Höfum við efni á að spara í skólamálum?

Einu sinni bjó ég í húsi í Goðatúni í Garðabæ, sem var byggt með fljótandi plötu og lítil sem engin járnabinding.  Þegar síðar gatan var ræst fram til að malbika, seig platan og brotnaði - svo 10 cm sig myndaðist í miðju húsinu.  Við þorðum aldrei að fara út í viðgerð á þessu sigi, því við vissum af manni í sömu götu sem hafði orðið gjaldþrota við framkvæmdirnar - svo viðamiklar voru þær.  Ódýrara hefði verið að byggja grunninn styrkan frá upphafi. 

Svona lít ég á sparnað í skólamálum. 

Á vef Forsætisráðuneytisins má lesa metnaðarfulla framtíðarsýn, m.a. hvað varðar menntamál, undir heitinu:  Ísland 2020 - einstök verkefni til að fylgja eftir stefnumörkun og atvinnustefnu.

Sú sem hér ritar, starfar nú að verkefni að sinna nemendum í 10. bekk grunnskóla, sumum hverjum í brottfallshættu. Ég hef af því tilefni lesið gríðarlega mikið efni og skýrslur um ástæður brottfalls nemenda í framhaldsskóla og hvernig sé best að vinna gegn brottfalli. Niðurstaðan er ávallt sú sama:

Það þarf að hefja forvarnarstarfið strax í leikskólanum.

Í forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar eru þessi markmið sett upp fyrir leikskólaaldurinn 2-5 ára:

"Markmið

Að leggja grunn að jákvæðri sjálfsmynd barna.

Að styrkja félagsfærni barna.

Að börn tileinki sér heilbrigða lífshætti."

Á vef Forsætisráðuneytis segir jafnframt: 


"Menntun er lykilatriði til að búa sig undir framtíðina og takast á við breytingar, jafnt fyrir einstaklinga og samfélagið. Mikilvægt er að þetta tengist allri annarri stefnumótun. Hugsa þarf af metnaði um allt skólakerfið, frá fyrsta degi í leikskóla."

og áfram 

"Til að skapa jafnvægi við hefðbundin grunnatriði í menntun eins og lestur, stærðfræði og íslensku þarf um leið að leggja áherslu á hæfnisþætti eins og upplýsingalæsi, sjálfstæði, frumkvæði, gagnrýna hugsun, samfélagslega ábyrgð, þátttöku eða virkni og síðast en ekki síst siðfræði. Leggja þarf áherslu á sköpun á öllum skólastigum með markvissri þjálfun listrænnar og hagnýtrar sköpunar. Nýta þarf hugmyndafræði leikskólamenntunar um að læra í gegnum leik víðar í skólakerfinu. Samþætting nýsköpunar við allt nám er lykilorð og menntun kennara er mikilvæg, sérstaklega þverfagleg menntun og skilningur á fjölþættari fræðasviðum en þeir hafa nú. Leitast þarf við að tengja skólastarf við nýsköpun, t.d. með skipulegum heimsóknum starfandi listamanna og hugvitsmanna í skóla."

og enn fremur: "Vinna þarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum bæði með félagslegri og námslegri nálgun. Sterk tengsl framhaldsskólans við verknám eru mikilvæg. Efla þarf markvisst námskeiðahald til færni- og réttindaaukningar fyrir þá sem falla út úr námi eða misst hafa vinnu. Stórátak þarf til að koma til móts við þann hóp. Fjölga þarf háskólamenntuðu fólki í grunnnámi, framhaldsnámi og doktorsnámi og fjölga þarf erlendum nemendum sem ljúka prófi við íslenska háskóla. Tryggja þarf gæði háskólamenntunar með öflugu gæðamati. Lykilatriði er að nota matskerfi sem byggist á viðurkenndum alþjóðlegum mælikvörðum." 

Á Þjóðfundi 2009,  var kallað eftir þemum þjóðfélagsins og þemað sem var stærst á myndrænu yfirliti voru MENNTAMÁL, í framtíðarsýn má sjá orðin MENNTUN.

En hvar erum við stödd í dag?   Það er verið, og búið að - á sumum leikskólum, skera frá stöðu faglegra stjórnenda á sviði lista og sérkennslu. Það er verið að fækka valkostum á öllum sviðum skólastarfsins hvað sköpun varðar og vinna í raun öfugt við þessa framtíðarsýn sem sett er upp á vef Forstætisráðuneytis. 

Þetta kalla stjórnendur hagræðingu og sparnað. 

Hinn rauverulegi sparnaður liggur í því að vinna að forvörnum með nákvæmlega þeim hætti sem svo fjálglega er lýst hér að ofan.  Með því að auka valkosti og fjölbreytni í menntun - sinna sjálfsstyrkingu barna frá grunni og ekki spara í því.  Þegar upp er staðið er ekkert nema gróði, við fáum sterkari einstaklinga, og fleiri sem fá verkefni við sitt hæfi.  Þegar nemendur fá verkefni við hæfi, menntun við hæfi, þar sem flestir, ef ekki allir, eru virkjaðir á jákvæðan máta þá uppskerum við mun fleiri einstaklinga sem eru virkir þjóðfélagsþegnar. 

Við Íslendingar skorum hátt (og það í neikvæðri merkingu)  miðað við aðrar þjóðir hvað brottfall úr framhaldsskólum varðar og við viljum varla að það aukist. Þegar ungt fólk fellur út úr skóla - hvað verður um það?  Ekki er um auðugan garð að grisja í atvinnumálum.  Fólk sem hefur hvorki vinnu né er í skóla getur leiðst út á alls konar ógæfubrautir.  Það er alkunna að atvinnuleysi getur fylgt þunglyndi, sumir fara "í ruglið" eins og þar stendur, í alls konar fíknir sem eru bara til að deyfa hversdaginn, hvort sem það er áfengi,  vímuefni, tölvur eða önnur fíkn,  og allt þetta kostar samfélagið heilan helling. Kostar peninga, kostar mannauð - jafnvel mannslíf. 

Þá erum við búin að tapa barninu í brunninn og þurfum að borga heilan helling fyrir að ná því aftur upp aftur - og algjörlega óvíst að sú aðgerð takist. 

Forvarnir gegn brottfalli úr skóla hefjast í leikskóla,  til þess að leikskólar og reyndar skólar upp allt menntakerfið, geti sinnt því starfi sem þeim er uppálagt,  má ekki spara í faglegu starfi með því að skera niður störf fagfólks og stjórnenda. 

Það er skammgóður vermir að missa piss í skóna, og skammgóður vermir að spara í fagfólki. 

Álag á starfsfólk menntastofnana er nú þegar orðið yfirfljótandi - og ef að hægt væri að fylgjast með því eins og jarðskjálftamælum veðurstofunnar, sæjum við nú margar grænar stjörnur.

Að lokum smá "klip" frá Oddnýju Sturludóttur sem hlýtur nú sem mesta gagnrýni fyrir "hagræðingartillögur"   en þetta var að vísu skrifað árið 2008:

"Það er staðreynd að þær þjóðir sem hafa sterkt leikskólakerfi, öflugt og vandað frístundatilboð fyrir lítil börn þegar skólanum sleppir og sterka hefð fyrir aðstoð frá stórfjölskyldunni - þær halda áfram að stækka sinn stofn.

Þess vegna eru Íslendingar Evrópumethafar í barneignum. Og þess vegna þurfum við að spýta í lófana til að uppeldisaðstæður yngstu skólabarnanna verði sem best verður á kosið." 

Eitt af markmiðum leikskóla Reykjavíkurborgar, eins og fram kemur að ofan,  er að leggja grunn að jákvæðri sjálfsmynd barna. 

Þetta er grunnurinn að sjálfsmynd þjóðar - verðum við ekki að splæsa í járnabindingar til að halda honum uppi? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Nei!!  Við höfum ekki efni á því að spara í skólamálum... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.2.2011 kl. 02:29

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk búin að kjósa. Það er rétt hjá þér að eins og máltækið segir það er dýrt að vera fátækur!

Sigurður Haraldsson, 7.2.2011 kl. 07:55

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

,,Ódýrara hefði verið að byggja grunninn styrkan frá upphafi,'' segir þú. Væri ekki rétt að byggja einfaldlega skólakerfið frá grunni og fá til þess hæft fólk að þessu sinni?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 7.2.2011 kl. 15:01

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð samlíking.  Við höfum ekki efni á því að spara í grunninum Jóhanna mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.2.2011 kl. 20:59

5 Smámynd: Dagný

Svo sönn orð Jóhanna. Allt of margt ungt fólk fellur út úr námi eftir grunnskóla. Ekki af því það skorti "gáfur" heldur vegna þess að skólakerfið hentar ekki áhuga-/getusviði þeirra. Ást til menntunar þarf nefnilega að byggja strax á smábarnaskeiði.

Dagný, 9.2.2011 kl. 23:58

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Nákvæmlega !

Jónína Dúadóttir, 12.2.2011 kl. 10:30

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ef grunnurinn er ekki í lagi, hvort heldur er í skólamálum, húsbyggingum eða, mannlegau atferli, þarf ekki að búast við öðru en allt bresti í besta falli, eða bara hrynji.

Svo er stóra spurningin sú, hvort undirstaðan í skólamálum sé nógu traust, þegar stór hluti kennara virðist ekki kunna grunninn í íslensku, eins og sjá má á málfari og íslenskukunnáttu yngri kynslóðarinnar í dag.

Bergljót Gunnarsdóttir, 13.2.2011 kl. 19:49

8 Smámynd: Ragnhildur Gunnarsdóttir

Takk fyrir góðan pistill. Ég er svo sammála þér um að allt byrji þetta fyrsta daginn í leikskólanum og að grunnurinn þarf að vera traustur. Það er bara svo margt sem þarf að breytast í kerfinu til að sú geti orðið raunin. Hvernig á að vera hægt að vinna virkilega gott og faglegt starf á leikskólunum ef endalaust er brotið á leikskólakennurum um undirbúningstíma. Álagið er orðið gífurlegt og margir leikskólakennarar eru öruggleg á því að þeir séu ekki að fá tækifæri til að vinna eins faglega og þeir vildu. Ég hef líka miklar áhyggjur af sérkennslumálum í leikskólunum, því þar á að spara og þeirri staðreynd að í manneklu er jafnvel gengið á rétt þeirra barna sem hafa ákveðna stuðningstíma.

Ragnhildur Gunnarsdóttir, 16.2.2011 kl. 16:53

9 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, um að gera að spara og spara í skólamálum. Helst vildi ég sjá að stóru sveitarfélögin lokuðu 20 - 30% skólastofa sinna og einsetji skólana á ný.

Einnig mættu litlu skólarnir í dreifbýlinu sameinast í stærri skóla og spara þannig húsnæði og yfirstjórn, en veita um leið skólaaksri fleiri verkefna.

Einnig mætti leggja niður óþarfa fög eins og dönsku og kristinfræði í grunnskólum. Algjör tímaeyðsla að kenna eitthvað sem engum kemur að gagni. Nær væri að leggja meiri rækt við stærðfræði- og enskukennslu.

Sigurður Rósant, 19.2.2011 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband