Færsluflokkur: Umhverfismál
27.10.2009 | 21:16
Iceland "Naturally" ?
Hvernig viljum við sjá vörumerkið Ísland? Ég var að ræða við Bandaríkjamann sem var hugsi hvers vegna við nýttum okkur ekki betur það sem við hefðum hér. Nýttum náttúruauðlindirnar til að koma Íslandi á kortið sem heilsulandi. Landi sem aðrar þjóðir litu til sem fyrirmynd.
Gæti vörumerkið okkar ekki verið "Ísland Náttúrulega" "Iceland Naturally" eða eitthvað í þá áttina? Og hvert ætti fólk að sækja í heilsuna?
Where? Whohin? Hvor? Ou?
......
Til Íslands Náttúrulega!
"Iceland Naturally! Island Naturlich! Island Naturlig! Islande Naturellement! ....
Ég er auðvitað ekki að tala bara um að tína fjallagrös, en þau eru alveg örugglega hluti af þessum náttúrupakka, hvort sem er sem lækningajurtir, krydd, eða hvað það er nú sem þau eru notuð til! Kynningar er þörf augljóslega og það þarf líka að kynna betur hvað er ætt úr íslenskri náttúru sem við höfum ekki verið að nýta nógulega vel. Hægt er að kynna sér það hér m.a.
Eftirfarandi eru nokkrar hugmyndir sem gætu heyrt undir "Ísland Náttúrulega" ..
- Það má vinna betur með Bláa lónið og jarðböðin við Mývatni. Útbúa þar og á fleiri stöðum heilsuhótel af bestu gerð.
- Gera meira úr íslenskum blómadropum og ilmolíum (fjallagrösum).
- Framleiða meiri íslenskan bjór??
- Markaðssetja lopavörur frekar erlendis
- Íslensk fatahönnun er í vexti og komnar margar flottar verslanir, það ætti að styrkja íslenska hönnuði enn fremur.
- Selja fleirum aðgang að Norðurljósunum, en mér skilst að það sé þó nokkur sala nú þegar. Þjóðtrú japana gengur út á að barn getið undir áhrifum norðurljósa verði mjög vel gefið ..og þá má auglýsa þau í Japan (en kannski leiðinlegt að græða á hjátrú annarra?)
- Reka hér hátæknisjúkrahús sem erlendir ríkisborgarar myndu sækjast í, við myndum halda í marga af þeim færustu læknum sem vilja frekar starfa erlendis vegna launamála hér á landi.
- Halda áfram að selja útlendingum lazersjón.
- Nýta gróðurhúsin betur, sem sum hver eru hálfgerðar rústir og rækta hér hollt og gott íslenskt lífrænt ræktað grænmeti, og gera fólki grein fyrir því að það er næringargildið sem skiptir máli í fæðunni en ekki magnið sem er innbyrgt. Þá, þegar upp er staðið er fólk bæði heilbrigðara og þjáist ekki af offitu.
- Ættum að nýta okkur að verið er að ruslfæðisstaðurinn MacDonalds er að flytja úr landi og opna skyndibitakeðjur með hollara fæði, sem rotnar á skemmri tíma en MacDonalds fæðið gerir.
- Nýta okkur þjóðsögur og Íslendingasögur. Byggja upp meiri sýningu á Njáluslóðum og á slóðum Gísla Súrssonar, hafa þar lifandi sýningar á sumrin o.s.frv.
- Semja við Magga Scheving og Hveragerðisbæ um að breyta Hveragerði í Latabæ, þar sem Hótel Örk yrði máluð bleik, og þar væru íþróttaálfurinn og Solla stirða á sveimi, þættirnir eru sýndir víða um heim svo þetta "fólk" er kunnuglegt og herbergisgjaldið á Örkinni myndi rjúka upp úr öllu valdi! .. ;-) Hálfgerð íslensk "Disney-veröld"
- Það þarf að fara að veiða fiskinn og selja, hér eiga að blómstra sjávarréttastaðir og lambakjöt og skyr eiga að vera okkar þjóðarréttir, og gera veitingastöðum hátt undir höfði.
- Við eigum að vera í fararbroddi í menntun og setja menntunarmá í forgang, og þá ekki einungis bókmenntun.
- Forvarnir þurfa að vera öflugri, því að með því að lifa heilbrigðara lífi spörum við mest fyrir heilbrigðiskerfið.
Það þarf fullt af fólki til að vinna við þetta, við markaðssetningu, við uppbyggingu o.fl. Það þarf ekki að rústa náttúru eða menga svo mikið. Auðvitað menga bílar við að keyra túristana til að sjá Sollu stirðu útdeila gróðurhúsaræktuðu gúrkunammi í Hveragerðisbæ, en það þarf um 172.000 meðalbíla til að losa sama magn á ári af CO2 á hverju ári og Fjarðaál mun gera. Þetta eru álíka margir bílar og allir fólksbílar á Íslandi. Sjá nánar tilvísun á vísindavef.
Við höfum margt til að vinna úr, en líklegast þurfum við miklu betri markaðssetningu, við þurfum að æfa okkur í þjónustulund og viðmóti, svo það sé elskulegt í alla staði að koma til Íslands og hitta íbúana hér, hvort sem þeir eru af íslensku bergi brotnir eða erlendu.
Þetta er bara þankahríð einnar konu, í þankahríð getum við látið allt flakka og nýtt svo það nýtilegasta. Ef margir hugar koma saman og þenkja saman, þá hljótum við að finna lausnir og leiðir aðrar en þær sem menga og spilla náttúrunni. Hvað vit þú:
Umhverfismál | Breytt 28.10.2009 kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)