Við verðum svo lítil ..

Lífsgæði mömmu eru að fjara út, sífellt verður erfiðara fyrir hana að vera virk og nýlega bættist það í hennar bikar að hún fékk einvers konar "mini stroke" sem gerir það að verkum að hún hallar meira út á aðra hliðina, er þreytt, og getur illa eða lítið tjáð sig.  Það er ekki nýtt að mamma sýnist á síðustu metrunum, hún hefur átt sín "comeback" en nú er eflaust farið að líða að "næsta geimi" eins og hún orðaði það sjálf nýlega.

Ég gleymi ekki hvað sökk í mér hjartað, þegar hún á sínum tíma spurði mig; "Hver hefur fengið þig til að þykjast vera dóttir mín?" ..   Það eru tvö ár síðan, en hún, eða hugur hennar,  kom  til baka og er búin að þekkja mig og okkur öll síðan, en þetta var vont á meðan á því stóð. 

Það er erfitt að sleppa, og skrítið að upplifa þessa munaðarleysistilfinningu á fullorðins aldri. Við höfum verið föðurlaus svo lengi við systkinin - þekkjum sum ekki annað.  En við erum að sjálfsögðu öll fullorðið fólk núna, en af einhverjum ástæðum verðum við lítil þegar um foreldra okkar er að ræða. Ég veit að sorgin yfir að missa pabba sem börn blandast og mun blandast inn í sorgina yfir að mamma sé svona ósjálfbjarga. 

Það hafa margir upplifað nákvæmlega þetta með foreldra sína, eða þessu líkt, og ég hef haft það í huga og við öll að muna að njóta þess sem við höfum núna,  lifa lífinu til fulls á meðan tækifæri er fyrir hendi. 

Það er það sem ég veit að foreldrar vilja börnum sínum og ég veit að mamma vill fyrir okkar hönd, enda hefur oft komið í ljós að mamma,  þessi elska er með hugann við okkur sysktinin  og okkar velferð á meðan hún sjálf hefur litla sem enga möguleika til að njóta lífsins. 

Njótum á meðan við getum, meðan við höfum tækifæri - verum svolítið villt, upplifum nýtt ævintýri á hverjum degi og förum ótroðnar slóðir ..  verum varkár, en óttumst ekki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Jóhanna mín! Ég skil þig svo vel,þekki þennan sjúkdóm af raun. Ég var að velta fyrir mér nýlega,hvers vegna ég heyrði aldrei neitt um þennan sjúkdóm,fyrr en eiginmaðurinn var greindur með hann. Álit mitt er meðal annars,við hin eldri vorum sjaldan samtíða fjörgömlu fólki,sem sagt fólk dó fyrr á lífsleiðinni.Þó man ég að sagt var um gamlingja hún / hann er farinn að tapa.  Auðvitað koma tregafullir dagar,en við höfum ekkert val, nema það sem þú hvetur til!! Prima,  M.b.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 3.8.2011 kl. 17:11

2 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Satt hjá þér - þetta er virkilega sár upplifun, þó maður viti að viðkomandi viti ekki af því.............

Eyþór Örn Óskarsson, 3.8.2011 kl. 23:33

3 Smámynd: Sólveig H Sveinbjörnsdóttir

Ég horfi upp á þennan sorglega sjúkdóm í vinnu minni... Mjög erfitt fyrir aðstandendur og auðvitað fólkið sjálft á vissu skeiði þessa erfiða sjúkdóms, oft ekki fyrr en þegar hann er legngra genginn sem fólkiðsjálft hættir að gera sér grein fyrir þessu en þá fer það sérstaklega að vera erfitt fyrir aðstandendur. Þessvegna skipta góðar minningar svomiklu máli og muna fólkið sitt eins og það var . Knús

Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 4.8.2011 kl. 12:10

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ ljósið mitt, ég þekki þetta vel, pabbi minn var orðin svona ruglaður undir það síðasta, þekkti mig stundum, en stundum hélt hann að ég væri systir hans, eða bara einhver, en hann var líka í allskonar ferðalögum, og kom svo við á öldrunardeildinni, eftir ferð til Akureyrar eða Reykjavíkur, og alltaf spurði hann hver hefði farið á sjó með pabba í dag?  En þetta er eitthvað sem við verðum bara að taka þátt í og elska þessar elskur.  Knús á þig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.8.2011 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband