Er í lagi að kalla fólk fífl ef þú kemur með rök fyrir því að það sé fífl? ..

Ég er sammála Agnesi biskupi að hún beri ekki ábyrgð á orðum Davíðs Þórs. En um leið þurfum við sem teljum okkur kristin að íhuga orð okkar hvert og eitt og spyrja um leið og við sendum þau frá okkur;  "Er þetta uppbyggilegt?" -

Hvaða gagn gerir það sem ég er að segja, hjálpar það þeim sem við álítum fífl að kalla hann fífl og bætir það hann eða okkur sjálf að einhverju leyti? - 

Ég er í ekki í stöðu  til að dæma einn né neinn,  hef gert alls konar mistök á lífsleiðinni og sagt ljóta hluti bæði við sjálfa mig og um aðra.  En ég er að læra og vil læra.  Þess vegna er ég að skrifa þetta, til að íhuga gagnsemi þess að kalla fólk t.d. lygara og rógtungu eða hvað sem það er kallað,  er það til betrunar?  Er verið að sýna viðkomandi fram á villu vegar og þá í þessu tilfelli stuðningsmönnum hvað viðkomandi er ómögulegur? 

Væri hægt að gera það á annan máta, án háðs eða að nota svona orð sem e.t.v. flokkast undir gífuryrði?  Er stíllinn svona mikilvægur til að ná til fólks?

Samhugur er að mínu mati andstæða dómhörku.  Getum við sett okkur í spor Davíðs?  Getum við sett okkur í spor Guðna? -  Ég held að við höfum verið í báðum sporunum einhvern tímann á lífsleiðinni. 

Við höfum verið í því að dæma og við höfum verið í því að klaga. -  Andlega þroskað?   Spyrji hver sig. 

Kannski notaði Davíð svona ljót orð til að ná athygli, hvað segir það um lesandann, okkur öll? - 

Ef hann hefði verið "snyrtilegri" hefðu eins margir lesið? - Þarf ljótleikann til að tjá sig? 

Þessi pistill minn er meira svona hugsað upphátt, ég er ekki með öll svörin.  Veit bara að ég er að æfa mig að nota ekki ljót orð, það er mitt val og þá verður kannski minna hlustað? - 

Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm og spyrja okkur sjálf hvar við erum stödd þarna og ekki fara í skotgrafir með eða móti Davíð eða Guðna. 

Eftirfarandi er gott að hafa í huga og er úr Biblíunni: 

"Talið ekki illa hvert um annað, systkin."  Jakobsbréfið 4.11

"Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur."  Efesus 4.32

og svo aðal: 

"Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar." 

Efesus 4.29

pink_rose_dsc09054_great.jpg Rósir koma með þyrnum,  en þyrnar koma líka með rósum. 

Erum við ekki bara öll dásamlega mannleg og þurfum að fyrirgefa hvert öðru? - 

 Þegar við hittumst augliti til auglitis og sjáum að við erum bara jafnar sálir, auðsæranlegar og viðkvæmar, er best að fyrirgefa.

Fyrirgefningin er frelsun. 

 


mbl.is Skilur ekki afstöðu Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Agnes ber sem biskup ábyrgð á starfsfólki kirkjunnar, þegar það tjáir sig um þann sem starfsfólk biskupsstofu segir verndara þjóðkirkjunnar.Agnes segir að starfsfólk kirkjunnar megi kalla æðsta mann íslenska þjóðríkisins lygara og rógtungu Sér sem biskupi komi það ekki við.Í stjórnarskránni segir að þjóðkirkjan sé þjóðkirkja Íslands og þar með er hún hluti íslenska ríkisins.Það hlytur að gilda það sama um allt starfsfólk kirkjunnar.Næst heyrir maður kannski í utvarpsmessu að einhver kratapresturinn segir að forseti Íslands sé þjófur og glæpamaður.Agnes á að hafa rænu á að biðjast afsökunar á orðum sínum og reka þennan starfsmann strax, að öðrum kosti á hún að hypja sig.Kanski ætti maður að bæta við að hún sé "lygari og rógtunga", en ég ætla að sleppa því.

Sigurgeir Jónsson, 7.7.2012 kl. 15:07

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

En hún er fífl.

Sigurgeir Jónsson, 7.7.2012 kl. 15:10

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Og hvað er þessi vesalingur að gera hjá þjóðkirkjunni.Sagt er að hann vinni að fræðslu meðal ungmenna.Er hann kannski að kenna ungmennunum að forseti íslands sé rógtunga og lygari.Eða er hann kanski að dreifa tímaritinu Bleikt og Blátt sem hann ritstýrði, og fjallaði aðallega um kynlíf.Og var þetta starf kanski búið til handa honum.Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem þjóðkirkjan kæmi "þeim sem hún hefur velþóknun á" á spenann.

Sigurgeir Jónsson, 7.7.2012 kl. 15:20

4 identicon

Svo það er engin breyting á biskupstofu gott að vita það.

Það á bara að sópa vandamálum undir mottuna í von um að vandamálið hverfi, eins og hjá fyrirrennara núverandi biskups.

Það er kanski kominn tími til að íslenzkir skattgreiðendur hætti að fjármagna þjóðkirkjuna og þá getur þetta fólk hagað sér eins og það vill?

Samt sem áður góð hugvekja hjá þér Jóhanna, kanski fer einhver eftir þessu sem þú skrifar.

Kveðja frá Las Vegas.

Johann Kristinsson (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 15:20

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Svarið við þessari spurningu er nei.  Það er ekki í lagi að tala svona.  Og fólk talar um þetta eins og um sé að ræða heilagan sannleika.  Að gæta hófs er það sem við þurfum að temja okkur.  En ekki bara það, heldur verðum við líka að læra að hlusta á hófsamar umræður og láta hinar fram hjá okkur fara, þannig hvetjum við til betri umræðna.  Rétt eins og þú kemur inn á í þessum pistli Jóhanna mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.7.2012 kl. 15:35

6 identicon

Þú ert greinilega kirkjunnar maður, Sigurgeir!

Baddi (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 16:14

7 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Góð hugvekja hjá þér Jóhanna, eins og alltaf!

En um leið þurfum við sem teljum okkur kristin að íhuga orð okkar hvert og eitt og spyrja um leið og við sendum þau frá okkur;  "Er þetta uppbyggilegt?"

Varðandi þessa málsgrein (sem teljum okkur kristin), þá langar mig til að bæta því við að hófsemi og kurteisi er ekki einkamál kristinna manna, sem betur fer. Vegna þess að við væntum þess að geta átt uppbyggjandi samneyti með öllu öðru fólk, án tillits til trúarskoðana.

Ég sé að þú færð í fangið fullt af erfiðum viðfangsefnum. Nú er Séra Agnes strax orðin blóraböggull og skotspónn manna. Reyndar manna sem ekki bera neinn hug til kirkjunnar, heldur vill finna henni flest til foráttu.

Nú fer fólk fram á að Agnes biskup geri þetta og hitt. Verði einvaldur og reki fólk úr kirkjunni. Nú á hver einstaklingur ekki lengur að vera sjálfráður gerða sinna, og um leið að taka afleiðungunum af þeim. Ekki er mikið samræmi í svona tali.

En þitt innlegg Jóhanna var uppbyggilegt og alveg þér líkt! Takk fyrir. 

Sigurður Alfreð Herlufsen, 7.7.2012 kl. 18:06

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hver segir að einstaklingur eigi ekki að vera sjálfráður gerða sinna,en sá sem gegnir ábirgðarstöðu innan kirkjunnar,hlýtur að verða áminntur fyrir þessi orð sín. Þessi heilagleiki austur á Héraði,er að upphefja sjálfan sig í meðvirkni með mestu lyga og svikastjórn allra tíma.

Helga Kristjánsdóttir, 8.7.2012 kl. 00:08

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef hann hefði verið "snyrtilegri" hefðu eins margir lesið? - Þarf ljótleikann til að tjá sig?

Þarna hittirðu naglann á höfuðið. Svo margir bloggarar sækja í skólpið, þannig komast þeir í flokkinn heitar umræður, eða í mest lesnu blogg á blogg.gattin.is. Sorglegt. Þú hefur sannað að hægt er að komast í heitar umræður án stóryrða.

Theódór Norðkvist, 8.7.2012 kl. 00:41

10 Smámynd: Hörður Þórðarson

http://www.wisdom-books.com/ProductExtract.asp?PID=16398

"Always train in three common points.
Change your attitude and maintain it firmly.
Do not discuss infirmities.
Do not have opinions on other people’s actions.
Work on the strongest of your defilements first."

Hörður Þórðarson, 8.7.2012 kl. 05:41

11 identicon

Ágæti naflaskoðari og aðrir Íslendingar. Davíð Þór Jónsson þarf ekki á neinni fyrirgefningu að halda. Hann þarf hins vegar sárlega á upplýstri og menntaðri þjóð að halda.

Til að taka af öll tvímæli vil ég upplýsa að ég sagði mig úr Þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum, í kjölfar umræðu um myrkraverk þáverandi biskups. Eftirmaður hans reyndist því miður afskaplega lítill Karl, en nú skulum við vona að Agnes (barn Guðs) standi sig í starfi.

Í öðru lagi tók ég ekki þátt í leðjuslagnum í undanfara forsetakosninganna. Ég hef lengi haft ákveðna skoðun á ORG, en ég sá einfaldlega ekki að hinir frambjóðendurnir hefðu nokkuð í embættið að gera.

Ég hef hins vegar lagt það á mig að lesa umrædda blogggrein æskulýðsleiðtogans: "Að kjósa lygara og rógtungu", en tek það um leið fram að ég hef ekkert dálæti á þeirri baráttuglöðu blebyttu sem lemur lyklaborðið. Hins vegar get ég unnt DÞJ þess að ráðast á rökin en ekki manninn.

Rök DÞJ? Forseti Íslands er lygari og rógtunga! DÞJ gerir grein fyrir þessari lýsingu sinni á ORG í löngu máli og listar upp 7 meginatriði því til stuðnings.

ORG er fjórFLokkurinn holdi klæddur. Það má margt um hann segja og "lygari og rógtunga" er ekki það versta.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband