Ert´ ekki að grínast?

Fjögurra ára systurdóttir mín horfði áhyggjufull á fánann á föstudaginn langa og stundi svo upp að hann væri að síga niður.

Ég svaraði henni þá að þetta væri kallað að flagga í hálfa stöng.
 
Þar sem hún er á akkuru aldrinum, spurði hún "akkuru?" ..

Ég sagði þá að það væri verið að minnast þess að Jesús hefði dáið á föstudaginn langa.

Þá sagði hún:

"Ert´ ekki að grínast"  

Okkur þótti þetta auðvitað bráðfyndið, sé tekið tillit til aldurs hennar. 

------

Biskup Íslands flytur fyrstu ræðu eftir að mikil gagnrýni kemur fram í hans garð. Gagnrýni sem óþarfi er að endurtaka hér í smáatriðrum.  Hægt er að lesa hana í langri sannleiksskýrslu. 

Í ræðunni segir hann:

"Á tímum þegar margur horfir reiður um öxl og starir inn í skugga fortíðar skulum við leitast við að horfa fram, fram til birtunnar í von."

Hver er þessi "margur?"  


Af hverju þurfti hann að orða þetta svona eins og við værum eitthvað starandi inn í skugga fortíðar eins og hálfgeggjuð? 

Átti ég að segja við systurdóttur mina;

"Af því að einu sinni á ári horfa margir reiðir um öxl og stara inn í skugga fortíðar."

Þegar við erum að skoða fortíðina erum við að læra af henni, leita orsaka og leita lausna.  Kannski leita að sjálfum okkur,  eða broti af okkur sem týndist þegar við vorum beitt rangindum.  Við gerum það með því að lýsa í öll horn, lýsa upp skuggana. 

Í dag eru fórnarlömb fyrrverandi biskups, og fórnarlömb þöggunar embættismanna kirkjunnar að biðja um að fá viðurkenningu á því sem gerðist í fortíðinni.  Biðja um að orðum þeirra sé trúað og biðja um að kirkjan verði heil á ný. 

Þær upplifa kirkjuna ekki heila með sitjandi biskup við stjórnvölinn, og það hefur líka komið fram að mikill minni hluti þjóðar ber traust til biskups sem leiðtoga þjóðkirkjunnar.

"margur horfir reiður um öxl og starir í skugga fortíðar" .. er það virkilega þannig, eða er það að margur vill hyggja að fortíð svo hægt sé að byggja framtíð?  Hyggja að fortíð svo að sömu mistökin endurtaki sig ekki aftur? 

Við lfium ekki í fortíðinni,  en við skoðum hana til að tína saman brotin sem hafa e.t.v. orðið eftir og til að  hafa möguleika  að komast heil í framtíðina.

Ef að konurnar sem rangindum voru beittar hefðu hætt að horfa,  hefðu þær kannski lokað á graftarkýli sem hefði sprungið, kannski eins og systir sr. Hjálmars sem sprakk á sorglegan hátt, opnaði sig á síðu Sigrúnar Pálínu og DV og Pressan voru fljót að grípa gröftinn og dreifa honum.

Er ekki betra að vera meðvituð um hvað sárin geta gert okkur, en að fela þau?

Sjá ekkert illt, vita ekkert illt og heyra ekkert illt.  Er það ekki að lifa í vanþekkingu, eða jafnvel blekkingu?  Það hverfur ekki við að horfa ekki á það, en vissulega vex það við athyglina. 

Athygli er eflaust eitt af lykilorðunum í þessu máli, en ein af mistökunum voru að athygli var af skornum skammti.  Og hefði ekki verið svolítið sætt af biskupi að minnast beint á konurnar í þessari prédikun, ítreka það að hann væri einlæglega leiður og það úr prédikunarstól? 

Fortíðin fékk reyndar mjög mikla athygli í þessari prédikun, þrátt fyrir orðin um að stara ekki í fortíðina. Jón Sigurðsson er ekki beint svona gaurinn í núinu. 

Stundum er þörf á því, að beina ljósinu að sorginni, að upprunanum til að skilja betur nútíðina. Lýsa með vasaljósinu undir yfirborðið, því að vissulega er oft einungis toppurinn á ísjakanum sýnilegur.  

Við erum ekki að tala um að lifa í fortíðinni, setjast þar að, heldur að skilja líf okkar betur.  

Við horfum til fortíðar, á píslarsögu kvenna sem urðu fyrir ofbeldi þar sem þær áttu síst von á því.

Gleymum heldur ekki okkar hluta,  hluta mínum og þínum, hluta samfélags, sem flykkist oft utan um gerandann en fordæmir þann sem brotið er á.  Druslugangan væntanlega er til að minna okkur á það, ekki það ég sé hrifin af orðinu "drusla" en ég skil tilgang göngunnar að beina skömminni að gerandanum en ekki þeim sem verður fyrir ofbeldinu. 

Við horfum til fortíðar, störum ekkert endilega, en  minnumst Jóns Sigurðssonar til að skilja sögu okkar sem þjóðar, höldum upp á afmælisdag hans, þjóðhátíðardag okkar og flöggum í heila stöng. 

Við horfum til fortíðar,  flöggum í hálfa stöng til að minnast krossfestingar Krists,  við lítum til hennar til að skilja og læra og líka til þess að upplifa sigurinn á krossinum, - upprisuna. 

Sú von er sú besta sem við getum gefið þeim sem hafa orðið fyrir misnotkun eða ofbeldi. 

Ég er ekki að grínast. 

 

 

 


mbl.is Biður þjóðina að horfa fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.6.2011 kl. 00:43

2 Smámynd: Jens Guð

  Svo rétt.  Svo satt.  Svo alveg kjarni málsins.  Þar fyrir utan (óháð umræðuefninu):  Flottur ritstíll.  

Jens Guð, 18.6.2011 kl. 02:30

3 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Takk fyrir þessi sönnu og fallegu skrif.

Jón Bragi Sigurðsson, 18.6.2011 kl. 05:07

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka ykkur Ásthildur, Jens og Jón Bragi, - ég áttaði mig ekki á því fyrr en í morgun, þegar ég fór aftur inn á síðuna hjá Sigrúnu Pálínu hvað hafði raunverulega blásið mér í brjóst, - ég vil þó ekki breyta skrifunum eftir á, en hún hafði tekið eftir "sneiðinni" og skrifað; 

"Að horfast í augu við fortíðina, er nauðsynlegt til að geta horft til framtíðar. Til að geta hlegið þurfum við að gráta fyrst, annars er hláturinn bara tómur hljómur sem skortir gleði." 

Það sem er mikilvægt í þessum skilaboðum er ekki aðeins mikilvægt fyrir biskup að vita, heldur alla þá sem hafa tekið ábyrgð að axla hana.  Það virðist vera einkenni okkar ráðamanna, hvert sem litið er, til banka í pólitík nú og í kirkju að víkja ekki, enda voru það líka skilaboð ræðunnar. 

Kannski eru það vond skilaboð. Auðvitað á ekki að víkja frá vegi sannleikans, vegi heiðarleikans og vegi elskunnar. 

Leiðtogi sem gengur á undan, en þeir sem eiga að elta eru farnir að fara aðrar leiðir, hvað segir það okkur?   Er hann á vegi sannleikans eða eru það þeir sem fara annað? 

Geir Haarde er einn fyrir landsdómi, það er fáránlegt, auðvitað áttu allir sem báru ábyrgð  að ganga undir sama dóm.  Kerfið klikkaði þarna og þar þurfum við að horfa til fortíðar. 

Við virðumst illa skilja það hvað það er að taka ábyrgð, samt borgum við ofurlaun til fólks einmitt fyrir að taka ábyrgð og vera ábyrg.  Það er í þeirra starfssamningi. 

Ef að það sem þarf til að þjóðin rísi upp aftur, að menn sem báru ábyrgð segi af sér, þá eiga þeir að gera það. 

Ef að það er það sem þarf til að fórnarlömb stofnunarinnar þjóðkirkjunnar rísi upp, að yfirmaður hennar segi af sér til að þær geri það, þá ætti hann að gera það. 

Reyndr til að þjóðkirkjan sem samfélag risi upp. - 

Það er gróskumikið og gott starf "á plani" og þetta starf og þjónar þess hafa liðið vegna þessa ástands,  vegna úrræðaleysis og mistaka,  eins og svo margir sem að málinu koma. 

Í raun hefði það verið súpermanlegt af biskupi að segja af sér á kirkjuþingi, og fá þannig virðingu og ganga þannig fram fyrirmynd siðferðis.  Eins og yfirmaður kirkju ætti að vera. 

Fyrirgefningin og gráturinn innan kirkjunnar er ekki nóg. Fyrirgefning og grátur forstjóranna er ekki nóg.  Við þurfum að horfa í heim íþróttanna,  til handbolta-og fótboltaþjálfaranna, þar sem þar er viðurkennt að ef að liðinu gengur illa þarf að skipta út þjálfara.

Það hefur ekkert með að gera hvort þeir eru góðir eða vondir menn, það hefur með það að gera hvort þeir ná upp liðsanda, ná að fá það besta út úr hverjum og einum liðsmanni.  

Aldrei hefði ég trúað að ég færi að vitna til íþróttta, en stundum þarf að leita út fyrir kassann til að útskýra. 

Það er aldrei of seint að iðrast, aldrei of seint að sýna auðmýkt. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.6.2011 kl. 07:27

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Það á ekki alltaf við að maður eigi ekki að standa með annann fótinn í fortíðinni og hinn í framtíðinni og bara pissa á nútíðina, í tilfellum, sem þarf að gráta út fortíðinna verðum við að standa í henni þar til gráturinn hjaðnar og við búin að hreynsa út, reyndar tekur stundum afar langan tíma að fá sárindin í það form að við getum lifað með þeim.

Allavega upplifi ég á stundum sársauka sem þarf að hugga eins og lítið barn og ég geri það, engin annar getur það.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 18.6.2011 kl. 11:11

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Hér gerðist eitthvað, var ekki alveg búin.

Langar að taka það fram að ég hef ekki orðið fyrir misnotkun eins og þær mörgu konur sem hafa verið í umræðunni undanfarið, allavega ekki svo ég muni.

Hjartasárin mín eru frá ofbeldi á líkama minn og sál og jú reyndar er það nauðgun er konan ekki vill hafa samfarir þó maðurinn sé maðurinn hennar, ekki allir gera sér grein fyrir því að við eigum okkar rétt þó við séum giftar.

Kærleik og frið til ykkar allra

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 18.6.2011 kl. 11:22

7 identicon

Skarplega athugað Jóhanna. 'Jón Sigurðsson er ekki beint svona gaurinn í núinu.'

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 11:40

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk elsku Milla fyrir að deila, - mig langar að svara þér af vandvirkni, en sonur minn var að hringja og biðja mig um aðstoð við að passa lilluna hans, meðan þau eru að undirbúa afmælisveislu svo ég þarf að rjúka. Svo er ég að fara í sveitina þar til á morgun, en svara þá þér og öðrum athugasemdum.

Sendi þér kærleik til baka, - þú ert dýrmæt perla, mundu það.

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.6.2011 kl. 12:02

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hilmar Þór, þú ert líka dýrmæt perla.

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.6.2011 kl. 12:03

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þeir sem vilja lesa um hvað þeir eru dýrmætar perlur geta lesið það hér.

Jóhanna Magnúsdóttir, 18.6.2011 kl. 12:06

11 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ Jóhanna.  Flottur pistill hjá þér.   Systurdóttir þín er skemmtileg

Varðandi biskupinn núverandi, þá finnst mér hann oft komast svo hallærislega að orði. Hann er greinilega að reyna að vera skáldlegur, en mistekst algjörlega, því hann hefur ekki hæfileika skálds.  Svo mætti hann aðeins sleppa helgislepjunni.  Hann er engan veginn að ná til fólks, sem er kannski ágætt, þá verður aðskilnaður ríkis og kirkju að veruleika innan tíðar og forrituð trú fer að heyra sögunni til

Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.6.2011 kl. 13:42

12 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku Jóhanna mín, ég tel mig vera dýrmæta perlu alveg eins og þú ert, margir mundu segja að ég væri væmin, en ég meina alltaf það sem ég segi.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.6.2011 kl. 16:36

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Fer að koma hér inn aftur ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 19.6.2011 kl. 17:15

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl aftur, mig langar að taka upp þráðinn með þitt innlegg Milla. Ég hef verið að hugsa um þetta; að standa með annan fótinn í fortíð og hinn í framtíð.

Í raun gengur sú líking illa upp fyrir mig, því að við getum ekki verið á tveimur stöðum í einu.  Jú hugurinn getur farið frá líkamanum, - með því að rölta yfir í fortíðina, en ekki nokkur möguleiki á að fara yfir í framtíðina á sama augnabliki og þess vegna erum við í fortíð, nútíð eða framtíð.

Ástæðan fyrir mikilvægi þess að lifa í núinu er að líkami okkar ER í núinu og þegar við hugsum til baka eða fram, erum við fjarri líkama okkar. Ekki með sjálfum okkur. 

En til þess að þessi líkami geti verið heill, þarf oft að hugsa til baka og græða sár,  tyrfa yfir djúp hjólför og græða og sá og jafnvel setja blóm. 

Ég sá nýlega Fellini mynd (sem var mjög súrealísk) en þar var kona sem lifði mjög óhamingjusömu lífi og fékk ekki virðingu frá eiginmanni sínum.   Í gegnum alla myndina var verið að sýna slitrur frá æsku hennar.  Í lok myndarinnar fór hún til baka í huganum og leysti litla stelpu sem var bundin.  Þessi stelpa var hún sjálf.  Við verðum s.s. að fara til baka, með þá reynslu sem við höfum öðlast í dag og losa sjálf okkur úr fjötrum.  Þannig verðum við frjáls. 

Þegar þú upplifir sársauka eins og lítið barn, þarftu að taka þetta barn í fangið, þú þessi sterka kona í dag,  og hugga það og frelsa, þannig öðlast þú frelsi. 

Varðandi kynferðisofbeldi og brotna sjálfsmynd, þá er það oft viðurkenning umhverfisins sem er svo mikilvæg fyrir þann sem brotið er á.  Það er trú og viðurkenning annarra, sem hjálpar, þó að í raun vitum við að þetta snýst allt, þegar upp er staðið um það að vita að skömmin er ekki þeirrar / þess sem brotið var á.

Þess vegna er mikilvægt fyrir brotaþola að fá viðurkenningu stofnunar eins og kirkjunnar og æðsta manns hennar. 

Hinir raunverulegu brautryðjendur í dag eru konurnar sem þorðu að kæra, tala upphátt. Þær eru að ryðja burt þöggun, en sá múr er býsna seigur. 

Nauðgun er alltaf nauðgun, hvort sem hún á sér stað innan eða utan hjónabands, og nauðgun er ofbeldi, - og ofbeldi er alltaf rangt. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2011 kl. 07:22

15 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sæl Jóhanna mín  takk fyrir gott svar, ég tek það einnig fram að ég huggi litla barnið og ég er búin að vera afar dugleg að vinna úr mínum málum, samt gleymist alltaf eitthvað, sem kemur svo upp og maður bara leysir það.

Þetta með fortíð nútíð og framtíð er oft notað, en auðvitað erum við þessi þrenna.

Ég ber virðingu fyrir þeim konum/mönnum sem stigu fram og sögðu sína sögu og já múrinn er seigur.

Nauðgun er alltaf nauðgun hvort sem maður er giftur eður ei, en ég komst ekki að því fyrr en löngu eftir að ég var skilin við manninn.

Takk fyrir mig ljúfust

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.6.2011 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband