Að sleppa tökunum - árslok 2013

Stundum þurfum við að sleppa einu til að geta tekið á móti öðru. - Stundum þurfum við að sleppa til að geta haldið áfram. -

Besta útskýring á því hvernig það virkar "að sleppa" er að  þegar við höldum fast, er það eins og að halda korktappa undir vatni. - Ef við sleppum tappanum skýst hann upp á yfirborðið. - Það er í eðli korksins að fljóta og það er líka í eðli okkar. -  Þetta flokkast eflaust undir "Law of allowance" eða lögmál þess að leyfa.

Sleppa fyrst - þá opnast höndin,  leyfa svo því sem þarf að koma að koma og trúa því að það komi - sumir segja að við eigum ekki bara að trúa heldur að vita.  Vera í fullvissu, að um leið og við sleppum og leyfum þá getum við verið viss. -

Eftirfarandi texti barst mér í morgun á fésbókinni í gegnum síðu sem heldur utan um ýmislegt hvað meðvirkni varðar. - Það var eins og skrifað til mín og ég veit að það er eins og skrifað til sumra þarna úti líka og því ætla ég að deila því áfram.

Það er best að lesa þennan texta eins og ljóð, ekki reyna að skilja of mikið. -

"Ég veit að þú ert þreytt/ur og þér finnst þú ofurliði borin/n. Það getur verið að þér finnist eins og þetta ástand, þetta vandamál, þessi erfiði tími muni vara að eilífu.

Hann gerir það ekki,  Þú ert að komast í gegn.

Það er ekki bara að þér finnist hann erfiður. Þú hefur gengið í gegnum próf, reynslu og aftur í gegnum próf sem hefur reynt á það sem þú hefur lært.

Það hefur verið gengið nærri lífsgildum þínum og trú þinni.  Þú hefur trúað en síðan efast, síðan unnið í því að trúa meira. Þú hefur þurft að trúa jafnvel þegar þú skildir varla hverju var verið að biðja þig að trúa. Verið getur að aðrir hafi reynt að sannfæra þig um að trúa ekki því sem þú varst að vonast eftir að þú gætir trúað á.

Þú hefur upplifað mótspyrnu. Þú hefur ekki komist þangað sem þú ert í dag með fullum stuðningi og gleði.  Þú hefur þurft að vinna mikið, þrátt fyrir það sem var að gerast í kringum þig. Stundum var það reiðin sem kom þér áfram, stundum óttinn.

Margt fór ekki eins og það átti að fara - fleiri verkefni en þú áttir von á. Það voru hindranir, gremja og pirringur á leiðinni.  Þú reiknaðir ekki með að hlutirnir færu eins og þeir fóru.  Flest kom á óvart, og sumt var langt frá því sem þú þráðir.
.
Samt var það gott.  Hluti af þér, hinn dýpsti sem þekkir sannleikann, hefur skynjað það allan tímann, jafnvel þegar höfuðið sagði þér að hlutirnir væru úr skorðum og klikkaðir, að það væri ekkert plan eða tilgangur, og að Guð hefði gleymt þér.

Svo mikið hefur gengið á, og sá atburður - sá sem er mest sársaukafullur, og kom mest á óvart - tengist við eitthvað sem þú áttar þig á. Þú ert að byrja að sjá það og skynja.

Þig óraði aldrei fyrir því að hlutirnir færu svona, gerðir þú það? En þeir gerðu það.  Nú ert þú að uppgötva leyndardóminn - þeir áttu að fara svona, og þessi leið er góð, betri en þú áttir von á.

Þú trúðir ekki að það tæki svona langan tíma - er það?  En það gerði það.  Þú hefur lært þolinmæði.

Þú hélst þú myndir aldrei ná því, en nú veistu að þú hefur gert það.

Þú hefur verið leidd/ur.  Margar voru þær stundirnar sem þér fannst þú vera gleymd/ur, stundir þegar þú varst viss um að þú hefðir verið yfirgefin/n. Nú veistu að þú hefur verið leidd/ur.

Nú eru brotin að falla saman.  Þú ert að ljúka þessu skeiði, þessum erfiða hluta ferðalagsins. Þú veist að þessari lexíu er næstum því lokið. Þessari lexíu - sem þú barðist gegn, mótmæltir, og fullyrtir að þú gætir ekki lært.  Já, það er hún.  Þú ert næstum orðin/n meistari í henni.

Þú hefur upplifað breytingu innan frá og út.  Þú hefur verið flutt/ur á annað plan, hærra plan, á betra plan.

Þú hefur verið í fjallgöngu, hún hefur ekki verið auðveld, en fjallgöngur eru það sjaldnast.  Nú ertu að nálgast toppinn.  Aðeins stund eftir og þú hefur sigrað tindinn.

Slakaðu á í öxlunum. Andaðu djúpt. Haltu áfram í sjálfsöryggi og friði. Tíminn til að uppskera og njóta alls, sem þú hefur barist fyrir.  Sá tími er að koma, loksins.

Ég veit þú hefur hugsað það áður, að þinn tími væri að koma, aðeins til að átta þig að svo var ekki.  En nú eru verðlaunin væntanleg. Þú veist það líka, þú getur skynjað það.

Barátta þín hefur ekki verið til einskis. Í hverri baráttu í þessu ferðalagi er hápunktur, endurlausn.

Friður, gleði, blessanir og launin eru þín hér á jörðu.

NJÓTTU.

Það koma fleiri fjöll, en nú veistu hvernig þau eru klifin og þú hefur komist að leyndarmálinu, hvað það er sem er á tindinum.

Í dag mun ég sætta mig við hvar ég er stödd/staddur og halda áfram. Ef ég er í miðri hringiðu lærdómsreynslu, mun ég leyfa sjálfum/sjálfri mér að halda áfram í þeirri góðu trú að dagur meistaradómsins og viðurkenningar muni koma.  Hjálpaðu mér, Guð, því að þrátt fyrir minn besta ásetning að lifa í friðsamlegu æðruleysi, þá eru tímar fjallgöngu. Hjálpaðu mér við að hætta að skapa óreiðu og erfitt ástand, og hjálpaðu mér að mæta áskorunum sem munu bera mig upp og áfram."

Melody Beattie  - From The Language of Letting Go.  - Þýðing: Jóhanna Magnúsdóttir

keilir.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa færslu kæra vinkona mín <3

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.12.2013 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband