Væntanlegur forsetaframbjóðandi með fléttur og körfu fulla af bjartsýni!

Að ota sjálfum sér fram eða trana hefur aldrei þótt góður siður, - en þar sem ég er ekki fjölmiðlakona, pólitíkus né leikkona - ekki fræg fyrir neitt, þá langar mig bara að nota tækifærið og kynna mig, sá fræjum, alls staðar þar sem því verður við komið.

Ekki á ég fjársjóði heldur til að auglýsa mig, enda finnst mér keypt atkvæði frekar ómerkileg. Treysti því að fólk kjósi af einlægni og heiðarleika.  

Ég verð alveg að játa að þetta hefur blundað í mér, - auðvitað miklu fleirum en mér, að verða forseti, eða ná að tylla mér þannig að sem flestir sjái til. Ástæðan er ekki frægð né frami, - ég segi það einlæglega. 

Það er á þeim grunni að setja ekki ljós mitt undir mæliker, - og ég tel að enginn eigi að gera það.  Þetta ljós er náðargáfan okkar, eitthvað sem við búum ekki til, heldur fæðumst með

Alveg frá barnæsku hef ég verið í hlutverki diplómatsins eða sáttasemjarans, og alveg frá bernsku hef ég þráð að vinna með friði.  Þó ekki þannig að gefa afslátt af sjálfri mér, en það er ég bara nýbúin að læra. 

Stundum virkar aðkoma mín "naive" vegna þess að ég er alltaf að vonast til og, trúi reyndar, að heimurinn batni. 

Það sem ég veit er að hann batnar ef að allir jarðarbúar líta í eigin barm, finna innri frið, fara að elska sig og virða - án tillits til stöðu, stéttar, kyns, kynþáttar o.s.frv.  

Þegar hver og ein manneskja getur litið í spegil sátt við sjálfa sig og þekkt sjálfa sig. 

Ég trúi því að sem heild séum við að þroskast og vitkast.  Fleiri og fleiri hætta að taka þátt í stríðsbrölti og sá dagur komi að við getum öll haldist í hendur. 

Ég las það einhvers staðar að ef að öllum líkar við okkur, þá sé eitthvað verulega mikið að, svo að ég tek því með jafnaðargeði.  Við getum samt haldist í hendur,  farið í "Hókí pókí"  eða "Í grænni lautu" .. 

Ég hef lært mikið í skóla, farið í gegnum alls sex ár í háskólanámi, en ekki síður hef ég lært af lífinu.  Lært af sigrum og ósigrum, af því að elska og af því að missa. Af því að fá nasaþefinn af því að upplifa óvissuna við að fá illkynja sjúkdóm, sem hægt var að komast fyrir, - merkilegt að það þurfi til að opna augun, en allt er þetta hluti þroskaferils okkar og leið fyrir okkur til að setja okkur í spor náunga okkar.  

Það er nú þannig að við skiljum ekki nema að upplifa sjálf, en sem betur fer þurfum við ekki að upplifa alla sorg, svona eins og Job í Jobsbók (fyrir þá sem þar til þekkja)  það er ekki á nokkurn leggjandi. 

Þeir sem hafa lítið reynt, ná lítið að þroskast, og við þurfum flest að reyna mikið, þó það sé vissulega  mismikið. 

Hef unnið fjölbreytt störf með fólki á öllum aldri, allt frá því að leiðbeina börnum í sunnudagaskóla upp í að hlúa að eldri borgurum á hjúkrunarheimili. 

Ég er langt í frá gallalaus, hef logið, verið óheiðarleg - bæði við sjálfa mig og aðra.  Allt var það liður í blekkingarleiknum að láta aðra halda að ég væri betri en ég væri, eða að ég væri fullkomin. 

En ég lét grímuna falla og það var léttir. 

Það sem ég er í dag, er að ég tel mig hafa náð þeim þroska að vera heiðarleg og koma til dyranna eins og ég er klædd.  Ég er með stórt hjarta og stóran faðm, stundum hefur fjölskyldan mín kvartað að ég sé of upptekin að sinna öðrum en þeim, -  en vonandi er ég að gera mitt besta. 

Við vitum öll að umhyggjan hefst með því að sinna okkur sjálfum. 

Við byrjum á okkur, síðan þeim sem eru í innsta hring og svo næsta og síðan koll af kolli. En það merkilega er að þegar við sinnum okkur sjálfum, erum við að sjálfsögðu að sinna heiminum, því að hver manneskja er míkrókosmos, eða eining sem er sama eðlis og heimurinn. 

Ég er búin að læra að vegur sannleikans og kærleikans er þröngur vegur, en eini vegurinn sem er réttur. 

Ég er guðfræðimenntuð en örugglega ekki "rétttrúuð" skv. þröngum skilgreiningum á kristni. Að vísu læt ég Guð (sem ég vissulega trúi á - þó opið hugtakið valdi oft vandræðum) dæma um það en ekki fulltrúa trúarsafnaða. 

Ég kalla mig þverpólitíska og þvertrúarlega, -  þegar fer að koma að því að safna undirskriftum, en mér skilst á aðal stuðningsaðilum mínum (og las það reyndar sjálf síðar) að þær þurfi að vera 3000. 

Á Fésbókinni eru komin 141 "Like" við framboð mitt, og ég hef ekki talið það en eflaust er 50% af þeim hópi gamlir nemendur mínir, sem ég er auðvitað þakklát fyrir. 

Ég veit ég hlýt að vera óhemju bjartsýn að fara af stað í þennan leiðangur, - en ég ætla að praktisera það sem ég prédika og ganga óhrædd.   Ótti er ekki boði,  - og að sjálfsögðu er ekkert að óttast þegar þú segir satt og rétt frá og ástundar heiðarleika.

 

p1010067.jpg

Þarna erum við Eva Rós, en hún er sú yngsta af þremur barnabörnum mínum.  Það er sjálfsagt að spyrja og ég skal svara því sem spurt er um.  Ég skrifaði í fyrirsögn "forseti með fléttur" en eins og Línu Langsokk þá líður mér best með þannig greiðslu og svo sannarlega er svolítil Lína í mér, - eins og það að ganga ekki í of þröngum skóm eða óþægilegum svo að ég særi tærnar! .. 

 

 

Það þarf enginn að "fyrirverða" sig fyrir mig vegna trúðsláta eða slíkt, þó ég taki sjálfa mig ekki of hátíðlega hef ég alltaf tekið vinnuna hátíðlega, en ég kann að hegða mér vel þegar við á, kann fína siði og agi og kurteisi eru gildi sem skipta mig máli og finnst því miður vanta all nokkuð mikið upp á - en það er bara hluti af virðingunni sem við eigum öll skilið gagnvart sjálfum okkur og öðrum.  

 eg_me_born_bru_kaup.jpg

 Á brúðkaupsdegi dóttur minnar, 14. ágúst 2009, - en þarna eru f.vinstri Þórarinn Ágúst (sonur), Ásta Kristín (barnsmóðir hans), Jóhanna (ykkar einlæg) Jóhanna Vala (dóttir) Eva Lind (dóttir) og Henrik (tengdasonur) 

Börnin mín og barnabörn skipta mig stórkostlega miklu máli, eða réttara sagt lífshamingja þeirra - og ég þykist vita að þannig sé það með foreldra.  Það besta veganesti sem við gefum börnum okkar er að vera góðar fyrirmyndir og lifa af heilindum. 

 

74171_1370703122738_1686544977_711700_4730243_n.jpgÞarna er ég í fangi pabba, Magnúsar Björnssonar, sem lést af slysförum 1969,  Hulda Kristín systir, Björn bróðir og mamma Valgerður Kristjánsdóttir sem er nú á hjúkrunarheimili, en vann þá "hetjudáð" að koma okkur fimm til manns, þó að blásið hafi á móti. 

Pabbi og mamma eignuðust tvö börn í viðbót, Brynjólf og Charlottu Ragnheiði.  

Mamma hefur alltaf haft lúmsk gaman af miðbarninu sínu og brosti breitt þegar ég sagði henni af því að ég ætlaði nú bara að demba mér í forsetaframboð!  Hún trúir eiginlega öllu upp á mig, svo það virtist ekki  hafa komið henni á óvart! .. 

---

Set hér að lokum kosningaræðuna - en ég get ekki betrumbætt þessa ræðu Chaplins, ég segi bara: Þessu er ég sammála:

 

 

 


mbl.is Forsetinn á allra vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Jóhanna mín það er sama hvar maður ber niður, jú einhver er að tala um þig.
Þar sem ég er í kringum þína fyrri nemendur, aðallega samt Darra og hann talar um þig sagði stelpunum að þú værir að fara í forsetaframboð, þær komu til mín og fóru að segja ömmu fréttir, en ég gat nú stolt sagt þeim að þú værir góð bloggvinkona mín og ég vissi að þú værir að fara í framboð.

Þú ert bara frábær og átt allan minn stuðning.
Kveðja
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 12.9.2011 kl. 22:20

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þú segir nokkuð Milla mín, - ekki vissi ég af tengslum þínum við Darra, - hann er náttúrulega bara yndi. Man hvað ég hafði gaman af honum strax frá upphafi og heimspekilegum pælingum hans! ;-)

Takk fyrir stuðninginn! 

kær kveðja, 

Jóhanna 

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.9.2011 kl. 07:34

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 þú ert flott

Ásdís Sigurðardóttir, 13.9.2011 kl. 12:22

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Darri er í Japönsku með tvíburunum mínum, þau eru nokkur sem halda hóp og eru yndisleg í alla staði og afar gaman að fá þau í heimsókn frjáls og eðlileg eins og þau eru

Kveðjur
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.9.2011 kl. 12:37

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Við erum öll forseti, Jóhanna. Sum þurfa bara atkvæði til að fá það staðfest.

Annars: Taktu eftir svipnum á andliti Chaplins í lok ræðunnar. Hann virðist átta sig á að enginn hafi í raun hlustað á orðin, aðeins á látbragðið.

Hrannar Baldursson, 13.9.2011 kl. 14:54

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir það Ásdís

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.9.2011 kl. 15:21

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Lítill heimur á Íslandi, svo sannarlega Milla mín! Já, ég get rétt ímyndað mér að þau séu skemmtileg krakkarnir - ef framtíð Íslands byggðist á svona flottum og vel hugsandi ungu fólki, held ég að okkur væri vel borgið!

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.9.2011 kl. 15:22

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Rétt hjá þér Hrannar, - það er víst líka sagt að við séum öll prestar, kallað almennur prestdómur!  - 

Ég horfði aftur á Chaplin, - hann virkar smá neyðarlegur í restina, gat ekki alveg lesið hvað það átti að þýða! ;-) 

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.9.2011 kl. 15:25

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Vona að þú verðir forseti,þegar ráðherra Jóhanna er gleymd.

Helga Kristjánsdóttir, 14.9.2011 kl. 04:52

10 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sammála þér með það, hér kom ungur maður í gær, var honum boðin kaffisopi,  hann var afar fegin, nýkominn úr vinnu þessi ungi maður var að læra þýsku í HÍ jafnframt var hann að vinna sem stuðningsfulltrúi við skóla á þínu svæði, það var frábært að spjalla við unga manninn þroskaður og með góðar hugmyndir um lífið og tilveruna, maður fyllist bjartsýni er maður hittir svona gott fólk

Kveðjur

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 14.9.2011 kl. 08:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband