Samkvæmt kristilegri siðfræði á ekki að kenna um kristna trú (eingöngu) í skólum ..

Eftirfarandi er svar mitt um það hvort að kenna eigi kristilega siðfræði í skólum,  en þetta skrifaði ég í athugasemd við pistil minn hér á undan þar sem ég var að biðja um að siðfræði, virðing, vinátta, samskipti o.s.frv. fengi jafn mikið pláss í stundaskránni frá fyrsta bekk grunnskóla og uppúr, eins og hefðbundin kjarnafög.  Því ef að fyrrgreint er ekki kjarninn, hvað er það þá? 

....

Ég er sammála því að kristin siðfræði er góð, enda byggist hún á því fallega boðorði að elska náungann eins og sjálfan sig. Svo einföld er hún í mínum huga. 

Ég kenndi þetta í sunnudagaskóla í tvö ár,  með ýmsum útfærslum. Og svo auðvitað að gera það fyrir aðra sem þú vilt að þeir geri fyrir þig, sem er í raun og veru sami hluturinn. 

Þetta er nú komið í alls konar nýjan búning, enda ekkert nýtt undir sólinni. Flest af því sem ég les í dag get ég fundið í einhverri útgáfu í Biblíunni.  Meira að segja fjölgreindarkenningu Gardners.  Páll Postuli talar um að við höfum öll mismunandi náðargáfur,  höfum anda til að gera mismunandi hluti. 

En það eru ekki allir undir hatti hinnar kristnu kirkju og ég tel að við getum kennt þetta alveg án þess að kalla þetta kristna siðfræði,  þetta er siðfræði sem gengur þvert í trúarbrögðum og einnig hjá þeim sem kalla sig guðlausa. 

Kristinfræði má kenna í kirkjum (barna og unglingastarfi)  og í fermingarfræðslu.  Mér finnst persónulega við skapa meiri ófrið en frið með því að ætlast til að allir sitji í kennslustund sem er kölluð kristin siðfræðikennsla,  því að það hentar ekki öllum.

Þeir sem trúa á Guð kristninnar, eða bara Guð yfirhöfuð (ég tel Guð bara vera eitt og ekki tengdan aðeins einum flokki eða hópi) vita að Guð er með í verki og það er nóg. 

Sjálf starfa ég þannig að ég bið Guð um handleiðslu, en er ekki að "ota" honum/henni/því upp á skjólstæðinga mína og/eða nemendur.  Ég trúi á Guð í mér og Guð í þeim - Guð með okkur.  

Ég færi létt með að kenna kristilega siðfræði í skólum án þess að nefna Krist eða Guð á nafn og örugglega margir aðrir.  

Það er kristileg siðfræði að gera það ekki.  Það er tillitsemi við náungann. 

"Allt sem að þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra" .. 

Við sem teljum okkur hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, erum beðin um að hlífa börnum ákveðins hóps við beinni kennslu um hann,  því að hópnum finnst á sér brotið. (bæði guðlausum og annarrar trúar)  Þá gerum við það.  Öll börnin fá kennsluna,  foreldrar geta sjálfir uppfrætt um Jesú Krist og kirkjan, eða þjónar hennar,  eins og áður sagði,  og svo sannarlega fá börnin að læra um hann og aðra leiðtoga í trúarbrögðum í trúarbragðafræði.  

Margar setningar í Búddisma eru mjög líkar þeim sem eru í Biblíunni og gegnum sneitt í trúarbrögðum. 

Skemmtileg kennsla í trúarbragðafræðum væri t.d. að leyfa börnunum að finna samnefnara í trúarbrögðunum og þá í siðfræðinni.  

Þegar upp er staðið tel ég að það sé ekki spurningu hvað það verður: 

Kærleikur - og það er það sem lífið snýst um. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Lífið snýst EKKI um kærleika. Það er augljóst hvar sem litið er. Eitthvað annað er það sem lífið snýst um. En kærleikur er falleg hugsjón en menn verða að sjá lífið eins og það er.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.4.2011 kl. 19:09

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jóhanna, sem trúlaus einstaklingur get ég þó ekki annað en tekið undir það sem þú segir. Siðfræði er sam-mannleg og engin ástæða til að blanda Kristni inn í siðfræðikennslu.

Hins vegar er ég algjörlega ósammála Sigurði, lífið snýst akkúrat um kærleika. Það að hann virðist oft af skornum skammti breytir ekki þeirri staðreynd. Samhjálp, samúð, samviska, allt er þetta meðfæddir eiginleikar, nú eða lærðir sem órjúfanlegur þáttur af samfélagi okkar. Nýlegar rannsóknir meðal margra dýrategunda sýnir að þessir eðlislægu þættir siðferðiskenndar séu að finna víðar en meðal manna, einkum þar sem félagsleg tengsl eru sterk og sameiginlegt uppeldi ungviðis á sér stað.

Skólar eru einmitt gott dæmi um þennan þátt mannlegs samfélags, að við sameinumst um uppfræðslu og umönnun barna hvors annars. Og þrátt fyrir það sem Sigurður heldur fram þá finnast nú miklu fleiri dæmi um kærleika í heiminum en af andstæðum hans.

Brynjólfur Þorvarðsson, 16.4.2011 kl. 21:50

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.4.2011 kl. 01:42

4 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 17.4.2011 kl. 10:30

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sigurður Þór - ég er sammála því sem Brynjólfur segir hér.  Gunnar Dal skrifaði eitt sinn bókina "Að elska er að lifa" og er ég sammála því. 

Lífið er sannarlega barátta góðs og ills, ljóss og myrkurs. Og það er barátta hverrar manneskju. Manneskja sem elskar hefur ljósið og lifir vel.  Þess vegna er gott að forðast það að hata,  breyta myrkri í ljós.  

Ég lærði nýlega að orðið gúrú sem kemur frá indversku  Yoga þýðir gú = myrkur  rú =ljós.  Að breyta myrkri í ljós.  Ljósið stendur fyrir elskuna, fyrir kærleikann. 

Margir telja að tilgangur sinn í lífinu sé að gefa af sér,  en að sjálfsögðu þarf að næra sjálfan sig, fylla sinn eigin bikar, til að hafa af eitthverju að gefa. 

Það er: að elska sjálfan sig svo maður sé fær um að elska náungann. 

Ég hef rætt við fólk sem er alltaf að gefa af sér, hugsa um aðra og elska aðra en getur ekki tekið utan um sjálft sig eða horft í spegil og sagt "Ég elska mig" ..  það er því lífsins ómögulegt.  Þetta fólk er oft mjög lúið því það er búið með batteríin, hefur gleymt að hlaða inn kærleikanum til sjálfs sín.

Skora á alla að prófa að horfa í spegil og segja einlæglega "Ég elska þig" .. það er skrítin en notaleg tilfinning. Okkur finnst það eflaust hallærislegt til að byrja með, en það er vegna þess að við erum svo vön að dæma okkur.  Sleppum því að dæma, sleppum því að gagnrýna.  Það er visst frelsi.  Við gerum okkur aldrei að meira fífli heldur en okkur finnst við sjálf vera.

Make Love Not War and give Peace a Chance. 

Ég hefði orðið ágætur hippi!

Jóhanna Magnúsdóttir, 17.4.2011 kl. 11:08

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Brynjólfur takk fyrir þitt innlegg - eins og kom fram hér áður í svari til Sigurðar,  þá erum við sammála.  Ég veit að margir eru eflaust ósammála mér, að það hreinlega VERÐI að koma fram hvaðan siðfræðin er,  hvort hún er kristin eða búddísk, íslömsk, hindísk o.s.videre -  hver sagði þetta og hver sagði hitt, en mér finnst það ekki stóra málið og reyndar held ég að Guði þyki það ekki heldur.  Nú þegar fræðin eru svo kynnt fyrir börnunum,  þá eiga þau sjálf að geta kveikt á perunni, (svo maður haldi áfram í ljósinu) og tengt ákveðin atriði í mismunandi trúarbrögð. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 17.4.2011 kl. 11:17

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jónína og Jóna   og auðvitað sendi ég hjarta á Sigurð og Brynjólf líka, og alla þá sem vilja taka á móti! ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 17.4.2011 kl. 11:18

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki ætla ég að fara að deila um þetta meira. Ég væri þá vísast talinn vera á mói kærleikanum og ekki vilja taka á móti honum. Það er oft viðkæðið ef einhver andmælir því að lífið stjórnist í raun af kærleika. En horfið í kringum ykkur! Og ekki breytist allt i ljómandi kærleika við það eitt að nefna hann og skreyta mál sitt með hjörtum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.4.2011 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband