Byggjum upp - brjótum ekki niður börnin okkar ....

Kennarar bera ÁBYRGÐ og eru FYRIRMYND - bæði innan og utan kennslustofu. -

Ef á vogarskálirnar er sett annars vegar frelsi kennarans til að lýsa vondri og skemmandi skoðun og hins vegar sálarheill barna og unglinga. - hvort veljum við? -

Orð hafa áhrif, og viðmót og skoðanir kennara hafa áhrif. - 

Það er hægt að snerta fólk líkamlega og það er hægt að snerta það andlega.  Þessi snerting, að snerta fólk með því að vekja athygli á því að það eigi að skammast sín fyrir sjálft sig, en það er gert með því að segja kynhneigð þeirra synd,  er vond snerting og á ekkert skylt við kærleika. - 

Sumir kenna Biblíunni um, - benda á bókina og segja að það standi í henni og þá sé það allt í lagi. - 

Ef að Snorrar þessa heims eru ekki færir um að höndla þessa fornu bók,   þar sem þeir lesa með innblæstri  höfunda hennar, þeirra sem  töldu m.a.náttúruhamfarir vera tákn um reiðan Guð,  þá þarf líka að endurskoða að leyfa þessa söfnuði sem ala á fordómum í skjóli trúarsannfæringar og sem nota sér bókstafinn svona til að berja á fólki.  

Það eru svo miklar mótsagnir og þversagnir í Biblíunni, þannig að það er aldrei hægt að trúa ÖLLU sem stendur þar. - Þess vegna er það þannig að sá veldur er á heldur. - Ef þú réttir manni hamar og hann lemur einhvern í hausinn með honum er maðurinn vondur eða hamarinn? - Það er líka hægt að byggja heilu hverfin með hamrinum.

- Byggjum upp en brjótum ekki niður, börnin eiga skilið það besta.  


mbl.is „Ofbeldi og valdníðsla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Hvaðan ber þér leyfi til að lýsa skoðun kennarans sem "vondri og skemmandi"? Er þín skoðun þá góð og bætandi. Getur þú sett þig í dómarasæti yfir fólki sem hefur aðrar skoðanir en þú sjálf? Ertu þá hluthlaus dómari? Á Íslandi er málfrelsi og trúfrelsi, a.m.k. að nafninu til. Hins vegar virðist það aðeins vera í orði en ekki á borði. Ég tek það fram að ég hef allt aðrar skoðanir á umræddu máli en kennarinn, en það gefur mér ekkert leyfi til að dæma hans skoðanir eða þínar. Þínar skoðanir og hans eru nákvæmlega jafnréttháar mínum, hvorki rétthærri né réttminni. Svo einfalt er nú það.

corvus corax, 14.2.2012 kl. 16:34

2 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Jóhanna,dæmdu ekki,lendir þú í miklum háska hrópar þú á Guð..það er svo vonandi að þú berir gæfu til þess að lenda ekki í því en mundu við getum ekki sest í Dómarasæti...

Vilhjálmur Stefánsson, 14.2.2012 kl. 16:46

3 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Kennarar hafa bara ekkert með að troða sínum brengluðu hugmyndum um lífið upp á nemendur, kennara eiga fylgja námsskrá og stefnu og kenna börnunum staðreyndir, ekki draumóra.

Fyrir að segja skólabörnum að samkynhneigðir verði drepnir af guðinum hefði átt að reka hann, ekki senda hann í launað frí.

Tómas Waagfjörð, 14.2.2012 kl. 17:53

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Hvaðan ber þér leyfi til að lýsa skoðun kennarans sem "vondri og skemmandi"?" -

 Corvus, ég reikna með því að þú hafir horft á myndbandið með Ellen.

Það eru ákveðnar skoðanir sem vekja skömm hjá öðrum. Skömm er ein mest skemmandi tilfinning mannlegrar tilveru. -

Einu sinni hlustaði ég á níræðan mann segja frá því að samkynhneigð hefði ekki verið til þegar hann var ungur.   Heldur þú að það sé rétt? - Eða getur það verið að þeir sem voru samkynhneigðir hafi þurft að lifa í felum með það. -  Að skammast sín fyrir sjálfa sig? -

Ég trúi því næstum ekki að það þurfi enn á ný að fara að útskýra það að samkynhneigð er staðreynd, fólk fæðist samkynhneigt eins og það fæðist örvhent. -  Það er þó sá munur á, að það er hægt að þvinga örvhent fólk til að nota hægri hendina,  en þú þvingar ekki samkynhneigða til að upplifa þær tilfinningar til gagnkvæms kyns sem það upplifir til maka af sama kyni. - 

Það er þá verið að dæma það til að velja á milli þess að njóta aldrei kynlífs eða ellegar lifa í synd, ef það tryði því að það væri synd. -

Ég las nýlega um mann sem sagðist hafa lært það í Hvítasunnusöfnuði að hata sig!

Ef að við byggjum undir skoðanir eins og Snorra erum við að byggja undir skömm og hatur gagnvart hinum samkynhneigðu - jafnvel í eigin garð, ef um viðkvæmar sálir er að ræða. -

Það er s.s. samfélagið sem ákveður hvað er skömm og hvað ekki, og við höfum þessa samfélagslegu ábyrgð gagnvart náunga okkar. -

Ég hef fulla samúð með Snorra, hann veit ekki betur.  Hann er verðmæt persóna þó að hans skoðanir séru vondar.  Hans skoðanir eru auðvitað honum innprentaðar og erfitt að breyta þegar menn eru svona fastir á bókstafnum. -

Ég byggi þetta mat mitt á reynslu minni af umgengni við ungt fólk, sem lenti, eins og fólkið sem Ellen er að tala um í videóinu,  í því að samfélagið samþykkti það ekki.-

Samfélagið er veikt, en ekki sá samkynhneigði, á meðan að hluti samfélagsins heldur þeirri skoðun á lofti að samkynhneigð sé synd. -

Mælikvarðinn þarf alltaf að vera kærleikur.  -

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.2.2012 kl. 18:34

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

 "Jóhanna,dæmdu ekki,lendir þú í miklum háska hrópar þú á Guð..það er svo vonandi að þú berir gæfu til þess að lenda ekki í því en mundu við getum ekki sest í Dómarasæti..."

Hvernig á ég að skilja þetta innlegg þitt Vilhjálmur? -

Á ég ekki að benda á hversu varhugaverðar skoðanir og hættulegar Snorra eru?  Þegar ég veit nú þegar hvaða áhrif þessar skoðanir geta haft á ungar sálir?

Ég þarf ekkert að lenda í háska til að vera með Guði - ég bið til Guðs á hverjum degi og þakka hvern dag. - 

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.2.2012 kl. 18:42

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ath!  í þessu tilfelli er vond skoðun = fordómar

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.2.2012 kl. 18:51

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er algjörlega sammála þér með þetta Jóhanna. Þetta er meiðandi fyrir þær sálir sem eru ungar og jafnvel þjakaðar af nýsprottinni uppljóstrun um að kynhneigð þeirra er ef til vill á skjön við viðteknar venjur.  Hvað brýst um í kollinum á slíkum þegar uppfræðarinn er haldin þvílíkum ofsa í þeirra garð að ekki er hægt að þola. Stend algjörlega með þér í þessu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2012 kl. 18:53

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Við erum sammála Ásthildur, - svona er þetta bara - og vonandi hættum við að peppa upp málfrelsið sem felst í því að fordæma eðli eðlilegs fólks. - Annars fann ég pistil sem segir allt sem ég hefði viljað sagt hafa. - smelli honum hér í næsta reit!

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.2.2012 kl. 06:55

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hilmar Magnússon skrifar: 

(þið getið smellt á nafnið hans eða lesið eftirfarandi, og sem reynslubolti í starfi með ungmennum og fv. aðstoðarskólastjóri þá tek ég undir orð Hilmars:

"Ég hef fylgst nokkuð með máli foreldranna í Brekkuskóla sem nú hafa fengið sig fullsadda af biblíustuddum hatursáróðri Snorra Óskarssonar í garð hinsegin fólks. Ég tek hattinn ofan fyrir þessu fólki og fagna því að það skuli nú rísa upp og mótmæla ofbeldinu sem hefur fengið að streyma úr hans munni um árabil – í skjóli hins opinbera menntakerfis. Já köllum þetta bara réttum nöfnum. Hatursáróður Snorra, og fleiri af hans sauðahúsi, er ekkert nema ofbeldi. Það er því orðið löngu tímabært að yfirmenn hans taki af skarið og axli sína ábyrgð. Ef ekki með alvarlegum áminningum eða uppsögn, þá með eigin brotthvarfi.

Ofbeldi gegn hinsegin ungmennum verður að linna

Allt of lengi hafa menn farið í kringum málflutning Snorra Óskarssonar, og fleiri hatursmanna hinsegin fólks, eins og köttur í kringum heitan graut. Flestir vísa ábyrgðinni frá sér. Gera lítið úr vandanum. En í hverju er vandinn fólginn? Jú, hann er fólginn í því að málflutningur Snorra og félaga þjónar engum tilgangi öðrum en að jaðarsetja hinsegin fólk. Brjóta niður þá einstaklinga sem verða fyrir honum. Eyðileggja manneskjur. Ekki síst þær sem lifa og hrærast í nærsamfélagi við þá.

Eins lengi og slíkir menn fá að vaða uppi óáreittir, jafnvel með dyggum stuðningi nærsamfélagsins, verða til ungmenni sem þjást af völdum þeirra. Ungmenni sem lenda utan garðs. Ungmenni sem upplifa brotna sjálfsmynd. Ungmenni sem upplifa vanlíðan og ótta. Afleiðingarnar geta verið skelfilegar. Við eigum nefnilega dæmi um hinsegin fólk sem hefur verið hrakið í dauðann einmitt af þessum völdum. Umræðan um sjálfsvíg hinsegin unglinga vestan hafs ætti að vera flestum nokkuð kunn. Þau ungmenni áttu það einmitt flest sameiginlegt að hafa setið undir viðlíka ofbeldi lengi. Og að lokum kiknað undan hatrinu.

Málfrelsi og þöggun

Það er auðvitað stórkostlegt vandamál að svona málflutningur eigi sér stað í skjóli opinbers menntakerfis. En vandamálið liggur ekki síður í því að þegar svona mál koma upp gerist það iðulega að nokkuð fámennur en hávær hópur fer að tala um málfrelsi og réttindi manna til að hafa uppi skoðanir. Og gleymir því algerlega að orðum fylgja ábyrgð. Að orðum er hægt að beita sem vopni í svakalega grimmu ofbeldi.

Um leið gera aðrir lítið úr vandanum. Það er talað um að viðkomandi hafi verið veikur fyrir og átt við erfiðleika að etja af öðrum orsökum – eins og það sé einhver afsökun. Við erum að tala um mannslíf. Í þeirri umræðu gleymist iðulega að kryfja málið og skoða af hverju viðkomandi manneskja var orðin veik. Var það kannski ekki einmitt vegna þess að það var meðvitað og ómeðvitað búið að brjóta hana niður um lengri tíma?

Við höfum dæmi hér á Íslandi þar sem málum hefur lyktað með þessum hætti, sjálfsvígi. Dæmi þar sem samfélagið hefur kosið að þegja málin í hel og sópa vandanum undir teppið. Við þekkjum þessa meðvirkni í nauðgunar og ofbeldismálum og þar sem börn eru beitt beinni kynferðislegri misnotkun. Meðvirknin er ekkert minni hér.

Hinir sterkustu lifa af – en er von fyrir hina?

Þessu skýtur oft og iðulega upp á yfirborðið í þessu samhengi. Talinu um að „það sem drepi mann ekki, geri mann sterkari“. Fram á völlinn geysast menn sem telja sig kalda karla. Jafnvel sniðuga. Skilaboð þeirra eru: „Hvaða bölvaður aumingaskapur er þetta? Bíttu á jaxlinn!“ Svona málflutningur er einfaldlega ósmekklegur og um leið grafalvarlegur. Hann bendir til þess að viðkomandi vilji ekki horfast í augu við vandann (eða sjái hann jafnvel ekki) og finnist allt í lagi að fólk sé lagt í einelti. Sá sem talar með þessum hætti er ekki einungis að réttlæta ofbeldið. Hann gerist einnig sekur um skort á mannlegri samkennd og samúð. Hann gasprar án þess að þekkja nokkuð til líðan fórnarlambsins. Hvað þá að hann hafi reynt að setja sig í spor þess.

Það að fólki taki undir svona málflutning, eða mótmæli honum ekki, segir okkur líka einmitt svolítið um samfélagið sem við búum í. Það segir okkur að við búum í samfélagi sem setur ofbeldið hærra en samkennd og samhjálp. Samfélagi þar sem hinn „sterkasti“ lifir af. Þar sem þarf að gera „menn“ úr „aumingjunum“. Ég hélt, eða var kannski fremur að vona, að við værum komin lengra á veg í átt að samfélagi sem tekur utan um fólkið sitt og passar upp á það. Í átt að samfélagi sem virðir manneskjuna, hvernig sem hún er, og áttar sig á því að öll mannslíf eru jafn dýrmæt.

Þessi mótmæli fyrir norðan kveikja samt með manni vonarneista. Gleymum því nefnilega ekki að það felst afstaða í afstöðuleysinu. Það felst afstaða í þögninni.

Nú er tími til að tala. Og mótmæla hástöfum."

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.2.2012 kl. 06:55

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir þetta allt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2012 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband