Að byggja á sandi ..

Í þessum pistli langar mig að tala til trúaðra um á hverju trú þeirra byggist. Nú tala ég bara út frá mínum bakgrunni, uppeldi, þekkingu, lífsreynslu, menntun og vissulega trú. Þegar ég skrifa, leyfi ég mér að láta flæða, og er ekki að vitna beint í aðra eða  að taka upp nákvæmlega orðrétt úr Biblíunni, en vissulega liggur það allt að baki. Það er svipað og ég les slatta af uppskriftabókum til að fá innblástur til að elda, en elda síðan bara "upp úr mér" .. Man eflaust sumt úr uppskriftunum, en bæti svo í það sem minn smekkur og bragðlaukar leyfa.

Ég hef nú um nokkurt skeið átt viðræður bæði við trúlausa sem trúaða. Trúlausir eru ekki eins flóknir, þ.e.a.s. þeir skiptast aðallega í þá sem eru algjörlega trúlausir á alla yfirnáttúru, eins og Vantrúarmenn, eða þá sem hafa ekki átrúnað t.d. á guð eða goð, en trúa þó á yfirnáttúrulega hluti.

Trúfólk er mun flóknara fyrirbæri og flóran djúp og breið.

Alveg eins og ég veit að ég er gagnkynhneigð kona (því ég hneigist til karlmanna) er ég hneigð til trúar. Ég ætla ekki að fara í það að skilgreina mína trú í smáatriðum, ekki frekar en ég myndi skilgreina mitt kynlíf. Sumt verður að fá að vera prívat. Wink  Það er þó ekkert felumál að ég er kynvera og ég er trúvera og skammast mín fyrir hvorugt.

Nú hef ég oft lesið pistla eftir trúfólk og kynnst trúfólki sem er afskaplega háð Biblíunni. Vitnar í texta sí og æ máli sínu til stuðnings. Biblían er bók, er rit sem var skrifað af mönnum sem eru löngu, löngu dauðir. Orðin þar eru dauð - nema að einhver lifandi lesi þau og noti þau.

Fyrir kristið fólk er Jesús lifandi, lifandi orð Guðs. Orðið sem varð hold, reynt var að deyða þetta orð en Orðið reis upp og lifir enn, merkilegt nokk. Þessu lifandi orði kynntist ég sem barn, í sunnudagaskóla, í bæn á mínu heimili og í fólkinu í kringum mig. Auðvitað í bókum eins og Perlur og í Biblíusögum í barnaskóla. Aldrei sá ég neitt ljótt í kringum þetta Orð. Kynntist því jafnframt í söng og leik.

Einn söngurinn fjallaði um heimska manninn sem byggði á sandi og síðan var þar annar hygginn  sem byggði á bjargi.

Ekki geta allir byggt a orði Guðs eða vilja, þar sem þeir hafa kannski aldrei heyrt það eða eru ekki aldir upp við það. Það er því ekki hægt að segja að þeir byggi á sandi.

Heimsmynd sem byggir á elsku er byggð á kletti. Hvaðan sem þessi elska kemur.

Mín upplifun er sú að í sumum tilfellum sé Biblíunni haldið of þétt upp að  augum  að  hún hleypi ekki ljósi  elskunnar í gegnum sínar þykku síður.  Biblíunni er haldið fast því að fólkið þorir ekki að sleppa því það treystir ekki að Guð muni grípa það.  Það er hrætt við að heimsmyndin hrynji ef að allt sem stendur í Biblíunni er ekki satt og rétt og hið eina.  Hrætt við að viðurkenna mótsagnir og þversagnir bókarinnar jafnvel þó þær séu augljósar.  Fíllinn er klæddur í músasunbol, bara vegna þess að það stendur í bókinni að fíllinn eigi að passa í músastærðina.

Hver og hvað er þá  kletturinn?   Kletturinn er sjálfstraustið.  Að trúa á sjálfan sig vegna þess m.a. að við erum sköpuð í mynd Guðs og framlenging af Guði.  Áðurnefnd elska kemur þarna sterk inn, því að til að treysta á okkur sjálf þurfum við að elska okkur sjálf.

Hús er mjög þekkt tákn fyrir manneskjuna.  Þú byggir þig á sjálfinu. Að trúa ekki á sjálfan sig, elska sig og treysta ekki sjálfum sér er því heimska, því hvernig eiga aðrir að trúa eða treysta á þann sem ekki trúir á sjálfan sig.

Að hafa trú á sjálfum sér eru hyggindin.

Við erum öll eins og Pétur - klettur, við byggjum á sjálfum okkur, sum þiggja Guðs hjálp, önnur ekki. 

Kjarninn í kristnum siðferðisboðskap er að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig og okkur er sagt að láta ljós okkar skína.  Ekki fela það, - ekki fara í "I´m not worthy" gírinn.  Allir eru verðugir að skína og eiga að skína.  Skína inn á við og út á við. Ekki veitir af ljósinu á þessum dimmu dögum desembermánaðar.

Því miður verð ég svo oft sorglega vör við þá staðreynd að kynbundið ofbeldi er tengt því að menn blási lífi í þau biblíuvers sem segja að karlinn sé æðri og nær Guði en konan, svo ekki sé minnst á þann texta sem er notaður til að undirstrika  gagnkynhneigðarhyggjuna - þar sem hinn gagnkynhneigði telur sig æðri hinum samkynhneigða. 

Að telja sig æðri öðrum manneskjum er ekki að elska náungann EINS OG sjálfan sig, það er að elska sjálfan sig MEIRA en náungann.

Kristið fólk getur því ekki leyft sér að telja sig merkilegra en hinn trúlausa.

Ég nenni ekki að ritskoða það sem ég hef skrifað hér að ofan,  það er kannski eitt sem orkar tvímælis - það er þegar ég segi að það sé heimska að trúa ekki á sjálfan sig, þá gæti einhver sagt að sumir trúi ekki á sjálfa sig vegna þess að utanaðkomandi er búinn að beita þá ofbeldi og brjóta þá niður. 

Hver þekkir ekki frásagnir af konum sem fara til manna sinna aftur og ítrekað eftir að búið er að lúberja þær. Sorry - það er heimska.  Við hjálpum þessum konum ekkert með að segja þeim eitthvað annað - eins og það séu hyggindi eða ást að leita til húsbónda sem barinn hundur.

Konur þurfa að fara að taka ábyrgð á sjálfum sér og hætta að kenna körlum um allt sem miður fer. Það kemur með sjálfstrausti og sjálfsvirðingu og með þannig byggja þær á kletti en ekki sandi.

Jæja elskulega fólk, ég vona að þið takið viljann fyrir verkið og að þið skiljið eitthvað í þessum ítarlegu hugleiðingum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mín uppáhalds ritningargrein er " Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir" 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.12.2009 kl. 01:17

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég nota það úr Biblíunni sem mér finnst skynsamlegt og rökrétt... hef náttulega alls ekki lesið hana alla samt... og fæ skammir frá Vottavæng tengdafjölskyldunnar, ég meigi alls ekki nota bara sumt, annað hvort allt eða ekkertStend hörð á því að Guð skrifaði alls ekki þessa bók frekar en aðrar bækur og fæ ennþá meiri skammir"Það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér, það skaltu ekki gera öðrum" finnst mér fínt að nota og svo er Æðruleysisbænin í miklu uppáhaldi, en hún er held ég ekkert úr Biblíunni...Það er alltaf svo gott að lesa pistlana þína

Jónína Dúadóttir, 4.12.2009 kl. 06:51

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég skrifa nú ekki út frá neinu heimspekilegu, heldur bara frá mínu hjarta. Mín trú hefur alltaf verið þarna alveg frá því að ég man eftir mér, ekki var svo gjörla verið að halda henni að manni en hún var partur af uppeldinu.

Í dag segi ég að guð er ,eins og hver og einn sér hann.
Fyrir mér er hann æðri máttur sem hægt er að treysta á að geri það sem best verður fyrir þann sem við á, ég get ekki farið fram á allt sem mér hugnast að biðja um, en ég get beðið hann um að gera eins og hann telur vera best og ég sætti mig heilshugar við það.

Mér finnst til dæmis vera eigingirni að biðja hann að lengja líf fólks sem er mikið veikt eða gamalt, eins og elsku mamma mín sem er búin að vera á sjúkrastofnun síðan 1998 og er búin að þrá að fá að fara til pabba, en fær það ekki, hennar tími er ekki kominn.

Það að konurnar fari aftur og aftur til mannanna sinna er að sjálfsögðu lágt sjálfsmat, þær halda endalaust að allt lagist og loksins sé nú maðurinn að átta sig á að hann elskar hana, en því miður þá breytast aldrei menn sem lemja.

Ég reyndi þetta sjálf og það tók mig áraraðir að þora að fara út úr því sambandi,
en á þeim árum eins og öllum öðrum hjálpaði trúin mér, elskan á börnunum mínum og fjölskyldu.

Ég hef einu sinni lagst í gólfið til að biðja, það var er Milla mín var nokkra klukkutíma gömul og var nærri, þá meina ég nærri dáin, læknirinn kom og fór með hana inn á stofu og ég hné niður í gólf og bað guð minn um að taka hana ekki frá mér, í dag á hún litlu ljósin mín.

Þú ert alveg frábær í þínum skrifum Kæra vinkona
Takk fyrir mig
Kærleikskveðjur
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.12.2009 kl. 09:02

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir góðan pistil Jóhanna.  Þegar þú talar um fólk sem telur sig öðrum æðra þá er ég þér hjartanlega sammála.  Kristin hugsun byggir á því að allir séu jafnir fyrir Guði. Að því leyti er hún ólík Gyðingdómnum sem byggir á því að Gyðingar séu öðrum æðri og Guðs útvalin þjóð.  Í frumkristninni töldu boðendur kristninnar sig þurfa að hafa skírskotun til gamalla gilda og þess vegna vísuðu þeir til þess sem er nú í gamla testamentinu. En í gamla testamentinu eru sjónarmið og trúarskoðanir sem eiga í raun ekkert sameiginlegt með boðskap Jesú.

Jón Magnússon, 4.12.2009 kl. 09:03

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka góðar og einlægar athugasemdir, ég fæ að svara ykkur betur þegar tíminn leyfir. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.12.2009 kl. 10:24

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottur pistill eins og þín er von og vísa.

Þegar ég skrifa, leyfi ég mér að láta flæða, og er ekki að vitna beint í aðra eða  að taka upp nákvæmlega orðrétt úr Biblíunni, en vissulega liggur það allt að baki. Það er svipað og ég les slatta af uppskriftabókum til að fá innblástur til að elda, en elda síðan bara "upp úr mér" .. Man eflaust sumt úr uppskriftunum, en bæti svo í það sem minn smekkur og bragðlaukar leyfa.

Þetta er góð samlíking.  Þannig verður það að vera.  Við hljótum að þurfa að byggja á því sem okkur sjálfum finnst, velja og hafna og taka það úr sem okkur er næst og skynsamlegast að okkar eigin mati.  Því þannig getum við lifað í sátt við okkar innri mann og sálina.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.12.2009 kl. 14:03

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Vel mælt Ásthildur mín, sem svar til Jóhönnu, þið eruð báðar frábærar.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.12.2009 kl. 14:25

8 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Já, sei sei.

"Vertu aaah" segi ég við dóttur mína, svo hún strjúki bróður sínum um kinnina en klípi hann ekki eða lemji. Oftast fer hún þó bara til hans og hallar að honum höfðinu og hann kyssir hana á kollin. Hann er fimm ára, hún eins árs.

Segir það sig ekki sjálft, að ef boðskapurinn er einhver annar en "vertu aaah" þá er hann ekki þess virði að púkka upp á, hvað sem tröllasögum af guðum og himnaborgum líður?

Góð gildi eru ekkert flókin að velja frá sorpinu. Ef þú vilt ekki að það sé gert við þig, þá eru það líklega ekki góð gildi.

Að fordæma samkynhneigð sem dæmi, er hér um bil heimskulegasta andskotans bull og vesalingsskapur sem til er. Ef einhver les það út úr biblíunni að hann eigi að gera það, þá er sá hinn sami ekki að máta hugmyndirnar á sjálfan sig.

En á meðan ógagnrýnin upptaka trúarbragða þykir dyggð, þá verða þessir hlutir ekkert skárri. Það er ekki dyggð að taka upp regluverk án þess að athuga hvort það sé sanngjarnt og velmeinandi - það er heimska sem í vanhugsun sinni verður vonska.

Takk fyrir

Kristinn Theódórsson, 4.12.2009 kl. 16:01

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jæja, nú ætla ég að leyfa mér að svara þar sem vinnan heldur mér ekki frá blogginu lengur!

Jóna Guðrún, sammála þessu og svo verðum við auðvitað að hjálpa þeim sem eru ófærir um að hjálpa sér sjálfir. 

Lífsgangan er svipuð fjallgöngu - við getum hvatt fólk áfram,  en það er hæpið að við getum borið það á bakinu, a.m.k. ekki lengi.

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.12.2009 kl. 16:33

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Æðruleysisbænin "rúlar" Jónína - er með hana á veggnum við hliðina á mér, þar sem mig langar allt of oft að bjarga heiminum hehehe..  en neyðist til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt - en vonandi gefst okkur  kjarkur til að breyta því sem við getum breytt!

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.12.2009 kl. 16:37

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Milla - ég þakka þinn kærleika án landamæra  .. þú ert sjálf frábær (enda við frænkur þó fjarskyldar séum)  

Þakka þér líka Jón, m.a.  fyrir að koma inn á útvalninguna. Þetta útvalningarhugtak er býsna grasserandi víða. 

Ásthildur Cesil, "Því þannig getum við lifað í sátt við okkar innri mann og sálina." gæti ekki verið meira sammála þessum orðum þínum. Ætli það sé ekki svipað inntak í því að lifa heil.

Og Kristinn stokkinn af "barnum" hér í eldhúsið til mín! (Til skýringar fyrir þá sem ekki vita, þá köllum við nokkur bloggið hans Kristins "barinn" eftir að hann líkti því sjálfur við barinn í Cheers sjónvarpsþáttunum).   Mitt blogg má þvi vera eldhús, þar sem fólk kíkir við í kaffi! .. Ég er mikil eldhúskona og finnst best að vera við eldavélina og ástríðan er í eldamennskunni og er það ekkert tengt kvennakúgun eða öðru slíku.

Ég er náttúrulega löngu komin út fyrir efnið hér!!! ..

Kristinn segir:

"En á meðan ógagnrýnin upptaka trúarbragða þykir dyggð, þá verða þessir hlutir ekkert skárri. Það er ekki dyggð að taka upp regluverk án þess að athuga hvort það sé sanngjarnt og velmeinandi - það er heimska sem í vanhugsun sinni verður vonska"

Ég feitletraði þetta síðasta, því ég er innilega sammála því.  VANHUGSUN er kannski orð sem við verðum að huga að. Sjálf er ég mjög upptekin af því að vekja sjálfa mig og aðrar manneskjur til vitundar. Ekki bara fljóta áfram hugsunarlaust, því að með vanhugsun eða hugsunarleysi getum við stundum framkvæmt ómeðvitað vonda hluti. Komum svo af fjöllum þegar okkur er bent á það og bregðumst jafnvel illa við.

Því er það grundvallaratriði að líta ávallt í eigin barm fyrst og vita hvort að það geti verið að við séum þau sem erum að framkvæma ómeðvitað ofbeldi. Ástæðan fyrir nafninu á mínu bloggi "naflaskoðun" er ekki gripin úr lausu lofti og tengist þessu.

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.12.2009 kl. 17:05

12 identicon

Falleg hugleiðing Jóhanna og flæðir vel.

Stundum er bara gott að lesa og njóta og hafa slökkt á gagnrýnandanum, þá kemur andinn fram sem ritaði orðið, þinn góði andi Jóhanna :)

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 18:00

13 identicon

En samt Jóhanna, þú mátt ekki taka frá okkur HANN guð,

hvað verður um sjálfsmynd okkar... konan er að verða búin að taka yfir allt og við karlarnir endum heima að spila lúdó og hlusta á Auði Eir fara mð Móður Vorið  :)

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 19:34

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það er ekki mitt að taka af þér HANN guð fyrirmyndina af þér.  Reyndar biður Auður Eir alltaf Faðir vorið í kvennamessunum þó hún segi "hún Guð."

Kannski nota ég Móður vorið í  mína næstu prédikun ...

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.12.2009 kl. 19:59

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

æ, "af þér" kom þarna tvisvar - þetta gerist þegar verið er að hlusta á Kastljós um leið og skrifað er!!..

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.12.2009 kl. 20:00

16 identicon

Guð hefur líka móðureðli, það eðli Guðs langar mig svoldið að læra meira um, því að ég hef lært mikið um Föðurelsku Guðs sem hefur gjörbreytt trúarlífi mínu og sjálfsmynd.

Sigvarður (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 16:24

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sigvarður, ég er löngu búin að opna á þig, ég lokaði bara í smástund meðan ég var í mesta sjokkinu eftir að mbl.is skammaði mig fyrir að hafa leyft þína athugasemd.

Ég sá að þú baðst afsökunar og ég hefði átt að taka það fram að það var fallega gert. En ég tók líka fram að ég tel skoðanir þínar ekki koma til vegna þess að þú sért "illur" heldur vegna þeirrar fræðslu sem þú hefur fengið.

Það er svo mikilvægt að láta sig falla í faðm Guðs og treysta og um leið hlusta á röddina sem hann - nú eða hún - hvíslar að þér.  Þessi rödd er rödd kærleikans.

Það er hollt að vera leitandi og skoðandi, því þannig finnum við.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 16:39

18 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

takk fyrir það Jóhanna, ég sé það líka í gegnum svona umræður að stundum er betra að þegja og segja ekki neitt eins og ég hefði átt að gera.Fæst orð bera sem minnsta ábyrgð. Þetta er viðkvæmt málefni, og þess vegna ætla ég framvegis að vera hlutlaus í svona umræðum. Enda er þessi læti öll búin að taka mann pínu úr jafnvægi. Enda er ég þannig gerður, að mér líður alldrei vel, þegar ég stend í neikvæðum orðaskiptum við einhvern.

Sigvarður Hans Ísleifsson, 8.12.2009 kl. 20:10

19 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

En annars svaraði ég þér á síðunni hans Aðalbjörns, þau koment komu áður en ég las svar þitt hér.. sorry :(

Sigvarður Hans Ísleifsson, 8.12.2009 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband