Íslandsforeldri og Matargjafasíður ..... kerfi í kerfinu - er ekki eitthvað rangt við þetta?

Eins og ég er hrifin af því að við veitum náunganum hjálparhönd, þá sýnist mér það vera að fara út í öfgar, þegar þarf að búa til kerfi í kerfinu.  Hvað með félagslega kerfið okkar allra?  

Þetta er í raun orðinn einkarekstur.  Þ.e.a.s. eins og Fjölskylduhjálp - en ég var að taka eftir möguleikanum að fara að styrkja það batterí með mánaðarlegum styrk.  Ég styrki nú þegar og hef gert lengi - um dágóða summu á mánuði, börn í vanþróuðum löndum og mun nú bæta í þann sjóð, þar sem ég var að fá fast starf. En er Ísland vanþróað? - Hvert erum við að stefna? 

Eiga kannski útlendingar líka að fara að gerast "Íslandsforeldri" og gefa barni að borða á Íslandi. Finnst okkur þetta ekkert neyðarlegt á meðan hér er í raun fullt af auðlindum, mannauði og alls konar auði, sem er bara svona misskipt? -  

Fólk, - það er eitthvað mikið að! - Forgangsröðunin verður að vera sú að öll börn á Íslandi fari södd að sofa (og auðvitað að fá hollt og gott fæði)  og það á ekki að þurfa einkarekstur til að sjá um það!   SVO má fara að huga að öðru.  Ríkisstjórnin ætti að vera nokkurs konar "mamma" eða "pabbi" sem er ekki sama hvernig fjölskyldan hefur það.  

Ég er ekki fróð um pólitík og peninga.  En það þarf varla snilling til að sjá þennan einfaldleika.  

Þó að fólk sé að gera hlutina af tærri góðmennsku, og í sjálfboðastarfi, þá kallar svona á ýmsar hættur, eins og nú þegar hefur komið fram.  Ég var ein af þeim sem hreifst af góðmennsku náungans - þegar matargjafasíðurnar voru settar upp á facebook, en síðan kom í ljós að það gerir fólk berskjaldaðra fyrir óþökkum.  Það hefur nú þegar komið í ljós, að einhverjir vilja nýta sér neyð fólks, og ætla að fá borgað í blíðu.  Það er s.s. bláókunnugt fólk að koma heim til annarra með mat eða annað - og það þarf að treysta í blindni.   Svona mál ættu að vera í faglegum farvegi, þar sem fyllsta trúnaðar er gætt. Það er meira en að segja það að halda utan um alla þræði, og við höfum til þess félagsráðgjafa og kerfi.  Notum kerfið eða bætum kerfið. 

Þarna er komin a.m.k. ein aðkallandi ástæða til að fara í meðmæli með bættu félagslegu kerfi!

p.s. tvennt sem ég vil taka fram aukalega: Framsóknar - og Sjálfstæðisflokkur þurfa ekki að fara í sérstaka vörn, þetta er ekki nýtt af nálinni, en þetta hefur (að mínu mati) aukist. 

Hitt atriðið er að auðvitað er stigsmunur á fyrirtæki eins og Fjölskylduhjálp og svo bara einstaklingsframtaki eins og matargjafasíðunum, en spurning hvar á að setja mörkin og er ekki draumur okkar allra að þetta komist í betri farveg? 


"Shaming and blaming" .. stundum við (óviljandi) ofbeldi? ..

Ég hlustaði á svo gott viðtal á Rás 2,  við Guðbrand Árna Ísberg sálfræðing og sérfræðing í samskiptum -  í gær, - þar sem hann m.a. ræddi skömmina og hvernig við komum henni (oft óviljandi) inn hjá fólki.  Kannski er bara greið leið, þegar að viðkomandi hefur kannski alist upp við það að vera auðmýktur - eða skammaður? 

Það að vera í "tossabekk" t.d. var það að vekja skömm í okkur. (Ég var sjálf í einum slíkum í sjö ára bekk). - 

Ef þú ert að skamma einhvern ertu að reyna að framkalla skömm, - varnarviðbrögðin við skömmum eru að verja sig.  - 

Skömmin heldur okkur í skefjum, - heldur aftur af svo mörgu góðu í okkar lífi.  

Guðbrandur Árni talar um skömmina sem "leynitilfinningu" - en það er vegna þess að hún er lúmsk og við áttum okkur ekki endilega á hvort við lifum við skömm eða ekki. Okkur líður bara illa og föttum ekki af hverju! 

Brené Brown segir að munur á skömm og sektarkennd sé í grófum dráttum sú að þegar við upplifum skömm, þá skömmumst við okkar fyrir hver við erum,  en sektarkennd er meira tengd því sem við gerum. -  Það er eins og munurinn á því að vera lygari og því að ljúga. Það er annað að vera en að gera.  Skömmin verður samofin sjálfsmyndinni.  Við verðum skömmin.  Þetta er eins og unglingur sem upplifir sig sem vandamál, frekar en að það séu vandamál í hans lífi. (Ég hef rætt nokkra slíka).  

Af hverju er þetta svona vont? - Jú, einmitt vegna þess að - eins og áður sagði, "skömmin heldur í skefjum" - við náum ekki að njóta okkar og skömmin heldur aftur af okkur að dafna og blómstra og að vera við sjálf.  Skömmin er það sem lokar hjartanu, og að við getum fylgt hjartanu og talað frá hjartanu (verið einlæg). -  Skömmin er líka undirrót allra fíkna, og fíkn er þá flótti frá skömm.  Fíkn er verkjalyf við skömminni, því hún meiðir. -  Já, skömmin meiðir og er ofboðslega óþægileg. - 

Við verðum hvert og eitt að líta í egin barm.  Erum við að láta einhverjum líða illa með því að kasta á hann skömm? -  Auðvitað á það að vera þannig að það eru ekki við sem látum öðrum líða svona eða hinsegin, þ.e.a.s. hver ber ábyrgð á sinni líðan. En t.d. ef það er barnið okkar, nemandi - eða maki, einhver sem er berskjaldaður fyrir okkur - náinn okkur, þá tekur viðkomandi því miður við skömminni. Þá erum við (óviljandi) farin að ástunda ofbeldi - jafnvel við þau sem við álítum að við elskum mest.  Erum verst þeim sem við elskum mest- eða hvað? 

Ég segi það alltaf og hef notað í fyrirlestrunum mínum, að hver manneskja er perla.  Það breytist ekki.  En það má segja að skömmin verði eins og drulla eða skrápur utan um perluna, og ef að perlunni er nú alveg drekkt í skömm, mökuð í tjöru og fiður skammar,  þá nær hún að sjalfsögðu ekki að skína. - 

Við tilheyrum mörgum perlufestum, - fjölskylda er t.d. ein perlufesti, vinnustaður annar, heimurinn - þ.e.a.s. allar manneskjur eru í einni stórri perlufesti.  Þegar allar manneskjur fá að skína, er perlufestin fullkomin.   

Þá er það út með skömmina - út með hatrið og inn með ástina. - 

p.s. það er alveg hægt að ala börn upp án þess að gera það með niðurlægingu og skömm. - Það er hægt að gera það á uppbyggilegan hátt! - .. Uppeldi er andstæða ofbeldis. Upp-eldi elur upp, Of-beldi, bælir niður.  Skömmin heldur í skefjum. - Sjáið þið tenginguna? 

 

 


Bloggfærslur 12. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband