Íhaldssemi, róttækni og biskupskjör 2012

Við Hreðavatn stendur okkar gamli og lúni (en mjög svo elskaði) fjölskyldubústaður sem kallaður er Lindarbrekka. 

Nafnið kemur frá lindinni sem gefur okkur vatn og stendur neðar í brekkunni.

Í gamla daga var vatnið sótt í fötur, en nú er komin dæla upp í bústað. -  Þessi bústaður var upphaflega bústaður afa míns og ömmu,  en tilheyrir nú stórfjölskyldunni og um hann hefur ríkt friður og sátt,  þó einstaka umræða hafi komið upp hverju eigi að breyta og hvað má bæta. 

Til vorhreingerninga er kallað á hverju ári til að hreinsa út og viðra fyrir sumarið.  

Þegar afi og amma fjárfestu í bústaðnum var hann ekki sérlega stór, en afi bætti við geymslu, forstofu, eldhúsi og tveimur herbergjum.  En afi var þúsund þjala smiður, - fyrir utan það að vera prestur og prófessor. -  Ekki var amma mín síðri, og lagði sitt af mörkum á ólíkan máta með sínum dugnaði, með sitt glaða geð, umhyggju,  hlýju og bros. 

En hvað kemur Lindarbrekka biskupskjöri árið 2012 við? 

Ég notaði líkinguna um Lindarbrekku í lokaprédikuninni minni  í guðfræðideild árið 2003, þar sem ég talaði um hina eilífu lind og læki lifandi vatns sem þessa óendanlegu og gefandi uppsprettu, og nú ætla ég að nota Lindarbrekku sem líkingu fyrir kirkjuna. -

Það hefur komið upp sú staða í umræðunni að sumir segja það betra fyrir jafnréttið og breytingar innan kirkjunnar að kjósa sr. Sigurð Árna en sr. Agnesi,  og á einum stað var skrifað að Agnes þætti of íhaldssöm miðað við Sigurð. - 

Ekki veit ég hvort að allir séu sammála þeirri greiningu. 

- Og hversu miklu viljum við halda og hvað slíta upp með rótum? - 

Ef við lesum það sem sr. Agnes hefur að segja og treystum að hún sé fylgin málefnum sínum og gildum.  þá eru þar ýmsar breytingar frá því sem áður hefur verið. -  

Til dæmis að taka tillit til margumræddrar jafnréttisstefnu, - auglýsa öll embætti,  hlúa að starfsfólki, bæta stjórnsýslu kirkjunnar o.s.frv. -  (Þarna hefur s.s. verið brotalöm á fyrir þau sem ekki vita). Agnes var heldur ekki íhaldssamari en það að skrifa undir áskorun presta, djákna og guðfræðinga um jafngilda vígslu samkynhneigðra.  

Nú væri gott að fá á hreint hvar íhaldssemin liggur? -  

Er ekki íhaldssemi að kjósa karlmann sem biskup í 111 skiptið? - 

Er sú íhaldssemi betri en íhaldssemi Agnesar,  hver svo sem hún er?

Þegar skip hefur hallað á eina hlið í nær þúsund ár,  þá þarf býsna mikið átak til að fá ballestina til halla á hina. - 

Kannski þarf að gera það í skrefum, en spurningin sem eftir stendur sem áður:  

"Hvort er betra skref og þjónar betur jafnréttinu og kirkjunni þá um leið að kjósa konu, sem sumir segja íhaldssama, eða karl sem sumir segja ekki íhaldssaman? 

Ég er ekki að taka undir og hef ekki persónulega sannfæringu um hvort biskupsefnið er íhaldssamara,  þannig ég er ekki að fella neinn dóm á það.  

Svo er það nú þannig að sum íhaldssemi og sumar hefðir eru býsna góðar,  svo íhaldssemi er ekki öll af hinu vonda. 

Og nú förum við aftur að Lindarbrekku. 

Þar er ákveðin rómantík fólgin í því gamla, ákveðinn andi sem ekki er hægt að skipta út og fylgir t.d. ýmsum gömlum hlutum eins og þeim sem afi smíðaði.

Það eru alveg afskaplega miklar tilfinningar tengdar þessum bústað og ég skrifaði einu sinni pistil sem ég kalla "Barn í Paradís"  og ég mun setja hér hlekk á í lok greinarinnar. -

Það er ekki svo að einhverju hafi ekki verið breytt í Lindarbrekku á undanförnum árum, - eins og kom fram hér í upphafi er komin dæla í lindina, svo vatnið berst hraðar og betur til okkar og er enn sem áður "besta vatn í heimi" - (auðvitað huglægt fyrir þá sem það þiggja). -  

Maður sem er kvæntur inn í fjölskylduna hafði það einhvern tímann að orði að það ætti bara að rífa þennan gamla og byggja nýjan bústað, það svaraði ekki kostnaði að halda þessum við. -  Hann sagði þetta í gríni,  því hann vissi hvað þessi staður og það sem tilheyrði væri okkur hjartfólgið. - Þetta var næstum ekki fyndið í mín eyru,  svo sterkar eru taugarnar þó vissulega eigi maður ekki að hengja sig á veraldlega hluti. - Andinn liggur þó oft og tengist gömlu hlutunum,  hann hverfur ekkert alveg. - 

Við höfum þurft að taka niður fúna veggi og henda út því sem mýsnar hafa komist í.  Höfum þurft að velja og hafna.  Nýta hið heila og það sem okkur er kært en henda því sem lyktar illa og hefur skemmst.  -  Það er búið að koma upp sólarsellu,  þannig að við getum farið á klósett (en áður var kamar) um miðja nótt án þess að þurfa að kveikja á kerti.  (Ég viðurkenni að ég var ekkert voða sátt við þessa sólarselluframkvæmd í upphafi,  en einmitt fegin þegar ég dvaldi ein í bústaðnum síðastliiðið sumar að geta kveikt lítið ljós yfir rúminu). - 

Kirkjan þarf að þora að gera það líka, hreinsa burt fúna veggi, setja upp dælu til að vatnið berist betur til sem flestra og setja upp sólarsellur. -   En um leið virða hið gamla,  hið tilfinningalega og það sem var byggt af smiðnum. - 

Í framhaldi af öðrum umræðum, en þó skyldum á fésbókinni nýlega fékk ég eftirfarandi spurningu frá sr. Þóri Jökli Þorsteinssyn:    Hvað með rót-tæka trú Jóhanna? :-)  Til hvaða rótar á hún að taka til að njóta sannmælis heldurðu?

En svarinu leyfði ég koma frá hjartanu - ætlaði fyrst að fara að "spekúlera" en svo bara kom það áreynslulaust og ég svaraði: 

Svona fyrstu viðbrögð eru að rót kristinnar trúar liggi í orði Guðs: Jesú Kristi, orðinu sem varð hold og gekk í gegnum og lifði mennskuna og deildi sér og gildum sínum með öðrum mönnum og þjónaði. - Rót sem gaf af sér fallega rós sem ilmar enn. -

Í biskupskjöri þurfa menn og konur (þessir u.þ.b.  500 kjörmenn) fyrst og fremst að viðra fyrir sér gildi og hæfni þeirra kandidata sem bjóða sig fram, inn í hvaða samfélag verið er að tala árið 2012, - og hvað þjónar kirkjunni best sem samfélag jafnréttis, bræðra- og systralags, - og síðast en ekki síst þarf að opna vit sín fyrir ilminum og leyfa honum að virka. - 

red_rose_flowers.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Barn í Paradís - óður til afa og ömmu 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband