Íslandsforeldri og Matargjafasíður ..... kerfi í kerfinu - er ekki eitthvað rangt við þetta?

Eins og ég er hrifin af því að við veitum náunganum hjálparhönd, þá sýnist mér það vera að fara út í öfgar, þegar þarf að búa til kerfi í kerfinu.  Hvað með félagslega kerfið okkar allra?  

Þetta er í raun orðinn einkarekstur.  Þ.e.a.s. eins og Fjölskylduhjálp - en ég var að taka eftir möguleikanum að fara að styrkja það batterí með mánaðarlegum styrk.  Ég styrki nú þegar og hef gert lengi - um dágóða summu á mánuði, börn í vanþróuðum löndum og mun nú bæta í þann sjóð, þar sem ég var að fá fast starf. En er Ísland vanþróað? - Hvert erum við að stefna? 

Eiga kannski útlendingar líka að fara að gerast "Íslandsforeldri" og gefa barni að borða á Íslandi. Finnst okkur þetta ekkert neyðarlegt á meðan hér er í raun fullt af auðlindum, mannauði og alls konar auði, sem er bara svona misskipt? -  

Fólk, - það er eitthvað mikið að! - Forgangsröðunin verður að vera sú að öll börn á Íslandi fari södd að sofa (og auðvitað að fá hollt og gott fæði)  og það á ekki að þurfa einkarekstur til að sjá um það!   SVO má fara að huga að öðru.  Ríkisstjórnin ætti að vera nokkurs konar "mamma" eða "pabbi" sem er ekki sama hvernig fjölskyldan hefur það.  

Ég er ekki fróð um pólitík og peninga.  En það þarf varla snilling til að sjá þennan einfaldleika.  

Þó að fólk sé að gera hlutina af tærri góðmennsku, og í sjálfboðastarfi, þá kallar svona á ýmsar hættur, eins og nú þegar hefur komið fram.  Ég var ein af þeim sem hreifst af góðmennsku náungans - þegar matargjafasíðurnar voru settar upp á facebook, en síðan kom í ljós að það gerir fólk berskjaldaðra fyrir óþökkum.  Það hefur nú þegar komið í ljós, að einhverjir vilja nýta sér neyð fólks, og ætla að fá borgað í blíðu.  Það er s.s. bláókunnugt fólk að koma heim til annarra með mat eða annað - og það þarf að treysta í blindni.   Svona mál ættu að vera í faglegum farvegi, þar sem fyllsta trúnaðar er gætt. Það er meira en að segja það að halda utan um alla þræði, og við höfum til þess félagsráðgjafa og kerfi.  Notum kerfið eða bætum kerfið. 

Þarna er komin a.m.k. ein aðkallandi ástæða til að fara í meðmæli með bættu félagslegu kerfi!

p.s. tvennt sem ég vil taka fram aukalega: Framsóknar - og Sjálfstæðisflokkur þurfa ekki að fara í sérstaka vörn, þetta er ekki nýtt af nálinni, en þetta hefur (að mínu mati) aukist. 

Hitt atriðið er að auðvitað er stigsmunur á fyrirtæki eins og Fjölskylduhjálp og svo bara einstaklingsframtaki eins og matargjafasíðunum, en spurning hvar á að setja mörkin og er ekki draumur okkar allra að þetta komist í betri farveg? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband