. Um leið og hún segir það opnast dyrnar.
Stundum er það þannig að við tileinkum okkur rödd fortíðar, rödd móður, rödd föður eða einhvers sem hefur haldið aftur af okkur. Við ruglumst á eigin rödd og annarra.
Einhvers sem hefur ekki haft trú á að við gætum staðið á eigin fótum og við höfum þannig tileinkað okkur þá trú ómeðvitað. Við höfum viðhaldið "röddinni" sem talar niður til okkar, dregur úr okkur kjarkinn og viðhöldum óttanum.
Stundum erum við það brotin, orðin það kjarklaus að við þurfum að fá utanaðkomandi stuðning. Nýlega las ég bréf frá nemanda til námsráðgjafa, sem hafði náð sér upp úr óreglu "Ég fór að trúa á mig, af því að þið höfðuð trú á mér." - Oft er sagt að við þurfum að treysta á okkur til að aðrir geri það, en ef við erum mjög brotin, þá þarf oft "pepplið" til.
Hvernig sem Júlíetta fer að þessu hefur hún loksins komist á þann stað í lífinu að hún þaggar niður í röddinni, hlustar á eigin rödd og fer inn í litla herbergið þar sem hún sér sjálfa sig sem litlu stelpuna í skólaleikritinu, og losar böndin sem hún er bundin með.
Hún frelsar hana - leysir úr viðjum fortíðarinnar. Hún hafði öðlast sjálfstraust til þess, tekur utan um stelpuna og sleppir henni svo út þar sem hún hverfur.
Aðeins þannig gat Júlíetta öðlast frelsið. Aðeins þannig að fara til fortíðar og losa um barnið sem var bundið. Hún fór ekki til baka sem barn, heldur fullorðin manneskja og frelsaði barnið.
Á þennan máta frelsum við okkur sjálf, förum inn í okkar eigin meðvitund, skoðum rætur, uppruna og ef að við sjáum þar grátandi barn þá tökum við það í fangið og hleypum því svo út í sólina.
Barnið þarf ekki að vera bundið, það getur bara verið sitjandi undir borði, uppi í stiga, inní rúmi eða hvar sem er. Kannski átt þú svona sögu af sjálfri þér eða sjálfum þér.
Merkilegt nokk eigum við það flest, en oft er djúpt á að finna þetta barn. Oft er sagan í móðu, enda oft sár. Margir muna ekki eftir bernskunni, heldur hafa blokkerað hana, en hún er þarna að sjálfsögðu og kannski er þar grátandi barn sem þarf að hugga.
Til að við getum lifað hamingjusöm í núinu, þurfum við stundum að fara til baka í þáið til rótanna, til barnsins og frelsa það, því að þó við vitum ekki af því þá er það þarna einhvers staðar að halda aftur af okkur og heftir okkur í því sem við erum í dag.
Heftir okkur í að elska, heftir okkur í að elska okkur sjálf og vera við sjálf.
Það þarf ekki að hafa verið dramatísk reynsla á mælikvarða fullorðinna, en hún getur hafa verið mjög erfið og óréttlát á mælikvarða barns. Barn er ekki með sömu viðmið og fullorðnir og raunir þess og tilfinningar eru alveg jafn mikilvægar og raunir okkar sem fullorðinna.
Þess vegna ætti ekki að gera lítið úr tilfinningum barns, eða sorg yfir því sem okkur finnst ómerkilegt.
Börn fara oft að bæla tilfinningar sínar ef við gerum lítið úr þeim, eða jafnvel hlæjum að þeim vegna þess að okkur finnst þær ómerkilegar. Það getur haft þær afleiðingar að þegar eitthvað stórkostlega alvarlegt kemur upp (á bæði barns og fullorðinsmælikvarða) barn verður fyrir ofbeldi eða misnotkun, þá treystir það ekki lengur hinum fullorðna til að taka við tilfinningum sínum.
Það er því dauðans alvara að gera lítið úr tilfinningum barns, jafnvel "væli" því að vælið er oft eina leið þess að tjá tilfinningarnar.
Það þarf að sjálfsögðu að gera mun á því þegar barnið er að gráta vegna þarfa eða langana.
Þörfin er þá þörfin fyrir hlýju, knús, athygli o.s.frv. en löngun er "þörfin" fyrir súkkulaði eða dót í búðinni. En til að flækja málin má líka segja það að barn sem trompast í búðinni yfir dóti, gæti alveg eins verið að tjá vanlíðan, ef að því er ekki mætt eða hefur ekki verið sett mörk.
Ágætis regla er að segja áður en farið er inn í búð; í dag ætlum við að kaupa einn hlut, eða í dag ætlum við bara að kaupa það sem vantar í matinn, ekki dót eða nammi. Þá veit barnið fyrirfram hvað það fær. Aldrei skal brjóta þessa reglu, því þá hrynur allt regluverkið.
Það er gott að reyna að átta sig á því í dag, hverjir eru í þínu "peppliði" og hvort að það sé ekki örugglega maður sjálfur.
En nú er ég hætt og skil ykkur eftir með hana Júlíettu.
Ath! Ég átti þessi skrif "á lager" en langaði að dýpka fyrra blogg um meðvirkni með þessu, endilega kíkið á það ef þið eruð að pæla í svona hlutum.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2010 | 18:34
Að vekja
Bloggið mitt um tilgang vakti augljóslega marga til umhugsunar um tilgang, hvort sem það var tilgangur tilgangsins vegna eða tilgangur lífsins.
Ég renni yfirleitt blint í sjóinn með hugleiðingar mínar. Stundum skrifa ég (að eigin áliti) útspekúleraðar tímamótagreinar, sem enginn hefur áhuga á. Svo vakna ég einn sunnudagsmorgun og læt flæða um tilgang lífsins og það eru margir sem hafa áhuga.
Ég verð að viðurkenna að það gleður mig þessi áhugi á tilgangi. Markmið og tilgangur flækjast stundum svolítið fyrir hvort öðru.
Markmið hvers kennara hlýtur að vera að vekja og vera nemanda innblástur, en ég starfa m.a. við kennslu og svo sannarlega er mitt starf fólgið í að veita innblástur. Innblástur til náms og löngunar til náms. Fátt er leiðinlegra en að læra án löngunar, en auðvitað vitum við að nám - sérstaklega skyldunámsgreinar er ekkert alltaf allt sem fólk langar að læra. Þá er mikilvægt að matreiða efnið á þann hátt að það sé spennandi, og að gera nemandanum grein fyrir hvað akkúrat þessi námsgrein sé mikilvægur hlekkur í námsferlinum. Æ, nú er ég komin algjörlega í vinnuna!
Megin punktur minn með þessari færslu er að vekja athygli á hvernig við sem manneskjur getum verið öðrum manneskjum "inspiration" eða innblástur. Við getum að sjálfsögðu virkað akkúrat öfugt. Við getum dregið úr fólki með neikvæðni - má kannski kalla það útsog, svona andstætt innblæstrinum.
Við þekkjum það öll hvernig það að vera nálægt sumu fólki veitir okkur innblástur á meðan aðrir sjúga úr okkur máttinn og við verðum þreytt og jafnvel leið.
Maðurinn er ekki eyland, við verðum vissulega að bera ábyrgð á okkur sjálf og kannski einmitt vernda okkur fyrir því fólki sem hefur það sterk áhrif á líf okkar að það dregur úr okkur. Þá með því að styrkja okkur sjálf og sjálfsmynd okkar.
Vera síðan tilbúin til að taka á móti hinu góða.
Tónlist veitir mér oftar en ekki innblástur.. hérna syngur sonur kvikmyndaklúbbsfélaga míns fyrir okkur "Þú komst við Hjartað í mér" .. Þetta er ástarsöngur, en gæti alveg verið bara um einhvern sem hjálpar annarri manneskju áfram í lífinu til að "mæta hverju sem er" ....
31.1.2010 | 12:33
Tilgangur ..
Ein stærsta spurning sem við spyrjum okkur sjálf er spurningin um tilgang tilvistar okkar. Ég held að í rauninni þurfi hver og ein/n að spyrja sjálfa/n sig þessarar spurningar og svara fyrir sjálfa/n sig. En þegar manneskjan finnur engin svör, finnur engan tilgang þá verður erfitt að stíga framúr á morgnana, erfitt að erfiða því að hún upplifir að erfiðið sé til einskis.
Kveikjan að þessari pælingu minni, er að ég tala mikið við ungt fólk, eða það talar við mig og það finnur akkúrat ekki þennan tilvistartilgang sinn og því fallast hendur.
Ég helda að við öll eða flest höfum verið á þessum stað og spurt þessara spurninga. Af hverju erum við hér á þessari jörð, af hverju erum við að púla og læra, fjölga okkur, ala upp börn o.s.frv. Það er oft djúpt á svari og eftir því sem við gröfum dýpra lendum við oft í því að grafa okkur niðrí holu sem við sitjum svo föst í og komumst ekki upp úr.
--
En nú svara ég bara fyrir sjálfa mig. Þó ég sé ekki að spyrja þessarar spurningar á hverjum degi, þá fæ ég svörin svona næstum því á hverjum degi.
Í hvert sinn sem ég upplifi eitthvað gott finnst mér ég finna tilgang. Í hvert sinn sem ég sé árangur af starfi mínu eða fæ bros finnst mér ég finna tilgang. Að anda að sér fersku lofti í góðri göngu gefur mér tilgang .. og svo má lengi telja.
En skoðum nú orðið til-gangur. Við erum s.s. að ganga TIL einhvers. Göngum ekki til einskis. Þetta er ekki frá-gangur .. s.s. við eigum ekki að horfa til baka heldur áfram. Við höfum markmið, markmiðið liggur kannski í því að vera betri á morgun en við erum í dag.
Að sama skapi og ég finn tilgang þegar ég geri vel eða upplifi eitthvað gott, finn ég tilgangsleysi þegar ég klúðra eða geri eitthvað rangt. Fæ ádrepur fyrir hvað ég er utan við mig eða sinni illa fjölskyldu minni. Þar er mín viðkvæma hlið, þ.e.a.s. gagnrýni frá mínum nánustu og þá verð ég lítil og upplifi tilgangsleysi.
Ég tala hér í fyrstu persónu, þó ég viti að einhver hafa upplifað svipaða hluti og þessi framsetning er svona bara vangaveltur. Við höfum öll svo mikið að gefa og það er tilgangur í sjálfu sér að gefa og deila gjöfinni sem við sjálf erum.
Verð að viðurkenna að ég trúi svolítið að tilgangur lífsins sé líka að þroska okkur og hvert annað og þess vegna séu hindranir oft tækifæri til þroska. Ég trúi á fleiri tilverustig, ekki á svart eftir dauðann eða svart eftir þetta líf.
Nú er krullhærði kallinn að byrja að tala í sjónvarpinu, svo ég ætla að hlusta á hann og vita hvað hann hefur að gefa! ;-)
1.1.2010 | 13:51
"Whatever works", skilaboð inn í árið 2010
Á meðan kærleiksfærslan mín er enn að malla í hinum heita bloggpotti og menn enn að bæta í hana, ætla ég að skrifa nokkurs konar niðurstöðu í nýju bloggi.
Þann 30. desember sl. ákváðum við Hulda systir að okkur piparjúnkurnar langaði ekki að fara bara beint heim eftir jólaboð svo við keyrðum í Háskólabíó og ákváðum að finna bara einhverja mynd. Vorum hvorugar stemmdar fyrir Avatar, en ég sá að verið var að sýna Woody Allen myndina "Whathever works."
Verð að viðurkenna að ég hafði ekkert heyrt af henni. Án þess að fara að skemma fyrir neinum, þá langaði mig að segja að þessi mynd hafði heilmikinn boðskap að færa, og var auðvitað troðfull af trúar-og siðferðisstefjum. Þrjár af persónum myndarinnar, og þar af önnur aðalpersóna komu frá Eden Missisippi, en nafnið á bænum var engin tilviljun. Þarna var um að ræða bókstafstrúarfólk.
Sá sem var aftur á móti sögumaður og aðalpersóna myndarinnar var á allt annarri línu, reyndar svartsýnismaður og kvíðasjúklingur en skemmtilegur lífsheimspekingur.
Hans fílósófía var "Whatever works" eða að fólk ætti að tileinka sér það sem gengi upp fyrir því.
Ég held að það séu ágæt skilaboð fyrir okkur öll.
Ef að Winston Churchill vildi kalla þunglyndið sitt svarta hunda þá mátti hann bara alveg kalla það svarta hunda. Það virkaði fyrir hann. Það þurftu ekki einhverjir betruvitringar að segja honum að þunglyndi væri þunglyndi og svartir hundar svartir hundar.
Það fór fyrir brjóstið á sumum í "kærleikspistlinum" mínum að ég segði að ég setti samansemmerki á milli Guðs og kærleika. Það virkar fyrir mig og ég var einmitt að segja frá því að þar væri ég að stilla upp mínum forsendum fyrir Guðstrú minni.
Athugasemdir voru komnar út um víðan völl, og út í óendanlegar víddir og orðið vídd var orðið að aðalumtalsefni og það leystist síðan upp í bjór! ..
Öll innlegg skipta máli, ef það er þetta sem kemur í huga fólks við að lesa það sem ég skrifa. En samt skildi ég þau nú ekki öll og því get ég ekki alltaf svarað, bæði þess vegna og/eða vegna tímaskorts. Ég nenni heldur ekki að vera í yfirheyrslu eins og sumir stunda grimmt, en segja minnst frá sér sjálfum.
Enginn einn hefur réttara fyrir sér en annar.
"Whatever works" eða hvað sem virkar fyrir hvern og einn í átt til þess að gera viðkomandi hamingjusamari og að honum eða henni líði betur, þá er það mér að meinalausu. Að sjálfsögðu þarf alltaf að slá varnagla að það sem við gerum eða tileinkum okkur eða verk okkar meiði ekki aðra.
Þetta þurfum við að hafa í huga.
Þar með býð ég velkomið árið 2010, min heit fyrir árið eru m.a. að bæta við mig ca. 80 - 100 kg fyrir næstu áramót.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
7.10.2009 | 10:47
Sjónarhólar, Biblíusýn og önnur sýn ..
Mér hefur verið tíðrætt um það að hver og einn sjái veröldina út frá sínum sjónarhóli og það þurfi ansi mikinn þroska til að geta séð af sjónarhóli annarra eða að setja sig í spor annarra.
Það þarf þroska til að setja sig ekki í eilíft dómarasæti og dæma; bæði sig og aðra.
Við getum auðvitað fyrst og fremst skoðað eða séð út frá okkur, en eflaust líka út frá þeim sem standa á sama hólnum eða svipuðum hól og þá sem næst í tíma.
En hvað með hina? Hina sem standa langt í burtu og sjá allt annað en við. Hvernig getum við skilið eða séð það sem þeir sjá?
Sjáum við ekki aðeins það sem við viljum sjá? Og sjáum við kannski ekki það sem við viljum eða höfum ekki áhuga á að sjá?
Erum við aðeins sammála því sem staðfestir það sem við trúum fyrir?
Sjáum við kannski það sem við búumst eða vonumst til að sjá? Hvernig sjáum við á "réttan" hátt.
Sjónarhóllinn
Hvernig myndast sjónarhóllinn okkar, á hverju stöndum við? Stöndum við ekki öll á einhvers konar safnhaug? Alls ekki ruslahaug, því sitt sýnist hverjum hvað er rusl og hvað ekki, svo við getum ekki notað þá líkingu.
Hvernig höfum við byggt okkar sjónarhól og hvernig byggjum við undir börnin. Verðum við ekki að líta á þennan sjónarhól sem samansafn reynslu, þekkingu, uppeldi og menntunar.. eitthvað af þessu innifelur hitt.
Hvert og eitt foreldri ber ábyrgð á grunninum að sjónarhóli barns síns. Hvert og eitt foreldri ber ábyrgð á sínu barni svo fer barnið að aðstoða við að tína inn í sinn hól og að lokum fer barnið að bera alfarið ábyrgð á þessum haug eða hóli. Við reynum að benda þeim á jákvæða hluti til að byggja undir sig, jákvæða að okkar mati að sjálfsögðu.
Víð verðum að passa okkur á að safna síðan ekki svo miklu að við förum að kaffæra okkur í því sem við söfnum og stöflum ekki upp fyrir haus - þannig að okkar eigin menntun, pólitík, trúarbrögð, þekking, uppeldi o.s.frv. fari að byrgja okkur sýn.
Við getum ekki upplifað upplifanir annarra, fundið sársauka annarra né gleði. Við getum vissulega fylgst með því frá okkar sjónarhóli og fundið til samhygðar sem er orð sem komið er af sam-hugur og þýðing á enska orðinu "empathy" það er eins langt og við komumst að sjónarhóli náungans.
Við getum ekki sest að í líkama náungans eða sál og horft út um hans augu og hugsað hugsanir hans. En samt getum við stundum skilið náunga okkar, sérstaklega ef við höfum lent í því sama, en yfirleitt erum við stödd á öðrum tímapunkti í okkar upplifun.
Ég get ekki sett mig inn í tilfinningar barns sem missir föður sinn, þó ég hafi misst föður minn sem barn, því að ég finn ekki sömu tilfinningar í dag og ég gerði fyrir X mörgum árum. Ég get samt sem áður deilt með öðrum, hvernig ég upplifði þessa tíma, þó að sem betur fer lifi ég ekki stanslaust í sömu tilfinningum og þá. Tíminn læknar ekki sár, hann umbreytir þeim.
Biblíusýn
Margir sjá veröldina út frá bók, bókin heitir Biblía. Biblían er skrifuð út frá sjónarhóli manna sem voru uppi á öðrum tíma og sáu veröldina út frá sínum sjónarhóli. Þeir lifðu og hrærðust í menningu og samfélagi sem ekki er til í dag og settu lög og reglur út frá því samfélagi.
Þeir sáu eldingar og þeir sáu flóð og í náttúruhamförunum sáu þeir Guð.
Í Biblíunni er líka bók sem heitir Ljóðaljóðin, þar tjá elskendur sig um ástina. Það er heimurinn frá þeirra sjónarhóli. Það er í sömu bók, en allt önnur sýn.
Í Biblíunni er öll flóra mannlegs eðlis, frá hinu versta til hins besta...
Ég les Biblíuna út frá mínum sjónarhóli og aðrir frá sínum sjónarhóli..
Við lesum hana öll frá okkar stað og okkar tíma, út frá okkar félagslega umhverfi, trú og pólitík.
Biblían er samansafn bóka og frásagna rituðum út frá sjónarhóli fjölda manna. Ritin eru valin saman út frá sjónarhóli (og pólitískum/trúarlegum skoðunum) annarra manna. Þeir velja það sem þeir vilja sjá í þessu riti. Það sem gerir ritið "heilagt" er að það er heilagt í þeirra augum.
Hið heilaga
Ef ég lít í kringum mig þá finn ég helst það sem mér finnst heilagast að það eru börn.. börnin mín og börnin þín, börn þessa heims, börn sem þurfa á okkur að halda til að vaxa og dafna og eru á okkar ábyrgð..
Börnin hafa það fram yfir okkur að það er minna búið að móta þau og prógramera þannig að þau sjá heiminn kannski í réttasta ljósi, en ekki eins og þeim er "sagt" að sjá hann?
Kannski ættum við að reyna fyrst og fremst að leyfa þeim að álykta, prófa og finna, upplifa og reyna, vissulega kenna þeim, kenna þeim eftir bestu getu og sannfæringu að greina gott frá illu, að vera ekki vond við náungann og virða rými hans, en um leið verðum við að virða rými þeirra og leyfa þeim að dafna sem "lífrænt ræktuð" börn. Á sama hátt og við veljum handa þeim hollt mataræði þurfum við að velja handa þeim hollt sálarfæði, vernda þau gegn ljótleika t.d. í fjölmiðlum o.fl. Halda að þeim ljósi en hafa þau ekki í myrkri.
Lokaorð.... i bili
Ég skrifa það sem ég skrifa eftir innblástur frá öðru fólki, eftir innblástur frá Guði og síðast en ekki síst af mínum sjónarhóli. (Að sjálfsögðu er Guð sem ég sé Guð frá mínum sjónarholi).
Ég hef áhuga á bættum heimi, með eða án trúarbragða, með eða án pólitíkur, með eða án landamæra - bara betri heim og að við náum að betri heim.
Manngildið þarf að vera í fyrirrúmi, maðurinn á undan reglunum. Nauðsyn verður að fá að brjóta lög og ástin þarf að vera drifkraftur þess sem við tökum okkur fyrir hendur. Ástin fyrir okkur sjálfum og ást til annarra manna, kvenna, barna, dýra og náttúrunnar allrar ..
Jörðin er kringlótt, það er víðsýnt.....
Skrifað fyrir sólarupprás 7. okt október 2009, .. birt kl. 10:45 sama dag ..
SJÁUMST
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)